Færsluflokkur: Bloggar

Einu sinni var lítil sæt skotta

Hún hét Steinunn Helga ! Brotabrot af fortíðinni hennar sérst hérna !!

 


þegar lífið er

1332.jpgÉg sakna þess að hafa ekki tíma til að blogga, eða gera fleiri video . Ég hef því miður barasta ekki tíma þessa dagana eða réttara sagt síðasta ár.

Undanfarinn vetur hefur verið ótrúlega annasamur með báða skólanna. Ég hef haft einn dag frí á viku sem hefur líka verið upptekinn, því allt sem ég náði ekki aðra daga setti ég  á þann dag.

Eins og gerist þegar mikið er að gera þá bitnar það á vinum og vandamönnum. Ég hef hreinlega ekki verið í sambandi við aðra en þá sem ég vinn með, eða er í hugleiðslu grúppum með.  Ég sakna samskipta við bloggheim, ég sakna samskipta við vini mína og vandamenn.  Ég vona þó að það verði betra næsta vetur. Ég er hætt að kenna í öðrum skólanum, eða barnagrúppunum. Ég verð í listaskólanum og mér var boðið að kenna unglingum í Lejre myndlist einu sinni í viku, ég sagði já við því. Ég kem einnig til með að vera með námskeið fyrir ófrískar konur í hugleiðslu og myndlist. Svo er að sjá hvort álagið verði minna.

Það er bráðum skólalok hjá listaskólanum SJÁ allir á fullu að vinna lokaverkefnið, vorsýningu skólans Það er mikið að gera og mikið gaman.img_0532.jpgimg_0547.jpg

Við erum með fókus á proces, eða þróun verksins, en ekki útkomuna, mjög gaman.

Þann 20 maí, varð ég 50 ára, átti ljúfan dag með mínum nánustu.

Ég var vakin snemma með afmælissöng, marensköku og góðu kaffi og ekki má gleyma gjöfunum. Svo kom fólk svona  eitt af öðru, þeir sem mundu eftir því að ég átti afmæli. Ég hafði ekki boðið í neina veislu þann dag. Ég held upp á afmælið 21 ágúst með vinum og vandamönnum í garðinum mínum.

Daginn eftir afmælið mitt  fór ég til  Ítalíu. Ég var þar í viku uppi í fjöllunum með kærum vinum, frá hinum ýmsu stöðum í heiminum. Við hittumst einu sinni á ári og hugleiðum saman. Núna hugleiddum við fyrir Kærleikanum, til sjálfsins, nágrannans, mannkyns. _mg_3033_999761.jpg

Þetta var algjörlega yndislegt og gaf innri ró og frið að nota svona mikinn_mg_3036.jpg tíma til að íhuga og fókusera á það sem er svo mikilvægt.

Tengdafaðir minn lést á meðan ég var þarna.  Það var ekki auðvelt að vera ekki með sínum nánustu á þeirri stundu. En þar sem ég veit og er meðvituð um að við lifum í mörgum víddum, var ég með þeim öllum og honum, þó að ég í líkamlegu ástandi væri ekki með þeim eða honum._mg_3048.jpg

Lífið heldur áfram, með minningar sem eru með til að skapa framtíðina og gera  hana að því sem hún verður. Í dag var hugmyndin að matarklúbburinn kæmi til okkar að borða, en vegna forfalla var því frestað. Ég var bara smá feginn því. Í staðin vorum við í garðinum og plöntuðum blómum og fl.  

Eftir smá tíma, fer ég í sumarfrí, daginn eftir förum við á Þýska eyju  “Hiddenzee” . Við dveljum þar með vinkonum okkar og börnum. Ég hlakka mikið til. Ég ætla að taka með mér krimmabækur og konublöð og lesa og lesa, án þess að hugsa.

img_0542.jpgÁðan þegar við vorum að elda fór Sól að tala við pabba sinn um heimsmeistarakeppnina í fótbolta !!! Hún sagði okkur að í kvöld keppa Englendingar og Ameríkanar, huuuhummmm, pabbi ssgði Sól: eigum við að horfa á þetta saman. Skil ekkert í því að litla skottan mín hafi sagt þetta, eða hafi áhuga á þessu. Ég tek mig þó saman og horfi með og reyni að fylgjast með eins og ég get. Ég hef bara engan áhuga á fótbolta, en ég ætla að þykjast.

Kærleikur og Ljós til ykkar allra


Margir hafa beðið um hugleiðsu, hérna kemur mjög einföld morgunhugsun


önnur tilraun á samtali við heiminn !


Ákvað að tala í staðin fyrir að skrifa

Kæru vinir, ákvað að prufa nýtt form með bloggið mitt.

Skrítið og gaman.

Kærleikur og Ljós til ykkar frá Lejresteinu


Það liggur ótti yfir mannkyninu

img_0218.jpgÉg á fullt í fangi með að halda gleðinni á lofti þessa dagana, en ég geri allt sem ég get til að sjá það jákvæði í því sem gerist í kringum mig.  Síðustu vikur hafa verið erfiðar, á öllum vígstöðvum.

 Ég upplifi eins og það sé ráðist að mér frá öllum áttum !

Ennn ég gerði páskaskreytingu í dag sem situr fallega hérna á borðinu hjá mér og gleður augað,, Múminn minn liggur við hliðina á mér og passar upp að allt sé eins og það á að vera og ég  ákvað að blogga um gleðina, og hlakka ég líka til að sjá mynd í sjónvarpinu í kvöld sem heitir “menn sem hata konur “ sem sagt margt að gleðjast yfir.

Sólin skín, það er notalegt að hlusta á útvarpið í bakrunninum, Gunni sýslar með fræin sem hann setur vandfærnilega eitt og eitt í einu í fallega brúna mold.

Sigyn og Albert og blessuð börn  Lilja og Aron, eru búinn að fá fína íbúð inni í Kaupmannahöfn, eftir mikil erfiði undanfarið.

Lífið heldur áfram, einn dag í einu, með því sem fylgir, gleði, gleði, gleði og allt  fer eftir því hvernig ég tek því sem fyrir ber.

Ég finn að það er svo auðvelt að verða óttanum að bráð, svona höfum við það sennilega mörg.

Óttinn heldur manni föngnum, þannig að ómögulegt er að sjá út yfir hann.

Hvernig getum við hver fyrir sig komist í gegnum hann og sjálf valið hvaða tilfinning er allsráðandi hverju sinni?

Eru það ekki hvers og eins réttindi að bjóða inn þeirri tilfinningu sem passar hverju sinni?

Er ein tilfinning ekki meira velkomin en önnur, eða eru kannski allar tilfinningar  velkomnar, og þær fá það pláss sem þær velja.

Eða höfum við ekkert um það að segja og erum kannski bara þrælar þeirra tilfinninga sem halda okkur til baka á móti því sem er gott fyrir okkur. Loka fyrir það að við getum séð fyrir endann á henni og þar af leiðandi sitjum föst og þorum hvorki afturábak eða áfram. img_0217.jpg

Ef við bara gætum séð glimt af því sem bíður okkur, gæti það gert að við slöppuðum aðeins af og létum flæða með straumnum, í staðinn fyrir að róa og róa á móti straumnum sem gerir hverja upplifum margfalt erfiðari en ella.

Ég geri mér grein fyrir þessum hlutum þegar mér líður vel og er í jafnvægi, þá get ég oftast sagt viturlega hluti, eins og orka fylgir hugsun, þar að segja það sem þú hugsar gerist, eða allt það erfiða sem við lifum, er það besta sem fyrir okkur getur gerst, það er með til að þroska okkur og hjálpa, einnig segi ég oft, sá sem er versti óvinur þinn, er þinn besti vinur, hann hjálpar þér í þroska og og og svona get ég lengi haldið áfram.

Það sem ég stundum gæti hugsað mér er að geta lifað og vitað og skilið þetta á meðan á átökunum stendur ! Það er sko ekki alltaf auðvelt, ég heyri það í höfðinu á mér, en kemst ekki út þeim hugsunum sem keyra rúnt í höfðinu á mér aftur og aftur og halda mér fanginni í óttatilfinningunni !

En í dag, þegar tilfinningin var að taka yfirráðin, ákvað ég í bílnum á mótorveginum, að þetta vildi ég ekki.

Ég setti sólgleraugun upp, hækkaði á útvarpinu, söng hástöfum með Kim Larsen, fór í búð keypti páskaskraut og páskaliljur, kom heim, gerði skreytingu og ákvað að blogga um gleðina.

Gleðin er þarna alltaf, hvernig sem okkur líður við getum kallað á hana og beðið hana að koma.

Gleðin getur verið í formi minningar sem við höfum, eitthvað gott sem við getum ákveðið að hugsa um sem við vitum að gerir okkur glöð. Þetta er að sjálfsögðu æfing, en er hægt, mér tókst það í dag og núna ætla ég að fara inn á vinnustofuna mína og muna að það er bara ég sem hef ábyrgð á því hvernig mér líður, allt sem gerist í kringum mig eru atburðir sem ekki “þurfa” að breyta neinu fyrir mig, ég vel í dag að láta gleðina ráða ríkjum hvað sem gerist í dag og á morgun og ef mér tekst þetta í dag eru meiri líkur á að mér takist þetta líka á morgun.

Orka fylgir hugsun, það er rétt og ef ég hugsa jákvætt gerist jákvætt en stundum gerum við okkur ekki grein fyrir hvað er það besta fyrir okkur! Stundum þurfum við að sleppa gömlu, til að það sé pláss fyrir eitthvað nýtt, það ber að hafa í huga.

Gleðilega páska elsku fólk

img_0221.jpg


betrumbætt minnig með hjálp hins innra

_mg_4841.jpgVið vorum þarna í herberginu ég og hún. Við heyrðum að hann kom að dyrunum og reyndi að opna hurðina. Við höfðum læst hurðinni. Við kúrðum okkur hver að annarri og sáum hræðsluna í augum hinnar. Óttinn færði okkur inn í skáp og geymdi okkur þar, þar til hann gafst upp og fór í rúm konunnar sinnar.

Við læddumst að glugganum og hjálpuðum hver annarri út um gluggann. Það var ekki erfitt að komast út, því glugginn var á jarðhæð og það var eiginlega bara auðvelt, við hefðum átt að gera það miklu fyrr um kvöldið hugsaði ég með mér

Það var sumarnótt og þess vegna var bjart úti og fuglarnir sungu í nætursumarsólinni.

Við héldumst í hendur og hlupum eins og fæturnir gátu borið okkur út í hellir. Í hellinum voru fjárhús sem ég vissi að geymdi hið raunverulega líf þegar ég þurftir á að halda eins og núna. Við náðum að súrheysturninum, móðar og másandi, settumst aðeins niður til að kasta mæðinni.

Ég elska lykt af súrheyi og andaði því að mér með lokuð augun og reyndi kannski líka að gleyma hljóðinu af hurðarhnúanum sem snerist til að komast inn.

Nú vildi hún halda áfram og sagði mér það án orða. Við stóðum upp og gengum dýpra inn í hellirinn. Við gengum þar sem við bara við vissum að hægt væri að ganga inn. Það var ekki svo sýnilegt en þegar maður vissi það eins og við gerðum, þá var það sýnilegt. Þetta var leynistaðurinn okkar, staður sem við földum okkur þegar við urðum hræddar.

Í fyrstu var bara dimmt þarna inni, en augun vöndust dimmunni og þá var auðvelt að fylgja stígnum upp tröppurnar til hennar sem ég vissi að alltaf var þar fyrir mig, þegar ég þurfti þess með.

Hún sat þarna svo góðleg og brosti til okkar þegar hún sá að við komum og að við vorum hræddar og vissum ekki hvert skildi haldið og hvað væri best að gera.

Við lögðumst á heyið sem var við fætur hennar, ég með hönd undir kinn, hin á bakið með báðar hendurnar eins og púða undir höfuðið sitt.

Við sögðum ekkert í dágóða stund en hugsuðum hver sitt. Ég sá að hin lokaði augunum og andardráttur hennar var reglulegur eins og þegar er sofið er.

Hún svaf.

Ég leit upp á konuna og spurði : hvað gerum við núna, við getum ekki bara verið hérna alla tíð, eða hvað ?

Hún brosti til mín og sagði: vinur minn í fortíðinni, framtíðinni og nútíðinni. það sem gerðist í kvöld var veganesti fyrir þig, hana og hann sem stóð við dyrnar. Þessi reynsla á eftir að gefa þér skilning á því sem þú mætir á ferð þinni um lífið.

Ég varð eiginlega hálf hissa á þessu svari, því ég átti sennilega von á einhverju öðru svari.

Ég: en við getum ekki bara látið eins og ekkert hafi gerst, farið til baka á bæinn og bara haldið áfram vistinni.

Hún: Þið hafið alltaf val, hvað passar ykkur best á hverjum tíma, en það val sem þið takið verður að vera skoðað út frá stærra samhengi.

Hvað er best fyrir heildina. Hvað er best fyrir allt, en ekki bara einn.

Ég varð hugsi og var ekki alveg viss um að ég skildi það sem hún sagði. Ég var hugsi í langan tíma.

Best fyrir heildina, meinar hún alla á bænum, alla fjölskylduna okkar með, eða alla í heiminum ?

Ef hún meinti alla í heiminum, hvernig var mögulegt að það sem við ákváðum að gera, hérna á miðjum sandi, hefði áhrif á fleiri en okkur, sem við komu.

Hún brosti til mín og sagði, er erfitt að skilja þetta ?

Ég kinkaði kolli.

Hún sagði mér að loka augunum og fara með henni í smá ferð sem hún vildi sýna mér.  

Hún tók mig í höndina og ég fann eins og allur líkaminn væri í appelsínbaði. Ég var dofin um allt í hinu ytra, en skörp í huganum. Það var eins og ég flygi inn í annan heim.

Skyndilega vorum við yfir bóndabænum og áður en ég gat hugsað eitt orð vorum við á svefnherbergisgólfinu hjá bóndanum. Hann svaf eins og lítið barn við hliðina á konunni sinni sem var miklu yngri.

Hann var gamall fannst mér, en ekki eins óhuggulegur og mér hafði fundist hann þegar ég var inni í læstu herberginu og hurðarhúninn hreyfðist.

Það var skrítið að standa þarna og sjá hann svona varnarlausann, ég sá líka meira sem gerði mig undrandi: það var eins og ég sæi lífi hans bregða fyrir. Ég sá þetta eins og bíómynd renna fyrir augunum mínum.

Ég sá  hann sem barn með öðrum börnum, ég sá hann í gleði, ég sá hann í sorg, ég sá hann með öðrum, ég sá hann sem hluta af öðrum. Ég sá foreldra hans, bræður og systur. Ég sá hann sem ungan mann, með framtíðardrauma, ég sá hann elska og vera elskaður, ég sá hann með börnunum sínum, í faðmi konu sinnar, ég sá líka brostna drauma, sorg, erfiði. Ég sá manneskju sem var eins og allar manneskjur, með allar tilfinningar og allar þrár , með alla græðgi, með alla fíkn, með alla gleði og aðrar manneskjur.

Allt í einu var eins og ég fengi meiri pressu af appelsínusafanum. Ég kom eins og dýpra inn í þessa mynd sem ég hafði séð. Ég sá bak við bíómyndina. Ég sá tengingu frá honum til mín, ég sá okkur eins og í einu Ljósi.

Ég sá hvernig þessi lífsreynsla færði mér aukin skilning á hræðslu barnsins við hinn fullorða, ég skildi óttann, ég skildi, því ég hafði upplifað. Ég sá eitthvað svo skrítið, ég sá eins og þakklæti frá mér til reynslunnar sem ég sá að kæmi til með að hjálpa mér á Lífsleiðinni. Ég sá og skildi á sama andartakinu það sem hún hafði sagt. Ég fann í þessu draumaástandi að ég bar engan ótta, ekkert var að óttast, ég bar enga reiði, það var ekkert að reiðast yfir, ég bar skilning sem ég hafði ekki haft áður og í gegnum huga minn kom hugsunin: vonandi hef ég þennan skilning þegar ég kem til baka.

Ég sá líka að það sem þú gerir öðrum, gerir þú mér, ég er þú !

Ég naut tilfinningarinnar, ég vildi ekki til baka. Það var eins og ég væri í að skilja allt.

Ég fann að ég sveif eins og á skýi sem allt í einu fer að hristast og skjálfa og ég dett af skýinu og ég heyri hrópað, vaknaðu Steina við þurfum að fara til baka.

Ég leit upp alveg undrandi á Rósu og gerði mér þá grein fyrir að ég var komin til baka í líkamann minn. Ég lá svolitla stund og safnaði hugsunum mínum saman til að reyna að halda í eins mikið og mér var mögulegt af því sem ég hafði fengið að skilningi.

_mg_7758.jpg

 

 


Þegar allt verður eitt

_mg_7386.jpgMig langar að segja ykkur frá konu sem ég þekki, og kannski þekki ekki, ég veit það ekki. En þessi kona breytti öllu hjá mér og opnaði fyrir mér nýjan heim sem alltaf hefur verið þarna, en ég vissi það bara ekki.

En ég hef hitt hana mörgum sinnum frá því ég sá hana sem barn.Við höfum setið saman löngum stundum og hún hefur sagt mér sögu sína mína, þína og allra.

Kannski er þetta ekki bara um þessa konu, en um það hvað þessi kona færði mér og hvað hún var og er fyrir mig og þig.

Hún sagðist heita Steinunn, en hefur  þó heitið svo margt síðan og áður. Enda eru nöfn ekki svo mikilvæg, þau eru bara svo við getum kallað hvert annað eitthvað, ekki bara: heyrðu, þú þarna. Þá er betra að kalla: heyrðu Steinunn, og ef það eru margar Steinunnar þá vitum við að það eru ólík eftirnöfn. Það fer allt eftir því hvar þú ert fæddur, á Íslandi höfum við eftirnafn föður okkar. Eins og Steinunn sagði mér að hún hafi átt föður sem hét Sigurður og þess vegna getum við kallað : heyrðu Steinunn Sigurðardóttir. Í Skandinavíu eru fjölskyldueftirnöfn Jensen og Olsen og Carlsen og þess háttar, en það er nú ekki það sem ég ætlað að segja ykkur

Ég hitti hana fyrst þegar ég var 12 ára, þá sat ég á steini niður á strönd í heimabænum mínum. Ég sat og hlustaði á öldurnar og hugsaði um allt það sem liggur á hafsbotninum og alla fiskana, hákarlana og hvalina sem eru þarna og ég sá ekki, hvort þeir væru að kíkja á mig í laumi og spá í hver ég væri.

Mér fannst svo undarlegt með þennan hafheim sem var mér algjörlega ósýnilegur en ég vissi samt að væri fullur af lífi. Það var eins og þarna lægi önnur vídd sem flestum var ósýnileg en með sérstökum hætti gátu þó sumar skoðað og ferðast um í þessum heimi undirdjúpanna.

En hvað um það, þarna kemur kona gangandi í grænum sumarkjól og með stráhatt. Hún hefur dökkt hár og græn augu.  Hún passaði engan veginn inn í þá mynd sem ég var vön að sjá á þessu svæði En var þó svo lifandi sem ég sjálf, sitjandi á þessum steini með máfagarg og öldugang í eyrunum.

Hún kom gangandi hægum skrefum og ég sá að hún horfði beint  á mig og brosti. Það var eins og hún þekkti mig, og að hún gerði ráð fyrir að ég þekkti hana líka. Ég brosti á móti og hugsaði um hversu falleg hún væri og hvað hún væri skrítin í þessu umhverfi og á þessum tíma og ég hugsaði líka, hver hún væri eiginlega.

Hún kom til mín og settist við hliðina á mér og við sátum lengi á steininum án þess að segja neitt. Við horfðum bara út á hafið og hugsuðum hver sitt, eða ég veit ekki hvort hún hugsað neitt, en ég hugsaði og hugsaði um hvað hún væri að gera og hvað ég ætti að segja við þessa fallegu konu sem hafði ferðast í tíma og rúmi og  sem sat með hattinn sinn á milli handanna og rúllaði honum einhvernvegin á milli fingranna á fínlegan og fallegan hátt eins og hefðarkona.

Ég leit á hana og sagði: halló, hver ert þú ?

Hún leit á mig og brosti og sagði : ég heiti Steinunn.

Ég: hvað ertu að gera hérna?

Hún: ég er að hitta þig .

Ég þagði lengi og vissi ekki hvað ég átti að segja, hitta mig hugsaði ég. Hvað vill hún mér ?

Ég: af hverju?

Hún: mig langar segja þér svolítið.

Ég: hvað ?

Hún: um mig og þig og allt annað.

Nú, sagði ég og það var löng þögn. Við sátum dágóða stund og sögðum ekki neitt en horfðum bara út á öldurnar.

Svo sagði hún : þú ert núna orðin 12 ára og ég hef beðið þessarar stundar lengi lengi. Nú vil ég fylgja þér og hjálpa þar til þú getur staðið ein og gert það sem þér er ætlað.

Þetta var skrítið, hvað skildi mér vera ætlað, og hvers vegna kom hún, kona sem ég þekkti ekki og vildi hjálpa mér, hvernig vissi hún að ég var hérna þegar mamma og pabbi vissu það ekki einu sinni og ég hafði heldur ekki sagt systur minni eða vinkonum mínum hvert ég fór. Ég fór bara frá öllu til að vera ein með sjálfri mér og ekki verða trufluð af neinum.

Þetta var leynistaðurinn minn sem engin vissi um. Hvernig vissi hún hvar ég var?

Þetta var skrítið og ég hugsaði þetta í dágóða stund. Þegar ég leit upp af hugsunum mínum var hún horfin

Ég rölti heim og reyndi að skilja þetta. Allt í einu var hún þarna og allt í einu ekki. Hvert fór hún á meðan ég var að hugsa. Gekk hún í burtu eða hafði hún vængi sem ég tók ekki eftir og flaug í burtu yfir hafið og þangað sem hún átti heima, eða beittist hún í hafmey og kastaði sér í öldurnar þegar ég var ekki að horfa. Þetta var allt voða undarlegt.

Það leið tími, ekki langur kannski nokkrar vikur. Ég var búinn í sumarfríinu mínu í skólanum og við vinirnir hittumst eftir sumarfríið þar sem allir höfðu verið einhversstaðar, í sveit, í útlöndum eða þangað sem fólk nú fer í fríunum sínum. Nema við höfðum verið heima þetta sumar eins og önnur sumur áður.

Það var sem sagt haust og lífið var hjá sumum gott. Við krakkarnir lékum okkur eftir skólann í allavega leikjum. Fallin spýtan, hverfa fyrir horn og feluleiki. Það var gott að vera aftur með vinum mínum, eftir aðskilnað sumarsins.

En eitt var ekki gott, því haustið er ekki gott fyrir alla í mínum bæ. Á haustin koma kindurnar af fjöllum þar sem þær hafa lifað í sæld allt sumarið og borðað gras og kannski fjallagras, hver veit. En á haustin þá er stór hluti af þeim slátrað. Það er erfitt, það hefur alltaf verið erfiður tími fyrir mig. Það er ekki erfitt fyrir alla því á þessum tíma flæddi jafn mikið af peningum inn í bæinn og blóð sem flæddi um gólf sláturhússins. Ég fann alltaf þessa blóðlykt liggja yfir bænum og heyrði angistarvein kindanna. Hræðsluvein sem skar sig inn í merg og bein. Það var sama þó ég lægi í rúminu mínu með alla koddana fyrir eyrunum ég heyrði hræðsluna eins og innan frá.

Ég sat á staðnum mínum, leynistaðnum mínum og reyndi að hugsa um eitthvað allt annað en það sem var að gerast í bænum mínum. Ég reyndi að heyra ekki eða finna hræðsluna sem lá yfir öllu, bæði fyrir utan mig og innan. Það var eins og ég væri hluti af hræðslunni, svo mögnuð var hún.

Allt í einu situr Steinunn við hliðina á mér, eins skyndilega og hún hvarf síðast.

Steinunn: ég veit að þetta er erfiður tími.

Ég: ég get ekki lokað þessi hljóð úti !

Steinunn: ég get hjálpað þér og ég get líka hjálpað þér að hjálpa þeim.

Ég leit á hana og skildi ekki alveg hvað hún var að meina, hjálpa mér að hjálpa þeim, það hlaut að vera ómögulegt. En ég var til í hvað sem var og kinkaði kolli.

Steinunn: Lokaðu augunum og hreinsaðu hugann þinn fyrir öllum hugsunum. Notaðu þann tíma sem þú þarft til að ná þeirri ró.

Ég lokaði augunum og hugsanirnar flugu fram og til baka upp og niður og það var ómögulegt að reyna að stoppa þær. Svo hugsaði ég lika um að hætta að hugsa, það hlaut að vera hugsun líka.

Ég opnaði augun og leit á Steinunni: Ég get ekki hætt að hugsa, og þegar ég reyni að hætta að hugsa þá fer ég að hugsa um það að hætta að hugsa.

Steinunn brosti til mín, lagði vísifingur á ennið á mér og ég fann ró streyma í gegnum mig. Ró sem ég hafði aldrei upplifað áður, það var eins og það suðaði yfir höf'inu á mér, eða kannski eins og ég lægi í gosbaði, ég veit ekki alveg hvernig á að útskýra það.

Langt í burtu heyri ég rödd Steinunnar segja:

Sjáðu í þínu innra, kindurnar sem eru þjakaðar af hræðslu, fylgstu með þeim og settu allan þinn viljakraft í þessa mynd. Sjáðu nú að það sem áður voru kindur í líkamlegu formi eru nú  lifandi Ljós.

Lifandi Ljós sem er í tengslum við þig og hver aðra. Fyrir ofan þetta lifandi Ljós sérðu stærra Ljós sem með gullnum þráðum er tengdur Ljósinu í hverri kind. Festu myndina í hugann, haltu myndinni stöðugri í huganum.

Nú þegar myndin er orðin stöðug, einbeittu þér  þá að því að hafa samband við stóra ljósið fyrir ofan kindurnar. Settu allan þinn vilja og allan þinn kærleika til kindanna í þennan straum, sem er straumur af orku sem myndar samband við þessa æðri veru.

Það sem þú nú sérð og ert í beinu sambandi við núna er stór Diva/Engill, sem er Engill fyrir kindur, sem er samansafn af öllum lífum hjá öllum kindum. Þessi engill er sá sem tengir allar kindur á Íslandi saman eins og eina lifandi veru, sem eru hluti hvert af öðru eins og þú hefur þína sál hafa allar þessar kindur sömu sál sem við getum kallað hópsál, sem tengja þau saman sem eitt. Það að þessar kindur hérna í bænum þjást, hefur áhrif á allar kindur.

Einn sársauki.

Ein þjáning.

Eitt líf.

 Sendu þakklæti og blessun fyrir þá fórn sem þessar kindur eru að fara í gegnum svo við mannfólkið á Íslandi getum nært okkur á í komandi tíð. Sendu Ljós og Kærleika sem þú sérð streyma í gegnum þig og til þessarar Guðdómlegu veru.

Sjáðu svo Ljósið streyma frá Þessari Guðdómlegu veru inn í allar kindur sem eru á leið frá einu tilverustigi til annars. Fórn sem þær gefa okkur svo við getum nært líkama okkar.

Sjáðu í þínu innra, að Ljósið fyllir vitund þeirra og yfir þær færist ró sem gerir ferðalag þeirra auðveldara. Þar sem glimt af skilningi snertir skilning þeirra á því ferli sem er að gerast.

Sjáðu í þínu innra að þeir sem framkvæma verkið fái Ljós og Kærleika sem er með til að gefa þeim opnari vitund fyrir þeirri fórn sem þeim er færð af þeim kindum sem fara á milli handa þeirra.

Sjáðu þær manneskjur sem vinna verkið og handfjalta það sem eftir er, sýna skilning og þakklæti fyrir lífinu og með því sendir Kærleiksorku í þann mat sem kemur til með að næra okkur í nánustu framtíð.

Um leið og hún talaði eins og langt í burtu, gerðist allt það sem hún sagði eins og að sjálfu sér.

Það var eins raunverulegt eins og það að sitja á leyndarmálasteininum.

Ég fann að ég hægt og rólega kom til baka í það líf sem ég vanalega var í.

Ég opnaði augun og horfði fram fyrir mig á öldurnar og langaði eiginlega ekki að segja neitt.

Ég var ein, og það var gott.

Ég þurfti að vera ein með þær hugsanir sem komu.

Ég skildi ekki allt sem hafði gerst, en það gerðist eitthvað sem breytti öllu.

22070176_m.jpg

 

 

 


Þegar lífið fer í hring og minningar verða öðruvísi með tímanum

img_5253.jpgVið vorum nánar ég og Sólveig gamla.. Kannski ekki nánar eins og maður oft hugsar það,en við vorum nánar í hugum okkar.

Sólveig var 94 ára eða 80 og eitthvað, ég man það ekki alveg, ég var 11 ára.

Sólveig gamla átti heima í litlu húsi undir fjalli í þorpinu sem ég ólst upp í. Sólveig átti margar kisur, kannski hundrað, kannski þúsund, ég taldi þær aldrei.

Sólveig var alltaf í svörtum kjól með svuntu sem einu sinni hafði sennilega verið hvít, en var nú ljósgrá. Hún virkaði hrein en þegar maður andaði að sér lyktinni hennar var lyktin rykug og gömul, án nokkurs  sápuilms.

Það sem var gaman að gera með Sólveigu var að ganga um fjallið og leita að kisunum hennar. Það var ævintýri líkast. Fjallið var stórt og hvönnin óx þar um allt, á stærð við mig, og börn á mínum aldri.

Sólveig talaði ekki við mig þegar við vorum að kalla á kisurnar hennar. Kannski talaði hún aldrei við mig yfir höfuð, ég man það ekki, enda er það ekki mikilvægt. Við vorum saman í þessari athöfn sem var eins og hluti af einhverju öðru og dýpra en það virtist í fyrstu sýn

Sólveig kallaði einn tón eftir annan sem bergmálaði í fjallinu og endaði með að bergmálið ómaði hver annan upp svo það var eins og það væri kallað frá öllum áttum. KKKKkkkkkiiiiiiiiiissssssssssKissssssskiiiiiiisssssssss...........

Sólveig gekk við gamlan tréstaf, og gekk einhvernvegin eins og í eigin heimi á meðan hún framkallaði þessi kisuköll. Bæði vetur sumar vor og haust man ég hana á þessari göngu í þessum fötum með sjal yfir herðarnar og silfurlit kringlótt gleraugun. Ég man ekki hvernig sjalið var mjög skýrt, en mig minnir að það hafi verið í svipuðum lit og hárið hennar og þess vegna hef ég ekki tekið sérstaklega eftir því.  _mg_9810_772655.jpg

Ég fylgdi bara með henni og fannst þetta ævintýri sem var algjörlega tíðlaust fyrir mér. Við mættum sjaldan fólki á þessum göngum, en ef við gerðum það héldum við ferðinni áfram án þess að heilsa viðkomandi. Það var eins og það myndi brjóta upp formið sem hafði verið byggt upp í mörg mörg ár af henni og svolítið af mér.

Ég var með Sólveigu í þessum göngum af og til í mörg ár. Ég man aldrei eftir að kisurnar kæmu til okkar, eða fylgdu okkur heim.

Húsið hennar var lítil viðbygging við annað stærra hús sem afi minn og amma bjuggu í. Húsið hennar Sólveigar var alltaf fullt af kisum, það voru kisur allsstaðar. Það var erfitt að sjá að þarna byggi manneskja, því allt var á einhvern hátt innréttað sem kisuhreiður. Það voru tveir gluggar í herberginu sem hún svaf í. Alltaf þegar ég kom inn til Sólveigar gömlu var allt krökkt af kisum í hverjum krók og kima. Gluggarnir voru smáir, svo það var ótrúlegt að það væri pláss fyrir allar þessar kisur þarna í gluggakistunni.

Herbergið var lítið. Það var pláss fyrir lítið rúm, sem var fullt af teppum í allavega litum bæði hekluð, prjónuð og ofinn og skinn voru þarna líka undir teppunum, sá maður ef vel var að gáð.

Rúmið hennar var fullt af kisum sem kúrðu hver upp að annarri. Meðfram veggjunum voru teppatætlur og skinn tætlur sem lágu eins og þeim hefði verið hent tilviljunarkennt hingað og þangað. Þar kúrðu kettlingar, í öllum stærðum og gerðum. Það var ekki hægt að sjá að einhverjir af þeim væru nánari en aðrir, því allir lágu í einni hrúgu þar sem var mjúkt og notalegt.

Eitt borð var þarna inni, það borð var sett upp við rúmið, sem einskonar náttborð. Á borðinu var gamall hárbursti. Þessi bursti fannst mér fallegur.Hann var silfurlitaður með munstri á skaftinu og á bakinu. Munstrið var af blómum og páfugli. Burstinn var mjög framandi þarna í þessu herbergi. Það eina sem sannfærði mig um að burstinn væri raunverulegur og í eigu Sólveigar voru hárin á burstanum. Löng ljósgrá næstum hvít hárin sem höfðu fests í þegar hún greiddi langa þunna hárið sitt í  eina fléttu á morgnana. Fléttan varð með hverju árinu lengir og lengri og þynnri og þynnri. Við hliðina á burstanum var vatnsglas með gömlu vatni í með matarkrumlum sem flutu ofan á vatninu.

Ef ég kom of snemma á morgnana, sem ég stundum gerði, uppgötvaði ég að glasið var geymslustaður tannanna hennar á meðan hún svaf. Einnig var þarna á borðinu gömul og slitin sálmabók. Þetta voru í raun einu persónulegu hlutirnir inni í húsinu hennar.

Í húsinu var lítill eldhúskrókur, með einum skáp sem var áfastur veggnum. Það var vaskur á skápnum og  einn efriskápur. Ég sá hana lítið nota þetta borð og vaskinn, nema einu sinni þegar hún lagaði mat fyrir kettlingana sína.

Sólveig hafði veitt mús í gildru og músina skar hún í smá bita fyrir kettlingana, til að auðveldara væri fyrir þessi grey að borða kjötið.

Ég sá Sólveigu aldrei elda mat fyrir sjálfa sig, enda fékk hún mat á disk frá nágrönnum sínum, sem eins og áður sagði voru afi minn og amma.

Ég þekkti ekki sögu Sólveigar áður en hún flutti í bæinn, eða hvort hún alltaf bjó í bænum. Hún var bara konan með kisurnar sem var öðruvísi en aðrir og lifði lífi sínu með kisunum sínum án svo mikilla afskipta við aðra.

Einn daginn ákvað ég að venju að leggja leið mína til Sólveigar. Ég gerði eins og ég alltaf gerði, gek bara inn án þess að banka. Ég kallaði nafnið hennar á meðan ég fór úr úlpunni og stígvélum. Það kom ekkert svar og ég upplifið óvenjulega þögn í húsinu, þögn sem ég ekki hafði heyrt áður

Ég gekk frá anddyrinu í gegnum eldhúskrókinn og inn í herbergið. Þar var ekkert ! Engar kisur, engin Sólveig!  Allt lá eins og vanalega þegar ég kom snemma á morgnana, einnig tennurnar í glasinu voru þarna, en ekki Sólveig og engar kisur eða kettlingar.

Ég settist á rúmið hennar og skoðaði mig um. Allt var gamalt og slitið, vel notað og  nýtt til hins ýtrasta. Ég stóð upp af rúminu og gekk fram í anddyrið. Ég klæddi mig í skóna og úlpuna og gekk inn í hrap eins og við kölluðum það svæði sem Sólveig gamla vanalega gekk um þegar hún kallaði á kisurnar sínar. Ég gekk um og kallaði nafnið hennar, ekkert svar. Ég heyrði hvergi óminn af kallinu hennar til kisanna sinna, ég heyrði óminn aldrei aftur á þessum stað á þessum tíma.

Það var eins og fjallið hefði gleypt hana og allar kisurnar hennar. Það liðu dagar og það liðu ár. Það sást aldrei til ferða hannar aftur og kisurnar hennar voru horfnar líka.

Húsið hennar var rifið niður, og amma og afi byggðu í staðin fína stofu við húsið sitt og lítið herbergi sem við notuðum til að hlusta á útvarpsöguna í útvarpinu.

Ég varð eldri og flutti  burtu frá þorpinu. Fyrst flutti ég til Reykjavíkur svo erlendis.

Ég flutti í þorp úti á landi hérna í þessum framandi stað Ég flutti í gamalt hús með stórum garði. Nokkrum dögum, ekki mörgum uppgötvaði ég svolítið þegar ég var að sýsla í bakgarðinum mínum. Ég sá að innarlega í bakgarðinum var lítið hús, í húsinu býr eldri kona með kisunum sínum. Kannski hundrað, eða kannski þúsund, ég, veit það ekki því ég hef aldrei talið þær.

Hún er svolítið yngri núna, en hún var þá, kannski 65 ára eða 70 ára, ég hef aldrei spurt hana. Hún varð ánægð að sjá mig aftur og vildi heyra allt um það sem hafði gerst hjá mér síðan síðast.  Hún er ennþá með langa fléttu í hárinu sínu og hárið er ennþá þunnt eins og áður. En núna er hárið ekki svo grátt. Kannski grá hár hér og þar en voða lítið. Hún er öðruvísi klædd núna en áður. Núna er hún í allavega fötum í hinum og þessum litum  og blandar öllu eins og barn sem vil leika sér með alla liti heimsins og hefur loksins tækifæri til þess núna

Hún er þó ennþá með gleraugu eins og áður en aðeins öðruvísi formuð. Hún virkar hrein en þegar maður andar að sér lyktinni hennar var lyktin rykug og gömul, án nokkurs sápu ilms Hún heitir núna Else Marie

Hún gengur um bæinn og kallar á kisurnar sínar með dóttur mína sér við hönd. Else Marie kallar einn tón eftir annan sem bergmálar í bænum. img_3596.jpg KKKKkkkkkiiiiiiiiiissssssssssKissssssskiiiiiiisssssssss

Else Marie á heima í litlu húsi í bakgarðinum okkar. Húsið hennar er meira innréttað fyrir kisurnar hennar en fyrir manneskju að búa í. Við förum reglulega með mat á disk yfir til hennar eins og afi og amma gerðu í gamla daga, þó ekki á hverjum degi eins og þau gerðu, en eins oft og við getum.

Else Marie elskar kisurnar sínar, meira en allt annað, hún vil allt fyrir kisurnar sínar gera sem henni ekki tókst áður, á öðrum stað á öðrum tíma. Hún passar þær fyrir öllu því sem gæti skaða þær. Hún passar þær svo vel að margar þeirra fá aldrei að fara út, sumar eru í bandi í garðinum hennar en þær sem eru lausar eru þær sem hún gengur um og kallar á með dóttur mína sér við hönd.

Hún hefur beðið mig um það, að þegar þar að kemur og hennar tími hér er liðin og tími til að fara annað. Að  ég passi kisurnar hennar fyrir hana og sjái fyrir því að ekki komi neinn þegar hún er farinn og setji kisurnar hennar í poka og hendi út í sjó eins og svo oft gerist þegar fólk veit ekki betur svoleiðis segir hún með sorg í augunum.

Hverjum dytti það í hug , segi ég með hryllingi. En hún segist hafa minningu frá öðrum stað á öðrum tíma þar sem lausn bæjarbúa var sú, þegar hennar tími var komin að taka hundrað kisur, kannski þúsund. Setja þær í stóran poka og henda þeim út í  brimið og láta öldurnar um að klára það verk sem þeir sjálfir áttu að gera en höfðu ekki kjarkinn til þess. Hafið gerir verkið á þeim tíma sem það nú getur tekið að klára svona erfitt og sorglegt verk með skelfinguna hljóma úr brúnum poka .

Ég skil ekki alveg minninguna , en hún kemur frá einhverjum stað frá einhverjum tíma og mér er fært að breyta þeirri minningu í annað og betra, núna þegar ég er fullorðin. Svo vil verða.

Þetta er minning, blandað með hinni innri minningu sem vil minnast öðruvísi 

 

 

 

 

 

 


Minnig sem breitist við umfjöllun

_mg_7389_960920.jpgÉg átti í mesta basli við að binda garnið saman, til að allt leystist ekki upp það sem ég hafði setið og prjónað allan fyrripartinn.

Ég ákvað að taka smá pásu frá handavinnunni og settist í sófann inni í stofu. Sófinn var karrýgulur með brúnum röndum. Hann var mjúkur og það var þægilegt að sitja í honum. Ég lét mig hlunkast niður í sófann, setti fæturna upp á hringlaga borðið og hallaði mér makindalega niður í mjúkt sófabakið. Ég var í rauðum sokkum sem blöstu við mér þegar ég setti fæturna svona upp í loftið.

Fyrir framan mig var stór gluggi sem sneri að hafinu. Ég gat, ef ég lagði við hlustir heyrt óm af öldunum í fjarlægð.

Ég elskaði hafið, ég elskaði hljóðið frá hafinu, ég fann að ómur hafsins sló í takt við hjartað mitt. Ég einbeitti mér að andadrættinum mínum og lét hann anda í takt við andardrátt hafsins, sem gerði mig eitt með hafinu.

Þetta var góð tiflininning, það var eins og ég félli saman með þessum djúpa takti ég fann að meðvitund mín beittist í hálfgerðan svefn, að mér fannst. Ég fann þunga i höfðinu, ekkert vont eða óþægilegt en öðruvísi.

Það leið einhver tími, ég veit ekki hve langur en einhver tími þó. Ég heyrði eins og rödd í höfðinu á mér. Ég vissi ekki hvort það var mín eigin, eða einhvers annars.
Ég ákvað að einbeita mér að röddinni og reyna að skilja hvað hún eða ég sagði. Ég einbeitti mér í dálitla stund, eða þar til ég heyrði sagt: Farðu að hafinu, ég þarfnast hjálpar.

Ég hugsaði með mér, hvað þetta gæti verið, hvort þetta væri ég , eða einhver annar. Ég ákvað að prufa aftur að einbeita mér að röddinni og ákvað með sjálfri mér að ef ég heyrði það sama og áður myndir ég rölta niður að sjó og sjá hvers kyns væri.
Ég einbeitti mér aftur einhvernvegin inn í höfðið á mér. Reyndi að halda öllum hugsunum úti.
Þarna kom hún aftur “röddin” og ennþá ákveðnari en áður.

Ég þarf hjálp !

Ég stóð upp af hæglegum sófanum og kallaði á Tító hundinn minn. Hann elskaði að fara með niður á strönd og ég gæti alveg eins tekið hann með, það gæfi mér líka öryggi að hafa hann.

Ég klæddi mig vel, í úlpu, vettlinga, húfu og ullarsokka. Það var vindur úti og það var kalt og það var snjórigning.

Við gengum í áttina að sjónum. Það er ekkert sérlega löng leið tekur kannski 10 mínútur að ganga þangað rösklega.

Við gengum saman ég og Tító með vindinn og slydduna í andlitið. Ég sá glitta í hafið og það var úfið og kannski reitt ég vissi það ekki. Við komum að lokum inn á sandinn og ég renndi augunum með ströndinni. Það var ekkert að sjá svo langt sem augað sá.

Ég gekk lengra nær fjallinu og rýndi í átt að stóru steinunum sem liggja upp við fjallið. Þar gæti verið eitthvað. Ég fann allt í einu smá hræðslu í maganum því upp í huga minn koma atburður sem hafði gerst þar nokkrum árum áður.

Það hafði sést til ungrar konu þarna í klettunum sem engin þekkti til í bænum og hennar var leitað alla leið frá Reykjavík. Hún fannst aldrei. Talið var að hafið hefði tekið hana og ekki skilað henni aftur. Ég beindi þessum hugsunum í burtu og beindi athygli minni að Tító. Hann virtist sallarólegur og virtist bara ánægður með þennan óvænta göngutúr.

Nú vorum við næstum komin að klettunum þegar ég sá eitthvað lítið hreyfast þar sem alda og sandur mætast í faðmlögum. Ég gekk lengra að og sá að þetta var lítill kópur. Hann var einn og ósköp umkomulaus.Ég fann stað þar sem ég gat fest Tító því hann gæti fælt þetta litla líf sem lá þarna bjargarlaus.

Þegar ég var viss um að Tító væri örugglega fastur við stein gekk ég rólega að kópnum. Ég sá að hann var hræddur en þó var eins og hafið héldi utan um hann og öldurnar vögguðu honum fram og til baka til að róa hann og fullvissa hann um að hann væri ekki einn. Ég settist niður smá spöl frá honum, þar sem ég var viss um að öldurnar gætu ekki náð mér.

Ég gaf mér dágóðan tíma til að horfa á þetta litla líf og tala rólega til hans. Ég horfði í augun hans og sá tár í augunum hans. Ég fann til með honum, en vissi ekki alveg hvað ég átti að gera.

Ég ákvað svo að loka augunum og athuga hvort ég gæti talað við hann, eða heyrt röddina hans eins og þegar ég heyrði röddina áður. Ég lokaði augunum og einbeitti mér að höfðinu eins og ég hafði gert áður. Það leið svolítil stund og ég hlustaði á hljóð hafsins og fuglagarg í kringum mig. Ég heyrði í Lunda og Mági held líka að ég hafi heyrt öskur í fýl einhversstaðar.
Svo kemur röddin og segir: Takk fyrir að koma, viltu hjálpa barninu mínu út í dýpri ölduna svo hann geti synt út, þar skal ég taka á móti honum og hjálpa honum áleiðis þangað sem honum er ætlað.

Ég sat svolitla stund og reyndi að átta mig á hver það var sem talaði inni í höfðinu á mér. Eftir því sem ég komst næst í þeim skilningi var það hafið !

Ég ákvað að láta vera að hugsa of mikið um það, stóð upp og gekk rólega í áttina að litla kópnum. Hann varð skelfingu lostin og gaf frá sér hræðsluóp og baksaði með litlu höndunum sínum en maginn var of stór til að hann gæti fært sig afturábak eða áfram.

Ég stoppaði og velti fyrir mér hvað ég gæti gert til að nálgast hann án þess að hræða hann svona eins og ég gerði núna. Ég hugsaði dálitla stund um litla kópinn, þegar ég gerði það var eins og eitthvað gerðist sem var svo stórfenglegt og ég hafði aldrei upplifað fyrr. Ég fann eins og hugar okkar mættust. Ég horfði í augun hans og sagði í huganum, eins og röddin hafði talað til mín áður:

Vertu ekki hræddur, ég ætla að hjálpa þér út í hafið svo hafið geti hjálpað þér þangað sem þín leið er.

Ég fann ró færast yfir mig, ég fann ró færast yfir hann. Ég gekk að honum og ýtti honum í áttina að hafinu. Öldurnar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa, en ég fann einnig að þær vildu ekki hrífa mig með. Við gerðum þetta í dágóða stund. Ég fann svo að selurinn flaut áfram á öldunni sem kom. Ég kallaði upp af gleði og öldurnar kölluðu upp að gleði og litli kópurinn kallaði líka af létti og ánægju yfir að vera laus frá sandinum og komin í faðm hafsins sem ég sá svo bera hann í fanginu sínu áfram lengra út.

Ég stóð dálitla stund og fann gleðina brjótast í mér yfir þessum góða endi. Endi sem ég var svo þakklát fyrir og var fyrir mér það eina rétta af svo mörgu sem hefði getað gerst. Ég veit ekki hversu lengi ég stóð þarna áður að ég mundir eftir Tító sem var bundinn við stein. Ég gekk til hans og sagði nafnið hans. Hann stóð þarna svo fínn og fallegur og rófan hans dansaði í takt við skrefin sem ég tók.

Ég settist niður á sandinn við fæturna á Tító og hann hlammaði sér strax á milli fóta mér og vildi láta kela við sig.

Ég lagði hendurnar mínar um hann og nefið mitt í feldinn hans. Við sátum svona upp að hvert öðru og hugsuðum um þennan atburð sem við höfðum verið með í að skapa. Ég fann gleði eins og einhverjum hnút hefi verið eitt og það væri hamingjurúm í maganum mínum. Ég lagðist á bakið í sandinn og dormaði smá stund.

Ég sá myndir koma og fara, minningar sem vildu láta muna sig, sem ég ekki vildi hleypa að. Ég sá minningu sem var á leið í burtu frá mér en vildi munast. Ég reyndi að ýta henni frá mér en hún kom og vildi ekki hverfa. Ég fann að mótstaða mín minnkaði. Hvað gerðist svo veit ég ekki. Ég fann mig á einhvern óskiljanlegan hátt leysast upp eins og sandkorn.

Ég átti í mesta basli við að binda garnið saman, til að allt leystist ekki upp það sem ég hafði setið og prjónað allan formiddagen.

Ég ákvað að taka smá pásu frá handavinnunni og settist í sófann inni í stofu. Sófinn var karrýgulur með brúnum röndum. Hann var mjúkur og það var þægilegt að sitja í honum. Ég lét mig hlunkast niður í sófann, setti fæturna upp á hringlaga borðið og hallaði mér makindalega niður í mjúkt sófabakið. Ég var í rauðum sokkum sem blöstu við mér þegar ég setti fæurnar svona upp í loftið.

Fyrir framan mig var stór gluggi sem snéri að hafinu. Ég gat, ef ég lagði við hlustir heyrt óm af öldunum í fjarlægð.

Ég elskaði hafið, ég elskaði hljóðið frá hafinu, ég fann að ómur hafsins sló í takt við hjartað mitt. Ég einbeitti mér að andadrættinum mínum og lét hann anda í takt við andardrátt hafsins, sem gerði mig eitt með hafinu.

Þetta var góð tiflininning, það var eins og ég félli saman með þessum djúpa takti ég fann að meðvitund mín beittist í hálfgerðan svefn, að mér fannst. Ég fann þunga i höfðinu, ekkert vont eða óþægilegt en öðruvísi.

Það leið einhver tími, ég veit ekki hve langur en einhver tími þó. Ég heyrði eins og rödd í höfðinu á mér. Ég vissi ekki hvort það var mín eigin, eða einhvers annars.
Ég ákvað að einbeita mér að röddinni og reyna að skilja hvað hún eða ég sagði. Ég einbeitti mér í dálitla stund, eða þar til ég heyrði sagt: Farðu að hafinu, ég þarfnast hjálpar.
Ég hugsaði með mér, hvað þetta gæti verið, hvort þetta væri ég , eða einhver annar. Ég ákvað að prufa aftur að einbeita mér að röddinni og ákvað með sjálfri mér að ef ég heyrði það sama og áður myndir ég rölta niður að sjó og sjá hvers kyns væri.
Ég einbeitti mér aftur einhvernvegin inn í höfðið á mér. Reyndi að halda öllum hugsunum úti.

Þarna kom hún aftur “röddin” og ennþá ákveðnari en áður.

Ég þarf hjálp !

Ég stóð upp af þægilegum sófanum og kallaði á Tító hundinn minn. Hann elskaði að fara með niður á strönd og ég gæti alveg eins tekið hann með, það gæfi mér líka öryggi að hafa hann.

Ég klæddi mig vel, í úlpu, vettlinga, húfu og ullarsokka. Það var vindur úti og það var kalt og það var snjórigning. Við gengum í áttina að sjónum. Það er ekkert sérlega löng leið tekur kannski 10 mínútur að ganga þangað rösklega.

Við gengum saman ég og Tító með vindinn og slydduna í andlitið. Ég sá glitta í hafið og það var úfið og kannski reitt ég vissi það ekki. Við komum að lokum inn á sandinn og ég renndi augunum með ströndinni. Það var ekkert að sjá svo langt sem augað sá.

Ég gekk lengra nær fjallinu og rýndi í átt að stóru steinunum sem liggja upp við fjallið. Þar gæti verið eitthvað. Ég fann allt í einu smá hræðslu í maganum því upp í huga minn koma atburður sem hafði gerst þar nokkrum árum áður.

Það hafði sést til ungrar konu þarna í klettunum sem engin þekkti til í bænum og hennar var leitað alla leið frá Reykjavík. Hún fannst aldrei. Talið var að hafið hefði tekið hana og ekki skilað henni aftur. Ég beindi þessum hugsunum í burtu og beindi athygli minni að Tító. Hann virtist sallarólegur og virtist bara ánægður með þennan óvænta göngutúr.

Nú vorum við næstum komin að klettunum þegar ég sá eitthvað lítið hreyfast þar sem alda og sandur mætast í faðmlögum. Ég gekk lengra að og sá að þetta var lítill kópur. Hann var einn og ósköp umkomulaus.Ég fann stað þar sem ég gat fest Tító því hann gæti fælt þetta litla líf sem lá þarna bjargarlaus.

Ég skimaði í kringum mig og sá að Baldur, Brandur og Sólveig koma aðvífandi. Þau skiptust til að hlaupa og ganga en töluðu mikið. Ég vinkaði til þeirra. Það var ekki oft sem ég hitti bekkjarsystkini mín hérna niður á strönd um helgar. Þau koma hlaupandi að okkur og ráku augun í kópinn.

Brandur sagði með það sama að við yrðum að ná í fullorðin, því kópurinn gæti aldrei komist hjálparlaust í sjóinn og að auki þá hefðum við krakkarnir fengið skilaboð um að ef við finndum eitthvað í fjörunni ættum við alltaf að ná í einhvern fullorðin.

Við hin vissum ekki alveg, en kinkuðum kolli að auðvitað ættum við að ná í einhvern fullorðin til að hjálpa kópnum.

Brandur og Sólveig hlupu af stað upp í bæ en ég og Baldur settumst niður í svartan sandinn og biðum átekta.

Tító lagði sig við hliðina á mér, svolítið órólegur því hann vildi hlaupa og leika sér . En eftir smá stund varð hann rólegur og virtist sofa.

Við sögðum ekki mikið, en biðum bara. Baldur var í bekk með mér. Hann var stór og mikill með mikið svart hár sem stóð í allar áttir.

Við sáum bíl koma keyrandi í sandinum. Þetta var Land Rover blár og hvítur. Við sáum að það var Gummi Geirs sem keyrði og í farþegasætinu var Hákon Ármann. Afturí sátu Sólveig og Brandur.

Bíllinn keyrði alveg upp að okkur og myndaði djúp för í sandinn. Allir stigu út og það var einhver spennan í gangi. Ég fann óþægnilega tilfinningu læðast um mig. Ég sá líka að Tító varð órólegur og eyrun hans voru alveg til baka, hann var hræddur.

Gummi kom að okkur og Baldur og ég stóðum upp.

Gummi: hæ krakka, hvað hafið þið nú fundið.

Ég: við fundum kóp, hann kemst ekki út í sjó, það þarf að hjálpa honum .

Hákon: flott krakkar að þið náðuð í okkur, við reddum þessu.

Þeir virkuðu spenntir eins og þeim hlakkaði til. Ég fann kvíðann í maganum,

Hræðsluna við það sem ég hræddist mest.

Gummi. Ok krakkar mínir nú ert best að þið farið heim og við göngum frá þessu.

Ég: en ætlið þið ekki að hjálpa honum út?

Hákon: nei það er ekki hægt, hann lifir það aldrei af. Við verðum að slátra honum, það er það besta í þessari aðstöðu.

Ég fann örvæntingu mína brjótast út, þið getið ekki bara slátrað honum !

Hákon, svona krakkar af stað heim !

Ég gekk að einum klettinum, með Tító en of lömuð til að taka eftir honum eða vita hvað ég ætti að gera. Ég sá þá ganga að kópnum með kylfur. Ég sá hræðsluna í augunum hans og ég heyrði öldurnar öskra til að reyna að breyta því sem ekki var hægt að breyta. Ég sá fyrsta höggið, ég heyrði örvæntingaróp frá litla dýrinu. Ég sá annað höggið , ég fann örvæntinguna brjótast út og hún gargaði, hún gargaði allt það henni kom í hug. Ég sá hafið hamast við að reyna að hjálpa, en höggin voru of mörg, og djúp. Ég sá líflausan kroppinn liggja þarna og blóðið lita sandinn og hluta af öldunni sem kom til að kveðja.

Ég vissi af mér eftir einhvern tíma. Ég var lömuð, ég hafði upplifað svik sem setti spor.

Ég lagðist í sandinn, Tító lagist á milli fóta mér og vildi láta strjúka sér.

Ég lagði hendurnar mínar um hann og nefið mitt í feldinn hans. Við lágum svona upp að hvert öðru og hugsum um þennan atburð sem við höfðum upplifað, fundum sorgina í maganum og ekkann í hálsinum sem hristi allan líkama minn.

Ég dormaði smá stund.

Ég vaknaði upp eftir einhvern tíma, ég veit ekki hversu langan. Tító var þarna líka og horfði áhyggjufullur á mig.

Ég mundi eftir samvinnu minni og Hafsins og ég fann gleði yfir því.

Ég stóð upp og fann að ég var köld og blaut. Ég hafði legið lengi og var blaut inn að beini.
Ég gekk nokkur skref að hafinu og sendi því þakklæti fyrir að hafa kallað á mig, og ég sendi þakklæti til mín yfir því að hafa hlustað.

Þrátt fyrir að það væri farið að rökkva, sá ég blóð í sandinum. ÉG vonaði bara að hann hefði komist þá leið sem hann átti að fara og hafði hafi hjálpað honum á leið eins og lofað.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband