Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Gleðilega aðventu allir nær og fjær !

Kæru bræður og systur !foto_454_740359.jpg

Núna er gleðileg aðventa !!!

Jólaboðið í gær var gott ! Svolítið rifist hátt, svo voru allir vinur.

Ég og Sól gerðum aðventukrans í morgun. Fórum út og týndum það sem þurfti í hann, mosa og greinar. Svo tók litla skottan yfir og spreyjaði smá glimmer hér og þar og svo varð til þessi fallegi aðventukrans.

Við höfum tekið því rólega í morgun, drukkið te og kaffi og bara verið. Við erum bæði þreytt eftir gærkvöldið. Gunni fór til Kaupmannahafnar og var með Sigga okkar.

Á eftir erum við að fara til Sigynjar og fjölskyldu. Þau eru með jólabasar á veitingastaðnum sínum á norður Sjálandi.

Ég man þegar við komum fyrst til Danmerkur, þá hringdi maður heim kannski á nokkurra mánaða fresti, það var nefnilega svo dýrt. Læt vera að segja frá því hversu oft Sigyn dóttir hringdi heim til Íslands til vina sinna.

Læt nægja að segja að við vorum spurð um það einu sinni í bankanum þegar við vorum að borga símareikning , hvort við rækjum fyrirtæki, híhí.

En núna í dag eru möguleikarnir svo miklir. Sól sat í morgun með vinkonu sinni Nínu. Ekki frásögu færandi, en þær voru að spila spil við vinkonu sína á Fjóni ! Þetta hefði verið óhugsandi á sínum tíma. Þær hringjast við mörgum sinnum í viku í gegnum Skypið og blaðra og spila og eru að kíkja á hinar og þessar dýraheimasíður saman.

Það hefði á sínum tíma sparað okkur um hundruði þúsunda að hafa þessa tækni, þegar Sigyn mín bjó heima.

Núna ætla ég og fá mér hádegismat áður en við keyrum norður eftir.

Kærleikur og Ljós til allra

Set inn smá myndir af boðinu í gær !

_mg_3142.jpgimg_3140.jpgimg_3152.jpgimg_3136.jpg


Smá föstudagskveðja frá Lejrekotinu

foto_431.jpgÉg segi nú bara eins og svo margir, loksins komin helgi !!!!
Það er einhvernvegin svo dimmt og drungalegt þessa dagana. Það kom snjór í nokkra daga og þá var eins og birti í sinninu, en svo fór snjórinn og núna er 7 til 8 stiga hiti. Sit hérna við opinn gluggann með tvö af blessuðum dýrunum mínum við hliðina á mér.

Á morgun koma kennararnir í skólanum í jólaboð. Við ákváðum að vera snemma í því, það er nefnilega alltaf svo mikið um að vera í desember og þá er erfiðara að finna tíma sem allir geta hist.

Ég meira að segja hlakka til á morgun, það er ekki alltaf sem ég geri það þegar ég á að vera með mikið af fólki.

Ég og Sól höfum verið að taka aðeins til í kvöld fyrir morgundaginn, en ákváðum að fara frekar snemma í ró og vakna bara fyrr í fyrramálið og halda áfram að taka til.

Húsið er annars á hvolfi ! Gunni er að setja upp arinn í eldhúsinu og það er nú svona með gömul hús að það er ekkert að bara setja upp arinn í eldhúsinu. Það kom nefnilega í ljós að veggurinn þar sem arininn átti að vera var ónýtur og þurfti að rífa niður og byggja svo upp. Þannig að húsið ber þess greinilega merki. Ég var að vona að arininn yrði komin upp á morgun, en það næst ekki. En næstu helgi ætti allt að vera klappað og klárt.

Ég kem sennilega heim til Íslands í febrúar, mamma mín verður 70 ára, alveg ótrúlegt til þess að hugsa það er svo stutt síðan ég var 5 ára og hún aðeins eldri.

En svona er þetta víst, tíminn líður......

Ég hlakka til að sjá landið mitt.

Set inn þessa fallegu sögu :

    Sporin í sandinum

    Nótt eina dreymdi mann draum.
    Honum fannst sem hann væri á gangi
    eftir ströndu með Drottni. Í skýjum
    himins flöktu myndir úr lífi mannsins.
    Við hverja mynd greindi hann tvenns-
    konar fótspor í sandinum, önnur hans
    eigin, og hin Drottins.

    Þegar síðasta myndin birtist fyrir augum hans,
    Leit hann um öxl á sporin í sandinum. Hann
    tók eftir því að víða á leiðinni voru aðeins ein spor.
    Hann sá einnig að það var á þeim augnablikum
    Lífsins, sem hvað erfiðust höfðu reynst.
    Þetta olli honum miklu hugarangri og hann tók
    það ráð að spyrja Drottinn hverju þetta sætti.

    “ Drottinn, þú sagðir að þegar ég hefði ákveðið að
    fylgja þér, myndir þú ganga alla leiðina í fylgd með mér.
    En ég hef tekið eftir að meðan á erfiðustu stundum
    lífs míns hefur staðið, eru bara ein fótspor í sandinum.
    Ég get ekki skilið hvernig þú gast fengið af þér að skilja
    mig eftir einan þegar ég þarfnaðist þín mest ”.

    Drottinn svaraði: “Þú dýrmæta barn mitt.
    Ég elska þig og myndi aldrei skilja þig eftir eitt.
    Á meðan þessir erfiðu tímar lífs þíns liðu
    – þar sem þú sérð aðeins ein fótspor –
    Var það ég sem bar þig “.

Kærleikur til ykkar frá konunni í Lejre


krísuástand inni í maganum

_mg_3103.jpgSólin er ennþá veik, en þó eitthvað að lagast. Við höfum tekið svolítið til í dag, en annars dúllað okkur.
Fórum þó í göngutúr með lappa tappa og var það átakalaust.

Á morgun er ég að fara að hitta hana Steinu frænku í Kaupmannahöfn og ætlum við á sýningarrölt og spjallilabb um borgina.

Annað kvöld fer ég heim til Jan að hitta hugleiðslu grúppuna. Borða saman tala saman og kl. 8 er Worldwide Conference Call fyrir alla meðlimi WSI. Þetta er risa stór hópur frá öllum heiminum. Við ætlum að tala saman, hugleiða saman og deila upplifunum saman. Það verður nú gaman.

Það gerðust undur og stórmerki áðan sem fékk Sólina til að brosa út að eyrum, það snjóaði !!!!! Nokkur snjókorn sem liggja enn.

Það tala allir um efnahagskrísuna allsstaðar, líka hérna í Danmörku.

Ég skil vel óttann við að þurfa að breyta lífi sínu, líka við að missa allt. Það er ekki þægileg tilfinning þegar fólk heldur sig komin á góða braut og fjarlæg er hugsunin að þetta taki enda.

Ég skil vel það að vilja vera öruggur með líf sitt, öruggur með framtíðina, öruggur með fjölskylduna sína. Öruggur með allt það sem veitir okkur það öryggi sem gerir lífið þægilegt og fyrirsjáanlegt.
Þegar erfiðleikar steðja að mér, þá vil ég flytja til Ísland. Það er í raun sama hvers eðlis þessir erfiðleikar eru, mín hugsun er alltaf að nú vil ég flytja heim. Búa í litlu sjávarþorpi  og lifa einföldu og fallegu lífi með allt “öruggt” í kringum mig.

Einu sinni vildi ég alltaf flytja til Þýskalands, en það er önnur saga._mg_3105.jpg

Ég hef líka þessa hræðslu í mér að missa það sem gefur mér öryggi. Missa manninn minn, missa börnin mín, missa dýrin mín og svo framvegis.

En ekkert er í raun öruggt neinstaðar og ef þeir hlutir gerast að maður missir það sem maður telur vera öruggt, sem gefur þá tilfinningu eins og fótunum sé kippt undan manni, þá er það í raun oftast atburður sem gefur meiri dýpt í manneskjunni, vekur upp tilfinningar sem sennilega oft hafa legið í dvala en skerpast á þessu augnabliki og verða svo lifandi.

Eina öryggið sem er mikilvægt að finna og byggja upp, er öryggið inni í sjálfum sér. Það öryggi getur engin fjarlægt þegar því hefur verið plantað í hjartað, af manni sjálfum.

Allir erfiðleikar eru til að þroska okkur, vekja okkur og skerpa okkur, ef við notum tækifærið og nýtum okkur það sem er að gerast.

Ég held að í raun séu erfiðleikar það besta sem mætir okkur á lífsleiðinni. Ég er aldrei meðvituð um það á þeirri stundu sem erfiðleikarnir standa yfir , en eftir á, þegar ég fer í gegnum tímabilið í huganum, er ég alltaf þakklát og ég get séð að þetta var enn ein lífsreynslan til að gera mig að betri manneskju en ég var fyrir atburðinn.

Að missa peninga er hverjum holt held ég.

Ég hef misst fullt af peningum (á mínum mælikvarða)  og það var alveg hræðileg tilfinning. ÉG hef nefnilega verið aurapúki. Vildi helst ekki lána neinum krónu. Sparaði í budduna mína og passaði aurana mína. En ég fékk lexíu sem var stór fyrir mig, missti nokkrar milljónir rrrrrrrrrrrrrrr hvað það var erfitt ég panikaðist alveg upp í eyru.

En ég lifði af, auðvitað.

Það var á einhvern hátt léttir eftir þessa lífsreynslu og aðallega léttir við þá hugsun að peningar eru ekki mikilvægir, þeir eru aukaatriði í því lífi sem ég lifi.

Ég þarf að sjálfsögðu peninga til að hafa fyrir daglegum hlutum, en ekki meir en það.

Ef ég hef fjölskylduna mína og mig er allt gott !

Tíminn sem við lifum í núna, held ég að sé tímabil þar sem þroski mannkyns tekur stórt stökk. Það þarf alltaf stór áföll svo að við missum takið og í sameiginlegri alheimsorku lyftum okkur yfir á hærra plan.
Það er nauðsynlegt að það gerist. Annað hvort er leiðin niður á við til græðgi, eigingirni og sjálfshyggju (við vorum á góðri lei þangað) eða leiðin upp á æðri plön með samvinnu, sjálfsskoðun og nærveru.
Við erum í raun þvinguð þangað af öðrum öflum sem er ansi skondið “,græðgisöfl, neikvæð öfl” (meiri peninga, meiri peninga, meiri peninga)

Þannig að neikvæð öfl eru með til að hjálpa okkur til að þroska okkur upp á æðri plön.

Á morgun byrjum við hérna í kotinu á því að kveikja á kerti í garðinum okkar við leiðið hennar Iðunnar okkar.

Á morgun er eitt ár síðan hún fór frá okkur yfir í Hundasálina. Ég sakna hennar á hverjum degi.
Í gær fann ég litla hjartaöskju í skúffu, í öskjunni voru hár af henni sem við klipptum af henni látinni. Ég setti þau upp að nefinu mínu og andaði ilminum hennar inn í mig. Ég er svo þakklát fyrir þau 13 ár sem ég hafði með henni ástinni minni.img_1347.jpg

Kærleikur til alls Lífs img_1348_733490.jpg


mbl.is 5000 bílar úr landi?
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

morgungull í bláu auga

mamma_og_siggi.jpg

Sit inni í stofu, allt er svo kyrrt og yndislegt.

Sólin er heima í dag full af kvefi, hún var ekki alveg að vilja fara í skólann og ég gaf leyfi til heimaveru.
Það er fátt yndislegra en svona morgnar það sem ég get notið morgunkaffisins og bara verið. Kertin flökta í hálfrökkrinu og birtan úti kemur í rólegheitum.

Það er ekkert mikið að frétta. Ég var í Kaupmannahöfn í gær , fór á sýningarrölt með Sigga syni mínum. Að mestu sátum við á kaffihúsi og lékum okkur við að skoða effekta á tölvunni hans Sigga . Hann gerði þessa fínu mynd af okkur sem er hérna að ofan.

Við gengum heil ósköp, á göngu er hægt að tala mikið og það gerðum við. Við fórum allan skalann, töluðum tilfinningar, og við rifumst og við hlógum. Dagurinn var yndislegur og ég hugsaði á leiðinni hversu heppinn ég er að vera í svona góðu sambandi við hann Sigga minn.

Við eigum líka svo margt sameiginlegt sem gerir að við getum mæst á svo jöfnum grundvelli.

Ég hitti eina gamla vinkonu mína á röltinu í gær, hún var líka á sýningarrölti. Hún var ansi stressuð, maðurinn hennar vinnur hjá Sterling flugfélaginu og þau biðu bara eftir að fá skilaboð um hvað yrði um hann. Við ákváðum þó að hittast í janúar, þau gæru komið í heimsókn til mín og Gunna og við gætum borðað saman. Við ræddum líka um að athuga með að sýna saman, en allt það ætlum við að skoða í janúar.

Ég kynntist henni þegar við vorum ný flutt til Danmerkur. Ég hafði þá verkstæði á Nørrebro. Þetta var verkstæði með 10 til 15 öðrum listamönnum. Ég elskaði að vera þar. Ég og hún Michala höfðum pláss við hliðina á hver annarri. Við urðum miklar vinkonur. Hún átti það til að senda mér svo falleg handskrifuð bréf með fallegum teikningum og litlum vatnslitamyndum.

Stundum sendi hún mér líka litlar gjafir , bækur eða eitthvað sem henni fannst passa fyrir mig. Vinskapurinn var mér dýrmætur. Hún var sú fyrsta sem ég kynntist hérna í Danmörku. Ég kynntist líka foreldrum hennar mjög vel og þau komu trúföst á allar opnanir sem ég hafði hérna í Danmörku, sem voru margar.

Hún kom líka með mér til Íslands og við áttum yndislegan tíma þar saman.

Hún var einhleyp á þessum árum og það gaf sennilega svigrúm til þess háttar vinskaps. Gunni minn hefur alltaf verið svo einstakur að það hefur alltaf verið pláss fyrir næstum því hvað sem er í okkar sambandi.

Ég og Michala ræddum mikið trúmál og vorum mikið á sömu línu um þau mál , við skyldum hvað hin stóð fyrir og vorum á einhvern hátt hluti af því.

Michala kynntist Henrik sem flutti inn á verkstæðið. Hann var góður drengur, en það gerðist eitthvað í sambandinu á milli mín og hennar. Við áttum þó samskipti í nokkur ár á eftir. Okkur var boðið í brúðkaupið þeirra og þau komu í skírnina hjá Sólinni okkar með yndislegt málverk sem Michala hafði málað af litla englinum okkar.

Það sem ég held að hafi breyst á milli mín og hennar var að hún fékk aðra skoðun á svo mörgu í sambandi við það sem hafði í raun tengt okkur saman. Henrik kom frá sértrúarsöfnuði einhverjum sem hafði áhrif á hana og hennar hugsun, en sem gat ekki borið okkar vinskap.

Vinskapurinn fjaraði út og við hittumst ekkert í mörg ár. Fyrir hálfu ári fór ég svo á opnun hjá henni inni í Kaupmannahöfn og hitti hana. Hún hafði greinilega fylgst með því sem ég var að gera því hún gat kommentað þær sýningar sem ég hafði haft og við gátum borið saman bækur okkar

Við kvöddumst glaðar yfir þessum endurfundi og ákváðum að hittast fljótt.
Ekki hefur það tekist enn, en núna verður það i janúar og ég hlakka mikið til að hitta þessa fallegu vinkonu mína frá fortíðinni.

Í gærkvöldi fórum Gunni og ég á tónleika hjá tónlistarskólanum hérna í Lejre. Sólin okkar er í barnakórnum . Það eru reindar bara 6 telpur í honum, af þeim eru þær fjórar bestu vinkonurnar, Sól, Andrea, Cesilia og Vera. Þær fluttu tvö lög, eitt af lögunum var teksti og lag eftir þær fjórar. Lagið heitir "að dreyma og er svo fallegt og tekstinn svo fullorðinn. Við hjónin sátum þarna með stút fullu húsi af fólki, með tár í augunum yfir hversu duglegar og flottar þær voru stelpurnar. Þær hafa verið bestu, bestu, bestu vinkonur í 5 ár og eru svo kreatívar og flottar saman. Þær hafa samið lög og teksta á heilan cd sem gerður var með þeim í klúbbnum. Þær eru saman í myndlistarskólanum, tónlistarskólanum og tvær af þeim, Sól og Cesilia eru í mjög góðum leiklistarskóla. Ég fæ stundum í magann yfir því hversu heppinn Sól er á þessum barna árum sínum hérna í litla þorpinu.

Núna er orðið bjart úti, best að fara að útbúa morgunmat og fara í göngutúr með Lappa í nýju flottu stígvélunum mínum sem ég keypti í gær.
Kærleikur til ykkar allra.
32l_non_glow.jpg


skrítin upplifun sem ég vil deila með þér...

_mg_6020.jpgÞað er orðið haustlegt hérna í Danmörku. Ég fór með vettlinga á höndunum í morgun þegar ég fór í vinnuna.

Á morgun er þessari vinnutörn lokið, vikufríið mitt byrjar á mánudaginn og ég hlakka mikið til. Ég er að klára uddannelssplanen í skólanum þessa dagana. Þar að segja að útfylla alla pappíra sem eru margir fyrir hvern nemanda í ungdomsuddannelsen sem er svo sent til námsráðgjafa sem fylgir hverjum nemanda, foreldra og sveitarfélaga. Ég sendi það síðasta út á morgun með bréfi um hvenær við fundum fyrir hvern og einn nemanda. Þetta er heilmikið batterí og ég verð svo feginn þegar ég er búinn að þessu.

Það hefur ekkert sérstakt gerst undanfarið nema ég hef það betur en ég hafði það áður. Ég hef haft góðan tíma með þerapístanum mínum og það var til að hjálpa mér að skoða hlutina ofan frá og þá er allt auðveldara.

Ég hef voða mikið verið að hugsa um atburð sem gerðist einu sinni fyrir mig.

Mig langar að deila því með ykkur, því ég hef verið að huga um hvað þetta hafi verið.
Þannig er að ég var á heimavistarskóla í tvö ár frá því ég var 15 ára til 17 ára.

Þetta gerðist þegar ég var 16 ára.

_mg_6033.jpg Það var eitt kvöld að mikil læti voru á vistinni, það gerðist hlutur sem ég vil ekkert fara út í hérna, enda hefur það ekkert með frásögnina að gera. En við á herberginu mínu vorum í mjög miklu uppnámi og grétum þessi ósköp og gátum ekki fallið í ró. Skólastjórinn kemur og talar við okkur og reynir að róa okkur. Kemur hann svo að rúminu mínu og segir mér að fyrr um kvöldið hafi gerst undarlegur hlutur. Hann hafi verið inn í eldhúsi að drekka kaffi. Hann var einn, af hverju veit ég ekki. Þá er bankað á dyrnar hjá honum. Ég vil taka það fram að skólinn er langt frá öllum mannabyggðum og til að keyra upp að skólanum þarf að keyra dágóðan spotta frá þjóðveginum.

En sem sagt hann opnar dyrnar og fyrir utan stendur maður. Hann biður um að fá að koma inn.

Hann biður um að fá vatn að drekka, sem hann fær.
Það eru svið á borðinu og hann spyr skólastjórann hvað þetta sé. Skólastjórinn verður undrandi á þessari spurningu, en segir honum að þetta séu svið. Hann bíður honum að smakka og mig minnir að hann hafi þegið það.

Svo spyr maðurinn hvort það sé stúlka þarna í skólanum sem komi frá Vík í Mýrdal sem hafi stafinn S sem fyrsta staf í nafninu sínu. Svo lýsir hann nokkrun veginn hvernig ég leit út. Hann nefnir m.a. að ég hafi græn augu og að mamma mín hafi I sem fyrsta stafinn í nafninu sínu (sem passar) Svo kemur hann inn á ýmis mál frá fjölskyldu minni sem ekki var á almanna vörum og fáir vissu.
Skólastjórinn segir að svo geti vel verið, en hvað það er sem hann vilji henni. Hann sagðist nauðsynlega þurfa að tala við hana um mjög áríðandi hlut._mg_6016_726550.jpg

Skólastjórinn sagði að það væri ómögulegt, þar sem hún væri farinn að sofa, en hann gæti komið að degi til ef það væri svona mikilvægt.

Spyr þá maðurinn hvort hann megi skrifa bréf til mín og hann /skólastjórinn vilji færa mér það. Segist hann að sjálfsögðu vilja gera það.

Bað þá maðurinn um blað og penna og skrifaði mér bréf.

Hann gefur svo skólastjóranum bréfið, kveður og hverfur út í nóttina.

Skólastjórinn gaf mér svo bréfið og sagði um leið að þessi maður hafi haft mjög sérkennileg augu.
Mér fannst þetta allt hið undarlegasta mál. Ég las bréfið en man ekki allt sem stóð í því, en ég man að það var skrifað með bláum kúlupenna.
Ég man heldur ekki allt sem hann skrifaði, en það sem ég man, var að hann sagði að ég hefði verið í draumunum hans í langan tíma og að hann vildi svo gjarnan gera eitthvað fyrir mig. Ef ég vildi gæti hann smíðað handa mér húsgagn. Einnig var símanúmerið hans í bréfinu, til að ég gæti hringt í hann.

Við fengum allar stelpurnar að lokum svefntöflu til að geta sofnað eftir mikil átök og ekki man ég fleiri smáatriði.

Ég reyndi að hringja í þetta númer, en það var ekki mögulegt að fá samband við þennan mann.
Ég hugsaði ekki oft um þetta, gleymdi þessu reyndar í mörg ár en undanfarið hef ég hugsað mikið um þetta og spáð í hvað þetta hafi verið og hver þetta hafi verið.

Gaman væri að heyra ykkar komment um þessa skrítnu upplifun sem ég hafði.

Núna ætla ég að gera mér gott te og fara svo í göngutúr með Lappa sæta.

Kærleikur til alls lífs og þín


rigning

rain-2.jpgÓsköp er ég eitthvað löt að blogga, er alltaf inni á fésbókinni að skrifa smátt og ekkert. En ég á heima hérna líka og góða vini hér sem ég vil ekki missa.

Allt er gott héðan að frétta.

Haustið er að koma, það finnur maður mest á rigningum og rigningum og aftur rigningum.

Mér er svosem alveg sama, finnst bara notalegt að vera inni og heyra rigninguna lemja á hitt og þetta úti í garði.

Ég er feginn að vera ekki fugl í rigningunni, því það er kannski þungt á vængjunum þegar droparnir eru að reyna að smjúga inn að holdinu. Það er þó þannig að fjaðrir hrinda frá sér vatni, þannig að droparnir slást við fjaðrirnar, eða þannig.

Ég vildi heldur ekki vera ormur eða skordýr með þessa risa dropa sem eru stærri en þau sjálf og koma alveg eins og sprengjudropaæði hver á eftir öðrum og gera svo mikinn usla í skordýraheiminum.

Nei, það er þó gott að hafa þak yfir höfðið sitt og skjótast inn þegar rignir. Maður getur líka skotist inn í regnkápuna ef rignir og maður finnur löngun hjá sér að vera úti.rain_forest_tropic_725114.jpg

Líka undir regnhlífina ef maður vill vera á peysunni eða kjólnum úti fyrir.

Líka inn í bílinn eða eitthvað annað ef maður vill hvorki hafa regnhlíf eða regnkápu og er kannski með voða fínt hár á höfðinu.

Þó svo að fyrir mér sé rigningin ekkert þægilegust, þá held ég að á sléttum Afríku komi til með að vanta vatn á næstu tímum.Þess vagna ætla ég ekkert að vera að óska mér rigningarleysis en að vera þakklát fyrir að sem kemur, hvað sem það er því ekki deyjum við hérna í Danmörku af vatnsskorti, nei nei sei sei

Blessuð séu dýrin okkar sem deila Móður Jörð með okkur!


er veturinn heima, nei hann fór til New York

Veðrið er bara eins og vor ! cute-little-animals-27.jpgVið fórum í morgun á svona stað þar sem hægt er að kaupa hluti sem fólk hendir, fyrir lítinn pening.
Við keyptum fjóra flotta baststóla í garðinn, nokkrar bækur, þrjú lítil teborð, sem falla svona hvert undir annað, vegglampa, mjög fallegan, sítrónupressu og svo bastendur fyrir Sigyn mína sem er svo hrifin af öndum,  Allt þetta kostaði 1oo kr danskar.

Við komum heim með þetta. Gunni fór að elda hádegismat og ég fór í göngutúr með Lappa. Ég var bara á peysunni og veðrið alveg dásamlegt ég söng fyrir Lappa á leiðinni, ég fann svo mikla gleði innan í mér. Það eru meira að segja knúpar á sumum runnunum okkar og rósirnar eru ennþá að springa út.

Fengum okkur svo að borða og erum núna að slá magann og drekka kaffi. Ætlum út í garð að gera hitt og þetta og seinna ætlum við í bíó með Sólinni okkar þegar hún er búinn í leiklistarskólanum .Við ætlum að sjá myndina “Stúlkan og refurinn”

Ég ætla að  að kveðja núna og fara út í garð á þessum fallega degi að senda ykkur öllum Ljós og Kærleika !

cute-little-animals-11.jpg


Dagurinn þegar meðvitundinn hækkaði

 -1lthkk.jpg

Í morgun vaknaði ég eins og vanalega klukkan fimm.

Ég fór niður og kíkti á tölvuna. Sá á facebook að Hlynur vinur minn frá Akureyri sem núna kallar sig líka Hussain,  (af hverju veit ég ekki) hafði skrifað: núna get ég farið að sofa, Obama er búinn að vinna.

Ég varð svo hrærð að ég átti erfitt með að einbeita mér að því að fara að hugleiða.

Settist þó í stólinn minn, með hvíta ullarteppið yfir mig, fór í ferðalag á innri plönum og gerði það verk sem ég geri á hverjum degi.

Ég hugleiddi  til klukkan sex. Kveikti á sjónvarpinu og sat í ca. fimm mínútur og horfði á fréttirnar, ég hreinlega grét af ánægju yfir þeim stórtíðundum sem höfðu gerst !

Gunni kom niður og deildi með mér gleðinni.

Ég hef svo innilega vonað að hann inni kosningarnar, en þorði ekki að trúa að það gæti gerst.

Ég upplifði í þessari gleði minni, að vitund heimsins hækkaði við að í sameiningu að setja inn nýtt energi, og senda það gamla í burtu.

Gömul hugsunarform unnu ekki, en ný framtíð með nýjum möguleikum sá dagsins ljós.

Ameríkanar þorðu í öllum þeim efnahagslegu átökum sem landið er í að taka séns á einhverju nýju bæði í hugsun og að velja svartan mann sem leiðtoga landsins síns.

Þetta gætu margar þjóðir tekið til fyrirmyndar. Það að standa saman og taka ábyrgð á lífi sínu, er eitthvað sem við öll ættum að skoða. slide_374_10273_large.jpg

Fyrir bara 40 árum var aðskilnaðarstefna í Ameríku á milli hvítra og svartra !!!!

Ég er bara svo lukkuleg með þessar kosningar. Þegar við vorum í Washington í sumar keyptum við fullt af Obama minjagripum sem skreyta hjá okkur húsið.

Eftir morgunstund lá leiðin í lestina. Ég geng fallega leið að stöðinni sem tekur mig nokkurn veginn fimmtán mínútur.

Ég kom á stöðina, þar var fólk að bíða eftir lestinni, allir með morgunblöðin fyrir andlitunum og lifðu í fréttaheiminum. Ég gerði það sama, enda er gott að vera fjarri sjálfum sér stundum á öðrum stað á öðrum tíma.

Lestin var of sein, fyrst átta mínútur, svo fimmtán mínútur.

6760681.jpgÉg varð pirruð þrátt fyrir þá gleði sem ég hafði haft inni í mér. Loksins kom lestin , sú gamla sem varla er fólki bjóðandi. Lestin var svo proppuð af fólki að ég gerði mig að eldspýtu til að komast inn. Stóð svo í eldspýtnastokk með hinum morgunhönunum.

Við komum að Hróarskeldu, lestin stoppaði og við komumst ekki út ! Ég varð að bíta saman vörunum til að láta eitthvað flakka út í loftið.

En ég minnti mig á að þetta væri smáatriði á miða við þann gleðiatburð sem ég hafði upplifað og hafði einhversstaðar í hjartanu.

Ég komst út, allir beðnir að yfirgefa lestina, líka þeir sem ætluðu með henni til Kaupmannahafnar.

Ég settist og kom mér vel fyrir á bekk, með bók vitandi að ég kæmi til með að sitja þarna næstu 35 mínúturnar.

Ég komst að lokum í vinnuna, alltof sein. Við fögnuðum nýja forsetanum í skólanum með Obamaköku og huggulegheitum.

Svona geta nú dagar verið bæði hér og þar.slide_599_12505_large_720041.jpg

Kærleikur til allra. 


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband