Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
Margir hafa beðið um hugleiðsu, hérna kemur mjög einföld morgunhugsun
11.4.2010 | 15:25
önnur tilraun á samtali við heiminn !
11.4.2010 | 13:56
Ákvað að tala í staðin fyrir að skrifa
10.4.2010 | 16:19
Kæru vinir, ákvað að prufa nýtt form með bloggið mitt.
Skrítið og gaman.
Kærleikur og Ljós til ykkar frá Lejresteinu
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
betrumbætt minnig með hjálp hins innra
15.3.2010 | 22:50
Við vorum þarna í herberginu ég og hún. Við heyrðum að hann kom að dyrunum og reyndi að opna hurðina. Við höfðum læst hurðinni. Við kúrðum okkur hver að annarri og sáum hræðsluna í augum hinnar. Óttinn færði okkur inn í skáp og geymdi okkur þar, þar til hann gafst upp og fór í rúm konunnar sinnar.
Við læddumst að glugganum og hjálpuðum hver annarri út um gluggann. Það var ekki erfitt að komast út, því glugginn var á jarðhæð og það var eiginlega bara auðvelt, við hefðum átt að gera það miklu fyrr um kvöldið hugsaði ég með mér
Það var sumarnótt og þess vegna var bjart úti og fuglarnir sungu í nætursumarsólinni.
Við héldumst í hendur og hlupum eins og fæturnir gátu borið okkur út í hellir. Í hellinum voru fjárhús sem ég vissi að geymdi hið raunverulega líf þegar ég þurftir á að halda eins og núna. Við náðum að súrheysturninum, móðar og másandi, settumst aðeins niður til að kasta mæðinni.
Ég elska lykt af súrheyi og andaði því að mér með lokuð augun og reyndi kannski líka að gleyma hljóðinu af hurðarhnúanum sem snerist til að komast inn.
Nú vildi hún halda áfram og sagði mér það án orða. Við stóðum upp og gengum dýpra inn í hellirinn. Við gengum þar sem við bara við vissum að hægt væri að ganga inn. Það var ekki svo sýnilegt en þegar maður vissi það eins og við gerðum, þá var það sýnilegt. Þetta var leynistaðurinn okkar, staður sem við földum okkur þegar við urðum hræddar.
Í fyrstu var bara dimmt þarna inni, en augun vöndust dimmunni og þá var auðvelt að fylgja stígnum upp tröppurnar til hennar sem ég vissi að alltaf var þar fyrir mig, þegar ég þurfti þess með.
Hún sat þarna svo góðleg og brosti til okkar þegar hún sá að við komum og að við vorum hræddar og vissum ekki hvert skildi haldið og hvað væri best að gera.
Við lögðumst á heyið sem var við fætur hennar, ég með hönd undir kinn, hin á bakið með báðar hendurnar eins og púða undir höfuðið sitt.
Við sögðum ekkert í dágóða stund en hugsuðum hver sitt. Ég sá að hin lokaði augunum og andardráttur hennar var reglulegur eins og þegar er sofið er.
Hún svaf.
Ég leit upp á konuna og spurði : hvað gerum við núna, við getum ekki bara verið hérna alla tíð, eða hvað ?
Hún brosti til mín og sagði: vinur minn í fortíðinni, framtíðinni og nútíðinni. það sem gerðist í kvöld var veganesti fyrir þig, hana og hann sem stóð við dyrnar. Þessi reynsla á eftir að gefa þér skilning á því sem þú mætir á ferð þinni um lífið.
Ég varð eiginlega hálf hissa á þessu svari, því ég átti sennilega von á einhverju öðru svari.
Ég: en við getum ekki bara látið eins og ekkert hafi gerst, farið til baka á bæinn og bara haldið áfram vistinni.
Hún: Þið hafið alltaf val, hvað passar ykkur best á hverjum tíma, en það val sem þið takið verður að vera skoðað út frá stærra samhengi.
Hvað er best fyrir heildina. Hvað er best fyrir allt, en ekki bara einn.
Ég varð hugsi og var ekki alveg viss um að ég skildi það sem hún sagði. Ég var hugsi í langan tíma.
Best fyrir heildina, meinar hún alla á bænum, alla fjölskylduna okkar með, eða alla í heiminum ?
Ef hún meinti alla í heiminum, hvernig var mögulegt að það sem við ákváðum að gera, hérna á miðjum sandi, hefði áhrif á fleiri en okkur, sem við komu.
Hún brosti til mín og sagði, er erfitt að skilja þetta ?
Ég kinkaði kolli.
Hún sagði mér að loka augunum og fara með henni í smá ferð sem hún vildi sýna mér.
Hún tók mig í höndina og ég fann eins og allur líkaminn væri í appelsínbaði. Ég var dofin um allt í hinu ytra, en skörp í huganum. Það var eins og ég flygi inn í annan heim.
Skyndilega vorum við yfir bóndabænum og áður en ég gat hugsað eitt orð vorum við á svefnherbergisgólfinu hjá bóndanum. Hann svaf eins og lítið barn við hliðina á konunni sinni sem var miklu yngri.
Hann var gamall fannst mér, en ekki eins óhuggulegur og mér hafði fundist hann þegar ég var inni í læstu herberginu og hurðarhúninn hreyfðist.
Það var skrítið að standa þarna og sjá hann svona varnarlausann, ég sá líka meira sem gerði mig undrandi: það var eins og ég sæi lífi hans bregða fyrir. Ég sá þetta eins og bíómynd renna fyrir augunum mínum.
Ég sá hann sem barn með öðrum börnum, ég sá hann í gleði, ég sá hann í sorg, ég sá hann með öðrum, ég sá hann sem hluta af öðrum. Ég sá foreldra hans, bræður og systur. Ég sá hann sem ungan mann, með framtíðardrauma, ég sá hann elska og vera elskaður, ég sá hann með börnunum sínum, í faðmi konu sinnar, ég sá líka brostna drauma, sorg, erfiði. Ég sá manneskju sem var eins og allar manneskjur, með allar tilfinningar og allar þrár , með alla græðgi, með alla fíkn, með alla gleði og aðrar manneskjur.
Allt í einu var eins og ég fengi meiri pressu af appelsínusafanum. Ég kom eins og dýpra inn í þessa mynd sem ég hafði séð. Ég sá bak við bíómyndina. Ég sá tengingu frá honum til mín, ég sá okkur eins og í einu Ljósi.
Ég sá hvernig þessi lífsreynsla færði mér aukin skilning á hræðslu barnsins við hinn fullorða, ég skildi óttann, ég skildi, því ég hafði upplifað. Ég sá eitthvað svo skrítið, ég sá eins og þakklæti frá mér til reynslunnar sem ég sá að kæmi til með að hjálpa mér á Lífsleiðinni. Ég sá og skildi á sama andartakinu það sem hún hafði sagt. Ég fann í þessu draumaástandi að ég bar engan ótta, ekkert var að óttast, ég bar enga reiði, það var ekkert að reiðast yfir, ég bar skilning sem ég hafði ekki haft áður og í gegnum huga minn kom hugsunin: vonandi hef ég þennan skilning þegar ég kem til baka.
Ég sá líka að það sem þú gerir öðrum, gerir þú mér, ég er þú !
Ég naut tilfinningarinnar, ég vildi ekki til baka. Það var eins og ég væri í að skilja allt.
Ég fann að ég sveif eins og á skýi sem allt í einu fer að hristast og skjálfa og ég dett af skýinu og ég heyri hrópað, vaknaðu Steina við þurfum að fara til baka.
Ég leit upp alveg undrandi á Rósu og gerði mér þá grein fyrir að ég var komin til baka í líkamann minn. Ég lá svolitla stund og safnaði hugsunum mínum saman til að reyna að halda í eins mikið og mér var mögulegt af því sem ég hafði fengið að skilningi.
Þegar allt verður eitt
4.3.2010 | 14:31
Mig langar að segja ykkur frá konu sem ég þekki, og kannski þekki ekki, ég veit það ekki. En þessi kona breytti öllu hjá mér og opnaði fyrir mér nýjan heim sem alltaf hefur verið þarna, en ég vissi það bara ekki.
En ég hef hitt hana mörgum sinnum frá því ég sá hana sem barn.Við höfum setið saman löngum stundum og hún hefur sagt mér sögu sína mína, þína og allra.
Kannski er þetta ekki bara um þessa konu, en um það hvað þessi kona færði mér og hvað hún var og er fyrir mig og þig.
Hún sagðist heita Steinunn, en hefur þó heitið svo margt síðan og áður. Enda eru nöfn ekki svo mikilvæg, þau eru bara svo við getum kallað hvert annað eitthvað, ekki bara: heyrðu, þú þarna. Þá er betra að kalla: heyrðu Steinunn, og ef það eru margar Steinunnar þá vitum við að það eru ólík eftirnöfn. Það fer allt eftir því hvar þú ert fæddur, á Íslandi höfum við eftirnafn föður okkar. Eins og Steinunn sagði mér að hún hafi átt föður sem hét Sigurður og þess vegna getum við kallað : heyrðu Steinunn Sigurðardóttir. Í Skandinavíu eru fjölskyldueftirnöfn Jensen og Olsen og Carlsen og þess háttar, en það er nú ekki það sem ég ætlað að segja ykkur
Ég hitti hana fyrst þegar ég var 12 ára, þá sat ég á steini niður á strönd í heimabænum mínum. Ég sat og hlustaði á öldurnar og hugsaði um allt það sem liggur á hafsbotninum og alla fiskana, hákarlana og hvalina sem eru þarna og ég sá ekki, hvort þeir væru að kíkja á mig í laumi og spá í hver ég væri.
Mér fannst svo undarlegt með þennan hafheim sem var mér algjörlega ósýnilegur en ég vissi samt að væri fullur af lífi. Það var eins og þarna lægi önnur vídd sem flestum var ósýnileg en með sérstökum hætti gátu þó sumar skoðað og ferðast um í þessum heimi undirdjúpanna.
En hvað um það, þarna kemur kona gangandi í grænum sumarkjól og með stráhatt. Hún hefur dökkt hár og græn augu. Hún passaði engan veginn inn í þá mynd sem ég var vön að sjá á þessu svæði En var þó svo lifandi sem ég sjálf, sitjandi á þessum steini með máfagarg og öldugang í eyrunum.
Hún kom gangandi hægum skrefum og ég sá að hún horfði beint á mig og brosti. Það var eins og hún þekkti mig, og að hún gerði ráð fyrir að ég þekkti hana líka. Ég brosti á móti og hugsaði um hversu falleg hún væri og hvað hún væri skrítin í þessu umhverfi og á þessum tíma og ég hugsaði líka, hver hún væri eiginlega.
Hún kom til mín og settist við hliðina á mér og við sátum lengi á steininum án þess að segja neitt. Við horfðum bara út á hafið og hugsuðum hver sitt, eða ég veit ekki hvort hún hugsað neitt, en ég hugsaði og hugsaði um hvað hún væri að gera og hvað ég ætti að segja við þessa fallegu konu sem hafði ferðast í tíma og rúmi og sem sat með hattinn sinn á milli handanna og rúllaði honum einhvernvegin á milli fingranna á fínlegan og fallegan hátt eins og hefðarkona.
Ég leit á hana og sagði: halló, hver ert þú ?
Hún leit á mig og brosti og sagði : ég heiti Steinunn.
Ég: hvað ertu að gera hérna?
Hún: ég er að hitta þig .
Ég þagði lengi og vissi ekki hvað ég átti að segja, hitta mig hugsaði ég. Hvað vill hún mér ?
Ég: af hverju?
Hún: mig langar segja þér svolítið.
Ég: hvað ?
Hún: um mig og þig og allt annað.
Nú, sagði ég og það var löng þögn. Við sátum dágóða stund og sögðum ekki neitt en horfðum bara út á öldurnar.
Svo sagði hún : þú ert núna orðin 12 ára og ég hef beðið þessarar stundar lengi lengi. Nú vil ég fylgja þér og hjálpa þar til þú getur staðið ein og gert það sem þér er ætlað.
Þetta var skrítið, hvað skildi mér vera ætlað, og hvers vegna kom hún, kona sem ég þekkti ekki og vildi hjálpa mér, hvernig vissi hún að ég var hérna þegar mamma og pabbi vissu það ekki einu sinni og ég hafði heldur ekki sagt systur minni eða vinkonum mínum hvert ég fór. Ég fór bara frá öllu til að vera ein með sjálfri mér og ekki verða trufluð af neinum.
Þetta var leynistaðurinn minn sem engin vissi um. Hvernig vissi hún hvar ég var?
Þetta var skrítið og ég hugsaði þetta í dágóða stund. Þegar ég leit upp af hugsunum mínum var hún horfin
Ég rölti heim og reyndi að skilja þetta. Allt í einu var hún þarna og allt í einu ekki. Hvert fór hún á meðan ég var að hugsa. Gekk hún í burtu eða hafði hún vængi sem ég tók ekki eftir og flaug í burtu yfir hafið og þangað sem hún átti heima, eða beittist hún í hafmey og kastaði sér í öldurnar þegar ég var ekki að horfa. Þetta var allt voða undarlegt.
Það leið tími, ekki langur kannski nokkrar vikur. Ég var búinn í sumarfríinu mínu í skólanum og við vinirnir hittumst eftir sumarfríið þar sem allir höfðu verið einhversstaðar, í sveit, í útlöndum eða þangað sem fólk nú fer í fríunum sínum. Nema við höfðum verið heima þetta sumar eins og önnur sumur áður.
Það var sem sagt haust og lífið var hjá sumum gott. Við krakkarnir lékum okkur eftir skólann í allavega leikjum. Fallin spýtan, hverfa fyrir horn og feluleiki. Það var gott að vera aftur með vinum mínum, eftir aðskilnað sumarsins.
En eitt var ekki gott, því haustið er ekki gott fyrir alla í mínum bæ. Á haustin koma kindurnar af fjöllum þar sem þær hafa lifað í sæld allt sumarið og borðað gras og kannski fjallagras, hver veit. En á haustin þá er stór hluti af þeim slátrað. Það er erfitt, það hefur alltaf verið erfiður tími fyrir mig. Það er ekki erfitt fyrir alla því á þessum tíma flæddi jafn mikið af peningum inn í bæinn og blóð sem flæddi um gólf sláturhússins. Ég fann alltaf þessa blóðlykt liggja yfir bænum og heyrði angistarvein kindanna. Hræðsluvein sem skar sig inn í merg og bein. Það var sama þó ég lægi í rúminu mínu með alla koddana fyrir eyrunum ég heyrði hræðsluna eins og innan frá.
Ég sat á staðnum mínum, leynistaðnum mínum og reyndi að hugsa um eitthvað allt annað en það sem var að gerast í bænum mínum. Ég reyndi að heyra ekki eða finna hræðsluna sem lá yfir öllu, bæði fyrir utan mig og innan. Það var eins og ég væri hluti af hræðslunni, svo mögnuð var hún.
Allt í einu situr Steinunn við hliðina á mér, eins skyndilega og hún hvarf síðast.
Steinunn: ég veit að þetta er erfiður tími.
Ég: ég get ekki lokað þessi hljóð úti !
Steinunn: ég get hjálpað þér og ég get líka hjálpað þér að hjálpa þeim.
Ég leit á hana og skildi ekki alveg hvað hún var að meina, hjálpa mér að hjálpa þeim, það hlaut að vera ómögulegt. En ég var til í hvað sem var og kinkaði kolli.
Steinunn: Lokaðu augunum og hreinsaðu hugann þinn fyrir öllum hugsunum. Notaðu þann tíma sem þú þarft til að ná þeirri ró.
Ég lokaði augunum og hugsanirnar flugu fram og til baka upp og niður og það var ómögulegt að reyna að stoppa þær. Svo hugsaði ég lika um að hætta að hugsa, það hlaut að vera hugsun líka.
Ég opnaði augun og leit á Steinunni: Ég get ekki hætt að hugsa, og þegar ég reyni að hætta að hugsa þá fer ég að hugsa um það að hætta að hugsa.
Steinunn brosti til mín, lagði vísifingur á ennið á mér og ég fann ró streyma í gegnum mig. Ró sem ég hafði aldrei upplifað áður, það var eins og það suðaði yfir höf'inu á mér, eða kannski eins og ég lægi í gosbaði, ég veit ekki alveg hvernig á að útskýra það.
Langt í burtu heyri ég rödd Steinunnar segja:
Sjáðu í þínu innra, kindurnar sem eru þjakaðar af hræðslu, fylgstu með þeim og settu allan þinn viljakraft í þessa mynd. Sjáðu nú að það sem áður voru kindur í líkamlegu formi eru nú lifandi Ljós.
Lifandi Ljós sem er í tengslum við þig og hver aðra. Fyrir ofan þetta lifandi Ljós sérðu stærra Ljós sem með gullnum þráðum er tengdur Ljósinu í hverri kind. Festu myndina í hugann, haltu myndinni stöðugri í huganum.
Nú þegar myndin er orðin stöðug, einbeittu þér þá að því að hafa samband við stóra ljósið fyrir ofan kindurnar. Settu allan þinn vilja og allan þinn kærleika til kindanna í þennan straum, sem er straumur af orku sem myndar samband við þessa æðri veru.
Það sem þú nú sérð og ert í beinu sambandi við núna er stór Diva/Engill, sem er Engill fyrir kindur, sem er samansafn af öllum lífum hjá öllum kindum. Þessi engill er sá sem tengir allar kindur á Íslandi saman eins og eina lifandi veru, sem eru hluti hvert af öðru eins og þú hefur þína sál hafa allar þessar kindur sömu sál sem við getum kallað hópsál, sem tengja þau saman sem eitt. Það að þessar kindur hérna í bænum þjást, hefur áhrif á allar kindur.
Einn sársauki.
Ein þjáning.
Eitt líf.
Sendu þakklæti og blessun fyrir þá fórn sem þessar kindur eru að fara í gegnum svo við mannfólkið á Íslandi getum nært okkur á í komandi tíð. Sendu Ljós og Kærleika sem þú sérð streyma í gegnum þig og til þessarar Guðdómlegu veru.
Sjáðu svo Ljósið streyma frá Þessari Guðdómlegu veru inn í allar kindur sem eru á leið frá einu tilverustigi til annars. Fórn sem þær gefa okkur svo við getum nært líkama okkar.
Sjáðu í þínu innra, að Ljósið fyllir vitund þeirra og yfir þær færist ró sem gerir ferðalag þeirra auðveldara. Þar sem glimt af skilningi snertir skilning þeirra á því ferli sem er að gerast.
Sjáðu í þínu innra að þeir sem framkvæma verkið fái Ljós og Kærleika sem er með til að gefa þeim opnari vitund fyrir þeirri fórn sem þeim er færð af þeim kindum sem fara á milli handa þeirra.
Sjáðu þær manneskjur sem vinna verkið og handfjalta það sem eftir er, sýna skilning og þakklæti fyrir lífinu og með því sendir Kærleiksorku í þann mat sem kemur til með að næra okkur í nánustu framtíð.
Um leið og hún talaði eins og langt í burtu, gerðist allt það sem hún sagði eins og að sjálfu sér.
Það var eins raunverulegt eins og það að sitja á leyndarmálasteininum.
Ég fann að ég hægt og rólega kom til baka í það líf sem ég vanalega var í.
Ég opnaði augun og horfði fram fyrir mig á öldurnar og langaði eiginlega ekki að segja neitt.
Ég var ein, og það var gott.
Ég þurfti að vera ein með þær hugsanir sem komu.
Ég skildi ekki allt sem hafði gerst, en það gerðist eitthvað sem breytti öllu.
Þegar lífið fer í hring og minningar verða öðruvísi með tímanum
20.2.2010 | 07:32
Við vorum nánar ég og Sólveig gamla.. Kannski ekki nánar eins og maður oft hugsar það,en við vorum nánar í hugum okkar.
Sólveig var 94 ára eða 80 og eitthvað, ég man það ekki alveg, ég var 11 ára.
Sólveig gamla átti heima í litlu húsi undir fjalli í þorpinu sem ég ólst upp í. Sólveig átti margar kisur, kannski hundrað, kannski þúsund, ég taldi þær aldrei.
Sólveig var alltaf í svörtum kjól með svuntu sem einu sinni hafði sennilega verið hvít, en var nú ljósgrá. Hún virkaði hrein en þegar maður andaði að sér lyktinni hennar var lyktin rykug og gömul, án nokkurs sápuilms.
Það sem var gaman að gera með Sólveigu var að ganga um fjallið og leita að kisunum hennar. Það var ævintýri líkast. Fjallið var stórt og hvönnin óx þar um allt, á stærð við mig, og börn á mínum aldri.
Sólveig talaði ekki við mig þegar við vorum að kalla á kisurnar hennar. Kannski talaði hún aldrei við mig yfir höfuð, ég man það ekki, enda er það ekki mikilvægt. Við vorum saman í þessari athöfn sem var eins og hluti af einhverju öðru og dýpra en það virtist í fyrstu sýn
Sólveig kallaði einn tón eftir annan sem bergmálaði í fjallinu og endaði með að bergmálið ómaði hver annan upp svo það var eins og það væri kallað frá öllum áttum. KKKKkkkkkiiiiiiiiiissssssssssKissssssskiiiiiiisssssssss...........
Sólveig gekk við gamlan tréstaf, og gekk einhvernvegin eins og í eigin heimi á meðan hún framkallaði þessi kisuköll. Bæði vetur sumar vor og haust man ég hana á þessari göngu í þessum fötum með sjal yfir herðarnar og silfurlit kringlótt gleraugun. Ég man ekki hvernig sjalið var mjög skýrt, en mig minnir að það hafi verið í svipuðum lit og hárið hennar og þess vegna hef ég ekki tekið sérstaklega eftir því.
Ég fylgdi bara með henni og fannst þetta ævintýri sem var algjörlega tíðlaust fyrir mér. Við mættum sjaldan fólki á þessum göngum, en ef við gerðum það héldum við ferðinni áfram án þess að heilsa viðkomandi. Það var eins og það myndi brjóta upp formið sem hafði verið byggt upp í mörg mörg ár af henni og svolítið af mér.
Ég var með Sólveigu í þessum göngum af og til í mörg ár. Ég man aldrei eftir að kisurnar kæmu til okkar, eða fylgdu okkur heim.
Húsið hennar var lítil viðbygging við annað stærra hús sem afi minn og amma bjuggu í. Húsið hennar Sólveigar var alltaf fullt af kisum, það voru kisur allsstaðar. Það var erfitt að sjá að þarna byggi manneskja, því allt var á einhvern hátt innréttað sem kisuhreiður. Það voru tveir gluggar í herberginu sem hún svaf í. Alltaf þegar ég kom inn til Sólveigar gömlu var allt krökkt af kisum í hverjum krók og kima. Gluggarnir voru smáir, svo það var ótrúlegt að það væri pláss fyrir allar þessar kisur þarna í gluggakistunni.
Herbergið var lítið. Það var pláss fyrir lítið rúm, sem var fullt af teppum í allavega litum bæði hekluð, prjónuð og ofinn og skinn voru þarna líka undir teppunum, sá maður ef vel var að gáð.
Rúmið hennar var fullt af kisum sem kúrðu hver upp að annarri. Meðfram veggjunum voru teppatætlur og skinn tætlur sem lágu eins og þeim hefði verið hent tilviljunarkennt hingað og þangað. Þar kúrðu kettlingar, í öllum stærðum og gerðum. Það var ekki hægt að sjá að einhverjir af þeim væru nánari en aðrir, því allir lágu í einni hrúgu þar sem var mjúkt og notalegt.
Eitt borð var þarna inni, það borð var sett upp við rúmið, sem einskonar náttborð. Á borðinu var gamall hárbursti. Þessi bursti fannst mér fallegur.Hann var silfurlitaður með munstri á skaftinu og á bakinu. Munstrið var af blómum og páfugli. Burstinn var mjög framandi þarna í þessu herbergi. Það eina sem sannfærði mig um að burstinn væri raunverulegur og í eigu Sólveigar voru hárin á burstanum. Löng ljósgrá næstum hvít hárin sem höfðu fests í þegar hún greiddi langa þunna hárið sitt í eina fléttu á morgnana. Fléttan varð með hverju árinu lengir og lengri og þynnri og þynnri. Við hliðina á burstanum var vatnsglas með gömlu vatni í með matarkrumlum sem flutu ofan á vatninu.
Ef ég kom of snemma á morgnana, sem ég stundum gerði, uppgötvaði ég að glasið var geymslustaður tannanna hennar á meðan hún svaf. Einnig var þarna á borðinu gömul og slitin sálmabók. Þetta voru í raun einu persónulegu hlutirnir inni í húsinu hennar.
Í húsinu var lítill eldhúskrókur, með einum skáp sem var áfastur veggnum. Það var vaskur á skápnum og einn efriskápur. Ég sá hana lítið nota þetta borð og vaskinn, nema einu sinni þegar hún lagaði mat fyrir kettlingana sína.
Sólveig hafði veitt mús í gildru og músina skar hún í smá bita fyrir kettlingana, til að auðveldara væri fyrir þessi grey að borða kjötið.
Ég sá Sólveigu aldrei elda mat fyrir sjálfa sig, enda fékk hún mat á disk frá nágrönnum sínum, sem eins og áður sagði voru afi minn og amma.
Ég þekkti ekki sögu Sólveigar áður en hún flutti í bæinn, eða hvort hún alltaf bjó í bænum. Hún var bara konan með kisurnar sem var öðruvísi en aðrir og lifði lífi sínu með kisunum sínum án svo mikilla afskipta við aðra.
Einn daginn ákvað ég að venju að leggja leið mína til Sólveigar. Ég gerði eins og ég alltaf gerði, gek bara inn án þess að banka. Ég kallaði nafnið hennar á meðan ég fór úr úlpunni og stígvélum. Það kom ekkert svar og ég upplifið óvenjulega þögn í húsinu, þögn sem ég ekki hafði heyrt áður
Ég gekk frá anddyrinu í gegnum eldhúskrókinn og inn í herbergið. Þar var ekkert ! Engar kisur, engin Sólveig! Allt lá eins og vanalega þegar ég kom snemma á morgnana, einnig tennurnar í glasinu voru þarna, en ekki Sólveig og engar kisur eða kettlingar.
Ég settist á rúmið hennar og skoðaði mig um. Allt var gamalt og slitið, vel notað og nýtt til hins ýtrasta. Ég stóð upp af rúminu og gekk fram í anddyrið. Ég klæddi mig í skóna og úlpuna og gekk inn í hrap eins og við kölluðum það svæði sem Sólveig gamla vanalega gekk um þegar hún kallaði á kisurnar sínar. Ég gekk um og kallaði nafnið hennar, ekkert svar. Ég heyrði hvergi óminn af kallinu hennar til kisanna sinna, ég heyrði óminn aldrei aftur á þessum stað á þessum tíma.
Það var eins og fjallið hefði gleypt hana og allar kisurnar hennar. Það liðu dagar og það liðu ár. Það sást aldrei til ferða hannar aftur og kisurnar hennar voru horfnar líka.
Húsið hennar var rifið niður, og amma og afi byggðu í staðin fína stofu við húsið sitt og lítið herbergi sem við notuðum til að hlusta á útvarpsöguna í útvarpinu.
Ég varð eldri og flutti burtu frá þorpinu. Fyrst flutti ég til Reykjavíkur svo erlendis.
Ég flutti í þorp úti á landi hérna í þessum framandi stað Ég flutti í gamalt hús með stórum garði. Nokkrum dögum, ekki mörgum uppgötvaði ég svolítið þegar ég var að sýsla í bakgarðinum mínum. Ég sá að innarlega í bakgarðinum var lítið hús, í húsinu býr eldri kona með kisunum sínum. Kannski hundrað, eða kannski þúsund, ég, veit það ekki því ég hef aldrei talið þær.
Hún er svolítið yngri núna, en hún var þá, kannski 65 ára eða 70 ára, ég hef aldrei spurt hana. Hún varð ánægð að sjá mig aftur og vildi heyra allt um það sem hafði gerst hjá mér síðan síðast. Hún er ennþá með langa fléttu í hárinu sínu og hárið er ennþá þunnt eins og áður. En núna er hárið ekki svo grátt. Kannski grá hár hér og þar en voða lítið. Hún er öðruvísi klædd núna en áður. Núna er hún í allavega fötum í hinum og þessum litum og blandar öllu eins og barn sem vil leika sér með alla liti heimsins og hefur loksins tækifæri til þess núna
Hún er þó ennþá með gleraugu eins og áður en aðeins öðruvísi formuð. Hún virkar hrein en þegar maður andar að sér lyktinni hennar var lyktin rykug og gömul, án nokkurs sápu ilms Hún heitir núna Else Marie
Hún gengur um bæinn og kallar á kisurnar sínar með dóttur mína sér við hönd. Else Marie kallar einn tón eftir annan sem bergmálar í bænum. KKKKkkkkkiiiiiiiiiissssssssssKissssssskiiiiiiisssssssss
Else Marie á heima í litlu húsi í bakgarðinum okkar. Húsið hennar er meira innréttað fyrir kisurnar hennar en fyrir manneskju að búa í. Við förum reglulega með mat á disk yfir til hennar eins og afi og amma gerðu í gamla daga, þó ekki á hverjum degi eins og þau gerðu, en eins oft og við getum.
Else Marie elskar kisurnar sínar, meira en allt annað, hún vil allt fyrir kisurnar sínar gera sem henni ekki tókst áður, á öðrum stað á öðrum tíma. Hún passar þær fyrir öllu því sem gæti skaða þær. Hún passar þær svo vel að margar þeirra fá aldrei að fara út, sumar eru í bandi í garðinum hennar en þær sem eru lausar eru þær sem hún gengur um og kallar á með dóttur mína sér við hönd.
Hún hefur beðið mig um það, að þegar þar að kemur og hennar tími hér er liðin og tími til að fara annað. Að ég passi kisurnar hennar fyrir hana og sjái fyrir því að ekki komi neinn þegar hún er farinn og setji kisurnar hennar í poka og hendi út í sjó eins og svo oft gerist þegar fólk veit ekki betur svoleiðis segir hún með sorg í augunum.
Hverjum dytti það í hug , segi ég með hryllingi. En hún segist hafa minningu frá öðrum stað á öðrum tíma þar sem lausn bæjarbúa var sú, þegar hennar tími var komin að taka hundrað kisur, kannski þúsund. Setja þær í stóran poka og henda þeim út í brimið og láta öldurnar um að klára það verk sem þeir sjálfir áttu að gera en höfðu ekki kjarkinn til þess. Hafið gerir verkið á þeim tíma sem það nú getur tekið að klára svona erfitt og sorglegt verk með skelfinguna hljóma úr brúnum poka .
Ég skil ekki alveg minninguna , en hún kemur frá einhverjum stað frá einhverjum tíma og mér er fært að breyta þeirri minningu í annað og betra, núna þegar ég er fullorðin. Svo vil verða.
Þetta er minning, blandað með hinni innri minningu sem vil minnast öðruvísi
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Samvinna milli engla og okkar.
28.9.2009 | 08:35
Allt með rólegra móti miðað við hvernig gæti verið. Stundum virðist heimurinn hristast, og allir sem einn erum með í þeim skjálfta. Ég finn að í dag get ég hægt á skjálftanum, með því að biðja um hjálp til að takast á við það sem koma skal og hjálp til að hafa styrk til að takast á við það sem er óumflýjanlegt, hvað sem verður og í hvaða átt sem er .
Eftir þessar bænir finn ég innri ró og vissu fyrir því að allt fer á þann veg sem er best fyrir mig og best fyrir það heila.
Í gær fórum við mæðgur í göngutúr í skóginn okkar hérna rétt hjá. Við tókum Lappa og Dimmalimm með. Þetta var yndislegt í haustlitunum sem skarta sínu fegursta núna.
Það er svo flott slott þarna, fallegur garður, en líka villtur skógur. Hundarnir nutu þess að ganga og þefa upp alla þá lykt sem varð á vegi þeirra og við mæðgur leystum öll heimsins vandamál, bæði okkar á milli og í stærra samhengi.
Þessi vika er sú vika sem ég ekki er að kenna í Listaskólanum, en ég kenni þessa vikuna í Skolen for kreativitet og visdom. Það gengur mjög vel, við höfum núna 14 nemendur og það er mikil gleði sem ríkir. Þess má geta að það bætast stöðugt nýjir nemendur við, því fólk fréttir að því sem við erum að gera.
Við vinnum í svo góðri orku sem við höfum byggt upp með hugleiðsu í langan tím og samvinnu við þá engla sem við höfum markvisst unnið að því að fá samband við.
Mig dreymir um þann tíma þar sem samvinna milli engja og okkar verður hluti að því að draga andan. Fyrr á tímum, var þetta algengt, en núna er eins og mannkyn hafi misst kontaktin við sitt innra og aðrar víddir, sennilega vegna þess að við höfum svo mikla efnisþörf, eða þar að segja, við dýrkum og erum þrælar peninga, húsa og annars sem í raun að lokum færir okkur ekki neitt.
En núna er allt rifið úr höndunum á okkur með krísum, bæði efnahagslega og náttúruöflin. Við erum sem sagt ekki eins mikir herrar yfir lífi okkar og við viljum vera láta. Ég segi stundum að það eina sem ég finn að ég get stjórnað, er hvað ég borða. En þá verðum við að finna aðrar leiðir til að upplifa okkur lifandi, sem ég vona svo innilega að verði til þess að við leitum á önnur mið, hin innri mið, því þar er allt sem við þurfum! Bara að gefa þeim heimi sjéns, þeim heimi sem bíður eftir að við opnum augun fyrir þeim.
Þetta er í raun allt svo einfallt, en við gerum það svo flókið.
Megi friður og englar vera með ykkur.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 09:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna mun fara fram hér í Kaupmannahöfn í desember 2009.
17.9.2009 | 17:49
Markmið ráðstefnunnar er að ná samkomulagi um nýjan umhverfissáttmála.
Þessi ráðstefna er mjög mikilvæg og hefur áhrif á hvernig framtíðin lítur út fyrir allt líf á jörðu.
En eitt er hvað stórþjóðirnar velja að gera sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt, en mikilvægast er þó hvað við hver og einn veljum að gera í okkar daglegal lífi í umgengni okkar við hin náttúruríkin .
Þetta er eitthvað sem kemur okkur öllum við, en hversu mikið setjum við okkur inn í þetta, hversu mikil áhrif getum við haft, eða eigum við kannski bara nóg með okkur sjálf.
Hvað er raunhæft að við hver fyrir sig gerum til að hafa áhrif?
Ég held að það sé mikilvægt að við skoðum okkur nær en við oftast gerum og byrjum á því sem er í kringum okkur og þar sem við smátt og smátt getum orðið meðvituð um það líf sem er okkur næst.
Við þurfum að skoða þetta út frá dýpri tilfinningu en við höfum gert áður. Við skoðum oftast þessi umhverfismál út frá ógnun eða hræðslu fyrir okkar lífi hérna á jörðinni sem er að sjálfsögðu áhrif frá hræsluáróðri sem dynur á okkur dag eftir dag.
Mín skoðun er sú að sá áróður setur ekki varanleg spor eða hefur langvarandi áhrif sem er nauðsynlegt til að viðhalda góðri umgengni við bæði dýr og náttúru langt inn í framtíðina.
Við þurfum í raun að æfa okkur á að verða meðvituð um mikilvægi alls lífs á jörðu.
Kærleikurinn er sterkasta aflið í öllu lífi og þar held ég að sé best að byrja hjá okkur hverjum og einum.
Ég held að það sé auðveldast fyrir okkur að þróa Kærleikan til dýranna, því þau eru svo náin okkur og vekja upp svo margar tilfinningar sem eru oftast góðar.
Í þessum pistli tek ég fyrir hvernig hægt er á mjög einfaldan hátt að að gera erfiða upplifun að fallegu augnabliki á milli mannesku og dýrs !
Mig langar að deila með ykkur upplifun sem ég hafði fyrir tveimur árum þar sem Kærleikurinn gaf mér vissu fyrir að með einfaldri hugsun hafði ég áhrif á líf sem fór yfir á aðra vídd.
Einhverntíma á lífsleiðinni upplifum við flest að missa gæludýr. Margir taka því eins og hverjum öðrum hlut, en mörgum okkar finnst það mjög erfitt. Núna heyrum við um verri örlög margra dýra vegna erfiðleika hjá fólki, ástandið er þannig í heiminum að það er auðvelt að gleyma að þegar við tökum að okkur dýr þá fylgir því ábyrgð á meðan dýrið lifir. Ábyrgðin getur legið í því að taka ákvörðun, ákvörðun um hvort dýrið eigi að lifa eða deyja.
Einu sinni átti ég hund, hún var okkar fyrsti fjölskylduhundur og var okkur öllum mjög kær. Hún var algjörlega hluti af fjölskyldunni. Hún hét Iðunn og hún kom til okkar 1996.
Hún varð eins og gerist og gengur gömul, hún dó í fyrra 12 ára gömul. Við héldum henni lifandi eins lengi og við gátum, en að lokum sáum við að við yrðum að taka ákvörðun um það hversu mikið hún ætti að þjást og hversu lengi. Hún gat varla orðið gengið, lá bara á dýnu á gólfinu inni í stofunni og svaf. Hún heyrði orðið illa en það sem var verst var að hún hafði svo miklar kvalir. Hún hafði verið á verkjalyfjum og öllu því sem átti að hjálpa í nokkra mánuði, en það var hætt að virka.
Ákvörðunin var tekin og dýralæknirinn sem hún þekkti vel var pantaður heim. Jens hafði verið læknirinn hennar í mörg ár.. Okkur fannst mikilvægt að þegar hún færi frá okkur, væri hún á stað sem hún þekkti og í kringum fólk sem hún þekkti.
Á dýnunni sinni inni í stofu í faðmi fjölskyldunnar.
Daginn sem Jens kom, vorum við fjölskyldan saman komin. Eldri börnin okkar komu líka og voru með að kveðja hana. Við borðuðum morgunmat saman, vorum öll leið og kvíðin fyrir því sem átti að gerast. Við settumst öll inn í stofu eftir morgunmatinn og sátum hver í sinni hugsun. Iðunn var í miðjunni, á dýnunni sinni eins og alltaf.
Án þess að við ræddum það hvert við annað, byrjuðum við hver fyrir sig að hugleiða. Ég get bara skrifað mína upplifun, en veit þó að ég var ekki ein um þá upplifun. Það er mikilvægt fyrir mig að deila þessu með ykkur, því þetta gefur nýja mynd af þeim möguleikum sem eru til að gera svona kveðjustund fallega og með meiri Kærleika.
Ég upplifði í byrjun algjöran frið, og sátt. Ég naut þeirrar tilfinningar sem var kærkomin eftir erfiða mánuði. Ég einbeitti mé að Iðunni í huganum, sendi henni allt það þakklæti og Kærleika sem ég hafði til hennar eftir þetta líf sem við höfðum haft saman.
Ég veit að orka fylgir hugsun.
Ég sá hana hvíla örugg í því sem var að gerast og mín skynjun var sú, að hún vissi og var tilbúinn.
Ég hélt þessari mynd í huganum í dálítin tíma. Allt í einu fann ég að að allt lýstist upp í kringum hana og ég heyrði eins og óm af tónum í stofunni. Ég fann að ég náði sambandi við hana á annarri vídd og ég hélt sambandinu sem var á allt öðru plani en ég hafði upplifað áður. Ég skynjaði í kringum hana einhversskonar orku eða verur sem kannski er hægt að kalla engla eða hvað sem við veljum, ég kalla þetta orku fulla af kærleika sem voru tilbúnar að taka á móti henni. Þá var ég viss og sátt, því auðvitað fara dýrin í sitt himnaríki, eins og við förum á okkar stað. Ég hélt tengingunni við Iðunni í langan tíma og ég fann að í þessari tengingu sem myndaðist náðum við að kveðja hvor aðra. Ég fann að hún var tilbúinn til að fara og þá varð ég tilbúinn til að sleppa.
Ég opnaði augun og leit á hina í fjölskyldunni og um leið skein sólinn inn um gluggann og baðaði stofuna í ljósi. Þetta var táknrænt.
Dýralæknirinn kom og gaf henni sprautu í hjartað og eftir smá stund var hún farinn.
Ég vissi að það var tekið á móti henni á annarri vídd.
Ég vissi líka að þetta var rétt ákvörðun.
Þetta er í raun spurning um að við höfum virðingu fyrir því lífi sem er í kringum okkur.
Það er fyrsta skrefið að því að bjarga jörðinni.
Reiðulínan og pjátursstelpan mætast í syntese
15.8.2009 | 11:07
Já, það er tími til komin að fara að sinna blogginu aftur. Öll sú hugsun hefur legið í dvala í sumar, þar sem ég hef verið á ferðinni í allt sumar, á milli þess sem ég hef unnið.
Ég fór til Íslands með sýningu eins og sést á fyrra bloggi og svo vorum Sól, Dimmalimm og ég í sumarhúsi við Límfjörðin sem var fallegt og yndislegt. Set myndir inn frá þeirri ferð.
Margt gott hefur gerst, en samt er lífið ekkert auðveldara en oft áður. Margt er í óvissu með lífið okkar hérna í kotinu, en margt er mikið öruggt. Það er öruggt að ég sit hérna og nýt stundarinnar ein heima með öllum dýrunum mínum, það er öruggt að ég heyri í fuglunum úti í garði og það er öruggt að ég fæ mér hádegismat sem ég hef planlagt að verði góður.
Það sem ég get ekki stjórnað, er óöruggt, en það sem ég get stjórnað er oftast öruggt. Eitt er það sem ég get stjórnað og hef nú stjórnað með öllum þeim kærleika sem ég hef í mér, er hvað ég bíð líkama mínum upp á. Núna í tæpt ár hefur hann fengið valið fæði sem passar honum vel til að fá á sig fallegt og heilsusamt form. Kroppurinn hefur misst um 30 kíló og okkur báðum líður vel með það. Við njótum nú betur samvista og gerum hitt og þetta okkur til gamans sem annar hluti af mér hefur átt erfitt með að sætta sig við, fundist það sóun á tíma og bölvaður hégómi. Þessi hluti af mér er oft ansi stífur og vill helst nota tímann í skynsamlega hluti sem kemur flestum að gagni. Þessi hluti hefur ráðið miklu undanfarin ár, en hefur fengið minna pláss núna á meðan ég leifi kvenlega hlutanum (femenin) að koma fram og sína sig smá sem í raun verður meira og meira.
Þetta krefur stundum rökræðna á milli allra hluta, en við erum nú komin á þá skoðun að allir eiga rétt á að fá pláss, og allir eru mikilvægir til að allt fari á besta veg og ég verði heil.
Kvenlega hliðin, elskar að skoða föt, og velta fyrir sér hvað passi vel saman, prufa föt í búðum og máta hitt og þetta saman. Pælingar um hárið og snyrtivörur eru komnar á borðið en er kannski ansi fálmandi. En allir þurfa að byrja einhversstaðar og æfa sig að á því sem nýtt er.
Henni ströngu litlu fannst þetta alveg út í hött í byrjun og frá henni streymdi óánægja sem hafði áhrif á alla í kringum hana. Núna sættir hún sig við þetta, reynir að umbera þetta pjátur, en brosir samt út í annað af og til sem er tákn um kærleika til hennar pjátu sem finnst gaman af litum, fötum, fallegum hlutum og blómum. Henni finnst líka gaman að mála, teikna, syngja og dansa og hún gerir meira og meira af því. Þetta léttir stemminguna á öllum plönum svo í mér án alls utanaðkomandi er meiri friður en áður.
Hún stranga er minn styrkur og kraftur sem hefur hjálpað mér í gegnum allar mótbárur sem ég hef upplifað, hún hefur verið sú sem hefur mótað mig og gefið mér kraftinn, kraftinn sem getur allt, vil allt og kann allt. Hún hefur verið með mér á öllum mikilvægum augnablikum í lífinu, til að hjálpa mér að ná markmiðum mínum. Það er henni að þakka að ég er sú sem ég er.
En allt hefur sinn tíma og núna er annar tími sem kallar á eitthvað annað sem er mikilvægt fyrir mig núna í þeim verkefnum sem nú taka við.
Dag frá degi verð ég meira heil, með því að sameina og gefa pláss til allra í mér, ekkert er þar sem ekki á að vera, allt hefur jafnan rétt á sér og getur hjálpað á þeim stöðum sem ég þarf á að halda.
Svona er ég spegilmynd jarðarinnar. Svona ert þú spegilmynd jarðarinnar
Allt á rétt á sér og allt gefur til heildarinnar.
Hvaða andlit höfum við ?
20.7.2009 | 10:15
Þá er ég komin heim í kotið eftir ferðalag til Íslands. Ég hafði það alveg eins og best er á kosið í alla staði. Sýningin gekk vel og ég naut fegurðar Vestfjarða þessa stuttu viku sem við vorum þar. Ég ferðaðist þar með Morten ( sem sýndi með mér) konunni hans, dóttur og svo að sjálfsögðu Sólinni minni sætu.
Ég ætla nú ekki að gera langa ferðasögu, bara svona smá . Eftir viku á Ísafirði við gott yfirlæti hjá Áslaugar gistiheimili og Sigrúnu systur fórum við suður.
Sól og ég hittum Margréti og Ingunni og ferðuðumst um Suðurlandið sem var svo fallegt og fallegt. Ég heimsótti nokkra og hitti nokkra. Gaman er að segja frá því að ég heimsótti hann Kalla í Mosó og fjölskyldu. Kalla þekkt ég í raun bara sem góðan bloggvin. Við áttum saman yndislega stund þar sem tilfinningin var að vera með nánum og gömlum vinum. Ég er þakklát fyrir þennan vinskap.
Auðvitað átti ég stund með Guðna mínum, sem hefur verið mér svo náin í mörg mörg ár.
Suma náði ég ekki að hitta, en hitti næst, suma náði ég að hitta og er þakklát fyrir það.
Ég fór í hvalaskoðun með Bobbu vinkonu og Sól, mjög áhugavert á margan hátt. Opnaði augun mín fyrir svo mörgu sem alltaf er fræðandi gott og hollt.
Ég verð nú að segja að þar hefði margt mátt betur fara og hefði mátt hugsa aðeins betur hjá þeim sem að þessu stóðu. Við völdum að tilviljun ekki bát frá Eldingu.
Það var dýrt að fara svona ferð! Skildist á Sigga mínum að Elding hafi verið ódýrari en það sem við völdum.
Þegar maður fer inn í bátinn þar sem maður kaupir miðana labbar maður upp ansi áhugaverðan landgang, minnir á einhvern hátt á inngang í hóruhús í bíómyndum. Landgangurinn er yfirbyggður með rauðu efni og svo eru ljósaseríur festar við efnið svo tilfinningin er alls ekki sú að maður se að fara að upplifa íslenska náttúru í allri sinni fegurð. Þegar inn í skipið er komið, þar sem maður kaupir miðana og getur keypt sér einhverjar veitingar á meðan beðið er, er upplifunin betri og undirbýr mann aðeins betur undir það sem koma skal.
Þar sátum við, Bobba, Sól og ég og drukkum kók og kaffi og létum okkur hlakka til ferðarinnar, ástam nokkrum öðrum sem vildu sömu upplifun og við.
Loks lá leið á haf út og spenningur í maganum, með öllum hinum útlensku ferðamönnunum. Þarna heyrðum við dönsku, þýsku, ensku og frönsku. Voða gaman og spennandi.
Við sigldum á haf út og sáum smá hvala baka hér og þar, en í raun ekkert eins og auglýsingin lofar, en náttúran svíkur engan, litirnir fallegir, og fuglalífið mikið.
Eitt var það sem truflaði okkur og erfitt er að skilja að hafi ekki verið gert eitthvað við, við hlustuðum á útvarpið í lélegum hátölurum alla leiðina, auglýsingar, bítlarnir og hina ýmsu poppmúsik, einhvernvegin passaði þetta ekki alveg inn í það sem hugurinn hafði undirbúið sig fyrir. Hafið, náttúran, hvalir sem hoppa upp í öllu sínu veldi, Ísland í öllu sínu veldi . Nei, það vantaði eitthvað upp á, halalleiðangur sem virkaði sem auðfengin leið til að þéna peninga, án þess að leggja of mikið á sig, eða hugsa þennan iðnað til enda.
En enga neikvæðni, auðvitað sér náttúran sjálf fyrir því að við getum notið hennar.
Á leið í land, settumst við inn í bátinn, kaldar og þreytta.
Einn liður í túrnum, var stangveiði. Ég var ekki alveg að skilja tilganginn með tilgangslausri veiði, en ákvað ekkert að vera að láta það í ljós, bara ekkert að vera að taka þátt í því. Við sáum innanfrá að hverri línunni var kastað út eftir aðra, sumum fiskum hent út aftur. Skilningsleysi mitt algjört fyrir svona tilgangslausu drápi og limlestingum, en ég ákvað að vera ekkert að skipta mér að því, þetta er leið til að þéna peninga, drepa eða meiða sér til gamans, ekki sér til matar.
Sól fór að líða eitthvað illa, svo ég fór með henni upp á dekk. Þar var allt fullt af glöðum útlendingum að toga upp, einn og annan fisk sér til gamans.
Við Sólin gengum fram á appelsínugula plastkörfu hálf fulla af gersemum hafsins, og Guð Minn Góður þeir voru allir lifandi og börðust við köfnun, það var greinilegt að sjá baráttuna sem þeir áttu í, sprikluðu og börðust. Ég fékk skal ég segja algjört sjokk. Ég man í gamla daga þegar pabbi var að veiða, að fiskarnir voru það sem kallað var blóðgaðir, held það sé að skera á slagæð eða eitthvað þessháttar. Þá var veitt sér til matar, ekki að þeim hafi þótt það leiðinlegt, en við borðuðum allan aflann yfir veturinn.
Sól og ég fórum niður til Bobbu alveg miður okkar og við ræddum þetta smá stund, fór ég svo upp í stýrishús og fann fram til þeirra sem báru ábyrgð á þessum verknaði.
Við vorum alls ekki sammála um hvað ætti að gera og hvað væri rétt að gera, þeir héldu í alvörunni að ég væri að gera grín. En að lokum fór einn þeirra og leysti blessuðu fiskana undan þeirri þjáningu að berjast og berjast, kafna.
Þetta var ekki góð upplifun, og gaf ekki góða mynd af því hvernig er hægt að kynna landið okkar. Iðnaður sem kannski gæti verið með til að gefa tekjur til þjóðar sem er á hausnum og á kannski allt sitt undir ferðaiðnaðinum og ferðamönnum.
Það er mikilvægt að andlit þjóðarinnar, sé andlit þjóðarinnar, nema þetta hafi verið andlit þjóðarinnar ?
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)