Hvað getur hjónabandið gert fyrir þig ?

Billede 1234

 

Hjónaband og sambúð, oft hefur það verið bölvað basl hjá mér. Er líka gift í annað sinn. Ég get sagt með báða þessa kæru menn að þeir hafa hjálpað mér mest af öllum. Hjálpað mér að slípa kanta í persónuleikanum, sem ég hefði ekki gert, hefði ég búið ein allt mitt líf.

Ég hugsa oft til fyrstu áranna, með mínum fyrri manni. Ég var alveg hroðalega hrædd um að vera svikin, ég var bundin og hlekkjuð í tilfinningar mínar. Ég hélt dauðahaldi í hann, með miklum látum, það var eins og ég vissi að einn daginn væri þetta búið og það yrði svo sárt. Ég kveið því alla okkar sambúð. Ég reyndi með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum að hindra það óumflýjanlega, setti fullt af reglum, þú mátt ekki þetta þú mátt ekki hitt. Hélt að ef ég hefði fingurnar í öllu gæti ég stjórnað þessu. En var allan tímann þegar ég hugsa til baka að hræðast endalokin, að verða meidd. Skrítið í dag að hugsa um þetta. Því núna er þetta allt mjög lógiskt fyrir mér.

 

Ég og hann vorum að klára ákveðin karmisk bönd sem þýddu sársauka á tilfinningalífinu, sem hjálpuðu mér ennþá eitt skref í þroskanum. Þegar ég lít til baka er ég mínum fyrrverandi mjög þakklát og ég sé hversu mikinn greiða hann hefur gert mér. Eitt var sem hann hafði, sem ég aldrei þurfti að hafa áhyggjur af. Það var að hann hafði stjórn á peningamálum. Fullkomna stjórn.

Billede 1038Eftir þetta hjónaband ákvað ég að vera ein og ekki láta særa mig aftur.Á þessum tíma sem ég var ein ca 6 ár sá faðir minn um mín peningamál, þannig að ég hafði enga ábyrgð á þeim málum. En viti menn: Ég hitti hann Gunna minn. Þegar við hittumst var eins og svona ætti þetta að vera, við áttum að vera saman. En þetta var oft hreint helvíti. Ég tók allt frá fyrra sambandi yfir í seinna samband. Núna ætlaði ég sko að vera á vagt, og hann mátti ekki hitt og hann mátti ekki þetta. Ég stjórnaði öllu, og fannst að núna gæti ekkert komið óvænt uppá og eyðilagt. Ég vissi samt innst inni að við yrðum saman restina af okkar lífi. En samt, allur er varinn góður.

Hann var ljúfur sem lamb, í fyrstu... Hann hafði þó galla sem voru svo erfiðir fyrir mig, og sem ég virkilega þurfti að taka á mínum stóra til að geta haldið út. Hann hafði ekki stjórn á peningamálum. Ég reyndi allt til að breyta þessu. ALLT! Nema að kíkja á sjálfa mig. Ég hótaði og ég hótaði, ef hann ekki tæki sig á í peningamálum þá... Skrítið að hugsa um þetta núna. Því núna get ég séð að á þessum sviðum, peningamálum vantaði mig að þroska sjálfa mig, ég hafði alltaf haft einhvern sem sá um þessa hluti fyrir mig, og núna var ég svo heppinn að fá mann sem var eins og ég í þessum efnum, hans vandamál var bara að ég tók það sem sjálfsagðan hlut að hann gerði þetta. Ég gerði mér svo hægt og rólega grein fyrir að ef ég einhverntíma ætlaði að losna út úr peningavandamálum yrði ég að sýna einhverja ábyrgð. Ég vissi að við gætum alveg borgað það sem þyrfti að borga, en að þetta lægi ennþá dýpra. Og það þyrfti ég að horfast í augu við.

 strutshaus

Við fáum hvert verkefnið á eftir öðru og við fáum það þangað til við leysum það. Þannig að núna deilum  við hjónin ábyrgðinni. Og ég hef yfirblik yfir hvernig staða okkar er. Ekki eins og strúturinn sem stingur höfðinu í sandinn og heldur að þá sé allt ok. Þetta var harður lærdómur,fannst mér þá en í raun  ekki harðari en annað sem ég hef tekist á við Ég sé í dag að þetta var bara nýtt verkefni sem ég þurfti að ákveða að leysa.

Eins og ég skrifaði fyrr var Gunni minn eins og lamb í byrjun, lét mig bara ráða svona til að sjá hvernig hlutirnir færu held.ég. En einn daginn fór minn maður að hafa skoðun á hinu og þessu og fór hitt og þetta, það gerðist ekkert vont, en ég var svo hrædd. Þegar við til dæmis fórum á þorrablót , hafði ég arnaraugu á honum, til að ekkert færi fram hjá mér, var fljót að misskilja og halda allt mögulegt. Þetta var að sjálfsögðu mjög erfitt fyrir okkur bæði. Ég hef svo smám saman þurft að sjá að ég hafði vandamál og ég yrði að leysa það ef ég ætlaði hreinlega að vera hér á jörðinni. Ég varð fyrir það fyrsta að treysta honum og einnig að sjá hann sem sálfstæða manneskju sem væri ekki hluti af mér, en hann hafði sínar eigin meiningar og hann gat í raun gert það sem hann vildi. Hann þurfti t.d ekki að taka til ef honum fyndist ekki þörf á því. Ef mér finndist skítugt hérna heima, er það ég sem geri eitthvað í því. Því ef honum finnst það ekki, þá finnst honum það ekki. Ef hann vill á þorrablót og gera allt mögulegt, þá má hann það. Ég ræð engu um það. Þvílíkur léttir!!! Allt í einu var eins og öll bönd losnuðu. Hann gat gert það sem hann vildi, ég get gert það sem ég vil.

Ég fer aldrei út að skemmta mér, finnst það bara ekkert gaman. Á hann þá aldrei að fara út að skemmta sér. Ef ég sneri dæminu við. Hann ræður öllu, og vill að við gerum hitt og þetta, og ég verð líka að gera það. Nei, þá er betra með frjálsan vilja. Við gerum það sem við hver fyrir sig viljum (ég og Gunni), og oftast er það þannig að við viljum það sama, en stundum viljum við ekki það sama. Og það er fínt.Ég sé núna samhengið í þessu út frá stærra perspektífi. Ég sé minn fyrrverandi hjálpa mér með að vinna með tilfinningar mínar, sem gætu heitið að eiga! Hann sýndi mér svart á hvítu að við eigum ekki hvort annað. Við eigum samleið stundum stuttan tíma til að kenna hvort öðru og klára karma. Svo er það stundum búið. Gunni kenndi mér að bera ábyrgð og að sleppa. Það er svo mikill léttir að finna að maður á samleið, en við eigum ekki hvort annað. Ég finn mjög sterkt þá tilfinningu að ég hef ábyrgð á mér, en er hluti af öllu öðru, en ég ræð ekki yfir öllu öðru. Það sem oftast er sárast að lifa og sætta sig við er það sem flytur mann sem mannesku til manneskju sem skilur og dæmir ekki.auralovers

Smá skemmtileg mynd sem ég hef oft í höfðinu á mér, sem við þekkjum örugglega öll. Hef átt svona leikþátt með báðum mönnunum mínum.

Við erum ósammála. Ég byrja á að segja þú ert alltaf....... hann segir þú gerir altaf..... svo keyrir þetta áfram með hrópum og látum, inni í höfðinu á manni, veit maður hvað kemur næst því þetta er 95. sýning af sama leikþætti. Við endurtökum okkur alltaf. Ég kasta pönnuni, hann kastar pottinum ég kasta skeiðinni, hann kastar gaflinum. Þetta höfum við gert í mörg ár, mörg líf. Einn daginn og þar finnst mér ég vera núna hugsa ég, þetta hef ég gert í mörg líf, hvað hef ég fengið út úr því? Ekkert, kannski ætti ég að prófa eitthvað annað, og þá hefst nýtt tímabil og nýr þáttur aðeins betri en sá fyrri, því vonandi er ég komin þangað að ég geri mér grein fyrir að við höfum það best ef við sýnum hvert öðrum kærleika og umburðarlyndi. Ég næ engu með hótunum. Sjáum þetta í stærra samhengi. Við getum kíkt á lönd með einræðisherrum. Þeir ráða öllu og halda öllum í klóm sínum. Fólk fær ekki að hugsa sjálfstætt, og það fær ekki að flytja úr landi. Margir reyna að flýja land og finna samastað í öðrum löndum. Þegar ég var lítil hugsaði ég. ”Ef allar ríkisstjórnir væru góðar og þjónuðu þegnum sínum, myndi enginn vilja flýja land, allir vildu búa þar sem kærleikurinn ríkir” Þá væri enginn landsflótti. En ef við viljum reka heimili okkar eins og einræðisherrar, vill enginn vera þar. Þannig að það sama gildir á heimilum, fyrirtækjum, sveitarfélögum og löndum. Besti árangurinn næst með kærleika. Til þegna sinna, til fjölskyldunnar sinnar til sín sjálfs.

Ég vil þakka fjölskyldu minni vinum og öllum þeim sem ég hef haft samskipti við fyrir að hafa hjálpað mér í gegnum þroskabrautina sem ég hef farið í þessu lífi
Ljós og friður til ykkar á þessum fallega þriðjudegi.
Billede 1233


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Takk fyrir þennan pistil. Góður lestur í morgunsárið.

Haukur Nikulásson, 10.4.2007 kl. 08:02

2 identicon

Sammála síðasta ræðumanni ! Og vill leggja til að við gleymum að sjá hvað við eigum og störum okkur blind á það sem okkur vantar.

Jens Hjelm (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 09:34

3 Smámynd: Margrét M

já . takk fyrir þennan pistil ,gott að lesa .. það er svo gott þegar maður finnur maka sem að er svona eins og hann hafi verið að bíða eftir manni ,, yndislegt ,, 

Margrét M, 10.4.2007 kl. 10:53

4 Smámynd: Sylvía

margir ef ekki allir reyna að stjórna hinum á einn hátt eða annan, fýla, sjálfsvorkunn og fórnarlambshugsun er t.d. stjórnun.

Sylvía , 10.4.2007 kl. 12:22

5 Smámynd: Ólafur fannberg

góður pistill

Ólafur fannberg, 10.4.2007 kl. 12:38

6 Smámynd: SigrúnSveitó

Takk fyrir þennan frábæra pistil, elsku Steina.  Ég sé á öllu að við erum ekki langt frá hvor annari í universinu.

Ljós og friður til þín líka, mín kæra. 

SigrúnSveitó, 10.4.2007 kl. 15:22

7 Smámynd: www.zordis.com

Yndislegt  ætli við könnumst ekki öll við flest úr pistlinum ....  Af kostgæfni verður maður að taka á málunum á skynsaman hátt og þakka fyrir þau spor sem manni hefur verið vísað í gegn um!  Bestu kveðjur frá sólinni á Spáni!  Sól í hjarta og sól í sinni!

www.zordis.com, 10.4.2007 kl. 16:21

8 Smámynd: halkatla

takk fyrir fróðlega og uppbyggilega grein

halkatla, 10.4.2007 kl. 18:57

9 Smámynd: Elín Björk

Frábær pistill, held ég geti alveg heimfært flest á sjálfa mig á einn eða annan hátt einhversstaðar á lífsleiðinni....

Knús frá Spáni

Elín Björk, 10.4.2007 kl. 20:49

10 Smámynd: Heiða  Þórðar

Frábær pistill. Umhugsunarefni fyrir mig. Takk!

Heiða Þórðar, 10.4.2007 kl. 23:47

11 Smámynd: Bragi Einarsson

Góður pistill og gott að þú sérð að fólk eru sjálfstæðir einstaklingar, þrátt fyrir sambúð. Það tók okkur hjónin um 17 ár að skilja það að við erum sjálfstæðir einstaklingar og það sem mér finnst gaman, þarf henni ekki endilega þykja gaman. Það sem við erum sammála um, ræktum við saman, ég á svo mín áhugamál í friði og hún sín. Hún fer út að skemmta sér ef hún vill og ég nenni ekki og öfugt. Við getum skemmt okkur frábærlega saman þegar við förum saman út. Þegar við loks áttuðum okkur á þessu, giftum við okkur! Höfum þolað hvort annað í 26 ár, bara flottur árangur, er það ekki, ha

Bragi Einarsson, 11.4.2007 kl. 09:51

12 Smámynd: Lúðvík Bjarnason

Það þarf að fella þessi gömlu gildi um hjónabandið og stofna sín eigin, búum til ný gildi og hættum að lifa í því gamla! Við ættum að sýna hvað í raun virkar og fólk er á átta sig á því, ég held við eigum að gleyma hvað hjónaband er og enduruppgvöta það upp á nýtt. Frábær pistill og eitthvað sem ég hugsa rosalega mikið um.. 

Lúðvík Bjarnason, 11.4.2007 kl. 13:14

13 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Það fylgir því ótrúlegt frelsi að sleppa stjórnartaumunum ... takk fyrir frábæran pistil að vanda!

Guðríður Haraldsdóttir, 11.4.2007 kl. 14:38

14 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Skil þetta hundrað prósent......eftir ALDARFJÓRÐUNGS samband með öllum sínum hæðum og lægðum er ég búin að læra að hamingjan felst í því að sleppa til að fá alvöru nálægð. Sápan liggur í hendi þér sé hún opin..en um leið og þu kreppir á hún það tl að skreppa burtu. Raunverulegt frelsi einstaklinga til að vera það sem þeir eru....er galdurinn og leyfa hinum að vera þeir. Svo skrítið samt að eftir því sem maður slppir betur því meiri vilji er fyrir nálægðinni og nándinni. Effortless!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 14.4.2007 kl. 02:18

15 Smámynd: Solla Guðjóns

Það er gott að þú ert búin að uppgötva þetta allt og læra af því.Reynslan er besti skólinn.Knús til þínþ

Solla Guðjóns, 14.4.2007 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband