Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
Hann Gunni minn á afmæli í dag
1.7.2008 | 11:00
Hann er núna orðin 45 ára, fullorðin maður.
Hvað tíminn flýgur áfram.
Ég kynntist Gunna þegar hann var 28 ára gamall og ég var 31 árs gömul. Við komum frá tveim ólíkum heimum, hann frá kokkabransanum og að vera piparsveinn alla sína ungu tíð. Ég fráskilin með tvö börn og í Myndlista og handíðaskólanum. Fyrstu árin voru ekki alltaf auðveld vegna þessa kulturnmismunar.
Það var þó einn hlutur sem Gunni tók alvarlega frá fyrsta degi og það var föðurhlutverkið. Frá fyrsta degi fór hann með á foreldrafundi og var virkur þáttakandi í því sem viðkom börnunum. Stundum fannst mér það erfitt, en mér fannst þetta líka aðdáunarvert, því þetta var ekki auðvelt hlutverk. Það er ekki auðvelt að koma inn í tilbúna fjölskyldu og ætla að finna sér pláss.
Við höfðum búið saman í eitt ár og verið kærustupar í tvö þegar við fluttum til Danmerkur og tveim dögum áður giftum við okkur.
Það var góð ákvörðun að flytja í annað land saman og finna okkar framtíð þar . Við byrjuðum á jöfnum fæti og á einhvern hátt vorum við mjög háð hvert öðru frá fyrsta degi í öðru landi. Við töluðum hvorugt tungumálið en vorum fljót að læra máltækið haltur leiðir blindan það var þannig að Gunni varð fljótari en ég að tala dönskuna og svo er hann miklu hugaðri en ég, en ég varð fljótari að skilja tungumálið en hann og þannig vorum við sem eitt í atvinnuviðtölum og öðrum samtölum sem krefjast þegar flutt er í nýtt land.
Það var erfitt í byrjun eins og oft vill vera þegar flutt er á milli landa eða landshluta. Gunni var dásamlegur að vera með því fyrir honum var þetta eitt stórt ævintýri. Hann fór frá einum stað til annars og sótti um vinnur, hann fékk nokkrar vinnur. Hann vann í mörg ár á alveg frábærum stað Cafe Wilder þar sem þeir sem unnu með honum tala ennþá um þennan frábæra kokk frá íslandi. Ég heyrði einu sinni sagt um hann að hann væri stærsta leyndarmál Danmerkur.
Hann eldaði oft ofan í Kronprinsen, hann eldaði oft ofan í Poul Dissing hann eldaði oft ofan í tónlistameðlimi í Sort Sol og marga marga fleiri sem hafa sett spor sitt á Danska menningu.
En þú heyrir Gunna aldrei monta sig á því. Hann hefur þann fallega eiginleika að vera auðmjúkur. Það er eiginleiki sem mér finnst fallegastur í fari fólks. Hann er ekki feimin eða gerir lítið úr sér, hann er bara auðmjúkur yfir þeim tækifærum og reynslu sem lífið hefur gefið honum. Hann montar sig ekki yfir öllu því sem hann hefur upplifað eða notar sér það til framdráttar.
Gunni vann í þrjú ár á SAS Skandinavía hótelinu, (hann var oftast í tveim vinnum) það fannst honum ömurleg vinna, en vinnan gaf okkur möguleika á að ferðast um allt fyrir mjög lítinn pening. Ein af ástæðunum fyrir því að hann vann þarna svona lengi var að ég var í námi í Dusseldorf og gat notað þessar ódýru ferðir til að komast fram og til baka. Ef hann hefði ekki haldið það út að vera þarna í þrjú ár hefði ég ekki haft þennan möguleika. Ég er meðvituð um þá fórn sem var færð til mín þarna og ég er þakklát fyrir það.
Eftir tvö ár í Kaupmannahöfn fengum við, vil ég segja í dag, yndislegt tækifæri á að meta tilfinningar okkar til hver annars og þakklæti okkar til lífsins. Gunni fékk hjartaáfall. Hann er með fæðingagalla í hjartanu sem fór á fullt og varð þess valdandi að hann hneig niður á vinnustað. Það tók við að mér fannst á þeim tíma hræðilegur mánuður í óvissu um hvort að hann myndi lifa þetta af. Við fengum þarna sé ég í dag stærstu gjöf hvers sambands, að meta tilfinningar okkar til hvers annars og það líf sem við höfðum saman og hversu mikil virði það væri okkur. Ég held að eftir þann tíma hafi við bæði verið viss um að við vorum hvert öðru ætluð og það væri engin leið til baka. Gunni gaf mér lífsreynslu sem ég er óendanlega þakklát fyrir.
Við fluttum í sveitina og Gunni fékk garðinn sinn sem hann hefur alltaf óskað sér. Eina vandamálið var að Gunni hafði of mikla vinnu til að geta sinnt þessum blessaða garði. En sem kokkur þá eru ekki margir möguleikar á vinnu frá 8 til 4 og þannig var það bara.
Við fengum Sólina litlu pabbastelpu. Sólin er augasteininn hans pabba síns. Eins og ég hef áður sagt er Gunni yndislegur pabbi og það hefur ekki minnkað með árunum. Hann er alltaf sá sem meldir sig í allt í skólanum sem á að gera með börnunum, líka þegar hann er ekki á landinu. Þegar við vorum í Bandaríkjunum um daginn þá hafði Gunni skrifað sig til að elda mat í skólanum fyrir bekkinn. (Þetta er bara smá pilla á Gunna þegar hann les þetta hahaha). Hann er sá sem býður vinkonunum hennar heim fyrir jólin að baka jólakökur með. Hann er sá sem býður vinkonunum hennar heim til að gera heimagerðan brjóstsykur.Hann er sá sem býður vinkonum hennar heim að búa til páskaegg.
Ég ætla ekki út í smáatriði meira, en fyrir Gunna að ná þangað sem hann er núna í góðri vinnu sem yfirmaður í mötuneyti hjá Novo Nordisk frá klukkan 7 til 3 krefur mikilla sjálfsskoðunar. Það að fara frá karríerhlaupinu í kokkabransanum og að vera einn af bestu kokkum í heiminum er bara gert þegar maður er komin þangað með sjálfan sig að maður VEIT !
Gunnar er þar núna að hann hvílir í sér og er hamingjusamur.
Hann hefur tekið margar erfiðar ákvarðanir og gengið í gegnum lífskrísur sem hafa fært hann hingað sem hann er í dag.
Gunni er NÖRD í sínu fagi, hann veit allt um mat en hann þarf ekki að sanna sig fyrir neinum.
Hann lifir hamingjuna núna í harmoni með því sem hann gerir. Hann er ánægður i vinnunni, hann er hamingjusamur með garðinn sinn þar sem hann talar við hvert tré og hvert blóm. Áður en hann fer í gang með að snyrta trén undirbýr hann tréð til að gefa því ekki sjokk.
Hann er með býflugurnar sínar sem hann passar eins og sjáaldur augna sinna.
Hann er með eplaplantekruna þar sem hann framleiðir heimsins bestu eplasaft.
Hann skrifar um mat, hann les allt um mat.
Hann eldar mat fyrir fólk i heimahúsum og gefur þeim himneska upplifun sem þau lifa á lengi lengi.
Hann er sá sem hvað mest hjálpar mér í að verða betri manneskja. Það er ekki nein tilviljun að við erum saman því í honum sé ég það sem mig vantar og ég fylgist með og læri af því hvernig hann gerir.
Í þessum skala hérna hjá okkur er líka stærri skali sem ég verð að láta fylgja með. En þetta er allt saman svo einfalt einhvernvegin.
Við vegum hvert annað upp í því sem við erum. Hann hefur það sem mig vantar og ég hef það sem hann vantar. Þá höfum við það sem þarf til að byggja upp hamroniskt líf, ef við bara munum það og erum ekki bara fókueruð á að vilja einn vilja inn í sambandið en tökum syntesen af okkur báðum inn í sambandið. Þannig að við finnum það sem við getum verið sammála um og vinnum út frá því.
Stundum vill maður eitthvað annað, en stundum er tíminn bara ekki réttur til þess og þar er mikilvægt að gefa eftir til að gefa báðum það pláss og hugsun sem er mikilvæg til að lifa saman. Seinna getur verið að það sem ekki var möguleiki á verði pláss fyrir, en bara þegar báðir aðilar eru tilbúnir til þess.
Svona er þetta líka með allt mannkyn við vegum hvert annað upp í eina heild. Við sem mannkyn erum eins og ein manneskja. Sumir eru höfuðið, taka á móti hugmyndum frá hinu æðra, senda það niður til hálssentrið. Sem talar það út í lífið sem svo sendir það áfram til handa og fóta. Vinnuhanda og fóta, þeir sem framkvæma verkið. Þegar við skiljum þetta þá verður heimurinn betri. Höfuðið getur ekki án handa, fóta og háls verið og öfugt.
Svona virka líka býflugurnar hans Gunna. Það er býflugnadívan sem sendir skilaboð til drottningarinnar sem sendir svo skilaboð til hinna. Þetta er svo einfalt.
Jæja þá ætla ég að ljúka þessu til hans Gunna míns og til ykkar. Það sem ég kannski er að segja í lööööööngu máli er að við höfum öll hlutverk hér í lífinu og því fyrr sem við finnum hvert hlutverk okkar er og að við erum hvorki meiri né minni en aðrir en að við erum hvert öðru háð til að ná þeim þroska sem er nauðsynlegur til að hækka vitund jarðar.
Já til að hækka vitund jarðar sem gerir það allt allt líf á jörðu verður í Ljósinu/Kærleikanum.
Þakka þér elsku hjartans Gunni minn fyrir að kenna mér það sem þú kennir mér. Til að vera með í að gera mig að betri mannelsku.
Það gagnar ekki bara mér og þér, það gagnar heildinni.
steina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)