Færsluflokkur: Mannréttindi

Ég fékk hjálp frá englum.

Ég skrifaði þessa færslu á facebook prófílinn minn í gær, bæti smá við hérna.

Í kvöld á meðan ég var að slappast og horfa á sjónvarpið og slappast meira, kom minning til mín sem vildi láta muna sig, ég hef ekki hugsað þessa minningu í ótrúlega mörg ár, en einhverra hluta vegna kom hún upp aftur og aftur og ég ákvað að deila henni hér, hvers vegna veit ég ekki, en sú hugsun kom og ég fylgi henni.

Þegar ég var eitthvað í kringum 16 ára aldurinn, bjó ég tímabundið alein í Breiðholtinu, nánar tiltekið í Seljahverfinu. Ég hafði vin í heimsókn og við sátum lengi og spjölluðum heima hjá mér, eitthvað fram eftir nóttu. Hann bjó í Fellunum, stóru gráu blokkunum, sem ég man ekki hvað heita.

Ég ákvað að labba með honum heim til hans, til að halda áfram að spjalla, sem ég og gerði. Það var engin á ferli, ekki einu sinni bílar. Ég gekk með honum að dyrunum að innganginum heima hjá honum og kvöddumst við þar.

Ég gekk svo í áttina heim, og er næstum því komin að bensínstöðinni sem er rétt við Breiðholtsbrautina, nánar tiltekið á eyjunni á milli Þessara gráu háu bygginganna og Breiðholtsbrautar.

Ég sé svo mann sem stendur í skýlinu, það er kveikt á ljósum, í skýlinu og þess vegna sé ég hann greinilega, ég sé stóran og mikinn mann í stórri úlpu með hettu, standandi með hendur í vösum, með mjög stóran maga. Það var einkennilegt að sjá mann standa þarna, á mannlausu svæðinu, enginn annar á ferli, kannski að bíða eftir bráð. Ég sá hann, hann sá mig og hann sá að ég sá hann. Ég man að ég varð pínu óörugg, pínulítið hrædd, en gekk þó áfram, því ég þurfti að fara fram hjá honum til að komast heim til mín,. Þá fór maðurinn að ganga til móts við mig, ég varð hrædd og sneri við.

Ég fór í áttina að innganginum, þar sem vinur minn bjó. Ég sá að maðurinn nú hljóp, svo ég hljóp líka. Ég kom inn í innganginn, og mig minnir að það hafi verið dyrasímar og ég hringdi á þá alla, en ég man það ekki alveg hvað gerðist. Ég komst allavega enhvernveginn inn.

Ég man að ég hljóp tröppur og heyrði hann mása á eftir mér, alltaf, ég hringdi á hverja dyrabjölluna á fætur annarri, kallaði á hjálp og bankaði á dyr, engin opnaði fyrir mér.

Ég vissi ekki á hvaða hæð vinur minn bjó, eða hvað dyrabjalla var heima hjá honum, svo ég gat ekki fundið hvar hann bjó. Maðurinn var alltaf á hælunum á mér og ég heyrði másið og lætin í honum.

Ég var orðin algerlega örvæntingarfull og uppgefinn og var upp á einhverri hæð, engin opnaði eða svaraði bönkunum mínum eða hringinum, eða hrópum. Ég heyrði svo að maðurinn var alveg að koma að mér, ég stóð í lyftuskotinu, alveg þétt að lyftudyrunum í von um að hann hlypi framhjá mér, eða eitthvað.

Í því að maðurinn kemur fyrir hornið, alveg við mig, opnast lyftudyrnar og út kemur vinur minn, ég hef aldrei upplifað eins mikinn léttir á minni ævi, eins og þegar ég sá hann. Ég heyrði strax að maðurinn lét sig hverfa og hurðin skelltist að baki honum.

 Ég hafði stoppað á hæðinni þar sem vinur minn átti heima, alveg við dyrnar á íbúðinni hans.

Vinur minn sagði svo við mig, að hann fyrir algera "tilviljun" hafi kíkt út um gluggann og séð hvað gerðist, svo hann flýtti sér niður til að reyna að hjálpa mér.

Ég hafði svo fyrir "tilviljun" gefist upp á hæðinni hans og hann kom út akkúrat á rétta augnablikinu, þegar hann kom út um lyftudyrnar. Hann var líka í sjokki, fór inn og fór í allt of lítinn rauðan leðurjakka af litlu systur sinni og fylgdi mér svo heim.

Ég held ég hafi aldrei séð þennan vin minn eftir þennan atburð. Enda gerðust margir aðrir hlutir í lífi mínu eftir þetta sem gerðu að ég hef í raun ekki munað þessa minningu í öll þessi ár.

Þegar ég kom heim í íbúðina sem ég bjó í, var ég alein og ég man að ég hristist og skalf. Ég fékk mér vatna að drekka, settist við rúmið mitt, með glasið og misst það á náttborðið, sem var með glerplötu, ég varð alveg miður mín yfir að hafa eyðilagt glerplötuna, og fyllti það í raun meira heldur en þessi atburður með manninn á Breiðholtsbrautinni.

 Ég held að það hafi í raun verið að því að það var auðveldara fyrir mig að vinna úr því með glerplötuna, hitt var of mikill ótti fyrir mig til að takast á við og skilja.

Ég hef verið að hugsa um þetta frá því í gær, eftir að ég skrifaði þetta og ég sé að þessi ótti hefur sett sín spor. Ég er mjög hrædd að vera ein á kvöldin og á nóttunni, í borgum, sérstaklega í Reykjavík, myndi aldrei nokkur tíma gera það. Sama er í öðrum borgum, ef það eru auð svæði. Ég fæ líka hroll við að hugsa um Reykjavík, á nóttunni, í kulda og dimmu, þegar það er ekki snjór, það er fyrir mér agalega óhuggulegt. Enda var þetta um vetur, í kulda og dimmu, með engan snjó. Ég hef aldrei tengt þessa hluti sama áður. 

Þegar ég skoða þessa minningu, þá kemur tvennt upp í hugann minn: það hefur svo sannarlega verið haldið verndarhendi yfir mér, ekki af mannfólkinu sem bjó í íbúðunum sem ég bankaði hjá og hrópaði eftir hjálp, en af þeim sem passa mig á hinum innri plönum, Englunum mínum, það eru of margar "tilviljanir" sem gerast þessa nótt, til að geta kallað það tilviljanir.
Ég er þakklát fyrir Englana mína.


Hafði Einstein ADHD

Vorið er loksins að koma hérna í Danmörku og smá léttist lundin sem betur fer, fyrir mig og umhverfi mitt. Núna væri tildæmis tilvalið að hengja út þvott, en ég nenni því eiginlega ekki, vil heldur nota tímann hérna á laugardegi og blogga smá. Það er svo langt síðan síðast. Ég hef oft viljað setjast niður og skrifa, en hef haft svo mikið að gera, bæði í vinnunni minni  og öðru.

Það er mikið að gera í vinnunni, sem er bara gott, því að á meðan missi ég ekki tíma sem væri erfitt fyrir þá sem hafa sitt viðurværi af kennslu í listaskólanum.

Á tímabili leit þetta mjög illa út, sveitarfélögin eru að spara og spara og það þýddi að þeir vildu ekki borga fyrir skólagöngu sumra sem höfðu verið hjá okkur lengi. En núna er eins og eitthvað sé að birta til, sem er okkur öllum, nemendum og kennurum í hag.

Ég sé þróun í heiminum sem vekur hjá mér bæði ugg og undrun.

Haft var samband við mig vegna hóps af ungu fólki sem þurfti að skaffa skólapláss, þetta voru á milli 20 og 30 nemendur og öll voru frá einu sveitarfélagi. Við vorum beðin að taka að okkur kennslu þessa unga fólks. Öll voru þau með greininguna ADHD.

Ég upplifi mjög mikla fjölgun á ungu fólki með greininguna ADHD og ég finn að einhver innri áhugi hjá mér er vaknaður fyrir þessum hópi einstaklinga.

Einhversstaðar stendur um ADHD: ”ADHD er skammstöfun fyrir  Attention deficit hyperactivity disorder/ ofvirkni, truflanir á athygli, virkni og hvatvísi. ADHD truflar daglega starfsemi einstaklingsins á mörgum sviðum og getur einnig haft neikvæð áhrif á félagsleg tengsl þeirra og sjálfsvirðingu” og margt margt fleyra er að finna um þessa greiningu.

Ég skil að sjálfsögðu vel létti foreldra þegar greining fæst hjá barninu þeirra eftir oft áralanga baráttu fyrir aðstoð og skilning umhverfisins á barninu. Skilning bæði frá skólakerfi og öðrum sem í kringum barnið eru.

En ég get ekki annað en velt fyrir mér þeirri spurningu, að eitthvað sé mikið að í öllu þessu dæmi. Fyrir mér er eitthvað sem ekki passar og það er þess vegna sem ég undanfarið hef haft miklar vangaveltur um þessi mál!

Við höfum í raun ótrúlegan fjölda af börnum í heiminum sem eru á lyfjum og þar af leiðandi eru þau ekki fullkomlega þau sjálf, sem gerir að þau missa úr ákveðna þróun í þeirra eigin þroska og vakningu sem manneskja.

Ég get ekki varist þeirri hugsun að ef þróuninn heldur svona áfram, þá eigum við ekki bjarta framtíð sem mannkyn hérna á jörðu.

Ég hugsa þess vegna með sjálfri mér, er önnur leið? Er eina leiðin til að barnið geti passað inn í samfélagið að gefa því lyf/rítalín, svo það sé á einhvern hátt ekki það sjálft, en þannig að við sem samfélag eigum auðveldara með að láta það passa inn í þá ramma sem við höfum búið til, sem eru þeir rammar sem við öll eigum að lifa eftir og passa inn í hversu ólík sem við erum og hversu ólíkar sem okkar þarfir eru.

Er það barnið sem er til vandræða, eða er það samfélagið sem er til vandræða?

Ég þekki marga með greininguna ADHD, bæði fullorðna og börn. Þeir sem ég þekki, sem eru fullorðnir hafa ekki fengið lyf í sínum uppvexti, en lifað í þjóðfélagi sem var ekki eins og þjóðfélagið er í dag. Það voru minni barnaheimili, það voru oft minni samfélög, það var meiri nærvera á milli fólks, það voru minni skólar, það voru færri í bekkjum, það var pláss fyrir að vera sá sem maður var, hvernig sem maður var. Þetta fólk lifir allt ágætis lífi eins og annað fólk.  Það hefur fundið sínar eigin leiðir til að takast á við þá kaos sem er í heiminum í dag og í kringum þau. Þó þekki ég dæmi þar sem fullorðnir með ADHD fá rítalín, hreinlega til þess að geta lifað eftir þeim kröfum, kössum og formum sem samfélagið hefur í dag, þó með sorg yfir að geta ekki passað inn "eins og aðrir" .Mjög margt af þessu fólki er skapandi í sínu lífi sem er þeirra leið til að halda einbeitingu á einhverju. Það að skapa getur verið fyrir marga leið til að halda sér í sér.

Kröfurnar frá samfélaginu til bæði foreldra og barna voru ekki eins og kröfurnar eru í dag.

Ég las um daginn mjög áhugaverða grein um rannsókn sem gerð var við University of Michigan and Eckerd College

 Þessi rannsókn sýndi fram á að þeir sem voru með greininguna ADHD reyndust hafa mun meiri sköpunargáfu en sá hópur sem ekki voru með greininguna ADHD.

Að lesa þessa grein gladdi mig mjög, því þessu hef ég verið að halda fram á fundi eftir fundi með yfirmönnum sérskóla hérna í DK.

Þeir sem eru með greininguna ADHD eru mjög ”viðkvæmir”  orð sem ég ekki er alveg sátt við. Við gætum kannski notað íslenska orðið að þetta séu mjög "næmir" einstaklingar. Danska orðið er sensitiv og á ensku sensitive ! Það að sansa mjög sterkt/upplifa mjög sterkt.

Sem myndlistamaður, kennari og manneskja er þetta fyrir mér mikill kostur, mannkostir sem svo einkennilega er orðið stórt vandamál sem þarf að gefa lyf við.

Eitt sem einnig hefur vakið athygli mína eru rannsóknir sem gerðar voru í Hollandi að mig minnir. Þar kom fram að börn með greininguna ADHD sem fengu útvalin mat án sykurs og ýmissa annarra óhollra efna voru á stuttum tíma án ADHD einkenna. Þetta segir bara það sem ég hef haldið fram, þessi börn eru of næm/sensitiv fyrir þeirri óhollustu sem oft á tíðum eru í matvælum. Sem er bara en ein sönnunin fyrir því að þarna eru á ferðinni einstaklingar sem eru á einhvern hátt á hærri/fínni eða annarri tíðni en margir aðrir og eru þar af leiðandi viðkvæmari fyrir þeim hávaða og úrgangi sem við vitum að er að kaffæra okkur og Jörðina okkar.

Af hverju er þetta svona? Jú við höfum ekki pláss og við höfum ekki tíma, fyrir það sem er öðruvísi, við höfum ekki pláss og tíma til að sitja aðeins lengur með hverjum og einum sem þarf á aðeins meiri hjálp að halda til að geta haldið einbeitingunni að verkefnum sem vekja ekki áhuga. Við höfum ekki möguleika á að einstaklingar getir setið aðeins afsíðis svo umhverfishljóð ekki trufli þá einbeitingu sem þarf.

Ég veit að málin eru misjöfn, en er ekki komin tími til að við stoppum aðeins og hugsum okkar gang í þessum málum. Hvað kostar það samfélagið þegar svona margir einstaklingar fá ritalín, eða aðrar pillur.

Hvað kostar það samfélagið þegar foreldrar ekki ráða við verkefnið einir og sem oft á tíðum  kostar þau  vinnutap og stundum langtímaveikindi.

 Við skulum heldur ekki gleyma að mjög oft enda þessi börn í vondum málum, eiturlyfjum, og glæpum. Hvað kostar það samfélagið og okkur sem mannkyn að missa þessi börn.

Væri ekki betra að byrgja brunninn áður en barnið er dottið í hann?

Væri ekki ráð að breyta kennsluháttum hjá þessum börnum, einbeita sér að því sem þau geta, en ekki því sem þau geta ekki. Hvað með að setja metnað í listsköpun, hugmyndasköpun og fleira sem nú er vitað að gerir þau sterkari til að vaxa sem manneskjur.

Ég veit og hef séð daglega í mínu starfi sem skólastjóri í myndlistarskóla að þegar nemendurnir ráða við þau verkefni sem lögð eru fyrir þau, gerast kraftaverk. Þegar þau finna að þau eru sterk og skapandi í sínu eigin orkuflæði þá gerast kraftaverk.

Ég er ekki að tala um eitt og eitt dæmi frá skólanum mínum, nei ég er að tala um hvern og einn einasta af þeim nemendum sem við höfum.

Við þurfum með þau börn sem á stuðningi þurfa að halda, að finna aðra leið, leið sem er skapandi og getur breist og þróast út frá þeim þörfum sem hvert barn hefur. Jú ég veit að það kemur til með að kosta, en ég held að þegar allar hliðar málsins eru skoðaðar þá kostar þetta ekki meira en sú leið sem er valin núna.

Þetta gerir kröfur til kennara að vera sjálfir opnir og skapandi og það hlýtur að vera verkefni sem allir metnaðarfullir kennarar vilja taka þátt í.

Ég get ekki annað en hugsað um, hverjir eru það sem græða á því formi sem við höfum í dag, og eins og ég sé það, þá eru það lyfjaframleiðendur og þeir sem eru á þeirra vegum.

Stundum í þessum hugsunum mínum fyllist ég sorg yfir öllum þeim einstaklingum sem við missum, vegna þess að við orkum þau ekki. Við orkum ekki að þurfa að takast á við það sem er krefjandi, við orkum ekki að takast á við það sem krefur meira en það venjulega. Það er í raun orðið svo slæmt að við orkum ekki sorgina, við viljum líka setja lyf á hana til að þurfa ekki að takast á við það fólk sem er í sorg og þar af leiðandi er þeim boðið lyf við sorginni.

Alla tíð í mankynssögunni hafa verið litríkar manneskjur sem hafa brotið ramma samtíðar sinnar. Persónur sem hafa hugsað út fyrir þá ramma sem fyrir voru, sem hafa verið brjálaðir, skrítnir furðufuglar að samtímans mati.  Þetta fólk fékk ekki lyf, en var með til að skapa söguna og setja sitt spor á þróun mannkyns. Þetta fólk hafði það ekki alltaf auðvelt, en var mjög mikilvægt fyrir þróun á hinum ýmsu sviðum. Mér dettur í hug, Einstein, Vincent Van Gogh, H.C. Andersen, Beethoven og fleiri og fleiri.

 

Það eru núna tímar sparaðar í heiminum, það veit ég héðan frá Danmörku og því sem ég heyri og les frá Íslandi. En er ekki tími til þess einmitt núna að skoða hvað er það að spara, hvar er í raun stærsti kostnaðurinn. Hvað kosta lyf í dag fyrir samfélagið ? Er til önnur leið sem er með til að hjálpa einstaklingnum til að verða heill í sér, sem er betri en lyfjaleiðin, fangelsisvist, glæpir, eiturlyf, einelti.

Er hægt að þjálfa upp einbeitingu hjá börnum með ADHD ?

Ef svo er Hvernig?

það er hægt, ég trúi og veit að það er hægt að þjálfa upp einbeitingarkunnáttu.

Hvað gerist ekki þegar við erum að skapa, eftir okkar eigin vilja og hugmynd, er það ekki einbeiting. Hvað ef sköpun væri sett efst á kennsluskránna hjá börnum með ADHD eða aðrir sem eiga við svipuð vandamál að stríða, sem gerir að einbeiting er erfið?

Hvað með einfaldar hugleiðsluæfingar, þær veit ég að hjálpa mikið við að halda og þjálfa einbeitingu?

Gerum okkur nú þann greiða að setja spurningarmerki við þá þróun sem er í dag og skoðum aðrar leiðir, hugsum samfélagið upp á nýtt, fyrir okkur og börnin okkar.

Kærleikur til ykkar kæra fólk! 

 

 

 

 

 


Fyrirgefningin

_mg_7914.jpg

Hnútar í tilverunni geta verið óþægilegir ef maður ekki notar augnablik hér og þar til að leysa þá.

Það getur verið misjafnlega erfitt að leysa óþægindahnúta, vegna misjafna orsaka þeirra. Ég hef nokkra óþægindahnúta sem ég á eftir að leysa til að lífið fái að flæða án þess að þær tilfinninga blokkerinar sem myndast við þessa hnúta stoppi eðlilegt flæði  í lífinu.

Einn hnútur hefur þó verið erfiðari en margir aðrir, ekki allir aðrir, en margir.

Ekki það að þessi hnútur sé eitthvað verri en aðrir sem ég haf verið með til að hnýta um ævina, en vegna þess að ég veit ekki hvers vegna sá óþægindahnútur kom, gerir hann erfiðari fyrir mig að leysa.

Það gerðist bara einn daginn, eða yfir langan tíma, ég veit það ekki.

Ég hef aldrei fengið skýringu á því sem gerðist, svo það hefur ekki verið mögulegt fyrir mig að leysa þennan hnút, að ég hef haldið þar til nú.

En ég geri mér grein fyrir því núna eftir miklar vangaveltur í nokkurn tíma, að það þarf ekki tvo til að leysa hnút, ég get alveg gert það ein, án þess að báðir aðilar séu með í þeim ferli.

Ég vil segja ykkur frá aðdraganda þessa óþægindahnúts, eða svo vel sem ég nú get, því eins og ég skrifaði áður, þá veit ég ekki hvað gerðist.

Fyrir nokkrum árum, sennilega sirka 13 árum átti ég mjög nána vinkonu, sem ég var mikið með og þótti óskaplega vænt um. Við áttum margar góðar stundir og ég held ég hafi aldrei hlegið eins mikið með neinum eins og henni. Við höfðum sama húmor og margt annað gerði það að við náðum  svo vel saman.

Við eignuðumst börn á sama tíma, sem hefði getað  verið til að færa okkur nær hvor annarri, en þetta eitthvað gerðist!

Við fórum til Þýskalands saman með börnin okkar, við tvær og litlu börnin okkar, með lest, kerrur og bakpoka. Við vorum saman eina helgi ásamt öðru fólki, og það var gaman. En þetta eitthvað gerðist, sem ég aldrei hef fengið skýringu á!

Á leiðinni heim frá Þýskalandi sagði hún ekki orð við mig.

Hún hringdi í mig nokkrum dögum seinna og bað mig að senda til hennar bók sem ég hafði lánað hjá henni.

Eitthvað gerðist sem ég fékk aldrei skýringu á og hún vinkona mín hvarf !

Eftir sat þessi hnútur í maganum sem var svo óþægilegur í mörg ár.

Ef ég hugsaði til hennar fann ég hnútinn í maganum og óþægindi yfir því að ekki vita.

Sagði ég eitthvað vitlaust, særði ég hana, var ég heimsk og allar þær hugsanir sem manni dettur í hug komu í hugann aftur og aftur til að skilja orsök.

Það var erfitt fyrir mig að útskýra fyrir öðrum sem þekktu okkur, hvað hafði gerst, því ég hreinlega vissi það ekki.

Ég reyndi í langan, langan tíma að skilja hvernig þessi hlutur sem ég hlýt að hafa sagt eða gert, gat verið svo alvarlegur að hún valdi að loka á vinskap okkar, í staðin fyrir að reyna að ræða það sem gerðist og finna leið til að halda vinskapnum áfram.

En þetta var sú leið sem hún valdi og þar af leiðandi hlýtur það sem ég gerði eða sagði að hafa verið stórt og ósættanlegt. 

Þessi hnútur nagaði mig og minnti á sig alltaf af og til í öll þessi ár, sennilega vegna þess að mér fannst ég of vanmáttug til að leysa hann ein, fannst við þurfa að gera það tvær.

Fyrir  nokkrum vikum, sá ég að hún var á facebook og ég ákvað að athuga hvort hún vildi tengjast aftur og ég addaði henni.

En hún hafði ekki fyrirgefið mér.

Mér leið ekki vel í nokkra daga og hugsaði mikið um hvernig ég gæti leyst þennan óþægindahnút svo ég gæti sleppt þessu .

Eftir einhvern tíma þar sem þetta hafði legið á huga mínum, gerði ég mér svo grein fyrir að hnúturinn í mér er eingöngu minn hnútur og hefur í raun ekkert með hana að gera.

Ég ein get gert eitthvað í þessum hnút !

Hún valdi að hverfa úr lífi mínu án útskýringar á því hvers vegna og það var hennar val !

Ef það val hefur verið með til að byggja upp óöryggi, reiði, særindi, vanmátt og fullt af öðrum tilfinningum í mér, eru það eingöngu mínar tilfinningar mitt vandamál sem hafa í raun ekkert með hana að gera og eingöngu ég verð að taka ábyrgð á.

Ég saknaði hennar, en allar hinar tilfinningarnar voru neikvæðar sem ég ein hef ábyrgð á og ég ein get losað í burtu úr mér.

Þannig að í raun allt ósköp einfalt og það er FYRIRGEFNING.

Ég þarf bara að fyrirgefa og sleppa. Hún þarf ekkert að vera með í því. Hún þarf ekki að fyrirgefa mér, en ég vil fyrirgefa henni.

Hennar reiði til mín, er hennar ábyrgð og mín sorg og reiði til hennar er mín ábyrgð.

Núna er hnúturinn farinn, það þarf svo lítið til !

Við erum svo oft upptekinn af því hvað aðrir gera og segja í öllum mögulegum og ómögulegum málum. Erum reið við allt og alla og notum ótrúlegan tíma í þess háttar neikvæðni.  En þetta er val hvers og eins. Sumir velja að nota tímann í reiði út í heiminn, en það er þeirra mál. Það að ég hafi notað 13 ár í að halda þessum tilfinningum opnum í mér, er mitt mál og mitt að gera eitthvað við.

Þetta er í raun er svo auðvelt allt saman!

Það þarf að fyrirgefa sjálfum sér fyrir að vera ekki fullkomin, að segja stundum hluti sem ekki eru góðir og gera vitleysur, bara það að vera manneskja. Um leið og við getum fyrirgefið sjálfum okkur, getum við fyrirgefið öðrum.  Ég er tilbúinn að fyrirgefa sjálfri mér, hvað svo sem ég hef gert eða sagt sem varð þess valdandi að hún hvarf.  Ég er líka tilbúinn að fyrirgefa henni að hafa verið svo reið út í mig að fyrir hana var þetta eina lausnin!

Núna er þessi hnútur farinn, og það er léttir, þar til ég finn annan óþægindahnút til að leysa.

Munurinn er núna sá að ég veit að ég get gert þetta ein, án hins aðilans. Ég þarf bara að fyrirgefa mér, ég er ekki fullkominn, en ég er eins fullkominn og ég get verið hér og nú. Ég eins og allir aðrir geri alltaf það besta sem ég get, þannig er það bara !

Þeir árekstrar sem ég lendi í á lífsleiðinni eru með til að gera mig að betri manneskju ef ég vel að læra eitthvað á því og ef ég vel fyrirgefninguna og Kærleikann fram yfir reiðina og hatrið.


Ég finn mikla þörf fyrir að benda á hana vinkonu mína Ragnhildur Vigfúsdóttir sem bíður krafta sína til stjórnlagaþings hún hefur Auðkennisnúmer: 8089

48912_1428838067_4147817_n.jpgÞað er ekki oft sem ég blogga. Margar ástæður eru fyrir því en aðallega er nú tímaleysi  ástæðan fyrir fjarveru minni á bloggheimi.

Þó kem ég alltaf inn af og til, sérstaklega ef mér liggur eitthvað á hjarta og ef eitthvað er sem ég gjarna vil deila með öðrum og finnst koma öðrum við.

Núna er ástæðan sú að framundan eru stjórnlagaþingskosningar.

Ég á ekki heima á Íslandi og hef ekki gert í mörg ár. Ég fylgist þó vel með öllu sem er að gerast ”heima” og er mjög umhugað um land mitt og þjóð.

Ég frétti að það væru yfir 500 manns að bjóða krafta sína inn á stjórnlagaþingið, það er að mínu mati alveg frábært hversu mikill áhugi það er fyrir að vera með til að hjálpa landinu úr þeirri baráttu sem er og koma með nýjar hugmyndir af stjórnarskrá.

 

Mörg dæmi eru um að þjóðir velji þessa leið til dæmis mótaði slíkt þing stjórnarskrá Bandaríkjanna árið 1776, þar sátu 55 fulltrúar allra fylkja Bandaríkjanna. Í Þýskalandi var sett á fót stjórnlagaþing sem samþykkti nýja stjórnarskrá fyrir Þýskaland árið 1949.  Einnig í Suður-Afríku starfaði slíkt þing við að móta nýja stjórnarskrá eftir að aðskilnaðarstefnan leið undir lok. í Austurríki kom einnig tillaga að nýrri stjórnarskrá en þar voru þær tillögur sem stjórnlagaþingið kom fram til ekki samþykktar. Í Noregi árið 1814 og svo ég ekki sleppi heimalandinu mínu á þessari stundu Danmörk 1849.

 

Eitt er þó sem gæti reynst erfitt þegar svona margir bjóða sig fram eins og núna gerist á Íslandi, það er hvernig er hægt að vita hverjir eru hæfir í þessi störf. Það hlýtur að valda áhyggjum hjá mörgum kjósendum, því hvert atkvæði er sem ég áður hef sagt, mjög mikilvægt.

 

Ég er ekki mikið í flokkapólitík, þó svo ég láti mig málið varða. Það sem skiptir máli fyrir mig er nefnilega fólkið sjálft sem er að vinna fyrir okkur, hversu trúverðugt það er og hvar liggja þeirra höfuðáherslur. Hvernig sjá þau heiminn skrúfaðan saman og svo það allra allra mikilvægasta ekki hvað þau segja, en hvernig þau lifa og gera. Orð eru svo oft hljóm eitt, það vitum við öll og alltof oft höfum við upplifað það hjá stjórnmálamönnum sem við kjósum og treystum.

 

Það er hægt að sjá svo margt þegar skoðað er lítið. Það er því mjög mikilvægt að við vöndum vel atkvæðið okkur og skoðum vel hvern vil viljum í þetta embætti til að verja hagsmuni okkar sem þjóð.

Hvað er mikilvægara fyrir hverja þjóð en það fólk sem á að semja nýja stjórnarskrá!

 

Stjórnarkrá er þjóðin, hvað hún stendur fyrir í heild sinni. Ef ég skoða út frá sjálfri mér hvern ég myndi velja í þetta sæti, þá er það manneskja sem ég get treyst, manneskja sem hefur lífsreynslu, sem hefur lifað sársauka, gleði, upplifað heiminn, þar að segja víðsýni en man þó eftir rótum sínum, Berst fyrir þeim sem minna mega sín, ekki bara í eigin húsi, eigin garði, eigin bæ og eigin landi, en líka út fyrir það, til þeirra sem þurfa aðstoð langt frá til að eiga möguleika á einhverri framtíð, það gæti líka flokkast undir víðsýni. Þessi manneskja þarf líka að hafa bein í nefinu, þar að segja hafa kjark, standa fast á sínu, en vera tilbúinn að flytja skoðun sína ef annað betra kemur í staðin.

 

Það eru ekki litlar kröfur sem ég hef og kannski hugsar einhver ” engin getur uppfyllt allt þetta” !

 

En ég vil segja ykkur sögu sem gæti verið með til að sýna að það er til fólk sem inniber allt þetta og ábyggilega ekki bara ein manneskja, en margir. Ég vil segja ykkur frá einni sem ég veit alveg djúpt inn í hjarta mínu að hún hefur alla þessa eiginleika og ég vil reyna eftir minni bestu getu að útskýra hvers vegna án þess þó að fara í of mikil smáatriði sem ekki gerir neinum gott.

 

Ég ólst upp í Vík í Mýrdal. Þar átti ég mína bestu vinkonu sem ég elskaði mjög mikið og varði öllum mínum stundum með. Hún er kölluð Dússa en heitir réttu nafni Ragnhildur !

 

Dússa var ekki eins og flestir aðrir, þá meina ég ekki að hún hafi verið skrítin eða eitthvað svoleiðis, hún var bara ekki eins og meðalmaðurinn. Það er ekkert að því að vera meðalmaðurinn en hún skar sig bara úr hópnum! Ég held að það hafi ekki alltaf verið auðvelt fyrir hana, þó svo að við höfum aldrei talað um það. Ég held að hún hafi oft haft það erfitt og hennar heitasta ósk hafi kannski verið sú að vera eins og allir aðrir. En hún var bara öðruvísi og það sást í svo mörgu.

 

Hún hafði tildæmis strax sem barn svo sterkan vilja að mörgum þótti nóg um, sem barn var hún sterk, of sterk fyrir marga, hún var tilfinningarík, of tilfinningarík fyrir marga, hún hafði sterkar skoðanir, of sterkar  skoðanir fyrir marga, hún var ekki meðalmanneskja, sem var erfitt fyrir marga. Hún var alltaf sú sem hún var, án þess að reyna að vera neitt annað.

 

Allt það sem ég hef talið upp er eitthvað sem við öll vitum að eru kostir sem allir gjarna vilja hafa, en jafnframt er okkur ljóst að stærsti hópurinn nýtur ekki þessara mannkosta. En við sem manneskjur eigum oft erfitt með þá sem skera sig úr hópnum þó svo að um mannkosti sé að ræða.

 

Hún hafði sem barn mikla pólitíska réttlætiskennd, get ég alveg leyft mér að fullyrða! Bara ef ég hugsa um barbi dúkku leikina okkar, þetta var alltaf há pólitískt sem er ansi skondið að hugsa um núna sem fullorðin.

 

Þegar ég hugsa um Dússu sem barn fæ ég þörf fyrir, sem fullorðin að faðma hana og þakka henni fyrir hver hún er og hver hún þorði að vera, því það hefur verið mér veganesti í gegnum mitt líf. 

 

Við fórum ólíkar leiðir í lífinu. Ég fór brekkurnar upp og niður, valdi erfiðu leiðina. Hún fór aðra leið, ekki af því að það hafi verið auðveldari leið en það voru önnur hlutverk sem biðu hennar en mín. Hún þurfti að fá annan lærdóm og lífsreynslu en ég þurfti.

 

Hún man eftir rótum sínum og vinum. Þar gæti ég skrifað margar blaðsíður því það eru svo mörg atvik sem koma upp í huga minn þar sem hún hefur staðið við hliðina á mér  og öðrum eins og klettur þegar ég hef verið í ólgusjó og fundist heimurinn vera að hrynja í kringum mig. ALLTAF hefur hún komið og stutt mig og stundum bara verið, sem var einmitt það sem ég þurfti mest á að halda á þeirri stundu.

 

Á rólyndistímum þegar lífið hefur verið ljúft og án stórra átaka erum við ekki svo mikið í sambandi, en í hvert sinn sem ég hef haft það erfitt, er hún komin. Þetta er að mínu mati ómetanlegir mannkostir.

 

Ég vil svo taka það fram að ég er ekki dugleg á þessu sviði, þetta er eitthvað sem ég vildi óska þegar ég lít til baka að ég hefði í mér sem manneskja, en þetta liggur bara ekki í mér sem einn af mínum kostum, eins og það gerir hjá henni, þetta er eitthvað sem ég þarf að læra og setja sem markmið, ef mér finnst þess þörf.

Ég nefni líka í upptalningunni: víðsýni og út yfir landsteinana.

 

Dússa hefur búið og verið á svo mörgum stöðum í heiminum ! Hún hefur þekkingu á rótum sínum og hún hefur þekkingu á öðrum menningarhópum, sem er mjög mikilvægur kostur þegar skoða á svo mikilvæga hluti sem stjórnarskrá. Að taka það besta úr fortíðinni og blanda  því með nútíðinni og framtíðinni er það sem gera þarf til að breyta og endurgera stjórnarskrá, þar tel ég hana vera fullkominn fulltrúi minn.

 

Hún man eftir bræðrum sínum og systrum um allan heim ! Þar vil ég segja ykkur alveg yndislegt dæmi, sem er dæmi um að skoða hvernig sá aðili er og lifir, sem þú kýst.

Þessi saga kemur örugglega annars aldrei fram til kjósanda, en ég vil að hún komi fram, því hún segir svo mikið.

Dússa og Hafliði giftu sig fyrir nokkrum árum. Þau höfðu verið saman í mörg ár, en þarna fannst þeim tími til komin að játast hvert öðru.

Við fengum að sjálfsögðu boðskort þar sem okkur var boðið til að gleðjast með þeim á þessum tímamótum. Í boðskortinu stóð að þau í staðin fyrir að fá gjafir vildu að lagður yrði peningur inn á bankareikning til ABC barna um allan heim. Ég hef oft hugsað um þetta og með mikilli virðingu og í raun þakklæti yfir að það skuli vera til svona fólk sem hugsar meira um þá sem ekkert eiga en sjálfan sig. Hugsið ykkur hvernig heimurinn væri ef fleiri hugsuðu og framkvæmdu í þessum anda.  

 

Ég undra mig svo oft yfir þegar ég er að skanna prófílinn hennar á facebook, hún er alltaf að vasast í öllum mögulegum góðgerðarstarfsemi.  Hvernig hefur hún tíma og orku til þess alls ?

Hún er í fullri  ábyrgðarmikilli vinnu, hún á tvær yndislegar dætur, hún er á allavega námskeiðum til að endurmennta sig og víkka sjóndeildarhringinn, hver er drifkrafturinn, hvert er stefnt.

En eins og allir vita sem þekkja mig, trúi ég að það sé meining með öllu sem við gerum, öllu sem við hugsum og það er alltaf eitthvað sem við erum að vinna að, þó við séum ekki alltaf meðvituð um hvað það er. 

Ég hef þá kenningu að allt frá barnsaldri hefur Dússu beðið verkefni sem nú er að fæðast og ef mín tilfinning er rétt, er þetta bara byrjunin á löngum ferli hennar innan pólitíkur og ég vona svo innilega að sú tilfinning reynst rétt, því hún hefur að mínu mati fyrir þá nýju framtíð sem við erum á leið inn í allt það til að bera til að gera góða hluti fyrir þjóðina.

Vinur vina sinna!

Mig langar að lokum að segja ykkur frá skemmtilegum hlut sem gerðist í ágúst. Ég hélt upp á 50 ára afmælið mitt með miklum stæl.  Mamma og pabbi og nokkrir aðrir komu frá Íslandi til að gleðjast með mér. Dússa hafði sagt mér að hún kæmist ekki því hún var á ferðalagi með fjölskyldunni í Grikkandi. Ég skildi það svo sem mjög vel og var ekkert að spá mikið í þetta.

Daginn sem veislan var, lá ég með Sigyn dóttur minni uppi í herbergi og hún var að mála mig og plokka augnabrýr. Sé ég svo skugga af einhverjum koma upp tröppurnar og svo allt í einu standa tvær manneskjur í dyrunum, þar voru Dússa og Hafliði sem komu sem leynigestir til mín til að gleðjast með mér  þennan dag. Mér varð svo um, að hjartað hætti næstum því að stoppa. Ég átti á engan hátt von á að þau kæmu, því þau voru í Grikklandi. En þau völdu að koma við á leið sinni heim og hitta mig og vera með mér og mínum á þessum degi.

Hún var eins og alltaf, hrókur alls fagnaðar í veislunni, hún hélt þá fallegustu ræðu sem ég gat hugsað mér, á skandinavísku, svo allir gætu verið með í því sem hún sagði, henni tókst að fá alla til að til sperra eyrun með sögum frá barnæsku minni og skemmtilegum uppákomum, sem hún man, en ég ekki. Hún var tenging mín inn í fortíðina og deildi henni með mér og mínum, í nútíðinni. 

Ég sé fyrir mér hvernig hún getur notað það allt inni í framtíðina hún vinur minn Dússa sem ég vona svo innilega að þið treystið fyrir atkvæði ykkar til Stjórnlagaþings MUNA : 8089 Ragnhildur Vigfúsdóttir

 


Ég vildi að við hefðum tilfinningareynslubanka sem allir hefðu aðgang að

Kæru vinir íslenskir og íslenskir !img_0642.jpg

 

Núna er sumarfrí og ég er strax farinn að kvíða fyrir að fara að vinna aftur, þó svo að ég upplifi að ég ekki sé í sumarfríi ennþá. Það er samt mánuður þar til að ég fer að vinna aftur og ég geri mér fulla grein fyrir að ég á að að njóta þess að hafa fríi og njóta þess að bara vera.

 

Ég geri það líka, ég nýt þess að vera, drekk te gert úr jurtum í garðinum mínum. Ég hlusta á ljúfa músík, ég sest á vinnustofuna mína og vinn smá, ég fæ gesti af og til, nýt þess að spjalla um allt og ekkert, en undir öllu þessu kvíði ég fyrir því að fara að vinna þann 11 ágúst.

 

Ég hef aldrei upplifað þetta áður, ég hef elskað vinnuna mína, elska að kenna og byggja upp aðstæður fyrir fólk til að skapa og gera myndlist. Skólinn er nú að byrja sitt 9 ár, og hvert ár hefur verið spennandi, með nýja möguleika og ný verkefni, en ég hef notið þess.

 

Hvað hefur gerst sem fær mig til að fá illt í magann þegar ég hugsa um vinnuna ?

 

Kannski er það að ég opnaði nýjan skóla í fyrrahaust með vinkonu minni, skóla fyrir börn og fullorðna. ”skolen for kreativitet og visdom” .

 

Kannski var það of mikið og hefur gert það að verkum að ég misst alla löngun, varð of hengd upp í vinnu, já það er möguleiki.

 

En ef ég hugsa dýpra þá var það ekki bara það ! Ef allt hefði verið gott í listaskólanum, hefði þetta gengið upp, verið erfitt, en ekkert of erfitt.

 img_0744.jpg

Það sem var erfiðast, var örvæntingin í lok skólans, örvæntingin hjá foreldrum, kennurum og nemendum. Örvæntingin yfir því að sveitafélögin eru að spara, og spara mikið. Það er sparað þar sem er hægt að spara, og hver skilur það ekki?

 

Ég veit að allir þurfa að vera með í að spara.

Þar sem ég finn svo til, er að í þessum sparnaði er frelsi tekið frá einstaklingum, frelsi yfir að ráða yfir sínu eigin lífi.

 

Nemendur sem ég hef haft í mörg ár, fá allt í einu neitun um að halda áfram að mennta sig ! Þeir fá ekki sjálfir að vera með í að skapa sitt eigið líf, ákvörðun er tekin yfir höfuðið á einstaklingum, án þess að þeir hafi möguleika á að gera eða segja neitt. Þetta hefur verið erfitt.

 

Örvæntingin hefur verið erfið hjá þessum einstaklingum og ekki síður foreldrum, sem sitja tíma eftir tíma fyrir utan skrifstofudyr borgarstjóra til að reyna að fá viðtal, hringja mörgum sinnum á dag til að biðja um stuðning, sem ég í raun get ekki gert. Ég get skrifað bréf til sveitafélagsins, sem ég hef gert, en ekkert annað.

 

Ég veit að það þarf að spara, en ég hugsa með sjálfri mér, það hlýtur að vera hægt að spara annarsstaðar. Því ég veit sem er, að í þeirri hugsun lúrir minn ótti við þau áhrif sem þetta hefur á skólann minn ! þetta þýðir að kennarar þurfa að finna aðrar leiðir til að lifa, þéna pening, þetta er keðjuverkun, sem ég hef erfitt með að skoða án tilfinninga, það gerir vinnuna og ákvarðanir erfiða.

 

Viðbrögð kennara, eru erfið, brjálæðið sem kemur upp, þegar hver og einn sér sínu ógnað, það er erfitt. Þú sérð hlið á þeim sem þú hélt að þú þekktir vel og best, en þegar lífi og starfi fólks er ógnað, þá eru viðbrögð óumflýjanleg, hvað er hægt að gera annað en að reyna að hamra út það sem hægt að hamra út af peningum, og það kostar fundi, loforð um að finna lausnir, sem ég veit ekki hvort ég get.

 

Ég veit að ég á að njóta þess að hvíla mig, og vera í sumarfríi, en lífi margra er ógnað og ábyrgðin er stór, hver ákvörðun er mikilvæg og hefur áhrif á einhvern !

 

Ég vildi stundum óska að tilfinningarnar væru ekki svona yfirráðandi, en þó er í tilfinningu hlutir sem er mikilvæg öllum sem vinna með annað fólk, eða fyrir annað fólk, og það er tilfinningin, ”ég er þú og þú ert ég”, og ég vil gera allt fyrir mig til að bjarga mínu lífi/þínu lífi og það er það sem ég geri og þess vegna get ég ekki bara farið í sumarfrí og geymt vinnuna þar til í ágúst, heldur er að reyna að finna lausnir til að allir komi sem best út úr þessu.img_0685.jpg

 

Stundum vildi ég óska að fleiri deildu hugsunum sínum um hvernig hver ákvörðun í hverju fyrirtæki, hjá hverjum yfirmanni hefur áhrif á þann sem hefur ábyrgð, þar væri reynslubanki fyrir alla !

 

Við deildum hugsunum, og sýndum að við erum manneskjur með tilfinningar, við hjálpum hvert öðru, og við deilum hvert öðru með hverju öðru. Allt er gegnsætt, allir hafa aðgang að hver öðrum, það væri gott fyrir mig núna…….  og alla aðra sem finna tilveruna vagla undir fótum sér vegna ákvarðanna sem eru teknar af öðrum um aðra.....


Það liggur ótti yfir mannkyninu

img_0218.jpgÉg á fullt í fangi með að halda gleðinni á lofti þessa dagana, en ég geri allt sem ég get til að sjá það jákvæði í því sem gerist í kringum mig.  Síðustu vikur hafa verið erfiðar, á öllum vígstöðvum.

 Ég upplifi eins og það sé ráðist að mér frá öllum áttum !

Ennn ég gerði páskaskreytingu í dag sem situr fallega hérna á borðinu hjá mér og gleður augað,, Múminn minn liggur við hliðina á mér og passar upp að allt sé eins og það á að vera og ég  ákvað að blogga um gleðina, og hlakka ég líka til að sjá mynd í sjónvarpinu í kvöld sem heitir “menn sem hata konur “ sem sagt margt að gleðjast yfir.

Sólin skín, það er notalegt að hlusta á útvarpið í bakrunninum, Gunni sýslar með fræin sem hann setur vandfærnilega eitt og eitt í einu í fallega brúna mold.

Sigyn og Albert og blessuð börn  Lilja og Aron, eru búinn að fá fína íbúð inni í Kaupmannahöfn, eftir mikil erfiði undanfarið.

Lífið heldur áfram, einn dag í einu, með því sem fylgir, gleði, gleði, gleði og allt  fer eftir því hvernig ég tek því sem fyrir ber.

Ég finn að það er svo auðvelt að verða óttanum að bráð, svona höfum við það sennilega mörg.

Óttinn heldur manni föngnum, þannig að ómögulegt er að sjá út yfir hann.

Hvernig getum við hver fyrir sig komist í gegnum hann og sjálf valið hvaða tilfinning er allsráðandi hverju sinni?

Eru það ekki hvers og eins réttindi að bjóða inn þeirri tilfinningu sem passar hverju sinni?

Er ein tilfinning ekki meira velkomin en önnur, eða eru kannski allar tilfinningar  velkomnar, og þær fá það pláss sem þær velja.

Eða höfum við ekkert um það að segja og erum kannski bara þrælar þeirra tilfinninga sem halda okkur til baka á móti því sem er gott fyrir okkur. Loka fyrir það að við getum séð fyrir endann á henni og þar af leiðandi sitjum föst og þorum hvorki afturábak eða áfram. img_0217.jpg

Ef við bara gætum séð glimt af því sem bíður okkur, gæti það gert að við slöppuðum aðeins af og létum flæða með straumnum, í staðinn fyrir að róa og róa á móti straumnum sem gerir hverja upplifum margfalt erfiðari en ella.

Ég geri mér grein fyrir þessum hlutum þegar mér líður vel og er í jafnvægi, þá get ég oftast sagt viturlega hluti, eins og orka fylgir hugsun, þar að segja það sem þú hugsar gerist, eða allt það erfiða sem við lifum, er það besta sem fyrir okkur getur gerst, það er með til að þroska okkur og hjálpa, einnig segi ég oft, sá sem er versti óvinur þinn, er þinn besti vinur, hann hjálpar þér í þroska og og og svona get ég lengi haldið áfram.

Það sem ég stundum gæti hugsað mér er að geta lifað og vitað og skilið þetta á meðan á átökunum stendur ! Það er sko ekki alltaf auðvelt, ég heyri það í höfðinu á mér, en kemst ekki út þeim hugsunum sem keyra rúnt í höfðinu á mér aftur og aftur og halda mér fanginni í óttatilfinningunni !

En í dag, þegar tilfinningin var að taka yfirráðin, ákvað ég í bílnum á mótorveginum, að þetta vildi ég ekki.

Ég setti sólgleraugun upp, hækkaði á útvarpinu, söng hástöfum með Kim Larsen, fór í búð keypti páskaskraut og páskaliljur, kom heim, gerði skreytingu og ákvað að blogga um gleðina.

Gleðin er þarna alltaf, hvernig sem okkur líður við getum kallað á hana og beðið hana að koma.

Gleðin getur verið í formi minningar sem við höfum, eitthvað gott sem við getum ákveðið að hugsa um sem við vitum að gerir okkur glöð. Þetta er að sjálfsögðu æfing, en er hægt, mér tókst það í dag og núna ætla ég að fara inn á vinnustofuna mína og muna að það er bara ég sem hef ábyrgð á því hvernig mér líður, allt sem gerist í kringum mig eru atburðir sem ekki “þurfa” að breyta neinu fyrir mig, ég vel í dag að láta gleðina ráða ríkjum hvað sem gerist í dag og á morgun og ef mér tekst þetta í dag eru meiri líkur á að mér takist þetta líka á morgun.

Orka fylgir hugsun, það er rétt og ef ég hugsa jákvætt gerist jákvætt en stundum gerum við okkur ekki grein fyrir hvað er það besta fyrir okkur! Stundum þurfum við að sleppa gömlu, til að það sé pláss fyrir eitthvað nýtt, það ber að hafa í huga.

Gleðilega páska elsku fólk

img_0221.jpg


Nýjar hugsanir, nýjir möguleikar

hbvc.jpgVið sitjum hérna gömlu hjónin og gónum hver í sína tölvuna. Sólin okkar gerir sig klára í verslunarferð með klúbbnum sínum.

Ég hugsa mikið þessa dagana, er sennilega að undirbúa mig undir meiri vinnu og minni tíma til að flakka á facebook og bloggi. Ekki það að ég hafi verið mikið að blogga. Ég hef verið að finna gamla vini og fjölskyldumeðlimi á facebook og tengst böndum þar aftur við fortíðina mína.
Nú verð ég að taka mig saman og einbeita mér að því sem framundan er, sem er ansi margt og viðamikið.

Það er svolítið svo spennandi að gerast, smá af því ætla ég að deila með ykkur hérna.
Eitt af því sem mér finnst mest spennandi , er að  ég ætla að opna nýjan skóla !
Ég og vinkona mín, Ulrikka erum að undirbúa það verkefni núna. Skólin er hugsaður fyrir börn frá 4 til 6 ára og börn frá 10 til ca 14 ára.

Ég er ánægð með vinnuna mína, en stundum gerast hlutir sem maður verður að fylgja. Þannig var að Ulrikka bauð mér og Sól í leikhús (Sól og Cesilia dóttir Ulrikku eru bestu vinkonur) Sem sagt Þær buðu okkur mæðgum á mjög skemmtilegt leikrit inni í Kaupmannahöfn. Á leiðinni heim í lestinni vorum við að spjalla um listir. Ulrikka er rithöfundur og var ný búinn að senda inn handrit og vorum við að tala um það og einnig að hana langaði að taka tíma til að fara að vinna að einhverju skapandi úti i samfélaginu. Hún er líka art terapist og sá það sem möguleika.

En til að komast aftur að þræðinum þá vorum við þarna í miklum samræðum, þessum samræðum fylgdi ákveðin orka sem á einhvern hátt tók yfir og streymdi yfir okkur nýjum hugmyndum sem á einhvern hátt tóku yfirhöndina. hbx.jpg

Þegar við lentum í Lejre, þar sem við búum, vorum við einhvernvegin hissa á því sem hafði streymt yfir okkur og ákváðum að hittast sem fyrst og ræða þessi mál nánar.

Við hittumst að viku liðinni og vorum ennþá mjög spenntar fyrir hugmyndinni og byggðum áfram á því sem við höfðum rætt.

Núna er hugmyndin komin lengra og við stefnum á því að opna næsta haust. Nú fer ég í gang að semja um húsnæði hérna í bænum sem ég hef áður lánað fyrir hin ýmsu projekt.

Við ætlum að skipta þessum skóla í tvo helminga til að byrja með !

Annar er fyrir stærri börnin:
Þar höfum við hugsað okkur að byrja með laugardagskennslu, þar sem lögð verður áheyrsla á myndlist, tónlist, leiklist, þjóðsögn, heimsspeki og hugleiðslu. Allt í einum pakka.

Svo ætlum við að einbeita okkur að barnaheimilunum og bjóða upp á kennslu fyrir  börn í kringum 4 til 6 ára. Þar sem við annað hvort förum á barnaheimilin, eða fáum hluta af hóp frá barnaheimilunum til okkar. Þar verður lögð áheyrsla á sköpun, túlkun og sköpun hugans. Smá hugleiðsla verður einnig sett þar inn.

steina_34_ara.jpg

Það er staðreynd að það að hugleiðsla tengir viðkomandi við hærri energi sem er mikilvægt í allri sköpun. Einnig er hugleiðsla góð leið til að þróa einbeitingu hjá öllum bæði börnum og eldra fólki.

Ég veit að það verður mikið að vera bæði í þessu verkefni og skólastjóri í myndlistarskólanum, ennnn spennandi.

Það sem ég hef verið upptekinn af í mörg ár er að skólar almennt eru byggðir upp á rangan hátt. Það eru að mínu mati rangar áheyrslur á það sem nemendur eiga að kunna og er grundvöllur að geta/kunna, til að komast í áframhaldandi nám.

Bæði ég og allavega tvö af börnunum mínum eru með það sem ég myndi kalla skapandi gáfur. Við getum hugsað mjög abstrakt, í myndum og hugmyndum. Þessar gáfur eru ekki þær gáfur sem koma þér áfram í skólakerfinu, þó svo að þessar gáfur séu í raun þær sem ég meina að geti bjargað heiminum frá því ástandi sem heimurinn er í, í dag. 

gift.jpg

Þessar gáfur geta skapað nýjar hugmyndir í þjóðfélaginu. Þessar gáfur geta hugsað allt upp á nýtt og séð nýja möguleika í öllu.

Ég er ekki með þessu að segja að hinar gáfurnar, séu ekki nauðsynlegar, en saman geta þessar gáfur gert kraftaverk.

Einn heilahelmingurinn getur ekki á hins verið.

Ég held að einmitt núna þegar allt virðist vera að hrynja í kringum okkur sé tíminn til að fanga þær hugmyndir sem eru sendar til okkar frá hinu æðra.

Við þurfum að vera opin fyrir því sem kemur til okkar og móta nýja möguleika fyrir það þjóðfélag sem við búum í. Við höfum öll ábyrgð á því að skapa nýtt, skapa lífið í kringum okkur. Það hefur í raun aldrei verið eins mikil þörf á nýrri hugsun eins og í dag.

Núna er komið kvöld. Náði ekki að ljúka þessari færslu að ýmsum ástæðum. Það var sumaklúbbur hjá mér í kvöld með íslenskum komum, ósköp notalegt.

Ég bíð góðar nætur kæru bræður og systur.

Set til gamans inn gamlar myndir úr fjölskyldualbúminu. Var að uppgötva skannara á prentaranum. sigrun_3_ara.jpg


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband