Þegar lífið fer í hring og minningar verða öðruvísi með tímanum

img_5253.jpgVið vorum nánar ég og Sólveig gamla.. Kannski ekki nánar eins og maður oft hugsar það,en við vorum nánar í hugum okkar.

Sólveig var 94 ára eða 80 og eitthvað, ég man það ekki alveg, ég var 11 ára.

Sólveig gamla átti heima í litlu húsi undir fjalli í þorpinu sem ég ólst upp í. Sólveig átti margar kisur, kannski hundrað, kannski þúsund, ég taldi þær aldrei.

Sólveig var alltaf í svörtum kjól með svuntu sem einu sinni hafði sennilega verið hvít, en var nú ljósgrá. Hún virkaði hrein en þegar maður andaði að sér lyktinni hennar var lyktin rykug og gömul, án nokkurs  sápuilms.

Það sem var gaman að gera með Sólveigu var að ganga um fjallið og leita að kisunum hennar. Það var ævintýri líkast. Fjallið var stórt og hvönnin óx þar um allt, á stærð við mig, og börn á mínum aldri.

Sólveig talaði ekki við mig þegar við vorum að kalla á kisurnar hennar. Kannski talaði hún aldrei við mig yfir höfuð, ég man það ekki, enda er það ekki mikilvægt. Við vorum saman í þessari athöfn sem var eins og hluti af einhverju öðru og dýpra en það virtist í fyrstu sýn

Sólveig kallaði einn tón eftir annan sem bergmálaði í fjallinu og endaði með að bergmálið ómaði hver annan upp svo það var eins og það væri kallað frá öllum áttum. KKKKkkkkkiiiiiiiiiissssssssssKissssssskiiiiiiisssssssss...........

Sólveig gekk við gamlan tréstaf, og gekk einhvernvegin eins og í eigin heimi á meðan hún framkallaði þessi kisuköll. Bæði vetur sumar vor og haust man ég hana á þessari göngu í þessum fötum með sjal yfir herðarnar og silfurlit kringlótt gleraugun. Ég man ekki hvernig sjalið var mjög skýrt, en mig minnir að það hafi verið í svipuðum lit og hárið hennar og þess vegna hef ég ekki tekið sérstaklega eftir því.  _mg_9810_772655.jpg

Ég fylgdi bara með henni og fannst þetta ævintýri sem var algjörlega tíðlaust fyrir mér. Við mættum sjaldan fólki á þessum göngum, en ef við gerðum það héldum við ferðinni áfram án þess að heilsa viðkomandi. Það var eins og það myndi brjóta upp formið sem hafði verið byggt upp í mörg mörg ár af henni og svolítið af mér.

Ég var með Sólveigu í þessum göngum af og til í mörg ár. Ég man aldrei eftir að kisurnar kæmu til okkar, eða fylgdu okkur heim.

Húsið hennar var lítil viðbygging við annað stærra hús sem afi minn og amma bjuggu í. Húsið hennar Sólveigar var alltaf fullt af kisum, það voru kisur allsstaðar. Það var erfitt að sjá að þarna byggi manneskja, því allt var á einhvern hátt innréttað sem kisuhreiður. Það voru tveir gluggar í herberginu sem hún svaf í. Alltaf þegar ég kom inn til Sólveigar gömlu var allt krökkt af kisum í hverjum krók og kima. Gluggarnir voru smáir, svo það var ótrúlegt að það væri pláss fyrir allar þessar kisur þarna í gluggakistunni.

Herbergið var lítið. Það var pláss fyrir lítið rúm, sem var fullt af teppum í allavega litum bæði hekluð, prjónuð og ofinn og skinn voru þarna líka undir teppunum, sá maður ef vel var að gáð.

Rúmið hennar var fullt af kisum sem kúrðu hver upp að annarri. Meðfram veggjunum voru teppatætlur og skinn tætlur sem lágu eins og þeim hefði verið hent tilviljunarkennt hingað og þangað. Þar kúrðu kettlingar, í öllum stærðum og gerðum. Það var ekki hægt að sjá að einhverjir af þeim væru nánari en aðrir, því allir lágu í einni hrúgu þar sem var mjúkt og notalegt.

Eitt borð var þarna inni, það borð var sett upp við rúmið, sem einskonar náttborð. Á borðinu var gamall hárbursti. Þessi bursti fannst mér fallegur.Hann var silfurlitaður með munstri á skaftinu og á bakinu. Munstrið var af blómum og páfugli. Burstinn var mjög framandi þarna í þessu herbergi. Það eina sem sannfærði mig um að burstinn væri raunverulegur og í eigu Sólveigar voru hárin á burstanum. Löng ljósgrá næstum hvít hárin sem höfðu fests í þegar hún greiddi langa þunna hárið sitt í  eina fléttu á morgnana. Fléttan varð með hverju árinu lengir og lengri og þynnri og þynnri. Við hliðina á burstanum var vatnsglas með gömlu vatni í með matarkrumlum sem flutu ofan á vatninu.

Ef ég kom of snemma á morgnana, sem ég stundum gerði, uppgötvaði ég að glasið var geymslustaður tannanna hennar á meðan hún svaf. Einnig var þarna á borðinu gömul og slitin sálmabók. Þetta voru í raun einu persónulegu hlutirnir inni í húsinu hennar.

Í húsinu var lítill eldhúskrókur, með einum skáp sem var áfastur veggnum. Það var vaskur á skápnum og  einn efriskápur. Ég sá hana lítið nota þetta borð og vaskinn, nema einu sinni þegar hún lagaði mat fyrir kettlingana sína.

Sólveig hafði veitt mús í gildru og músina skar hún í smá bita fyrir kettlingana, til að auðveldara væri fyrir þessi grey að borða kjötið.

Ég sá Sólveigu aldrei elda mat fyrir sjálfa sig, enda fékk hún mat á disk frá nágrönnum sínum, sem eins og áður sagði voru afi minn og amma.

Ég þekkti ekki sögu Sólveigar áður en hún flutti í bæinn, eða hvort hún alltaf bjó í bænum. Hún var bara konan með kisurnar sem var öðruvísi en aðrir og lifði lífi sínu með kisunum sínum án svo mikilla afskipta við aðra.

Einn daginn ákvað ég að venju að leggja leið mína til Sólveigar. Ég gerði eins og ég alltaf gerði, gek bara inn án þess að banka. Ég kallaði nafnið hennar á meðan ég fór úr úlpunni og stígvélum. Það kom ekkert svar og ég upplifið óvenjulega þögn í húsinu, þögn sem ég ekki hafði heyrt áður

Ég gekk frá anddyrinu í gegnum eldhúskrókinn og inn í herbergið. Þar var ekkert ! Engar kisur, engin Sólveig!  Allt lá eins og vanalega þegar ég kom snemma á morgnana, einnig tennurnar í glasinu voru þarna, en ekki Sólveig og engar kisur eða kettlingar.

Ég settist á rúmið hennar og skoðaði mig um. Allt var gamalt og slitið, vel notað og  nýtt til hins ýtrasta. Ég stóð upp af rúminu og gekk fram í anddyrið. Ég klæddi mig í skóna og úlpuna og gekk inn í hrap eins og við kölluðum það svæði sem Sólveig gamla vanalega gekk um þegar hún kallaði á kisurnar sínar. Ég gekk um og kallaði nafnið hennar, ekkert svar. Ég heyrði hvergi óminn af kallinu hennar til kisanna sinna, ég heyrði óminn aldrei aftur á þessum stað á þessum tíma.

Það var eins og fjallið hefði gleypt hana og allar kisurnar hennar. Það liðu dagar og það liðu ár. Það sást aldrei til ferða hannar aftur og kisurnar hennar voru horfnar líka.

Húsið hennar var rifið niður, og amma og afi byggðu í staðin fína stofu við húsið sitt og lítið herbergi sem við notuðum til að hlusta á útvarpsöguna í útvarpinu.

Ég varð eldri og flutti  burtu frá þorpinu. Fyrst flutti ég til Reykjavíkur svo erlendis.

Ég flutti í þorp úti á landi hérna í þessum framandi stað Ég flutti í gamalt hús með stórum garði. Nokkrum dögum, ekki mörgum uppgötvaði ég svolítið þegar ég var að sýsla í bakgarðinum mínum. Ég sá að innarlega í bakgarðinum var lítið hús, í húsinu býr eldri kona með kisunum sínum. Kannski hundrað, eða kannski þúsund, ég, veit það ekki því ég hef aldrei talið þær.

Hún er svolítið yngri núna, en hún var þá, kannski 65 ára eða 70 ára, ég hef aldrei spurt hana. Hún varð ánægð að sjá mig aftur og vildi heyra allt um það sem hafði gerst hjá mér síðan síðast.  Hún er ennþá með langa fléttu í hárinu sínu og hárið er ennþá þunnt eins og áður. En núna er hárið ekki svo grátt. Kannski grá hár hér og þar en voða lítið. Hún er öðruvísi klædd núna en áður. Núna er hún í allavega fötum í hinum og þessum litum  og blandar öllu eins og barn sem vil leika sér með alla liti heimsins og hefur loksins tækifæri til þess núna

Hún er þó ennþá með gleraugu eins og áður en aðeins öðruvísi formuð. Hún virkar hrein en þegar maður andar að sér lyktinni hennar var lyktin rykug og gömul, án nokkurs sápu ilms Hún heitir núna Else Marie

Hún gengur um bæinn og kallar á kisurnar sínar með dóttur mína sér við hönd. Else Marie kallar einn tón eftir annan sem bergmálar í bænum. img_3596.jpg KKKKkkkkkiiiiiiiiiissssssssssKissssssskiiiiiiisssssssss

Else Marie á heima í litlu húsi í bakgarðinum okkar. Húsið hennar er meira innréttað fyrir kisurnar hennar en fyrir manneskju að búa í. Við förum reglulega með mat á disk yfir til hennar eins og afi og amma gerðu í gamla daga, þó ekki á hverjum degi eins og þau gerðu, en eins oft og við getum.

Else Marie elskar kisurnar sínar, meira en allt annað, hún vil allt fyrir kisurnar sínar gera sem henni ekki tókst áður, á öðrum stað á öðrum tíma. Hún passar þær fyrir öllu því sem gæti skaða þær. Hún passar þær svo vel að margar þeirra fá aldrei að fara út, sumar eru í bandi í garðinum hennar en þær sem eru lausar eru þær sem hún gengur um og kallar á með dóttur mína sér við hönd.

Hún hefur beðið mig um það, að þegar þar að kemur og hennar tími hér er liðin og tími til að fara annað. Að  ég passi kisurnar hennar fyrir hana og sjái fyrir því að ekki komi neinn þegar hún er farinn og setji kisurnar hennar í poka og hendi út í sjó eins og svo oft gerist þegar fólk veit ekki betur svoleiðis segir hún með sorg í augunum.

Hverjum dytti það í hug , segi ég með hryllingi. En hún segist hafa minningu frá öðrum stað á öðrum tíma þar sem lausn bæjarbúa var sú, þegar hennar tími var komin að taka hundrað kisur, kannski þúsund. Setja þær í stóran poka og henda þeim út í  brimið og láta öldurnar um að klára það verk sem þeir sjálfir áttu að gera en höfðu ekki kjarkinn til þess. Hafið gerir verkið á þeim tíma sem það nú getur tekið að klára svona erfitt og sorglegt verk með skelfinguna hljóma úr brúnum poka .

Ég skil ekki alveg minninguna , en hún kemur frá einhverjum stað frá einhverjum tíma og mér er fært að breyta þeirri minningu í annað og betra, núna þegar ég er fullorðin. Svo vil verða.

Þetta er minning, blandað með hinni innri minningu sem vil minnast öðruvísi 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk fyrir það. Þetta fékk mig til að hugsa um Klöru, gömlu konuna sem átti heima á Njálsgötunni kring um 1975-6. Ég var nýbyrjaður í skóla og fór oft í heimsókn til hennar þegar ég var búinn. Hef ekki hugmynd af hverju eða hvernig ég þekkti hana. Hún var bara gömul kona í hverfinu. Man ekkert hvað okkur fór á milli. Man bara að það var gott að koma til hennar og fá möndluköku með mjólk.

Villi Asgeirsson, 20.2.2010 kl. 09:15

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 21.2.2010 kl. 16:08

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ert frábær og tekur mann inn í heim sem er rétt við hliðina á okkar, og leyfir okkur að dvelja þar um stund, þar getur allt gerst og ég fer á flug.  Yndisleg frásögn takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.2.2010 kl. 09:27

4 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

- kæra Steina, þakka þér fyrir að deila þessum margvíddarminningum.

Meiriháttar!

Vilborg Eggertsdóttir, 23.2.2010 kl. 22:57

5 Smámynd: Karl Tómasson

Ljós, ljós, ljós og aftur ljós til þín.

Eins og ég sagði einu sinni stjörnuljós og til þeirra kemur þú manni auðveldlega.

Takk fyrir allt, sjáumst í Köpen næsta sumar.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm og fjölskyldu úr Mosó.

Karl Tómasson, 3.3.2010 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband