Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

bloggfrí

Kæru bloggvinir og aðrir vinir.Foto 353
Ég sit hérna úti í morgunsólinni og drekk mitt heilaga morgunkaffi. Flugurnar og fuglarnir eru á fullu hérna í kringum mig í trjánum og blómunum sem mikið er af.

Foto 355

Ég verð að viðurkenna að ég er dottinn í bloggheiminn og það tekur of mikinn tíma núna þegar ég hef mikið að gera.

Þess vegna tek ég sumarfrí núna þar til um miðjan Ágúst.

Eins og ég hef áður sagt þá er ég með sýningu í september og það er ansi mikil vinna sem bíður mín þar.

Skólinn byrjar 11. Ágúst. Fleiri nemendur koma og við byrjum með nýja menntun sem er svona einskonar hluti af Myndlistarskólanum en er fyrir nemendur  frá 16 til 25 ára. Þetta er alveg nýtt og heitir Ungdomsuddannelse. Þannig að við fáum nemendur mjög unga og eftir UDD þá geta þeir sótt um inn í sjálfan myndlistaskólann og verið þar í 4 ár ef þau vilja. Við getum svo verið með nemendurna alt upp í 7 ár sem er alveg frábært. Ég þarf sem sagt að undirbúa þessa frábæru byrjun sem líka er í nýju FRÁBÆRU húsnæði í Köge !!

Einnig hefur setið á hakanum grein sem ég þarf að skrifa fyrir The One Earth Group um býflugur. Við ætlum líka í grúppunni að opna fyrir öllum á næsta fundi í september og til þess að geta staðið undir því þarf ég að vera vel undirbúinn með hugleiðslur og þess háttar sem passar fyrir alla.

Næstu helgi verður spennandi því Gunni ætlar að fara í fyrsta sinn að taka hunang frá býflugunum okkar. Það verður spennandi að fylgjast með því og að sjá hversu mikið þessar elskur gefa okkur svona eftir fyrsta sumarið. Þetta er stór gjöf frá þeim til okkar og í staðin verðum við að passa þær vel í vetur. Ætli það verði ekki bara Gunni sem gerir það. Ég tek svo hænurnar að mér næsta ér þegar við fáum þær frá bloggvinkonu minni sem á íslenskar hænur.Við höfum haft hænur áður en það voru ekki íslenskar hænur svo það verður spennandi. 

Síðast en ekki síst, þá eru vinir komnir úr sumarfríum og það þýðir að við erum mikið að borða saman, synda saman og njóta samveru með þeim áður en vinnan og haustið skellur á., Alltaf á sumrin hérna  er mikil útivera og í staðin fyrir að borða einn heima hver með sinni fjölskyldu þá er oft ákveðið að hittast niður á strönd eða niður við frábært vatn sem er hérna rétt hjá með kvöldmatinn og borða saman leika sér saman og synda saman. Set mynd hérna af þessu vatni og kvöldmynd frá síðustu strandferðinni okkar . Það er einhvernveginn fátt yndislegra en að liggja og njóta samveru vina og fjölskyldu í leik og rólegheitum í samhljóm með náttúrunni._MG_7933

Við fengum fullt af gestum sem droppuðu inn í gærmorgun og það var gaman Við fengum fullt af flottum gjöfum frá vinum okkar John og Metta sem voru að koma frá Kína. Það var planað að kvikmyndaklúbburinn ætti að hittast bráðlega. Kvikmyndaklúbburinn erum við þrjár fjölskyldur sem hittumst af og til og sjáum bíómyndir saman og borðum saman. Kvikmyndirnar sem eru séðar eru valdar af þeirri fjölskyldu sem hist er hjá. Það eru valdar sjaldséðar myndir sem engin hefur séð áður. Þetta er mjög skemmtilegt . Við búum öll hérna mjög nálægt hvert öðru úti á landi og erum mikið saman, þannig að þetta er svolítið annað en venjulega þegar við hittumst.

_MG_1083

Það er líka svolítið skemmtileg að við komum frá þremur löndum. Við frá Íslandi, Ulla og Claudia frá Þýskalandi og John og Metta frá Danmörku. Svo við höfum ekki alist upp með sömu kulturellu bíómyndirnar og getum þar af leiðandi komið með það sem engin hefur heyrt um áður og það er spennandi.

Garðurinn minn bíður , já elsku garðurinn minn sem ég elska að vinna í og fá orku frá litlu dívunum sem gefa allt frá sér sem við viljum. Við ætlum að gera terrasse við gaflinn af húsinu sem hefur verið stefnan í 3 ár en við höfum aldrei náð því. Núna erum við búinn að fá góða og einfalda lausn frá henni Ullu vinkonu okkar sem er garðarkitekt og garðyrkjumaður og vonandi getum við skellt okkur í þetta.

Arininn fer vonandi upp núna strax og við getum. Við keyptum stóran flottan arinn í eldhúsið fyrir hálfu ári síðan og höfum ekki haft tíma til að setja hann upp. Núna þegar vetrar þá er meiningin að arininn hiti næstum allt húsið upp og spari þannig upphitunarkostnað. Þannig að við þurfum að gera þetta núnnnnna. Það verður nú notalegt að koma niður í eldhús í vetur og kveikja á arninum og drekka morgunkaffið við hlýju frá honum ummmm.  Þetta er arinn sem er merktur sem góður fyrr umhverfið, eða hvernig á ég a segja það......það er filter sem tekur allt eiturefni í burtu..Veit ekkert hvort það heitir eitthvað á íslensku. Miljøvenlig heitir þetta á dönsku.
Jæja ég lík þessari upptalningu svona í lok sumars og ég hlakka til að sjá og heyra ykkur þegar ég kem til baka.

Ég kíki örugglega á ykkur af og til ef ég þekki mig rétt !

Kærleikur til alls lífs

Hérn kemur mynd af litlu kvöldsólinni okkar sem elskar lífið og er svo meðvituð um hversu heppinn hún er !!

_MG_1024


Núna hoppaði froskur hérna á gólfinu í eldhúsinu

_MG_0831

Hver hefði trúað að maður sæti inni og bloggaði í 30 stiga hita og sól. Jú ég, það er hreinlega of heitt til að vera úti að gera eitthvað.

Ég gæti svosem verið að gera eitthvað annað, en vel þetta núna í smá stund. Ég reikna heldur ekki með að klára greinina núna, kannski seinna í kvöld. Ég get alltaf unnið fyrir sýninguna mína.

Ég fór á flóamarkað i dag, ekki frásögu færandi. Ég hef svo gaman af að lollast rúnt og finna gersemar innan um allt þetta drasl.

Stundum finn ég heilan helling, stundum ekki neitt._MG_0781

Í dag fór ég á nýjan stað sem ég hef aldrei farið á áður, en hef bara heyrt um. Þessi staður er líka bæði ódýrari og öðruvísi en aðrir. Þetta er endurvinnslustöð, eða þar sem maður kemur með rusl, og svo er safnað því sem fólk kemur með og er of verðmætt til að fleyja, og það er selt.

Ég fann svona hitt og þetta. Meðal annars ljós í loftið á ganginn, sami stíll og ég er með í eldhúsinu, þar er ég með fimm svona loftljós, fjögur stór og eitt lítið. Ég keypti fyrir 50 krónur danskar í allt. Það voru nokkrir diskar, nokkrir blómapottar, bók, 4 skálar og sitt hvað annað.

Einu sinni var ég með Sigga syni mínum að rölta niður Nørrebrogade. Þá var ég nýbúinn að kaupa öll þessi fínu ljós í eldhúsið.

Við sáum mjög flotta designer búð með húsgögnum og lömpum og fleiru. Við fórum inn í búðina og þar sá ég svona loftljós ”eins og mín” og ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum, þau kostuðu 1.500 danskar krónur stykkið !!! Veit ekki alveg hvað það er mikið í íslenskum, en það er þó nokkuð mikið fyrir minn peningapung. Við höfðum keypt okkar ljós á 50 krónur danskar. Þarna varð ég glöð og fannst ég hafa sparða 1.450 krónur á hverju ljósi.

Það er svolítið fyndið en ég hef svo gaman af að finna svona hluti, en jafnframt er ég pirruð yfir svona kaupdellu. Afsaka mig oft með að það sé nú heppilegt að ég sé ekki með kaupdellu á merkjavörudót. Það er ég ekki, það er of dýrt fyrir mig.

Það hefur mikið verið gert grín af mér, af börnunum mínum yfir að ég sé svo nísk, en það er allt í góðu. Finnst bara svo margt óþarfi sem maður er að kaupa og er ekki sátt við sjálfa mig þegar ég dett í það, eins og ég geri á flóamörkuðum

Ég hef svo undanfarið verið að hugsa þetta dæmi ,að vera að kaupa og kaupa og eiga og eiga og einhversstaðar fæ ég það pínu lítið ekki gott með það.
Við eigum í raun allt, og ef okkur vantar eitthvað þá förum við bara út í búð og kaupum það !!

Í gamla daga þá beið maður eftir afmælinu sínu eða jólunum til að fá þessari þörf uppfyllt, að eignast eitthvað nýtt. En núna eignumst við eitthvað nýtt mörgum sinnum í viku, eða næstum því. Einu sinni hlakkaði mann til dæmis til jólanna og til afmælisins sín, en núna finn ég enga svona tilhlökkun í mér, allavega ekki til að fá gjafirnar. Það koma fleiri hlutir inn og blandast strax um kvöldið með öllu hinu og maður hugsar varla meira um það.

Út frá þessu fór ég að ræða við Gunna, að í raun ætti maður að breyta þessu með jólagjafirnar í eitthvað annað. Byrja aftur á að gera gjafir þó svo að litlar séu ,en að gefa þeim þá tilfinningu að maður hafi sjálfur sett einhverja sál í það sem maður gefur. Ekki bara fara út og kaupa eitthvað næstum hugsunarlaust og hafa tilfinninguna af, að þetta verið bara að klárast. Það væri líka fallegri tilfinning hreinlega að handskrifa bréf til ættingja og vina og í því bréfi gefa eitthvað sem viðkomandi getur hlýjað sig við og hugsað um í langan tíma._MG_0826

Svoleiðis gjöf myndi ég muna alla æfi. Ég er þá ekki að meina eitt bréf til allra, en bréf sem er stílað á hvern og einn og hugsunin er fókuseruð á viðkomandi ættingja eða vin og maður meðvitaður sendir þær hugsanir og kærleika til viðkomandi í bréfið.

Í staðin gætum við svo gefið litlu stúlkunum okkar í Afríku og Tælandi, aukapening inn á reikninginn sinn sem kemur þeim að gagni þegar þær fara út í lífið sem 18 ára. Þar koma svona peningagjafir að verulegu gagni. Ég hef líka aðra tilfinningu fyrir að senda þeim gjafir, því fyrir þær er þetta einstök upplifun, sem kemur bara tvisvar á ári, á jólum og á afmælum.

Ég efast um að ef maður spyrði fólk hvort það myndi hvað maður gaf því í jólagjöf í fyrra að það gæti svarað.

Ég er alls ekki að gagnrýna neinn, en ég held bara að það sé komin tími til að snúa við til þess einfalda, og þess sem er nær hjartanu.

Fyrir nokkru áður er iPhone kom út, taldi ég mér trú um að ég hreinlega yrði að eignast þennan síma og með allavega bulli var ég búinn að sannfæra mig um það. Það leið svolítill tími og inn komu smá mótmælahugsanir !! Ég fór að hlusta á þær og gefa þeim meira og meira pláss. Með þessu gat ég sannfært mig um að gamli síminn minn sem er orðin ansi lúinn, væri bara mjög smart, öðruvísi en aðrir og á þessari skoðun er ég bara ennþá hehe

Núna hoppaði froskur inn, hérna á gólfinu í eldhúsinu, set inn mynd af honum. _MG_0849

Ég kláraði ekki alveg að skrifa greinina í einum rykk. Ég fór aðeins út að týna salvíu í te. Ég kom nefnilega við á Svanholm þegar ég fór að kaupa ruslið. Svanhólm er hálfgerð höll þar sem búa 70 fjölskyldur á einskonar samyrkjubúi. Þarna er allt lífrænt . Þau eru líka með verslun með alveg yndislegum vörum, bæði matvörum og öðrum. Ég varð auðvitað að kaupa spes gott kaffi handa Gunna, brauð, helgarnammi handa skottunni litlu og sitt lítið af hverju öðru. þar sá ég líka salvíute og þar sem við eigum svo mikið af salvíu í garðinum og söfnum okkur alltaf í jurtate til að hafa yfir veturinn þá fór ég út að týna smá, sem varð mikið.

Við ætlum á ströndina með kvöldmatinn og horfa á sólarlagið, það er nefnilega líka fallegt í Danmörku
Kærleikur til ykkar allra  


vinátta

_MG_8790

Í síðustu færslu kom ég inn á mikilvægi vináttunnar. Hérna langar mig aðeins að velta því fyrirbæri fyrir mér og deila með ykkur sem vilja.

Þetta er nefnilega svo dásamlegt fyrirbæri

“vinátta”

Í gamla daga átti ég mína föstu vini sem voru í heimabænum mínum, þetta voru krakkar sem á einhvern hátt fundu samhljóm með mér og ég með þeim. Það var ekki um marga krakka að velja en þarna mynduðust þó náin sambönd á þeim tíma .

Ég hef ekki samband við marga af þeim í dag,

næstum enga,

bara eina.

Hún er alltaf traust og góð vinkona mín í gegnum súrt og sætt. Þegar ég hugsa til baka er líka eins og við höfum alltaf verið nánastar hver annarri á þeim tíma, þó svo að auðvitað kæmi af og til slit á vinakaðallinn. Það er svo notalegt þegar við hittumst í dag þá þurfum við aldrei að útskýra, því við þekkjum söguna á bak við hver aðra og hvers vegna við bregðumst við á ólíkum stöðum.

Við vitum bara  og í því er ákveðið öryggi!

Þessir vinir mínir voru eins og uppeldishjálp á ákveðnu tímabili ævi minnar sem svo ekki var þörf á meira.IMG_0124

Nýr tími unglingsáranna kom, þar sem þörf var á nýjum upplifunum og fólki sem gaf annað og kannski meira óöruggt samspil. Sem gerði meiri kröfur á að skilja eitt frá öðru og finna fram til nýrra skoðana hjá mér sem ennþá voru til að móta mig inn í fullorðinslífið. Þetta var erfiður skóli því þarna þurfti ég að læra nýjar reglur og finna pláss í hópnum sem var á öðrum stað en ég hafði upplifað áður.

Unglingsárin voru erfið og settu stór spor í sálina.

Í lok unglingsáranna varð ég mamma !

Mamma hennar Sigynjar minnar. Ég væri sennilega að plata ef ég segði að það hafi bara verið yndislegt, en ég er ekki að plata þegar ég segi að hún var YNDISLEG. 

Í dag er ég mjög sátt við að hafa verið kastað inn í heim fullorðinna.
Þar upphófst nýtt tímabil með nýjum hópi vina sem þroskuðu mig ennþá meira í þá átt sem ég er í dag. Margir af gömlu vinunum féllu frá, sem ég á þeim tíma taldi vera vegna litla barnsins míns en ég sé í dag að var nauðsynlegt vegna þess þroska sem ég gekk í gegnum. Með nýjum tíma kom ný lífssýn sem er sennilega mikið í þá átt sem ég er í dag. Þó var eins og frá hinum tveim lífsskeiðunum væri nokkrir sem fylgdu með inn í þriðja lífsskeiðið og gátu fylgt þessu nýja lífi þó að það væri svolítið í fjarlægð bara til að koma inn seinna þegar tími gæfist. _MG_0596

Á því tímabili þar sem maður æfði sig í að vera maður, kona, börn og bú á Íslandi fannst mér ekki auðvelt en ég lærði heil ósköp. Lærði svo margt um manneskjuna og mannleg samskipti. Eins og gerist og gengu var lífið um lífsbaráttuna og það að vera með börn. þannig að vinskapur var mótaður eftir þeirri þörf og þær vinkonur sem ég fékk þar voru hluti af því mynstri. Þó var meiri dýpt á milli nokkurra okkar og við fundum aðra dýpt en börn og bleyjur sem sennilega gerði það að nokkrar vinkonurnar lentu á framtíðarlínunni og eru með  enn þann dag í dag .

Eins og lífið gerir þá kynntist ég þeim sem hafa verið mér svo kærir á þessu þriðja tímabili, þetta var lokatími til að fara inní nýjan tíma sem er tíminn sem ég er í núna. Einn þessara vina minna hefur verið með mér alla leið og studdi mig frá þessu lífstímabili þar sem erfiðleikarnir voru næstum því óbærilegir, inn í næsta líf. Það var eins og eitthvað frá hinu innra hafi vitað að þarna þyrfti ég stuðning ef mér ætti að talakst að komast heil í gegn og þann stuðning hef ég enn þann dag í dag.  Hann er mér jafn náin í dag og hann var fyrir 22 árum.

_MG_0493Þegar ég og Gunni minn giftum okkur, stóð þessi vinur minn í kirkjudyrunum í kirkjunni í Mosfellskirkju og tók á móti blómi frá hverjum vini sem hafði fundið það blóm í íslensku náttúrunni sem viðkomandia fannst passa inn í brúðarvöndinn minn. Hann safnaði þessum yndislegu blómum saman í brúðarvöndinn sem var tákn um hvern vin sem var mikilvægur og færði hluta af sér með inn í mitt nýja líf í nýju landi. Hann raðaði vendinum saman, sem var tákn um vinahópinn minn og færði mér bundið saman með slaufu, sem er tákn .........

Það var hann sem hélt ræðu til barnana minna í brúðkaupinu okkar Gunna.  Hann var meðvitaður um hversu mikilvægt það var að þau væru með í þeim orðum sem fylgdu  okkur á leiðinni frá einu líf til annars. og frá einu landi til annars. Hann vissi, vegna þess að hann lifiði með okkur þremur og skyldi mikilvægi þess að þau væru munuð á þessari mikilvægu stundu.

Hann orti til mín falleg ljóð þegar tímarnir voru erfiðir, Getið hver hann er ?

Til Steinu !

Er sálin sólu myrkvar
og sorg er þung sem blý
efinn í æðum rennur
allslaust líf og grátt
þá skulum við ástin mín eina
ekki hafa hátt.

Er hamast okkar hjörtu
og hamslaus tilveran öll
grátur er greyptur í lófa
og gróa ei hjartasár
þá skulum við ástin mín eina
elska í þúsund ár.

er næðir um kalda nóttu
og napurt í heimi er
ást verður eign og vani
og allslaus er liljan fríð
þá skulum við ástin mín eina
elskast alla tíð.

Því nú getum við gengið úr skugga
og grætt hvors annars sár
skyggnst innum sálarglugga
   - og séð vort morgunsár.-
  

Svo kom áframhaldandi  námstími í nýjum löndum og nýtt líf !

Þar kom hópur af nýju fólki og ég hreinlega drakk í mig nýja hugsun ! Þarna kom ég með allt það sem lífið kenndi mér og gat notið þessa nýja lífs með það gamla í bakpokanum og það var góð blanda. Ég drakk í mig fólk og líf og allt. Tíminn var dásamlegur og mér var allt mögulegt. Það eru liðin mörg ár, næstum 20 ár en mér finnst ég samt vera svolítið ennþá á þessu tímabili, kannski í lokasprettinum og inn á nýjar leiðir, ég veit það ekki. Á þessu tímabili hafa komið margir nýir vinir, en hafa farið aftur. Það er svo skrítið að eins og tímabilið byrjaði með marga þá er eins og það verði færri og færri í kringum mig. Það eru nokkrir sem hafa hangið við á snærinu frá byrjun, en flestir hafa fallið frá aftur. _MG_9016

Ég sé þetta svolítið eins og að við hittum einhvern á ákveðnum tíma ævi okkar og þeir eru með til að þroska ákveðin eiginleika eða ljúka einhverju ákveðnu karma sem þarf að ljúka og svo er ekkert annað en sjálfsagt að þeir hverfi í gleymskuna. Oft finnst manni það sárt á meðan á því stendur, en það er eins og ekki sé önnur leið. Svo eru sumir sem eru með alla leið og eru með til að byggja alla söguna upp, bæði mína og þeirra með mér. Í dag eru ekki margir vinir í kringum mig, en vinir sem ég þekki vel og þeir þekkja mig vel.

Eins og þörfin var einu sinni mikil fyrir stóran hóp vina er þörfin nú fyrir góðan hóp vina, ekki stærri en svo að náin samskipti sé möguleg.

Það sem líka er skrítið er að ég á vini sem ég finn að eru tengdir mér mjög djúpt sem ég er ekki meira í tengslum við, en þó veit ég að sá tími kemur aftur kannski ekki í þessu lífi en í því næsta eða þarnæsta. En ég finn djúpan kærleika til viðkomandi .

Ekki má gleyma nýrri tegund vinskapar sem hefur gefið mér mikið, það er bloggvinátta. Sú vinátta getur verið dýpri en maður heldur, þó svo maður hafi aldrei séð viðkomandi, myndast tengsl sem skapa væntumþykju. Fyrir mér er það á einhvern hátt eðlilegt því það er svo margt sem gerist á innri plönum sem er erfitt að útskýra en við getum bara upplifað !
Þetta er held ég næsta skref til telepatí, eða að hafa hugsanaflutning til hvers annars. Það verður framtíðin !IMG_8473

Það sem líka er yndislegt er að börnin mín sem eru orðin fullorðin eru hluti af mínum nánustu vinum. Við getum rætt lífið með skilningi og þekkingu á hvert öðru.

Gunni minn er að sjálfsögðu náin mér á annan hátt en allir aðrir, enda höfum við stórt verkefni við að ala hvert annað upp og þar er ekkert skafið undan og engu leynt.

Vináttan er mikilvæg.

Þar lærum við á allar tilfinningar okkar, þar fáum við þær hugmyndir sem móta okkur að því sem við eigum að verða í þessu lífi. Því verkfæri sem okkur er ætlað að verða. Ég held að allir þeir sem við mætum á lífsleiðinni, hvort sem það er einhver sem hefur meitt mann, eða gert manni lífið hræðilegt, hafi tilgang. Ekkert er tilgangslaust á þessari leið.

Oft er það sá sem maður telur vera sinn versta óvin, sem reynist þegar lengra er séð manns besti vinur, því akkúrat sá hefur kennt manni mest um mann sjálfan og mannfólkið

Gaman væri að heyra ykkar pælingar á vináttu og mikilvægi hennar?

Einn sem er alltaf með mér alla daga, víkur aldrei frá mér nótt eða dag ef hann getur og er vinur minn skilyrðislaust. Hann fer aldrei frammúr fyrr en ég er tilbúinn til að fara á fætur, hann fer aldrei í rúmið fyrr en ég fer í rúmið þó svo að hann sé svo þreyttur að hann sé næstum því vælandi yfir því hversu lengi ég er á fótum...

Það er hann  hér :_MG_0466

 



sýningarpælingar út í það óendanlega

 _MG_0022

Þetta eru yndislegir dagar með gesti frá Íslandi.

Jóna Ingibjörg og Þórir hafa verið hjá okkur og Sólrún dóttir þeirra og núna eru tengdamamma og Margrét krútt í heimsókn.

Jóna og Þórir eru svo farinn í annað hús og okkur var boðið í morgunmat til þeirra í morgun sem var alveg yndislegt. Gunni er svo með alla á Bakken og ég er heima að undirbúa og hugsa næstu sýningu.
Það setur svo margt í gang að vinna að þessari sýningu. Ég ætla að vinna úr minningabankanum á einhvern hátt og er ég þá aðallega að skoða, þá meina ég grandskoða myndina “Dagur í lífi Steinunnar sem ég hef fjallað um hérna áður.

_MG_0011 _MG_0004

Það er að sjálfsögðu óendanlegir möguleikar á hvernig ég get útfært þetta, en allt krefur það þess að ég setji mig alla inn í þá tíð sem var og á einhvern hátt nálgist mína hugsun frá því þá. Það geri ég meðal annars með því að horfa á myndina og fókusera hugann inn í litlu stelpuna sem er í myndinni og skoða , hugsa, skynja og sjá.

Það koma margar tilfinningar upp bæði sárar og góðar.

Ég get líka á einhvern hátt skynjað einhverja fjarlægð í þessari litlu stelpu frá raunveruleikanum en jafnframt ótrúlega nærveru á stað og stund.

Þegar ég sé þetta verður mér hugsað til hversu mikill vandi það er að vera í kringum börn, og að allt það góða sem barn upplifir sé nauðsynlegt og ekki bara það góða því allt það erfiða er líka nauðsynlegt.

Ég veit með mig sem fullorðna í dag vil ég verja litlu Sólina mína fyrir öllum áföllum og vil helst að hún komist áfallalaust í gegnum lífið. En þegar ég horfi á þessa litlu sætu stelpu sem er 12 ára í myndinni þá hefur hún ekki komist áfallalaust í gegnum lífið, og allt sem hún/ég hef upplifað hefur gefið víddir og skilning sem annars væri ekki til staðar. Ég hefði aldrei viljað missa af því.

Ég sé líka þetta barnslega sakleysi í litlu stelpunni sem er ég einu sinni, ég sé líka hræðslu sem ég skil og man e_MG_0097ftir og gefur mér sting í magann.

Ég velti fyrir mér hvort þessi tími sem ég vil fjalla um sé í raun of nálægt nútímanum, hvort ég geti vegna þess hugsað allt það sem ég vil hugsa eins upphátt og ég vil eða hvort ég verði að velja að pakka þeim hugsunum vel inn svo að ég fái þær ekki alveg út í lífið, eða kannski þurfi ég að velja að bíða lengur þar til ég finn tímann alveg komin fyrir mig og umhverfi mitt. Kannski er það ekki rétta lausnin, eða kannski sú rétta.

Ég finn bara þegar ég skrifa hérna að ég get ekki leift öllum hugsunum mínum að koma upp, sumar verða hreinlega að vera smá í felum þar til jarðvegurinn er alveg tilbúinn til að taka við því sem kemur upp.

Þegar ég hugsa mig inn í þessa yndislegu stelpu skil ég ekki af hverju hún fann ekki meiri gleði inni í sér og þakklæti fyrir lífið, en hún gerði. Hún var oft hrædd og óendanlega óörugg. Hún var alltaf að bíða eftir einhverjum öðrum tíma, Hún var stundum eins og í vitlausri kvikmynd. Hún var reyndar í vitlausri kvikmynd þar til hún varð fullorðin, það var bara engin sem tók eftir því og allir voru að leika hlutverk á móti henni sem hún skildi ekki. Skrítið._MG_9991

Hún skynjaði að hún var ekki vel liðin af öllum og hún var ekki velkomin allsstaðar, það er ekki góð tilfinning fyrir börn.

Enn þann dag í dag finn ég fyrir þessari gömlu tilfinningu og þarf að taka mig saman til að verða ekki litla stelpan í Vík aftur, en fullorðin kona með þann skilning sem lífið hefur gefið mér á fólki.

Það er ekki mitt vandamál ef fólk á í erfiðleikum með að vera í samvistum við mig, það er þeirra vandamál.

Ég vildi að ég sem lítil stelpa hefði haft þennan skilning og getað nýtt mér hann sem sú sem ég var.

Tíminn er annar núna en þá, vitneskjan um svo margt er meiri og það er pláss fyrir að við séum ekki öll í sama formi. Við vorum ekki öll eins í Vík, ég átti dásamlegar vinkonur sem voru með mér og voru mér nánar.

Ég held að sá vinskapur hafi í raun átt stóran þátt í að gera mann að þeirri manneskju sem maður er í dag. Þessar vinkonur mínar deildu með mér gleði og sorg, þar var maður sýnilegur sem sá sem maður var, langt fram eftir aldri. Við vorum eins og fagrar rósir í ryðgaðri skál hugsa ég oft í dag þegar ég minnist æskustöðva minna Vík í Mýrdal þar sem skilningur fyrir litagleði var lítill og bitnaði það meira á sumum en öðrum. Ég gæti samt hugsað það öðruvísi, að það hafi gefið manni möguleika á að þroska skilning  til seinna meir. Þetta er víst allt spurning um val á hvernig maður sér hlutina i einu eða öðru ljósi.

Eins og ég kom inn á áðan þá er  ég óendanlega þakklát fyrir allt það sem ég hef gengið í gegnum, sérstaklega það sem hefur verið erfiðast og gefið mér dýpstu sárin, því dýpstu sárin hafa gefið mér dýpsta skilningin.

_MG_9809

Þegar hlutirnir eru erfiðir eins og þeir eru oft er ekki auðvelt að minna sig á að þetta sé í raun yndisleg gjöf sem maður gengur í gegnum sem mun gefa manni skilning á ennþá öðruvísi sársauka sem gefi manni svo annan skilning á lífinu sem maður vonandi getur einhveratíma nýtt sér í samskiptum sínum við aðra og á þann hátt gefið eitthvað til baka til lífsins.

Ég gæti ekki hugsað mér að hafa lifað lífi án erfiðleika !

Þetta voru hinar lengstu vangaveltur um sýninguna mína í september, en læt það vaða....

_MG_9458

 


Kanínan í tunglinu

_MG_9636

Það er fátt betra en kvöldganga á ströndinni.
Horfa á mánann sem ég horfði á þegar ég var lítil og átti heima í Vík.
Þá söng ég :
Tunglið tunglið taktu mig og berðu mig upp til skýja.
Þar situr hún móðir mín og heklar vettlinga.....

Í kvöld fann ég þægilegt öryggi yfir mér þegar ég sá hann Tungl og ég veit að hann verður þarna áfram og ég og hann þekkjumst alveg frá því í Vík þegar ég var lítil skotta lotta !

_MG_9652

Við gengum ströndina sem við höfum svo oft gengið bæði í kulda, hita og regni og líka bæði í gleði og sorg.
Í kvöld vorum við þrjú, Gunni, Lappi og ég.
Við gengum án þess að segja svo mikið, en við sungum saman, kvöldið er fagurt sól er sest og sefur fugl á grein, við skulum koma vina mína og vera saman ein.........

Við nutum líka kyrrðarinnar og hlustuðum á engisprettuhljóðin í háu grasinu.

Einstaka fiskur rak upp nebbann, við heyrðum hann frekar en sáum.

Við nutum þess að skoða svani með litla ungann sinn, en þau létu frá sér heyra ef við nálguðumst of mikið._MG_9613

Gunni týndi líka smá í te sem gott verður að njóta seinna.

Ég hugsaði um samtalið sem ég hafði í kvöld til Kaliforníu sem leyst með mér hinar ýmsu hugrenningar.
Pirringurinn varð að skilningi og það sem ég hafði skoða frá naflanum, fékk ég hjálp til að skoða frá stærra samhengi.
Núna finn ég ró í mér sem er notaleg.

_MG_9641

Ég er líka glöð, reyndar ferlega glöð. Ég var líka glöð yfir sama hlutnum fyrir samtalið til Kaliforníu.
Það sem ég er glöð yfir er að ég og Gunni fórum í dag að skoða myndina um skólann, og ég gæti bara ekki hafa óskað mér neitt betra. Þeir sem hafa notað alla krafta til að gera þessa mynd , hafa gert alveg frábært verk.
Myndin er sjálf eins og lítið ljóð, lítið listaverk. Þegar ég horfði á hana gat ég ekki annað er tárast. ....

Núna ætla ég upp að lesa, ég er að lesa fyndna bók sem heitir Kanínan í tunglinu, sem minnti mig á Kallinn í Tunglinu....

Góða nótt!
_MG_9662

 


dýr eru bara alveg frábær...

Verð að segja aðeins frá einum fugli sem hún vinkona mín Ingrid á  (sem ég skrifaðu um í síðustu færslu).

Þessu fugl var inni í hesthúsinu í stóru búri. Flottur fugl sem ég tók ekkert sérstaklega eftir. Allt í einu fór ég að heyra allavega undarlega hestahljóð sem komu ekki alveg frá hestunum, en frá öðru horni í hesthúsinu. Tek ég svo eftir að það er fuglinn sem gefur frá sér þessi ótrúlegu hestahljóð.

Ég nefni þetta við Ingrid sem er að fóðra hestana og segir hún mér þá að þetta sé ekki allt, heldur hermi hann líka eftir hennar rödd. Stundum þegar fólk sé að leita að henni á svæðinu heyri þeir samræður inni í hesthúsinu og hljómi það nákvæmlega eins og hennar rödd. Þegar þau koma svo inn í hesthúsið sé engin Ingrid og ekki heldur neinn annar. Þetta gerðist ansi oft áður en það uppgötvaðist að það var fuglinn sem gaf frá sér sömu rödd og hún. Það komu ekki nein orð en einhverskonar muml sem hafði sama tón og hennar rödd.

Við höfum verið með Kráku hérna í garðinum okkar í mörg ár, en þaðan koma bara krákuhljóð og hennar mesta sport er að stríða hundunum, stela matnum þeirra sem við höfum mikið gaman af. Einnig hefur verið dúfupar hérna í mörg ár.  Þær eru mjög spakar en tala ekki  hehe

Svo áðan þegar við vorum að skoða fréttir dagsins á netinu Gunni og ég þá kemur frétt á dr1 um þennan fugl í Englandi sem ég set inn núna svo þið getið séð.

Það er alveg frábært að sjá þróun í dýraríkinu og ekki bara sögusagnir en tæknin er orðin svo góð og heimurinn svo lítill að við getum séð og heyrt þessa hluti sjálf á netinu. Stundum verður maður að velta fyrir sér hvort þetta sé raunhæft en oftast er sönnunin svo augljós.

Kærleikur og Ljós á ykkur öll. 


dagar góðir

Klukkan er seint á mínum mælikvarða.

Lappi, Múmín ég og Ingeborg vorum að koma úr kvöldgöngu í smá rigningu og þoku. Við rákumst á fullt af froskum sem koma fram í rakanum og ég held að ég hafi horft meira í götuna en fram fyrir mig til að stíga ekki á þessi stóru grey.

Ég fór til vinkonu minnar í morgun klukkan átta. Það er í raun frásögu færandi því ég er orðin svo heimakær . Ég bankaði upp hjá henni klukkan átta og á móti mér tóku allir 11 hundarnir alveg trítil óðir og glaðir. Hún átti ekki von á mér en varð mjög glöð sem betur fer.

Hún heitir Ingrid og er skemmtileg kona og ég hef þekkt hana lengi. Við höfum verið vinkonur í 12 ár og gengið í gegnum súrt og sætt saman. Rifist svo að þakið lyftist af húsinu, grátið og leitað huggunar hjá hver annarri, líka verið vondar hver við aðra.  Í gegnum þetta þekkjum við hver aðra vel og vitum hverju við getum átt von á hvar við höfum hver aðra. Það er alltaf svo gaman að heimsækja hana. Við getum talað um allt og við filósóferum mikið um lífið og dauðann.

Hún elskar dýr og börn. Annar hluti af bóndabænum hennar er barnaheimili þar sem allt er lagt í að börnin lifi í takt við náttúruna og dýrin. Barnaheimilið er með einsdæmum fallegt . Sigrún okkar Sól var að sjálfsögðu á þessu barnaheimili og ég vann hjá henni fyrstu árin þegar hún var að setja þetta allt í gang.

Hún á ellefu hunda !!! Veit ekki hvað margar kisur, Veit ekki hvað margar kanínur og naggrísi !! Tvö ferlega sæt svín, fullt af allavega fuglum, fullt af geitum, fullt af íslenskum hestum, og tvo póný hesta. Hún býr ein á þessum dásamlega stað.

Ég drakk fullt af kaffi með henni og fékk illt í magann en ég er ekki vön að drekka svona mikið kaffi, en ég geri það með henni því hún er hún.

Ég fór frá henni Ingrid sem elskar börn og dýr klukka 11 og við ákváðum að hittast aftur á þriðjudaginn.

Á morgun kemur Jóna Ingibjörg og fjölskyldan hennar, það verður gaman að vera með þeim og borða góðan mat hérna í eldhúsinu okkar með þessari dásamlegu konu og fjölskyldunni hennar. Þau verða eina nótt og fara svo á vit ævintýranna.

Á laugardagskvöldið förum við í afmæli hjá vinkonu minni henni Bettina.

Á miðvikudaginn kemur Sólin frá Íslandi það sem hún hefur verið meðal annars í Vindáshlíð í viku. Bestu viku æfi hennar segir hún. Með henni koma tengdamamma og sæta Margrét sem er jafngömul Sól og var með henni í Vindáshlíð.  

Næstu helgi förum við til vina okkar á Fjóni í stórt barnaafmæli. Þau eiga líka heima á bóndabæ og eru með fullt af dýrum.

Ég er svo lánsöm að þekkja svo mikið að góðu fólki .

Núna liggur Lappi minn hérna í sófanum og sefur við hliðina á mér, ég sit hérna í sófanum með fæturna uppi á borði og sjónvarpið malar og malar einhverja leiðinlega bíómynd.

Gunni er inni í eldhúsi að skrifa  matseðil, það er einhvernvegin allt notalegt.

Set hérna inn nokkrar myndir af yndislega umhverfinu sem hún Ingrid lifi í.

Kærleikurinn er Lífið

_MG_9476_MG_9483_MG_9485_MG_9486_MG_9489_MG_9493_MG_9502_MG_9503_MG_9505_MG_9507_MG_9509_MG_9514_MG_9520

 


regn regn kom nu her, hvem er den bedste i verden her, ja

 

Foto 346Sit inni í eldhúsi og rigningin er að baða garðinn minn.

Við vorum í afmælisboði í gær. Hún Sigyn mín hélt upp á 30 ára afmælið sitt með þvílíkum stæl. Okkur var boðið út að borða á veitingastaðinn þeirra og ekkert var sparað. Við sátum frá klukkan 6 til klukkan 11 og fengum hvern réttinn á fætur öðrum hver öðrum betri.

Veitingastaðurinn er við sjóinn og við sátum úti. Himinn varð fallegri og fallegri með kvöldinu. Þegar við keyrðum heim, eða ég keyrði heim því hann Gunni minn er svo heppinn að þurfa aldrei að hafa áhyggjur á því hver keyrir heim og getur því notið þeirra veiga sem eru hverju sinni og konan sem ekki drekkur áfengi keyrir alltaf heim.

Við keyrðum sem sagt heim í dimmunni og RIGNINGU og þvílíkum eldingum . Himininn var hreinlega í ljósum logum og það rigndi svo mikið á framrúðuna að ég sá næstum ekkert út. Stundum flaut bílinn smá út af sporinu í flóðinu sem myndaðist á veginum. Þetta var flott en smá ógnvekjandi.

Við rifjuðum um rigningarnar í fyrra því akkúrat á þessum slóðum var svo mikið flóð á vegunum að fólki var bannað að keyra þarna. Vegirnir voru eins og fljót af vatni.

En það borgar sig ekkert að vera að rifja þetta upp og búa til einhver hugsanaform sem verða að raunveruleika.

Það hefur ekkert rignt í sumar. Einn dagur í Maí og engin í júní. Þannig að það er alveg frábært að fá þessa gusu í garðinn sem er orðin svo þurr að það eru næstum komnar sprungur í matjurtargarðinn og blómabeðin mín.

Ég ætlaði til Kaupmannahafnar og fara á sýningarrölt með Sigga mínum en við aflýstum því, ætlum í staðin fyrir að fara í næstu viku.

Á fimmtudaginn fer ég til Kaupmannahöfn að skoða grófklippingu á myndinni um skólann, það verður spennandi , vona ég.

Ég set hérna inn alveg yndislegt myndband sem minnir mig svo á tíman sem við höfðum hérna fyrir nokkrum árum þegar við höfðum hænur og oft unga búandi inni hjá okkur og hún Iðunn okkar (hundur) passaði þá eins og sín eigin börn. Hún sleikti þá og nússaði þessi líka risa hundur með sitt stóra móðurhjarta sem sá ekki mun á hænuungum kanínuungum kettlingum, Sigrúnu Sól og hvolpum, allt voru börnin hennar.

Ég ætla nú að fara inn í daginn og taka svolítið til, hlusta á músík frá hærri energíum,

þar að segja Sigur rós !

Knús til ykkar frá mér

 

 

 

 

 


held að ég fái mér fiska.....


er andstæða stolts auðmýkt ?

_MG_8096Mikið getur maður verið fyndin og fastur í gömlum hugsunum !!
Ég hef skrifað um hana nágranna minn sem er svolítið ekki eins og allir aðrir. Hún stelur kisum af og til, ef hún heldur að kisan hafi það betra hjá henni.

Hún hefur ekki alveg sans fyrir eignarrétt, sem er svosem allt í lagi af og til.

Þannig er að eins og ég hef skrifað áður vorum ég og Gunni í Washington DC í tvær vikur og Siggi og Sól voru heima. Siggi er orðin fullorðin maður svo það var ekkert mál. Nema það, eftir að ég kom heim hef ég verið svolítið innhverf og ekki alveg verið tilbúinn að sjá framan í heiminn, heldur haldið mig í felum í garðinum og hérna inni.

En svo tók ég eftir að hjá naggrísnum honum Birni okkar sem er úti í garði var byrjað að byggja við !

Það var komið hús inn í búrið hans (mjög flott lítið hús sem passar vel fyrir hann Björn). Það var líka búið að setja smá plast til að hlífa við rigningargusum sem komu af og til. Þegar ég kom út á morgnana og ætlaði að gefa honum að borða, var stundum búið að fóðra hann. Það fór pínu lítið að síga í mig, og ég fylgdist með einn morguninn til að vera alveg viss um hvort þetta væri hún nágranni.

Gamall pirringur kom upp, bölvuð kellingin ætlar hún nú líka að stela naggrísnum okkar!

Svo í  gær sat ég hérna inni í eldhúsi og drakk morgunkaffið mitt. Það er opið út eins og það er alltaf til að fá morgunsólina inn. Það er kallað: halló er nogen hjemme !!!

Þarna er hún komin á náttkjólnum sem var reyndar voða huggulegt því ég var líka á náttkjólnum. (náttkjóla stemming) Ég kallaði a móti að hún skuli koma inn. Hún verður þetta líka glöð að sjá mig og faðmar mig og lýsir gleði sinni yfir heimkomu minni með ótrúlegum lýsingarorðum. 

Ég ákvað að fara varlega í sakirnar, ana ekki að neinu og sjá hvað setur. Hún segir svo að hún hafi fylgst með naggrísum frá því kanínan slapp út (hún slapp út blessunin á meðan við vorum úti í usa og eitthvað kom fyrir því hún dó um kvöldið). Nágranni hafði fundið hana  og  hún var svo áhyggjufull með naggrísinn og ákvað að kíkja á hann af og til þangað til ég kæmi heim.  Það hafði rignt mikið og hún sá að það rigndi á hann gegnum búrið og ákvað að setja hús hjá honum svo hann gæti haft sína eigin holu að kúra í. Hún sagði að hún hafi ekki þorað að tala við Sigga um þetta því hún var hrædd við þau viðbrögð sem gætu komið. Ýmsu vön frá okkur ! En hún sagði svo fallega: þið gefið mér að borða þegar ég á lítinn pening, þá get ég alveg gefið naggrísnum að borða og passað upp á hann._MG_8087

Ég hafði um tvennar tilfinningar að velja. Ef ég hefði fylgt mínum gömlu hugsunarformum þá hefði ég sagt : hvað ert þú að blanda þér í mín mál og minna dýra, hugsaðu um þig sjálfa og þín dýr  KELLING!!

En ég valdi að skoða það jákvæða sem hún hafði gert. Hún hafði komið með þetta hús sem vantaði, hún hafði séð um að það vantaði hvorki vatn né mat hjá honum. Hún hafði verðið umhyggjusöm fyrir naggrísnum. Henni er ekki sama, þó svo að hún eigi ekki dýrið.

Þetta er kostur sem við mörg getum tekið til okkar. Þó þetta sé BARA naggrís.

Ég þakkaði henni fyrir að vera svona hugulsöm gagnvart Birni, og við ákváðum að næst þegar við förum út að ferðast þá vil hún passa Björn og ef við erum í vandræðum með hin dýrin vil hún gjarnan passa þau öll.

Ég veit að Siggi og Sól pössuðu dýrin vel, en það skaðar aldrei að hjálpast að og vera fleiri um verkefnin. Því í raun er aldrei neinn sem á nein dýr og ef við sjáum að við getum gert lífið betra fyrir hvaða dýr sem er þá ber okkur í raun skilda til þess. Það eru að sjálfsögðu margar leiðri til þess og ein leiðin er að sjálfsögðu ekki að stela dýrinu, (eins og hún hefur af og til gert) en að ræða við eigendur þess dýrs sem við teljum að hafi ekki bestu möguleika. Við eigum langt í land að sjá það að engin á neitt, en við pössum upp á bæði hvort annað og þau dýr sem við veljum að hafa í kringum okkur. Það myndi létta mörgu dýrinu lífið ef við værum vakandi yfir velferð þeirra, hvort sem það er það dýr sem er í okkar vörslu eða annarra.

Við sjáum sama dæmi á þeim heimilum sem börn eru vanrækt,  þar grípum við heldur ekki nógu oft inn. En sú hugsun er of mikið ríkjandi að þetta er þeirra mál !!! En í raun er það alls ekki svona, þetta er okkar allra mál. Það á líka við um dýrin.

Við lokum of oft augunum fyrir því sem betur má fara og látum bara vera.

Í USA horfði ég oft á Animal Planet á kvöldin og þar voru margir þættir um akkúrat þessi mál. Fólk beið í alltof langan tíma með að melda þá sem misþyrmdu dýrum. Þetta voru dæmi um öfgarnar en hérna heima hjá mér er þetta í mjög litlum skala.

Ég hafði val um að láta mitt eigið stolt stjórna og verða reið yfir því að hún blandaði sér í mín mál, en ég er fegin að ég valdi að taka á móti þeirri hjálp sem hún gaf, ekki til mín, en til Bjarnar naggrís. Hann á allt það besta skilið og ef einhver annar gerir betur en ég er það bara frábært. Þetta er allt spurning um val, hvaða tilfinningu læt ég ráða í þessu máli. _MG_8098

Að sjálfsögðu er munur á hvort manni finnst sú gagnrýni rétt sem kemur , það verður maður að vega og meta, en láta stoltið um að vera næstum bestur af öllum og yfir gagnrýni hafin upp á hillu á meðan og sjá málið út frá því dýri sem fjallað er um.

Ég veit alveg að Björn hafði það ekkert hræðilegt, en ég veit að hún gerði lífið betra fyrir hann og það er aðal málið.

Við fengum okkur göngutúr í mínum garði yfir í hennar garð og sátum þar á náttkjólunum á meðan ég fékk nákvæmlega lýsingu á hvað á daga hennar hafi drifið síðustu þrjár vikurnar.

Ég er þakklát fyrir þennan skrítna nágranna sem gefur mér stundum fyndnar minningar, stundum reiðar minningar, stundum örvæntingu, stundum og oft birtu, eftir að ég sá hana á öðrum stað.

ég sá það jákvæða í henni.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband