Eynhyrningur safnar draumum manna í hornið sitt.

 157023025_769043.jpg

Var að leita að texta í tölvunni minni og fann þetta fallega ljóð. Svona falleg ljóð eru aldrei of oft birt, þess vegna birti ég hluta af blogginu með ljóðinu aftur hér.

Gangið á Guðs vegum kæru vinir mínir.

Ég fann handskrifað ljóð eftir Hannes Pétursson, sem ég hafði skrifað upp eftir bók fyrir 16 árum. Þegar ég las þetta yfir sá ég eins og bíómynd þegar ég heyrði þetta dásamlega ljóð fyrst.
Ég sat í eldhúsinu með henni Dísu vinkonu minni. Við vorum að borða kleinur og drekka kaffi. Hún bjó þá rétt hjá Myndlista og handíða skóla Íslands þar sem ég þá var nemandi og ég fór oft í kaffi til hennar.

En einu sinni þegar við sátum hver á móti annarri í eldhúsinu hennar þá las hún þetta ljóð upphátt fyrir mig, það snerti mig djúpt. Málaði einhyrning á eftir. Minningin er falleg og það er ekkert að því að hafa þessa fallegu minningu í huganum, bara ef hún er ekki þarna aftur og aftur.

En stundum erum við bara minningarnar. Minningar sem eru eins og hugsanaform, sem stöðugt sveima í kringum okkur og minna okkur á sig.

Halló mundu mig, mundu mig ,mundu mig, og við liggjum og látum okkur dagdreyma um löngu horfnar stundir. Við höldum í raun orkunni, (minningarforminu) föstu. Þá gerist að ég held svolítið skrítið, við hleypum ekki nýrri orku (hugsanaformi) inn. Við stoppum lífsflæði. Við sjáum þetta oft þegar það er slæmt í eldra fóki sem bara lifir í fortíðinni. Það kemur engin ný orka inn, ekkert nýtt flæði. Það eru sagðar sömu setningarnar aftur og aftur og vitnað í gamla daga aftur og aftur. En við yngri gerum þetta líka, stundum í öðrum formum stundum í þessum formum. Sumir kaupa verðbréf fyrir mikla peninga. Sumir safna ofboðslega miklum peningum í bankabækur. Þetta er líka að stoppa flæði. Peningar eru líka orka sem þarf að flæða frá manni til manns, til manns .

Við söfnum hlutum í kringum okkur, sumt þurfum við aldrei að nota, en við stöflum því upp og geymum. Við söfnum minningum í albúm, og notum tíma að skoða og skoða og rifja upp og rifja upp. Í staðin fyrir að vakna upp á hverjum degi, með enga fortíð. Þá er ég ekki að meina bókstaflega. Auðvitað höfum við safnað lífsreynslu í gegnum árin og lífin, en við hugsum of mikið til baka, í staðin fyrir að vera alltaf í flæði, orka fram á við.

Ekki orka smá fram og tvö eða fimm til baka.
Lífið er að mínu mati orka sem flæðir áfram. Allt það sem við höldum að sé svo mikilvægt, er í raun alveg tilgangslaust. Það sem er mikilvægast í þessu lífi er að vera góð manneskja. Og hvað þurfum við til þess ?
Að lifa áfram, ekki afturábak. Að gera okkur grein fyrir að lífið er í raun bara augnablik, of stutt til að reyna að eignast allt,

RIGHT HUMAN RELATIONS er að mínu mati það sem er mikilvægast  !
Læt þetta duga að sinni, en hérna pikkaði ég þetta fallega ljóð inn og ég hvet ykkur til að lesa það og njóta

Skáld á tali við Einhyrning!

Apríl morgun.

Gamalt skáld signir sig til dagsins úti fyrir húsdyrum sínum. Þá kemur Einhyrningurinn um víðan veg innan úr sólarbirtunni líkt og ævilega þegar svo stendur á,  og krýpur niður, samt blíðlegar en nokkur tíma hafði verið.
Gamli maðurinn undrast þetta. Hann drjúpir höfði litla stund á báðum áttum, herðir síðan upp hugann, af því Einhyrningurinn krýpur svo blíðlega frammi fyrir honum, Starir í augu dýrsins og mælir hiklaust en rólega, eins og hann hefði kannað lengi hvert orð:
Þig átti ég að bróður
Í þagnarljósi barnshjarta míns.

Í skjóli föðurgarðsins
Og í skelfingu bersvæðanna
Átti ég þig að, leiðtogi minn

Nálæg hver tilsögn þín, alskír.
Og í áfangastað kvaðst þú bíða.

Þú varst mér ilmur
af eplum og greni.
Þú sem ert fiskur ristur á vegg
rökkvaða jarðfylgsna hinna ofsóttu

Þú sem ert Einhyrningur
og enga myrkviður skelfist.


Þig átti ég að bróður
Í þagnarljósi barnshjarta míns
En þig missti ég
Og þín er ég að leita sífellt...

Einhyrningurinn hlustar kyrr, en svarar ekki neinu.
Gamli maðurinn heldur áfram:

Dag einn
Dreymdi mig þig
Einhyrningurinn
Aleinn sit ég við fótskör þína
Hugur minn er kvíðafullur
Hornið fram úr enni þér gnístir !
Hjartaslag eftir hjartaslag
hnikar  því nær
og rakleitt
að rótum dýpstu bænar minnar.
Ég hugsa:  lifi ég, lifi ég
Svo lengi að það standi
Gegnum mig
Og í gaflinn dökka mér að baki ?
Endurleysi mig ?
Engu svaraðir þú, en mættir:

Eitthvert sinn þegar ókomnar stundir líða
ber ég eld að sjálfum mér.
Í augsýn
alls heimsins mun ég loga !
Ég er íþýngdur spádómsritum
íþýngdur testamentum
játningum og jarteiknum.

Eitthvert sinn
Þegar ókomnar stundir líða
þyrla ég sögunni frá enni mér
þvílíkt sem skýjum
og brenni sjálfan mig
til svartrar ösku

Fylli svo aftur hvern hlut
fylli nálægðirnar
fylli víðátturnar
vængjaður sögulausum geislum !

Og hjarta mitt kyrrist
Það kveið engu framar.
Hjarta mitt átti sér gleðisöng
Engin takmörk !

Þetta voru orð skáldsins.
Einhyrningurinn rís nú upp, mjallahvítur. Hann bregst ekki á neinn hátt við draumnum, en mælir stillt um leið og hann hverfur aftur langt inn í sólarbirtuna:
Ávallt fylgi ég þér
Og öllum hinum dýrunum

Horn mitt er geisli
Það heggur í tvennt vegleysuna !

Ég renn á undan ykkur
Um rautt myrkur skóganna.....
Sama hvort er bang grátt
blik  tungls um granir ykkar
ellegar þið berið
í alsælu leiðslu
á herðakambinum
háa stjörnu......

Ég renn á undan ykkur

Sjá ég er vatnið
Sem var og er, þótt það brenni !

Maðurinn lagði sér á minni svör einhyrningsins, þó tók hann ekki orð sín aftur, heldur mælti að nýju:

Þig átti ég að bróður
Í þagnarljósi barnshjarta míns.
En þig missti ég.
Og þín er ég að leita , sífellt......


Alheimskærleikur til ykkar allra
 

 
  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Klara Káradóttir

Þetta er umhugsunarvert. Tengist svoldið því sem ég var að enda við að lesa í lífsreglunum fjórum eftir Don Miguel Ruiz.

Steina þú ert alltaf svo góð í því að hræra í okkur hinum til að við verðum ekki of vanaföst og sofandi

Endilega haltu því áfram, takk fyrir mig og takk fyrir einlægninga og sannleikann. 

Með ósk um gleði, kærleika og ást,

Sólveig Klara Káradóttir, 11.1.2009 kl. 19:24

2 Smámynd: www.zordis.com

Ég reyni að muna sem minnst til að geta einmitt bætt við. Það eru hins vegar minningar sem skjóta upp kollinum við ákveðin áreiti sem er ljúft að eiga!

Fegurðin í orðum lífgar uppá tilveruna. Takk fyrir að vera þú!

www.zordis.com, 12.1.2009 kl. 12:56

3 identicon

Sæl Steina,

Já,Hugarheimur okkar er undur.

Takk fyrir og kær kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 05:58

4 Smámynd: Hulla Dan

Hulla Dan, 13.1.2009 kl. 11:47

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessa hugvekju.  Ekki veitir mér af þegar dökkir skuggar reiðinnar virðast ætla að yfirgnæfa allt hjá mér

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.1.2009 kl. 11:52

6 Smámynd: Sigríður B Svavarsdóttir

Ljós og kærleikur til þín ljúfust mín

Sigríður B Svavarsdóttir, 15.1.2009 kl. 12:57

7 Smámynd: Þ Þorsteinsson

Skrif þín eru hugljúf og full af orku en játa það að ég skildi ekki orð af þessu með einhyrninginn og ljóðið.

en haltu áfram veginn.

Þ Þorsteinsson, 15.1.2009 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband