Færsluflokkur: Umhverfismál

Ekki bara hinn, nágranninn,þingmaðurinn,sveitastjórinn, eða annar

IMG_2488
Múmín og ég settumst út og horfðum saman á sólina, fögur koma upp,  morgunstund i fallegri morgun birtu. Það er þó greinilegt að haustið er á leiðinni, morgunbirtan er ekki eins hátt á lofti. Ég átti dásamlega stund í hugleiðslu með móður jörð allt í kringum mig, með fuglasöng og flugu suði. Flugurnar eru á fullu í kringum öll blóm, áður en það er of seint. 

Ég finn ró í dag, sem ég hafði ekki í gær, var of þreytt eftir spennu undanfarinna vikna, enda hef ég verið á fríu frábæru flugi, með Gro Akademi, sem gengur framar öllum vonum. Hver dagur hefur verið ótrúlegur og erfitt hefur verið að fylgja með. En dagurinn í gær, var einskonar frídagur, sem ég hafði mikla þörf á og á morgun byrjar spennandi vika, með mörgum fundum og nemendurnir  koma á miðvikudaginn. 

Ég var að hugleiða í morgun um hvernig hlutunum er misskipt hérna á jörðinni. Sumir, eiga svo mikið af öllu, að það fólk þarf að geyma peninga, gull, skartgripi og annað í bankahólfum. Það verður aldrei mögulegt fyrir þetta fólk að nota alla þessa peninga, þó svo að þau verði 1000 ára. Annað fólk á ekkert og þá meina ég ekkert. 

Ég hef þá hugsun, að það sé nóg fyrir alla, ef öllu er skipt réttlátlega, þá gætu allir lifað við lífsins gæði. Sumir hugsa eflaust, en svona er þetta bara, en við höfum öll ábyrgð á að byggja upp nýjan heim.
 
Ég hef þá kenningu að svona verði þetta ekki alltaf. Byrjunin á breytingum er það bankahrun sem varð í heiminum og það er bara byrjunin. Það koma fleiri fjárhagsleg högg, þar til það verður meiri jöfnuður á milli fólks. Það verður hrun, eftir hrun, eftir hrun, þar til við lærum að deila jafnt á alla. Ég held nefnilega að náttúrulögin segi að það eigi að vera jafnvægi, það þarf að vera jöfnuður í sjálfri náttúrunni, milli dýra, milli plantna, milli okkar. Það er einfaldlega Alheimslög, annars hrynur það niður sem skapar ójafnvægi.
 
Á tímum risaeðlanna, var líka jafnvægi, þar sem voru risastórar plöntuætur, var alltaf risastór og sterk kjötæta, til að skapa jafnvægi. Við getum ekki haldið að við séum ekki hluti af þessu ferli. Við erum ekkert meira eða minna, en annað líf hérna á jörðinni. 

Ég hef líka verið að hugsa um, hvernig við getum breytt þeirri þróun sem er í flestum löndum. Atvinnuleysi verður meira og meira, fleiri og fleiri fara á einskonar sjúkrapeninga, eða eins og við köllum það í DK verða pensionistar/öryrkjar. 

Þessi kostnaður er óhuggulega mikill fyrir bæði ríki og sveitarfélög, ég veit það frá fyrstu hendi, hef verið að vinna í þessum geira í mörg ár. 
 
Margir af þeim sem eru öryrkjar, myndu elska að hafa einskonar "vinnu". Vera hluti af samfélaginu, þéna sína eigin peninga og gefa það sem í þeirra valdi er, til samfélagsins og fá laun eins og aðrir og sömu laun og aðrir. 

En það er ekki möguleiki, því kröfurnar á vinnumarkaðnum eru svo miklar og þessu fólki er ekki mögulegt að lifa upp til þeirra krafna. 

En ef við sem samfélag hugsuðum þessa hluti aðeins öðruvísi, þá er ég viss um að á atvinnumarkaðnum sé pláss fyrir alla þá sem á einhvern hátt geta verið með. Fyrir það fyrsta, gætu þeir peningar sem koma sem öryrkjabætur, farið inn í atvinnumarkaðinn. Þannig að í staðin fyrir að fólki er plantað út fyrir atvinnulífið, þá sé hægt að finna pláss fyrir alla, þar sem það fólk sem á einhvern hátt vill vera með, að það geti verið með. Að það séu skapaðar aðstæður fyrir alla! 

ég held að til þess að það skapist jafnvægi í heiminum og að við gefum pláss fyrir alla, þá þurfi að skoða launamisrétti og hjálpa því fólki sem gefst upp á vinnumarkaðnum, því við erum mismunandi. Við þurfum að vera meira kreativ og hugsa þetta allt upp á nýtt. Í Danmörku fara fleiri og fleiri á atvinnuleysisbætur og verða öryrkjar, vegna þess að álagið á einhvern hátt, er of mikið. 

Ég get séð fyrir mér, hversu einfalt þetta í raun og veru gæti verið, ef allt væri stokkað upp, upp á nýtt, allt væri hugsað upp á nýtt. En það þarf sennilega algert heimshrun til að svo geti orðið. Vonandi gerist eitthvað sem gerir að það þarf að endurhugsa allan struktur í heiminum, því ég get séð að þessi þróun sem við erum í, gengur aldrei aldrei, aldrei upp.
 
En ég trúi og finn að miklar breytingar eru framundan og VIÐ erum breytingarnar, það ert ég og þú sem erum breytingarnar, við erum ríkið, borgin, landið, mannkyn. Ekki bara hinn, nágranninn,þingmaðurinn,sveitastjórinn, eða annar, það ert þú og ég. Jæja svona voru mínar hugsanir í morgun og nú. Hafið fagran dag elsku fólk.

Oftast elska ég tímann mest þegar hann er liðinn


img_0191.jpgSumum finnst það snemmt, en Sól og mér finnst tími til komin að safna könglum og huga að hinum árlega jólaundirbúningi. Á kvöldin þegar við göngum með hundana, Sólin mín og ég þá ræðum við allt milli himins og jarðar. Það er svo notalegt og það er þá sem ég finn fjölskylduhljóminn sem er mér svo mikilvægur í því annasama lifi sem ég nú lifi.

Á þessum tíma, tíminn milli hausts og jóla er tíminn sem maður safnar ýmsu fyrir jólaskraut, sem fæst sem gjöf frá móður jörð. Á göngutúrunum týnum við litla og ósköp venjulega köngla, en á einum sérstökum stað eru tré með risastórum könglum, þangað förum við reglulega til að sjá hvort tréð ekki vil gefa okkur einn eða tvo í söfnunina til skrautsins. Við finnum allavega lauf, við finnum ber sem við þurrkum, við finnum hnetur og ýmislegt annað skemmtilegt í skrautið.

Við týnum líka epli og það er nú svolítið leyndarmál með þessi epli sem eru bestu eplin sem ég fæ. Ekki það að okkur vanti epli við erum með eplaplantekru með yfir 100 eplatrjám og líka eplatré í garðinum okkar. En þessi epli eru sérstaklega góð, kannski af því að við stelum þeim, veit ekki. En þessi epli eru í garðinum hjá Anne,  á miðjum akri í gönguleiðinni okkar sem liggur vel falið í trjám og óróleika gróðri.

Anne er ekki heima, hefur ekki verið heima í tvö ár, svo við læðumst inn í garðinn hennar og týnum epli í vasana, það er gaman.

En aftur að jólunum, sem svo margir verða gáttaðir og stundum hneysklaðir og líka pirraðir yfir að maður skuli voga sér að finna tilhlökkun alltof snemma, að mati hvers ?

Ég á oft erfitt með að skilja það, að manni skuli ekki leyfilegt að hlakka fyrr en á einhverjum ákveðnum tíma sem er réttara en annar tími. Jólin sem eru eins notaleg og þau nú eru.

