ég átti mér draum, sem ég lifi núna.

_MG_1463 Þegar ég var lítil átti ég mér draum um að lifa fallegu lífi. Ég vissi samt ekki hvað það var að lifa fallegu lífi en einhvernvegin inni í litla höfðinu mínu var mynd í einskonar móðu hvernig það ætti að vera.

Draumurinn var að vinna við að teikna, ég vissi jú ekki hvað það var að vera myndlistarmaður. Ég vildi líka vera dýralæknir. Sá draumur hvarf þó þegar ég upplifði að stór hluti af starfi dýralæknis er að aflífa dýr og svo varð ég vitni að því þegar hestar voru geldir og það situr enn á nethimnunni hjá mér.

En ég vildi eiga dýr, kannski verða bóndi. En bændur þurfa að verða praktískir og láta frá sér í slátrun og þess háttar, þannig að ég hætti líka við það fljótlega. En ég vildi eiga dýr og teikna myndir. Þetta var draumur sem var geymdur þarna einhversstaðar og kom ekkert sérstaklega oft upp.

Ómeðvitað vann ég mig hægt og rólega að þessum draum, án þess þó að vera svo mikið meðvituð um það. Ég fór fullt af krókaleiðum upp brattar brekkur, yfir og undir sjóinn og straumharðar ár. Ég datt oft á leiðinni, rúllaði langt niður í dal og byrjaði allt upp á nýtt. En ég var heldur ekki svo meðvituð um það, ég gerði bara það sem gera þurfti.

Í dag segir fólk við mig hversu heppinn ég er að lifa svona fallegu lífi ! það er rétt, ég er mjög heppinn að lifa svona fallegu lífi,

það erum við öll.

Því við lifum öll fallegu lífi.

_MG_1450Það er nefnilega þannig að flest gerist í höfðinu á okkur og þaðan getum við valið hvernig lífi við lifum. Þá er ég ekki að tala um hversu stórt hús við búum í eða hversu stóran bíl við eigum. Nei ég er að tala um hvernig við veljum að sjá það líf sem við lifum. Við getum nefnilega valið hvernig við sjáum þá hluti sem gerast í kringum okkur. Við getum valið þegar við erum að sligast af áhyggjum yfir peningum eða einhverju öðru að fara út í garð og njóta þeirrar fegurðar sem er þar. Ilma af blómunum og vera þakklát fyrir þá dýrð sem er í kringum okkur.

Við getum horft á börnin okkar og verið þakklát fyrir þau augnablik sem við höfum með þeim. Ég er ekki að segja að við eigum að loka augunum fyrir þeim erfiðleikum sem koma, en ég er að segja að við getum valið hvernig við sjáum þessa erfiðleika. Við getum valið að sjá þá sem möguleika til að komast áfram í þroska og verða betri manneskjur. Það er allt spurning um val.

Þegar við byrjum að rífast við kallinn eða kerluna, þar liggur stórt val. Vil ég eyðileggja daginn með rifrildi?

Ekki bara eyðileggja daginn fyrir mig, líka fyrir alla sem eru í kringum mig. Ég þarf ekki að vera sammála öllu sem hann eða hún segir eða gerir en það er hægt að ræða hlutina á margan hátt og án þess að meiða sjálfan sig og aðra í kringum sig.

Það er líka hægt að velja hvernig við bregðumst við þegar það kemur rukkun frá skattinum ! Í staðin fyrir að flippa út og láta öllum illum látum, getum við séð þetta sem möguleika á að vinna á þeirri tilfinningu sem kemur aftur og aftur þegar þessi bansetti reikningur kemur á hverju ári. Takast á við þetta, betur í ár en á síðasta ári.

Við getum valið hvernig við bregðumst við þegar við lesum hitt og þetta blogg ! Við getum ælt reiði og hörmungum yfir bloggheim, eða séð og viðurkennt að það eru jafn margir sannleikar og við erum mörg.

Við getum valið að lesa yfir öðrum hversu mikilir fábjánar þeir eru að trúa hinu og þessu, eða trúa ekki hinu og þessu, eða við getum séð hlutina frá hærra vitundarstigi og séð að við veljum hver okkar leið og sú leið sem hver og einn velur er rétt fyrir þann aðila.  

Ég lifi fallegu lífi, en ég eins og allir aðrir á við fullt af vandamálum að stríða sem ég vel að takast á við á eins jákvæðan hátt og mér er mögulegt. Það er oft svo erfitt að ég er alveg að kafna en mér tekst betur og betur að vinna á þeim andlega þunga sem fylgir því að láta áhyggjur ráða ríkjum í huganum.

Ég vel eins og mér er mögulegt að fókusera á það sem gengur vel. Það sem er fallegt í kringum mig. Ég loka ekki augunum fyrir því sem þarf líka að takast á við og er kannski eins fallegt og hitt en ég læt það bara ekki fylla líf mitt.._MG_1453

Stundum gerist það að átök í einhverri af þeim grúppum sem ég er að vinna í eru alveg að sliga mig og ég hef SVO miklar áhyggjur fyrir krísufundi sem eiga að vera. Þetta getur eyðilagt daga fyrir mér. En núna er ég að verða ansi sjóuð.

Ég veit að það besta sem ég get gert og eina sem ég get gert er að segja það sem mér finnst. Segja minn sannleika og á þann hátt gefa það sem ég get í þá grúppu sem við á. Þetta á líka við vinnustað og yfirmenn mína. Minn sannleikur er kannski ekki sá eini rétti og þá er kúnstin að vera opin fyrir nýjungum á þeim lausnum sem aðrir koma með.

Þetta hefur verið svo mikill léttir fyrir mig að finna þessa einföldu lausn.

Áður var ég alltaf að reina að finna meðalveginn og átti erfitt með að finna hvað mér fannst best, því mér finnst oft svo margt rétt, allt eftir því hvernig maður sér hlutina. Ef ég er í þeirri aðstöðu þá segi ég bara: "Ég get ekki svarað því núna hvað mér finnst, ég þarf að hugsa um það" !

Núna er ég að reyna að gefa líkamanum mínum jákvæða athygli. Það hef ég ekki verið dugleg við. Ég hef lifað stressuðu lífi oft á tíðum og ég hef ekki gefið líkamanum þá athygli sem er nauðsynleg. Það er ekki svo gott, en svona hefur það verið. Núna vil ég gera mitt besta fyrir hann sem hefur lánað mér sig á meðan ég er á jörðinni í þessu lífi._MG_1456

Núna er tíminn fyrir hann. Ég er farinn að labba mikið. Alla síðustu viku labbaði ég ca 5 kílómetra á dag, til og frá vinnu. Svo er auðvitað göngutúr með hundinn og mikið labb í vinnunni. Ég er svo ánægð með þessa göngutúra. Á föstudagskvöldið varð ég svo veik og var veik þar til í morgun sunnudag. Ég held hreinlega að þetta hafi verið viðbrögð hans blessaðs við allt það eiturefni sem streymdi frá vöðvunum og liðunum við alla þessa hreyfingu!

En ég hef valið að mér finnst yndislegt að ganga !!!

Það gerir lífið svo miklu einfaldara að að sjá lífið með þeirri sorg og gleði sem lífinu fylgir með jákvæðum augum.

ég átti mér draum þegar ég var lítil og ég lifi hann núna. Ég lifi drauminn með öllu því sem fylgir því að lifa, gleði, hræðslu, máttleysi, reiði, brjálæði, hrifningu þakklæti......... _MG_1461

Set inn myndir með þessari færslu sem ég tók áðan af daglega lífinu okkar.Þetta hljóðfæri sem er þarna á gólfinu er gjöf frá Christian nágranna okkar til Gunna. Gunni á að spila á það brúðarvalsinn á miðvikudaginn við brúðkaupið hjá Christian og Inge !

Kærleikur til alls lífs.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Sammála þér elskan mín. Lífið er yndislegt.

Gunnar Páll Gunnarsson, 17.8.2008 kl. 15:07

2 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæl, innilegar þakkir fyrir yndislegan pistil.

Hafðu góðan dag.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 17.8.2008 kl. 15:38

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þér tekst að gera allt svo fallegt.

Hrönn Sigurðardóttir, 17.8.2008 kl. 16:22

4 Smámynd: Hulla Dan

Hulla Dan, 17.8.2008 kl. 16:32

5 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Svava frá Strandbergi , 17.8.2008 kl. 17:37

6 Smámynd: Karl Tómasson

Elskulega Steina bloggvinkona.

Það er svo gaman og gott að lesa textann þinn. Eins og ég hef marg oft sagt áður er hann svo stór partur af því að réttlæta hversu bloggið er á margan hátt gott.

Öll eigum við okkar hæðir og lægðir og þannig er það bara. Einn partur við það að eldast er að gera sér grein fyrir því sem öllu skiptir eins og þú skrifar hér um. Ég hef verið svo lánsamur á allan hátt og ég bæði geri mér fullkomna grein fyrir því og þakka eylíft.

Eins og þú veist fagnaði ég í gær ásamt vini mínum og samstarfsfélaga 50 ára afmæli hans. Félaga og einstökum vini í 30 ár það var sérlega gaman og notaleg stund.

Við höfum farið saman hundrað hringi í kringum Ísland, margoft sofið saman í hjónarúmi og jafnvel á stundum vaknað í faðmlögum eins og hjón. Á ferðalögum okkar höfum við jafnvel ekki þurft að mæla orð af munni bara horfa hver á annan og náttúruna. Þetta er ómetanlegt og um þetta snýst að sjálfsögðu lífið, að eiga góða að.

Takk fyrir sérlega skemmtileg skrif alltaf kæra Steina og bestu kveðjur til þín og þinna í Köpen frá Kalla Tomm.

Karl Tómasson, 17.8.2008 kl. 19:13

7 Smámynd: Karl Tómasson

Steina mín þú gleymdir að óska mér til hamingju með afmælið mitt ha ha ha.

Rétt eftir að ég sendi þessa færslu mína hér að ofan til þín var ég að fá afmæliskort frá Birnu dóttur minni teiknað af henni. Á korinu var mynd af hjarta framan á og fallegar kveðjur frá henni innan í því.

Já Steina mín um þetta snýst lífið, þetta var svolítið skemmtileg tilviljun.

Knús til Köpen. Kalli Tomm.

Karl Tómasson, 17.8.2008 kl. 19:19

8 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

En hve ég get tekið undir hvert einasta orð og tilfinningu í þessum skrifum þínum. Er einmitt að byrja að hugsa um næsta bloggpistilinn minn sem verður eflaust eitthvað í svipuðum dúr..hef tekið mér langan tíma að hugsa og upplifa, tekið dýrmæt skref í áttina að mínum sannleika og mínum draumi og verð að segja að mér líður sem ég hafi hitt á töfrandi stundir undanfarið og er með hamingjukrampa í hjartanu af spenningi og gleði.

Takk takk og aftur takk fyrir einlægni og því að deila þínum sannleika með öðrum.

Þúsund ljósálfar til þín og þinna..

Bless!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 17.8.2008 kl. 19:59

9 identicon

Yndislegt að lesa bloggið þitt Steina mín. Mér finnst ég einmitt vera búin að finna mitt æðruleysi í lífinu. Góðu dagarnir eru orðnir svo margfalt fleiri en þeir slæmu. Knús til þín.

Bobba (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 21:23

10 Smámynd: www.zordis.com

Lífið er svo gott þegar við kjósum að horfa í birtuna þrátt fyrir mótlætið og hinar ýmsu þrautir sem við leysum.

Óskir verða að veruleika með því sniði sem við einsetjum okkur því máttur okkar er meiri en við viljum láta.  Hringrás tilfinninga, snerting við innra sjálf, sorg og gleði og allur tilfinningaskalinn stendur frammi fyrir litla sjálfinu.

Með þakklæti þá bíð ég næsta dags!    Þegar draumaveröldin fagnar ....

www.zordis.com, 17.8.2008 kl. 22:02

11 Smámynd: Solla Guðjóns

Mikið vildi ég að ég hefði tileinkað mér nokkur atriði í gær sem þú nefnir hér að ofan.

Ég var svo reið og lét reiðina ná algerlega valdi á mér  og stuðaði alla í kringum mig.

Góð skrif hjá þér að vanda.

Knús á þig ljúfust. 

Solla Guðjóns, 17.8.2008 kl. 22:10

12 identicon

Daníel Þórhallsson (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 22:58

13 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Alveg hárrétt hjá þér...við getum valið okkur viðhorf og breytt því hvernig við hugsum um hlutina.......

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 18.8.2008 kl. 10:24

14 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Snildar samantekt hjá þér og verulega falleg hugsun að baki

Gylfi Björgvinsson, 18.8.2008 kl. 12:39

15 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Takk fyrir þennan uppbyggilega pistil elsku Steina, þú ert frábær, ljós til þín og kærleikskveðjur. - eva

Eva Benjamínsdóttir, 18.8.2008 kl. 16:32

16 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Aedislegt ad lesa her hja ther, thetta er mjog satt sem thu segir, thad fer allt eftir thvi hvernig madur tekur a thvi, eda litur a thad. Thad er oftast naer miklu meiri vinna ad vera jakvaedur en neikvaedur, erfidara ad vera bjartsynn en svartsynn. Eg reyni sjalf ad vera jakvaed, tho svo ad stundum er thad erfitt, en madur reynir alltaf ad horfa a bjortu hlidarnar, serstaklega thegar neikvaett gengur a i lifinu manns. Eg vildi svo lika thakka ther kaerlega fyrir hlyju ordin a blogginu minu, thu hjalpadir mer ad lida betur og ad vera jakvaedari. Thakkir fyrir thad, og hafdu thad gott. Nuna aetla eg ad fara og horfa a bornin min og njota thess ad thau seu til...

Bertha Sigmundsdóttir, 18.8.2008 kl. 19:11

17 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Þetta er málið. Þú hefur skapað þér þitt líf með þínum. Ljúft að njóta þess sem maður hefur

Kærar kveðjur frá Als

Guðrún Þorleifs, 19.8.2008 kl. 09:15

18 Smámynd: Þröstur Unnar

Lovely.

Þröstur Unnar, 19.8.2008 kl. 16:36

19 identicon

Þetta er svo hverju orði sannara og mér var hugsað til rökræðna fyrr í kvöld um drauma mína sem þóttu skondnir í eyru ákveðinnar mannskju sem þorir ekki að leyfa huganum að fljúga. En þetta bara er svona Steina, lögmálin bera okkur þangað sem við viljum en hugsanlega er erfiðast að vita hvert

Falleg færsla, nákvæmlega það sem mig vantaði eftir rökræður kvöldsins

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 03:22

20 Smámynd: Brynja skordal

Brynja skordal, 20.8.2008 kl. 15:55

21 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Kærleiksfaðmlag til þín kæra frænka á þessum fallega ágsústmorgni.

Frænka skólastelpa.

Ylfa Mist Helgadóttir, 21.8.2008 kl. 08:23

22 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Mikid leid mér vel eftir lestur á tessum pistli tínum.Takk fyrir mig og knús inn í gódann dag.

Gudrún Hauksdótttir, 21.8.2008 kl. 12:38

23 Smámynd: Elín Björk

Rosa fín skrif hjá þér Steina, hverju orði sannara.... við erum það sem við hugsum og framkvæmum í samræmi við það.

Knús á þig

Elín Björk, 21.8.2008 kl. 19:53

24 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk kærlega fyrir þessa færslu. Hún kom mér mikið til að hugsa. Og það er greinilega margt sem við eigum sameiginlegt. Drauminn um teikni-starfið (tískuteiknun og hönnun í mínu tilviki sem ekkert varð úr), dýralæknirinn sem ég hætti við af sömu ástæðu og þú sem og bóndastarfið. En ég hef safnað dýrum í kringum mig.

Göngutúrarnir sem ég er að rembast við að gera að lífsstíl núna og þessi setning hjá þér: En ég hef valið að mér finnst yndislegt að ganga !!! hitti beint í mark hjá mér. Takk fyrir mig

Jóna Á. Gísladóttir, 23.8.2008 kl. 11:51

25 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég gleymdi að segja þér að myndin með hljóðfærinu er eins og klippt út úr hönnunarblaði. Eldhúsið flott og myndatakan listræn.

Jóna Á. Gísladóttir, 23.8.2008 kl. 11:51

26 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Takk fyrir þessa yndislegu færslu

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 24.8.2008 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband