allt er eins, þó ekkert
15.5.2009 | 10:37
Allt er betra núna, þó allt sé eins og áður. Jafn óljóst og hræðsluvekjandi og áður, en hugurinn er annar.
Það er gott þegar maður finnur að hægt er að flytja hugsunina frá einum punkti til annars, eins og þegar maður flytur gula manninn frá einum fletinum til annars í lúdó.
Ég flutti hugann frá einum fleti yfir á annan, og allt leit öðruvísi út. Allt sem fékk magann til að hoppa á haus og fram og til baka varð rólegt og yfirvegað.
Í dag vinn ég í garðinum, sem áður var tilgangslaust. Í dag plana ég hvort eða hvort ekki við eigum að fá hænur aftur. Ég skoða blómin mín og fallegu laukana sem koma upp úr moldinni hér og þar og ég nýt þeirra eins og alltaf, án hræðslunnar að allt þetta er ekki með í framtíðinni.
Ég sit á kvöldin og byggi heima til næstu sýningar, ég tek brot og lími saman í heild sem segir ekkert, en segir þó kannski allt, það skiptir engu máli.
Ég talaði við gamla vinkonu mína í langan tíma í morgun. Hún hringdi í mig í fyrsta sinn í nokkur ár. Við fórum hver sína leið eins og gerist. Hún fór sína leið í reiði sem var á þeim tíma ekki auðvelt fyrir okkur. Við höfðum byggt Listaskólann upp saman og svo margt annað.
Hún stóð svo einn daginn við dyrnar mínar og ég bauð henni að sjálfsögðu inn. Við töluðum, við töluðum mikið og í hverju orði var heilun til hver annarra. Hún hringdi svo aftur í morgun og við héldum áfram að tala þar sem frá var horfið eins og ekkert hefði gerst og við værum saman fyrir fjórum árum. Við vitum heldur ekki hversu langan tíma við höfum saman. Hún er mikið veik og lifir einn dag og kannski spáir í næsta, hver veit. Við viljum sjá hvort við getum hugleitt saman fljótlega, einu sinni gerðum við það oft.
Það er svo mikilvægt að muna í samskiptum við vini eða ekki vini að kannski fer annað hvor yfir á innri plön, á eftir, á morgun eða annan dag , við vitum ekkert.
Ég er svo þakklát fyrir að við náum að heila sambandið okkur hérna í þessu lífi en bíðum ekki með það.
Ég fór í gönguna mína með Lappa í morgun. Það var að venju yndislegt. Við hittum Ulrikka. Hún er sú sem ég er að opna nýja skólann með. Við ræddum saman og vorum glaðar því við fengum styrk til skólans í gær og það gefur okkur rými til að gera ýmislegt. Ég sagði henni frá því að ég hafði næstum því fengið mér lítinn hvolp. Það munaði næstum engu. Ég útskýrði líka að í þeirri hugsun að vilja fá hvolp var flótti frá því hversu mikið er að gera hjá mér og ég þrái eitthvað sem er svo nálægt og áþreifanlegt sem það er að fá nýjan hund. Það setti huga minn í ró.
Það er eins og minni mynd af því að vera bóndi. Ég sagði henni líka frá því að þegar ég var lítil óskaði ég þess að vera bóndi og grafa í jörðina, setja nefið í kýrnar og liggja í sófanum með hundinn minn og fylgjast með veðrinu í sjónvarpinu.
Drekka kaffi í eldhúsinu og hlusta á hádegisfréttirnar með glerglasið mitt fullt af kaffi, mjólk og sykri. Það skrítna er að ég er allt hann bóndinn, aldrei húsmóðirin. Ulrikka sagði mér að þegar hún var lítil dreymdi hana um að vera fornleifafræðingur. Vera með fingurna í jörðinni og finna fortíðina. Við hlógum að þessum fallegu draumum og vorum sammála um að það væri gott að hafa þá að halla sér að þegar of mikið er að gerast og okkur vantar ró.
Við fáum bæklingana í næstu viku og heimasíðan opnar vonandi í næstu viku. Allt er að skella á. Allt í einu á meðan við stóðum þarna og sögðum frá, varð Múmin minn sem er rauði kisi pirraður á þessu blaðri hljóp á milljón upp í tré með halann sinn pirraðan. Okkur var ljóst að hann vildi halda áfram. Við kysstum hvor aðra og gengum hver sína leið. Hún var svo falleg þarna með rauða hárið sitt og í fallega grænum og bláum fötum.
Það er nóg að gera með hinn skólann. Bráðum skólaslit með sýningu og skemmtilegheitum. Nýir nemendur á leiðinni inn næsta haust. Að sjálfsögðu fer engin út en við höfum ákveðið að taka tvo nýja inn. En það reddast allt eins og alltaf.
Núna ætla ég út með kornkaffið mitt, setjast aðeins í sólina og setja svo aðeins fingurna í moldina. Set inn myndir frá garðinum mínum og eina af mér og hvolpinum sem ég var næstum því búinn að kaupa !!!
Kærleikur og Ljós til ykkar allra
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Það er eitthvð svo sérstaklega danskt að vera með hænur, finnst það svo virkilega. Vona að þú eigir góðan dag og haldir áfram að gefa alla þessa fegurð sem þú skilar í skrifum þínum.
Þið eruð sæt saman þú og voffalingur.
www.zordis.com, 15.5.2009 kl. 13:40
Einmitt..að færa hugann á annan reit þar sem útsýnið er betra...við höfum það á valdi okkar að temja hugannn þó hann vilji oft vera eins og lítill kátur og óþekkur hvolpur:)
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 15.5.2009 kl. 16:16
Guðrún Þorleifs, 17.5.2009 kl. 20:07
Innilega takk fyrir þessa hugvekju Steina mín. Það er alltaf gott að koma hingað inn og finna friðin og kærleikann.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.5.2009 kl. 11:58
Gleðilegt sumar elskulega Steina og fjölskyldan þín öll og hafðu endalausar þakkir fyrir öll þín fallegu skrif.
Bestu kveðjur úr Mosó frá Kalla Tomm og fjölskyldu. Við sjáumst í sumar.
Karl Tómasson, 19.5.2009 kl. 00:18
Það er gott að geta fært hugann á annan reit. Sjá annan vinkil! Takk fyrir að benda mér á það.
Blessi þig Steina mín
Hrönn Sigurðardóttir, 19.5.2009 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.