Við ræðum í göngutúrnum um hvaða gjafir við eigum að kaupa og á hverju ári viljum við búa il jólagjafirnar, þó svo að aldrei verði að því. Við erum búinn að kaupa efni í jólakort, sem við planleggjum að gera sjálf. Við tölum um hvaða mat við ætlum að gera, hvar við ætlum að vera og með hverjum. Ekkert að þessu er alltaf eins, reyndar aldrei það sama því við gerum alltaf eitthvað nýtt hvert ár og borðum aldrei sama jólamat ár eftir ár.

Þessi augnablik með Sól í uppbyggingu á jákvæðum sameiginlegum planleggingum er tími sem ég elska áður en hann fer, það gerist ekki oft, því oftast elska ég tímann mest þegar hann er liðinn.

Við höfum þó á hverju ári eina hefð, og það er sama hefð og milljónir manna um allan heim hafa og það er að fá okkur alvöru lifandi jólatré !img_0118.jpg

Á hverju ár í mörg mörg mörg ár höfum við verið með lifandi jólatré og það hefur verið svo mikilvægt fyrir mig. Kannski af því að þegar ég var lítil var gervitré heima hjá mér, eða hvað veit ég. En minn metnaður hefur verið að það ætti að vera lifandi tré heima hjá mér.

Í fyrra læddust að mér einhver einkennileg ónot yfir þessu með lifandi jólatré. Ég spurði Gunna hvort við ættum ekki að kaupa gervitré, ekki að tala um og ég lét það liggja.

Ég hef hugsað og hlustað á þessa tilfinningu sem kom í fyrra í hugann minn. Ég skoðaði hvað það í raun var sem gerði að ég fékk ónot, svolítið lík þeim ónotum og þegar maður er að versla í matinn og skoðar í kjötborðið og sér fullt af ódýru kjöti af hinum og þessum dýrum og maður er svo að velja eitthvað að þessu með samviskubit í hálsinum yfir að vera á því augnabliki að styðja dýraofbeldi, það var einhvernvegin svona sem mér leið. Mér varð hugsað til allra þeirra trjáa sem verða að láta lífið fyrir viku eða fjórtán daga með alla vega bulli hengt á sig til að gera þetta skemmtilegt, fyrir mig, fyrir okkur.

Ég sagði fyrr lifandi jólatré, en er þetta ekki deyjandi jólatré sem við höfum standandi í stofunni okkar, sem verður hent út um leið og hlutverki þess er lokið. Grenitré sem ættu að verða margra ára úti í náttúrunni og þjóna því hlutverki sem þau nú gera að anda inn og anda út og hreinsa andrúmsloft jarðar. Drekka allt það vatn sem rignir niður og gerir vatn að flóði sem síðan verður að náttúruhamförum ef engin eru trén til að taka á móti magninu.

Það eru verksmiðjujólatré, sem lifa stutt, bara til eins gagns, að standa í stofu einhvers í nokkra daga til að viðkomandi hafi jólin í hjartanu og húsinu. Það er eitthvað svo rangt við þetta sem ég held að við hver og einn ættum að hugsa aðeins um, ekki bara gera eins og við alltaf höfum gert og vera hugsunarlaus, en gera okkur grein fyrir því að þetta val hefur ábyrgð. Við erum ekki að tala um eitt tré, í stofuna mína, við erum að tala um milljónir af trjám sem eru höggvin niður fyrir jólin. Við getum alveg lifað án “lifandi jólatrés” en við getum ekki lifað á matar og þar koma önnur lögmál þegar við stöndum við kjötborðið eða grænmetisborið að við veljum þó það sem er að hinu betra. Að við kaupum kjöt af dýri sem hefur haft það gott á meðan það lifði. Ég held að það sé svo mikilvægt að við verðum meðvitaðri um þau völ sem við tökum í lífinu, hvar sem er í lífinu. img_0090.jpg

En og aftur, ég hlakka til jólanna með ýmsu jólasýsli og kertaljósum og jólabíómyndum sem við horfum á, á hverju ári og höfum gert í mörg mörg ár og bara á jólunum jólaspenninginn og jólabaksturinn og jólakalandarinn sem er árlegur viðburður í Danmörku, göngutúrum í skóginum, með te og jólapiparkökum keyptum hjá bakaranum, fjölskyldukvöldum, vinakvöldum, spenningi hjá öllum sem hlakka til jólafrísins og jólagjafanna og þess að hitta fólk, vini og ættingja yfir góðum mat og gleði yfir hátíð sem finnst alveg langt inn í magann.

Ég hlakka til þess jákvæða sem oftast gerist þegar fólki hlakkar til og síðast en ekki síst að velja gervijólatré með Gunna og Sól sem er nú samþykkt.

Tíminn er nú svo skemmtilegur og afstæður . Sem dæmi get ég nefnt að á sama tíma og við söfnum jólaskrauti, týni ég rósir í garðinum mínum, næ í gulrætur, tómata, maís, agúrkur og fleiri dásemdir úr garðinum mínum. Vínberinn eru ekki alveg orðin þroskuð, kannski eftir nokkra daga og um helgina þarf að slá gras. Svona getur nú lífið verið skemmtilegt.

img_0140.jpg


Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna mun fara fram hér í Kaupmannahöfn í desember 2009.

_mg_2957_911430.jpgMarkmið ráðstefnunnar er að ná samkomulagi um nýjan umhverfissáttmála.

Þessi ráðstefna er mjög mikilvæg og hefur áhrif á hvernig framtíðin lítur út fyrir allt líf á jörðu.

En eitt er hvað stórþjóðirnar velja að gera sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt, en mikilvægast er þó hvað við hver og einn veljum að gera í okkar daglegal lífi í umgengni okkar við hin náttúruríkin .

Þetta er eitthvað sem kemur okkur öllum við, en hversu mikið setjum við okkur inn í þetta, hversu mikil áhrif getum við haft, eða eigum við kannski bara nóg með okkur sjálf.

Hvað er  raunhæft að við hver fyrir sig gerum til að hafa áhrif?

Ég held að það sé mikilvægt að við skoðum okkur nær en við oftast gerum og byrjum á því sem er í kringum okkur og þar sem við smátt og smátt getum orðið meðvituð um það líf sem er okkur næst.

Við þurfum að skoða þetta út frá dýpri tilfinningu en við höfum gert áður. Við skoðum oftast þessi umhverfismál út frá ógnun eða hræðslu fyrir okkar lífi hérna á jörðinni sem er að sjálfsögðu áhrif frá hræsluáróðri sem dynur á okkur dag eftir dag.

Mín skoðun er sú að sá áróður setur ekki varanleg spor eða hefur langvarandi áhrif sem er nauðsynlegt til að viðhalda góðri umgengni við bæði dýr og náttúru langt inn í framtíðina.

Við þurfum í raun að æfa okkur á að verða meðvituð um mikilvægi alls lífs á jörðu.

Kærleikurinn er sterkasta aflið í öllu lífi og þar held ég að sé best að byrja hjá okkur hverjum og einum.

Ég held að það sé auðveldast fyrir okkur að þróa Kærleikan til dýranna, því þau eru svo náin okkur og vekja upp svo margar tilfinningar  sem eru oftast góðar.   img_1326.jpg

Í þessum pistli tek ég fyrir hvernig hægt er á mjög einfaldan hátt að að gera erfiða upplifun að fallegu augnabliki á milli mannesku og dýrs !

Mig langar að deila með ykkur upplifun sem ég hafði fyrir tveimur árum  þar sem Kærleikurinn gaf mér vissu fyrir að með einfaldri hugsun hafði ég áhrif á líf sem fór yfir á aðra vídd.

Einhverntíma á lífsleiðinni upplifum við flest að missa gæludýr. Margir taka því eins og hverjum öðrum hlut, en mörgum okkar finnst það mjög erfitt. Núna heyrum við um verri örlög margra dýra vegna erfiðleika hjá fólki, ástandið er þannig í heiminum að það er auðvelt að gleyma að þegar við tökum að okkur dýr þá fylgir því ábyrgð á meðan dýrið lifir. Ábyrgðin getur legið í því að taka ákvörðun, ákvörðun um hvort dýrið eigi að lifa eða deyja.

Einu sinni átti ég hund, hún var okkar fyrsti fjölskylduhundur og var okkur öllum mjög kær. Hún var algjörlega hluti af fjölskyldunni. Hún hét Iðunn og hún kom til okkar 1996.

Hún varð eins og gerist og gengur gömul, hún dó í fyrra  12 ára gömul. Við héldum henni lifandi eins lengi og við gátum, en að lokum sáum við að við yrðum að taka ákvörðun um það hversu mikið hún ætti að þjást og hversu lengi. Hún gat varla orðið gengið, lá bara á dýnu á gólfinu inni í stofunni og svaf. Hún heyrði orðið illa en það sem var verst var að hún hafði svo miklar kvalir. Hún hafði verið á verkjalyfjum og öllu því sem átti að hjálpa í nokkra mánuði, en það var hætt að virka. img_1348_911432.jpg

Ákvörðunin var tekin og dýralæknirinn sem hún þekkti vel var pantaður heim. Jens hafði verið læknirinn hennar í mörg ár.. Okkur fannst mikilvægt að þegar hún færi frá okkur, væri hún á stað sem hún þekkti og í kringum fólk sem hún þekkti.

Á dýnunni sinni inni í stofu í faðmi fjölskyldunnar.

Daginn sem Jens kom, vorum við fjölskyldan saman komin. Eldri börnin okkar komu líka og voru með að kveðja hana. Við borðuðum morgunmat saman, vorum öll leið og kvíðin fyrir því sem átti að gerast. Við settumst öll inn í stofu eftir morgunmatinn og sátum hver í sinni hugsun. Iðunn var í miðjunni, á dýnunni sinni eins og alltaf.

Án þess að við ræddum það hvert við annað, byrjuðum við hver fyrir sig að hugleiða. Ég get bara skrifað mína upplifun, en veit þó að ég var ekki ein um þá upplifun. Það er mikilvægt fyrir mig að deila þessu með ykkur, því þetta gefur nýja mynd af þeim möguleikum sem eru til að gera svona kveðjustund fallega og með meiri Kærleika.

Ég upplifði í byrjun algjöran frið, og sátt. Ég naut þeirrar tilfinningar sem var kærkomin eftir erfiða mánuði. Ég einbeitti mé að Iðunni í huganum, sendi henni allt það þakklæti og Kærleika sem ég hafði til hennar eftir þetta líf sem við höfðum haft saman.

Ég veit að orka fylgir hugsun.

Ég sá hana hvíla örugg í því sem var að gerast og mín skynjun var sú, að hún vissi og var tilbúinn.

Ég hélt þessari mynd í huganum í dálítin tíma. Allt í einu fann ég að að allt lýstist upp í kringum hana og ég heyrði eins og óm af tónum í stofunni. Ég fann að ég náði sambandi við hana á annarri vídd og ég hélt sambandinu sem var á allt öðru plani en ég hafði upplifað áður. Ég skynjaði í kringum hana einhversskonar orku eða verur sem kannski er hægt að kalla engla eða hvað sem við veljum, ég kalla þetta orku  fulla af kærleika sem voru tilbúnar að taka á móti henni. Þá var ég viss og sátt, því auðvitað fara dýrin í sitt himnaríki, eins og við förum á okkar stað. Ég hélt tengingunni við Iðunni í langan tíma og ég fann að í þessari tengingu sem myndaðist náðum við að kveðja hvor aðra. Ég fann að hún var tilbúinn til að fara og þá varð ég tilbúinn til að sleppa.

Ég opnaði augun og leit á hina í fjölskyldunni og um leið skein sólinn inn um gluggann og baðaði stofuna í ljósi. Þetta var táknrænt.

Dýralæknirinn kom og gaf henni sprautu í hjartað og eftir smá stund var hún farinn.

Ég vissi að það var tekið á móti henni á annarri vídd.

Ég vissi líka að þetta var rétt ákvörðun.

Þetta er í raun spurning um að við höfum virðingu fyrir því lífi sem er í kringum okkur.

Það er fyrsta skrefið að því að bjarga jörðinni.

_mg_2110.jpg_mg_2123_2.jpg

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband