Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Óttinn

Maður lærir svo lengi sem maður lifir og þannig upplifi ég tímann sem ég er í núna.

Ég hef í svolítinn tíma verið að undirbúa mig undir að taka tíma í vetrarfríinu mínu til að vinna að úthreinsun fyrir líkama minn.

Ég hef hlakkað til, einhversstaðar, en samt verið að skoða mjög vandlega allar hugsanir sem gætu komið, um það hvort ég væri að fara í leyni megrun.

Ég veit að ég get talið mér trú um einn hlut, en svo er einhver hluti af mér að planleggja eitthvað allt annað.
Þannig að það hefur verið mjög mikilvægt að skoða hverja þá hugsun, sem kom upp og skoða hvaðan hún kemur og hvers vegna.

Ég fann þó ekkert hættulegt sem kom upp hjá mér, svo ég hef verið í þessu undirbúningsferli í nokkrar vikur.

Ég byrjaði á að reyna að taka út sykur, en hef þó verið pínu sætusjúk seinnipart dags, en ekkert hættulegt.

Var þó ekki alveg sátt við það, vegna þess að ég þekki þetta munstur, frá því í gamla daga.

Ég ákvað svo að fara í innra rannsókarferðalag í mitt innra og skoða, hvað væri að gerast, hvers vegna ég hoppaði í sætuskálina af og til, algerlega óvænt.

Ég komst að mjög áhugaverðum kjarna í mér, sem var skelfingu lostinn við að skína, skelfingu lostinn yfir því sem gerðist ef maður væri of sýnilegur. Ég veit nefnilega að þegar það er ekki jafnvægi á milli líkama og sálar hjá mér, þá loka ég fyrir ljósið sem skín frá mér og dreg mig inn í mig sjálfa.

Ég vann svo með þessa hræddu hlið í mér, sem var svo hrædd við að skína. Hvað þýðir það að skína, hvað getur gerst fyrir mig, ef ég skín, hvað hefur gerst hjá þeim sem hafa skinið mest, sem hafa haft þetta skínandi ljós.

Hvernig getum ég og þessi hræddi hluti í mér, fundið janfvægi saman og látið hræðsluna verða að andstæðu sinni, hugrekki.

Nelson Mandela sagði eitt sinn:

Okkar dýpsti ótti er ekki að við séum vanmáttug.
Okkar dýpsti ótti er að við erum óendanlega máttug.
Það er ljósið innra með okkur ekki myrkrið sem við hræðumst mest.Við spyrjum sjálf okkur hvað á ég með að vera frábær, yndisfögur, hæfileikarík og mikilfengleg manneskja.
Enn í raun hvað átt þú með að vera það ekki?

Þú ert barn Guðs.

Það þjónar ekki heiminum að gera lítið úr sjálfum sér.

Það er ekkert uppljómað við það að gera lítið úr sjálfum sér til þess að annað fólk verði ekki óöruggt í kringum þig.

Við fæddumst til að staðfesta dýrð guðs innra með okkur, það er ekki bara í sumum okkar, heldur í hverju einasta mannsbarni.Og þegar við leyfum ljósinu okkar að skína, gefum við öðrum, ómeðvitað, leyfi til að gera slíkt hið sama.Um leið og við erum frjáls undan eigin ótta mun nærvera okkar ósjálfrátt frelsa aðra.

Þessi rannsókn á hræðslunni var mjög góð og gerðist fyrir viku. Hugrekkið er komið og orkan flæðir. Engin sætuþörf hefur verið þessa viku.

Í nótt, daginn fyrir hreinsunarvikuna, dreymdi mig draum, sem var mjög lifandi þegar ég vaknaði. Ég var ekki viss um hvort mig hefði dreymt þetta, eða hvort þetta hefði gerst í vökutilstandi. En nú veit ég að mig dreymdi þetta, vegna þess að ég man hvorki það sem gerðist fyrir eða á eftir.
Það kom hendi á móti mér, í blárri skyrtu með gullúr á hendinni. Hendin hélt á skyrdollu. Sagt var við mig háum og ákveðnum rómi: Þú þolir þetta ekki!

Ég veit að þetta var frá mínu innra, með mjög ákveðin skilaboð til mín. Ég þarf ekkert að hreinsa líkamann, en ég þarf að taka þau matvæli út, sem líkaminn minn þolir ekki og það eru mjólkurvörur.

Ég hef stundum fengið þá hugsun, að ég þoli ekki mjólkurvörur, vegna þess að það myndast oft mikið slím í hálsinum á mér þegar ég fæ mér skyr í morgunmatinn minn, en ég elska skyr og osta, svo ég hef haldið þessari innri hugsun úti, þar til nú.

Þessi skilaboð komu frá líkamanum og vegna þess að ég hef verið að vinna að því að tengjast líkama mínum núna í nokkurn tíma, þá get ég ekki lokað eyrunum, þegar skilaboðin eru svona skýr, þó svo að þetta sé ekki alveg það sem mig langar að heyra hihi.

Mikið er ég þakklát, þegar ég upplifi að það sem er svo einfalt, er svona áhrifaríkt.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband