sýningarpælingar út í það óendanlega
18.7.2008 | 17:02
Þetta eru yndislegir dagar með gesti frá Íslandi.
Jóna Ingibjörg og Þórir hafa verið hjá okkur og Sólrún dóttir þeirra og núna eru tengdamamma og Margrét krútt í heimsókn.
Jóna og Þórir eru svo farinn í annað hús og okkur var boðið í morgunmat til þeirra í morgun sem var alveg yndislegt. Gunni er svo með alla á Bakken og ég er heima að undirbúa og hugsa næstu sýningu.
Það setur svo margt í gang að vinna að þessari sýningu. Ég ætla að vinna úr minningabankanum á einhvern hátt og er ég þá aðallega að skoða, þá meina ég grandskoða myndina Dagur í lífi Steinunnar sem ég hef fjallað um hérna áður.
Það er að sjálfsögðu óendanlegir möguleikar á hvernig ég get útfært þetta, en allt krefur það þess að ég setji mig alla inn í þá tíð sem var og á einhvern hátt nálgist mína hugsun frá því þá. Það geri ég meðal annars með því að horfa á myndina og fókusera hugann inn í litlu stelpuna sem er í myndinni og skoða , hugsa, skynja og sjá.
Það koma margar tilfinningar upp bæði sárar og góðar.
Ég get líka á einhvern hátt skynjað einhverja fjarlægð í þessari litlu stelpu frá raunveruleikanum en jafnframt ótrúlega nærveru á stað og stund.
Þegar ég sé þetta verður mér hugsað til hversu mikill vandi það er að vera í kringum börn, og að allt það góða sem barn upplifir sé nauðsynlegt og ekki bara það góða því allt það erfiða er líka nauðsynlegt.
Ég veit með mig sem fullorðna í dag vil ég verja litlu Sólina mína fyrir öllum áföllum og vil helst að hún komist áfallalaust í gegnum lífið. En þegar ég horfi á þessa litlu sætu stelpu sem er 12 ára í myndinni þá hefur hún ekki komist áfallalaust í gegnum lífið, og allt sem hún/ég hef upplifað hefur gefið víddir og skilning sem annars væri ekki til staðar. Ég hefði aldrei viljað missa af því.
Ég sé líka þetta barnslega sakleysi í litlu stelpunni sem er ég einu sinni, ég sé líka hræðslu sem ég skil og man eftir og gefur mér sting í magann.
Ég velti fyrir mér hvort þessi tími sem ég vil fjalla um sé í raun of nálægt nútímanum, hvort ég geti vegna þess hugsað allt það sem ég vil hugsa eins upphátt og ég vil eða hvort ég verði að velja að pakka þeim hugsunum vel inn svo að ég fái þær ekki alveg út í lífið, eða kannski þurfi ég að velja að bíða lengur þar til ég finn tímann alveg komin fyrir mig og umhverfi mitt. Kannski er það ekki rétta lausnin, eða kannski sú rétta.
Ég finn bara þegar ég skrifa hérna að ég get ekki leift öllum hugsunum mínum að koma upp, sumar verða hreinlega að vera smá í felum þar til jarðvegurinn er alveg tilbúinn til að taka við því sem kemur upp.
Þegar ég hugsa mig inn í þessa yndislegu stelpu skil ég ekki af hverju hún fann ekki meiri gleði inni í sér og þakklæti fyrir lífið, en hún gerði. Hún var oft hrædd og óendanlega óörugg. Hún var alltaf að bíða eftir einhverjum öðrum tíma, Hún var stundum eins og í vitlausri kvikmynd. Hún var reyndar í vitlausri kvikmynd þar til hún varð fullorðin, það var bara engin sem tók eftir því og allir voru að leika hlutverk á móti henni sem hún skildi ekki. Skrítið.
Hún skynjaði að hún var ekki vel liðin af öllum og hún var ekki velkomin allsstaðar, það er ekki góð tilfinning fyrir börn.
Enn þann dag í dag finn ég fyrir þessari gömlu tilfinningu og þarf að taka mig saman til að verða ekki litla stelpan í Vík aftur, en fullorðin kona með þann skilning sem lífið hefur gefið mér á fólki.
Það er ekki mitt vandamál ef fólk á í erfiðleikum með að vera í samvistum við mig, það er þeirra vandamál.
Ég vildi að ég sem lítil stelpa hefði haft þennan skilning og getað nýtt mér hann sem sú sem ég var.
Tíminn er annar núna en þá, vitneskjan um svo margt er meiri og það er pláss fyrir að við séum ekki öll í sama formi. Við vorum ekki öll eins í Vík, ég átti dásamlegar vinkonur sem voru með mér og voru mér nánar.
Ég held að sá vinskapur hafi í raun átt stóran þátt í að gera mann að þeirri manneskju sem maður er í dag. Þessar vinkonur mínar deildu með mér gleði og sorg, þar var maður sýnilegur sem sá sem maður var, langt fram eftir aldri. Við vorum eins og fagrar rósir í ryðgaðri skál hugsa ég oft í dag þegar ég minnist æskustöðva minna Vík í Mýrdal þar sem skilningur fyrir litagleði var lítill og bitnaði það meira á sumum en öðrum. Ég gæti samt hugsað það öðruvísi, að það hafi gefið manni möguleika á að þroska skilning til seinna meir. Þetta er víst allt spurning um val á hvernig maður sér hlutina i einu eða öðru ljósi.
Eins og ég kom inn á áðan þá er ég óendanlega þakklát fyrir allt það sem ég hef gengið í gegnum, sérstaklega það sem hefur verið erfiðast og gefið mér dýpstu sárin, því dýpstu sárin hafa gefið mér dýpsta skilningin.
Þegar hlutirnir eru erfiðir eins og þeir eru oft er ekki auðvelt að minna sig á að þetta sé í raun yndisleg gjöf sem maður gengur í gegnum sem mun gefa manni skilning á ennþá öðruvísi sársauka sem gefi manni svo annan skilning á lífinu sem maður vonandi getur einhveratíma nýtt sér í samskiptum sínum við aðra og á þann hátt gefið eitthvað til baka til lífsins.
Ég gæti ekki hugsað mér að hafa lifað lífi án erfiðleika !
Þetta voru hinar lengstu vangaveltur um sýninguna mína í september, en læt það vaða....
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Lífstíll, Menning og listir, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:10 | Facebook
Athugasemdir
Ég fæ sting í hjartað en líka ljúft bros á vör þegar ég les þennan pistil þinn. Þú ert svo einlæg og ærleg
Kær kveðja frá landinu fagra
Guðrún Þorleifs, 18.7.2008 kl. 19:00
Það getur verið gott fyrir mann að fara í naflaskoðun,læra að þekkja og skilja sjálfan sig en maður þarf líka að passa sig að kafa ekki of djúpt, þá drukknar maður..
gangi þér vel Steina mín að undirbúa sýninguna....
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 18.7.2008 kl. 20:23
Dásamleg ertu ljúflingurinn minn...ást og umhyggja..
Guðni Már Henningsson, 18.7.2008 kl. 21:00
Ég segi nú bara að ég lakka til að sjá þegar þú ferð að byrja á sýningunni og þróa hana áfram, eins og þú gerir alltaf. Luvjú!
Gunni Palli kallinnþinn.
Gunnar Páll Gunnarsson, 18.7.2008 kl. 21:57
Þessi frábæri pistill rótar til í minni sál, sem er hollt fyrir hana.
Takk fyrir það.
Þröstur Unnar, 18.7.2008 kl. 22:27
Að nálgast sjálfan sig, skilja sig og vera er yndislegt. Í dag og hugsa um litlu stelpuna sem býr í sjálfinu er fjarlægur hlutur eða ferli sem liggur innpakkað lengst inni.
Þú býrð vel að eiga kvikmyndina og óska ég þér alls hins besta í undirbúningi! (hvar verður sýningin??)
www.zordis.com, 19.7.2008 kl. 08:01
Takk fyrir fallegan pistil. Þetta eru spennandi pælingar um sýninguna.
Ég held að við séum hjúp og innst er lítil sál. Reynslan er mikilvæg og gerir okkur að þeirri manneskju sem við erum.
Heidi Strand, 19.7.2008 kl. 09:36
Yndisleg lesning.Þetta gæti verið skrifað um mig..Gangi þér vel með undirbúningin fyrir sýninguna
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 11:06
kæru öll takk fyrir yndisleg komment, og zordís svar við spurningunni þinni !
hérna er linkur á galleríið þar sem ég verð með sýningu HÉR
Kærleikur til ykkar allra !
s
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 20.7.2008 kl. 10:44
Þetta eru einstök skrif, sem ég held að margur geti samsamað sig við. Það getur verið heilandi að fara í gegnum svona hugrenningar og vinna með þær á uppbyggilegan hátt, eins og þú gerir. Ég hygg að margir einstaklingar sem eru öðruvísi en fjöldinn (án þess að vera beinlínis "skrýtnir" - if youknowwhatImean) hafi átt erfitt um vik að alast upp í smábæjarlegu þorpssamfélagi. Fólk hefur komið mismunandi út úr því. Þetta er þörf og fróðleg pæling. Takk, Steina.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 20.7.2008 kl. 15:31
Frábær og einlæg skrif hjá þér. Svo margt í þessu sem ég gat samsamað mér við og varð hissa. En ég er þér fyllilega sammála með að mestu erfiðleikarnir í lífi manns eru einmitt það sem gefur manni mesta þroskann og dýpsta skilninginn.
Hjartans kveðja og þakkir fyrir þenna pistil
Dísa Dóra, 20.7.2008 kl. 17:02
það er hollt að líta til baka og sjá hvað mótaði mann og átta sig á því að barnið sem maður var er enn í manni. Lousie L. Hay er með góða therapiu hér þar sem hún hjálpar manni að sjá hvaða drauga maður er að burðast með úr fortíðinni.
SM, 20.7.2008 kl. 18:19
Yndisleg ertu elsku Steina mín, og þú kemur svo oft upp í huga minn eftir að ég kynntist þér sem bloggvini, til dæmis í dag, þegar ég fékk heimsókn af fólki sem hugsar eins og við. Það er verið að kalla okkur saman, hóa liðinu saman til að takast á við vandann. Það er góð tilfinning, það eru staðir á jörðinni sem hafa það hlutverk að kalla hjörina saman, og sem betur fer er kúlan mín eitt af þeim stöðum. það er bara þannig. Knús á þig elskulega kona
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.7.2008 kl. 18:25
Góða nótt elsku vinur..
Guðni Már Henningsson, 21.7.2008 kl. 00:57
Kærar þakkir fyrir að deila þessu. Þetta eru einlægar og góðar vangaveltur og ég kannaðist við heilmargt úr eigin lífi þó það hefði verið með öðrum formerkjum. Góðar kveðjur
Anna Karlsdóttir, 21.7.2008 kl. 21:07
Elskulega Steina bloggvinkona.
Lestur þessarar bloggfærslu var að mörgu leiti erfiður.
Allt frá því að ég las texta þinn fyrst og þú fórst að líta við inn á mína síðu sá ég og skynjaði svo margt. Ég skynjaði ekkert nema gæði og ótrúlega næmni fyrir tilverunni. Í einlægni, hreinskiptni og góðmennsku felst nefnilega hugarró og sátt.
Kæra Steina þú ert einstök.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó
Karl Tómasson, 22.7.2008 kl. 00:19
Nauðsynlegur, fær mann til að hugsa, erfiður, og yndislegur pistill, ég fann fyrir mörgum tilfinningum á meðan ég las pistilinn þinn. Það er mjög nauðsynlegt að líta inní sjálfan sig, og oft verður maður að gera það, og það á sig til að maður kann ekki vel við það sem maður sér... Hvað gerir maður þá? Maður hugsar sig um vel og lengi, og svo tekur maður á við það sem manni líkar ekki vel við um sjálfan sig, og lagar það, eða allaveganna reynir að laga það, það tekst ekki alltaf að laga sjálfan sig í fyrsta skiptið.
Þakka þér kærlega fyrir þennan pistil, ég hef ákveðið að horfa meira inní sjálfa mig, og ég vona að ég eigi eftir að hafa kjarkinn í að laga það sem laga þarf.
Kærar kveðjur, og takk fyrir að gerast blogg vinur minn.
Knús frá Kaliforníu
Bertha Sigmundsdóttir, 22.7.2008 kl. 08:01
Hæ, ég var fyrst núna að sjá að þú sendir mér póst með link á hús til sölu! Það fór í Junk mail einhverra hluta vegna! Ég þarf að skoða það í kvöld :) Fallegur pistill og falleg stúlka. Knús frá annarri Vík á Íslandi.
Ylfa Mist Helgadóttir, 22.7.2008 kl. 16:07
jú mikið rétt hjá þér og ég er enn með brún augu. Sé á hugleiðingum þínum að það hefur ekki alltaf verið dans á rósum að vera lítil stelpa í litlu þorpi og líklega sér maður það alltaf betur og betur hve gott er að búa úti í sveit í hæfilegri fjarlægð frá stöðugu áreiti. Af mér er allt gott, by á sama stað með fullt af kúm og kindum og hestum og hundum, köttum og hænum og jafnvel einstaka músum og uni hag mínum vel. Gangi þér allt í haginn og kem til með að fylgjast með þér af fróninu. kv. Guðný
Guðný Sigurðard. (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.