Með leifi höfundar. Snorri Sigurðsson

 

Mánudagur 18. desember 2006 | Snorri Sigurðsson | Umhverfið

HúsdýrLítil frétt í Morgunblaðinu vakti athygli mína fyrir nokkru en þar var sagt frá því að stjórnmálaflokkur einn í Hollandi yrði sennilega fyrsti flokkurinn í Evrópu til að komast á þing með réttindi dýra sem meginmarkmið. Stjórnmálaflokkurinn hét meira að segja Dýraflokkurinn og samkvæmt skoðanakönnunum var líklega a.m.k. einn þingmaður með öruggt sæti.

Þessi frétt var án efa birt hérlendis sem dæmi um skondna atburði í útlöndum en hún vakti mig til umhugsunar. Eru einhverjir íslenskir stjórnmálamenn sem láta sér réttindi dýra sérstaklega varða? Er yfirhöfuð einhver umræða um réttindi og vernd dýra hérlendis?

Það verður að horfast í augu við það að þessu er eiginlega best svarað neitandi. Að minnsta kosti er umræðan afskaplega lítil og fer þá síst fram á opinberum vettvangi nema að litlu leyti. Jafnframt takmarkast hún við mjög einstök tilfelli og er þá oftast í aukahlutverki. Í allri umræðunni um hvalveiðar hefur til að mynda lítill gaumur verið gefinn að því sjónarmiði að veiðarnar séu ómannúðlegar eða að hvalina beri að vernda. Umræðan hefur fyrst og fremst snúist um hversu hagkvæmar hvalveiðarnar eru fyrir Íslendinga.

Neikvæð umræða um dýravernd
World Wildlife FundÞað er í raun stórmerkilegt og frekar sorglegt að þegar rætt er um dýravernd og samtök áhugamanna sem eru í forsvari fyrir þann málaflokk er sú umræða yfirleitt á mjög neikvæðum nótum. Hluti skýringarinnar er sú að mest áberandi í fjölmiðlum eru athafnir öfgafullra samtaka sem beita oft mjög drastískum aðferðum við að koma sínum skoðunum til skila. Rætt hefur verið um hryðjuverk eða skæruhernað í því samhengi og sú mynd sem birtist af dýraverndunarsinnum í fjölmiðlum er einkum af því tagi.

Hverjum dettur ekki fyrst í hug hálfbrjálað fólk að kasta blóði á ofurfyrisætur klæddar loðfeldi eða menn í gúmmibát að elta hvalveiðiskip þegar orðið dýraverndunarsinni ber á góma? Þessi neikvæða mynd er erfiður baggi að bera fyrir öll þau samtök (flestöll erlendis) sem vinna af miklum heilindum og á friðsamlegan hátt við það að verja málstað lífvera sem búa í sambýli við okkur mennina og geta ekki varið sig.

Lítið er rætt um allt það mikilvæga, góða og oft öfluga starf sem samtök líkt og World Wildlife Fund vinna að. Í sumum löndum (t.d. Bretlandi) er þó dýravernd miklu meira í umræðunni sem skilar sér í öflugri laga- og reglugerð og fjölbreyttri starfsemi margvíslegra samtaka.

Lítið sinnt hérlendis
Hér á landi er þessum málum hins vegar sinnt á afar takmarkaðan hátt. Einu áhugamannasamtökin sem tengjast almennri dýravernd eru Dýraverndarsamband Íslands sem rekur m.a. vefsíðu (http://www.dyravernd.is) en vefsíða þessi er ein af örfáum upplýsingaveitum um þessi málefni hérlendis. Þar birtast m.a. fréttir um einstaka atburði sem og stærri mál.

Lítið ber þó á starfsemi Dýraverndarsambands Íslands að öðru leyti og tel ég að þar búi mannfæð og peningaleysi að baki. Upplýsingarnar skila sér því lítið til almennings. Helst er að fréttir um illa meðferð á hrossum komist í fréttirnar. Lítið er rætt um önnur málefni t.d. aðbúnað annarra húsdýra svo sem sauðfés, og dýranna sem haldið er alveg innanhúss, þ.e. svína og fiðurfés. Málefni gæludýra eru afar sjaldan í umræðunni og réttindi villtra dýra ber sjaldan á góma, þá helst þegar málið snýst um veiðar þeirra og aðra nýtingu.

Lögin komin til ára sinna
Framkvæmdavaldið í þessum málaflokki dreifist á nokkur ráðuneyti. Umhverfisráðuneytið hefur yfirumsjón með dýraverndarmálum og hefur Umhverfisstofnun þar umboð umhverfisráðherra um að sinna eftirlits- og reglugerðarmálum er varða dýraverndunarlög.

Það er auðvitað mjög jákvætt að skilmerkileg dýraverndunarlög skuli vera til á Íslandi. Þau eru þó komin nokkuð til ára sinna (frá 1994) og varða einungis málefni gæludýra og villtra dýra á landi.

Málefni búfénaðar heyra undir landbúnaðarráðuneytið (þar sér embætti Yfirdýralæknis um málaflokkinn) og sjávarútvegsráðuneytið sér að mestu um þau mál er tengjast lífríkinu í sjónum. Það má þykja skynsamlegt skipulag en það verður þó að athuga að lögin eru aðskilin hvað varðar þessa ólíku hópa dýra og ráðast af ólíkum sjónarmiðum.

Ekki er heldur neitt ytra eftirlit sem fylgist með hvernig þessum málum er sinnt hjá öllum þessum mismunandi framkvæmdaaðilum, t.d. hvort réttileg samsvörun sé á milli reglugerða og eftirlitsaðgerða eftir því hvort gæludýr eða húsdýr eigi í hlut eða einfaldlega hversu skilvirkt eftirlitið er.

Siðferðileg sjónarmið mæta miklum hagsmunum
Umræða um réttindi og vernd dýra er viðkvæm umræða þar sem siðfræðileg sjónarmið mæta hagsmunum lykilatvinnugreina þar sem landbúnaðurinn er fyrirferðarmestur en sjávarútvegur, ferðaþjónusta og iðnaður margs konar koma einnig við sögu. Það getur verið vandasamt að ákvarða hvar skal draga mörkin.

Sem betur fer eru fá dæmi hér á landi um að markaðslögmálin valdi því að fjöldi dýra búi við hörmulegar aðstæður líkt og finnast á svokölluðum verksmiðjubúum sem einkenna landbúnað margra iðnríkja. Þó má velta fyrir sér hvort aðbúnaður t.d. svína og loðdýra hérlendis sé mannúðlegur.

Svín í búriÞað er vandamál í dýravernd að álit okkar mannana á dýrunum hefur mikið að segja um hvernig við meðhöndlum þau. Mörgum er illa við að sjá þegar aðbúnaður hesta í hesthúsi er slæmur eða þegar illa er farið með hunda og ketti. Færri láta sér annt um velferð svína þótt rannsóknir benda til þess að svín séu með gáfaðri spendýrum. Það liggja auðvitað flóknar sögulegar og félagslegar ástæður að baki slíkum skoðunum fólks en það þýðir ekki að þær séu endilega réttar og taka þarf tillit til þess hvernig þær móta meðferð okkar á dýrunum.

Stefna til næstu ára
Evrópusambandið hefur nýlega markað stefnu til næstu 5 ára er varðar aðgerðir til að auka vernd og velferð dýra. Aðgerðaáætlun var gefin út fyrr á þessu ári sem á að tryggja að nýjum áherslum sé fylgt eftir á skilvirkan hátt.

Áherslurnar fela m.a. í sér að lágmarkskröfur um dýravernd séu uppfærðar í ljósi margvíslegra breytinga sem hafa orðið á áliti fólks á stöðu dýra sem og rannsókna á aðstæðum villtra sem tamdra dýra. Einnig er lögð áhersla á aukna stjórnun á notkun tilraunadýra, að vísar sem meta dýravernd séu staðlaðir, að almenningsfræðsla sé aukin og að verkefni á heimsvísu sem stuðla að dýravernd séu styrkt enn frekar.

Miðað er við að ESB beiti sér fyrir því að aðrar þjóðir taki sér þessa stefnumótun sér til fyrirmyndar. Mikilvægt er að Ísland verði þar fremst á meðal þjóða og nýti þessa nýju stefnu við að uppfæra lög og reglugerðir og auka eftirlit.

Undanþágur og sérbókanir
Því miður verður þó að segja að þegar kemur að umhverfismálum og alþjóðlegum sáttmálum er þau varðar eru Íslendingar afar duglegir að tryggja sér undanþágur og sérbókanir. Þar er íslenska ákvæði Kyoto-bókunarinnar ekkert einsdæmi.

ÍsbjörnÞað vita það t.d. ekki margir að þegar CITES samningurinn (um alþjóðaverslun með tegundir villtra lífvera sem eru í útrýmingarhættu eða þarfnast sérstakar verndar) var samþykktur þá settu Íslendingar fyrirvara við nokkrar tegundir á listanum. Það kemur kannski engum á óvart að þessir fyrirvarar varða hvali en þó er ekki einungis um að ræða hrefnu, langreyði og sandreyði sem Íslendingar hafa jú veitt á árum áður og veiða enn. Nei, á listanum yfir þessar undantekningar má finna svo að segja allar hvalategundir sem finnast við Ísland þ.á.m. höfrungategundir, hnísu og háhyrning auk steypireyðarinnar sem er alfriðuð tegund. Enn athyglisverðara er að sjá tegundir hákarla eins og hvítháfinn og hvalháfinn sem eru tegundir sem finnast ekki einu sinni í íslenskri lögsögu!

Það er spurning hvaða hagsmunir hafa legið að baki þeirri ákvörðun? Já, það er margt sérkennilegt og síst til fyrirmyndar þegar kemur að stöðu dýraverndarmála á Íslandi og ljóst er að margt þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Miðað við áhugaleysi stjórnvalda og almennings á málaflokknum er þó sorglega lítið sem bendir til þess að svo verði gert.

Heimildir:
http://www.dyravernd.is
http://www.ust.is/dyraverndogCITES/

Lög og reglugerðir er varða réttindi dýra:
http://www.landbunadarraduneyti.is/log-og-reglugerdir/Reglugerdir/Bufjarhald/
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1994015.html (Lög um dýravernd)
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999044.html (Lög um náttúruvernd)

5 ára stefna Evrópusambandsins http://ec.europa.eu/food/animal/welfare/work_doc_strategic_basis230106_en.pdf

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband