Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
Þegar lífið fer í hring og minningar verða öðruvísi með tímanum
20.2.2010 | 07:32
Við vorum nánar ég og Sólveig gamla.. Kannski ekki nánar eins og maður oft hugsar það,en við vorum nánar í hugum okkar.
Sólveig var 94 ára eða 80 og eitthvað, ég man það ekki alveg, ég var 11 ára.
Sólveig gamla átti heima í litlu húsi undir fjalli í þorpinu sem ég ólst upp í. Sólveig átti margar kisur, kannski hundrað, kannski þúsund, ég taldi þær aldrei.
Sólveig var alltaf í svörtum kjól með svuntu sem einu sinni hafði sennilega verið hvít, en var nú ljósgrá. Hún virkaði hrein en þegar maður andaði að sér lyktinni hennar var lyktin rykug og gömul, án nokkurs sápuilms.
Það sem var gaman að gera með Sólveigu var að ganga um fjallið og leita að kisunum hennar. Það var ævintýri líkast. Fjallið var stórt og hvönnin óx þar um allt, á stærð við mig, og börn á mínum aldri.
Sólveig talaði ekki við mig þegar við vorum að kalla á kisurnar hennar. Kannski talaði hún aldrei við mig yfir höfuð, ég man það ekki, enda er það ekki mikilvægt. Við vorum saman í þessari athöfn sem var eins og hluti af einhverju öðru og dýpra en það virtist í fyrstu sýn
Sólveig kallaði einn tón eftir annan sem bergmálaði í fjallinu og endaði með að bergmálið ómaði hver annan upp svo það var eins og það væri kallað frá öllum áttum. KKKKkkkkkiiiiiiiiiissssssssssKissssssskiiiiiiisssssssss...........
Sólveig gekk við gamlan tréstaf, og gekk einhvernvegin eins og í eigin heimi á meðan hún framkallaði þessi kisuköll. Bæði vetur sumar vor og haust man ég hana á þessari göngu í þessum fötum með sjal yfir herðarnar og silfurlit kringlótt gleraugun. Ég man ekki hvernig sjalið var mjög skýrt, en mig minnir að það hafi verið í svipuðum lit og hárið hennar og þess vegna hef ég ekki tekið sérstaklega eftir því.
Ég fylgdi bara með henni og fannst þetta ævintýri sem var algjörlega tíðlaust fyrir mér. Við mættum sjaldan fólki á þessum göngum, en ef við gerðum það héldum við ferðinni áfram án þess að heilsa viðkomandi. Það var eins og það myndi brjóta upp formið sem hafði verið byggt upp í mörg mörg ár af henni og svolítið af mér.
Ég var með Sólveigu í þessum göngum af og til í mörg ár. Ég man aldrei eftir að kisurnar kæmu til okkar, eða fylgdu okkur heim.
Húsið hennar var lítil viðbygging við annað stærra hús sem afi minn og amma bjuggu í. Húsið hennar Sólveigar var alltaf fullt af kisum, það voru kisur allsstaðar. Það var erfitt að sjá að þarna byggi manneskja, því allt var á einhvern hátt innréttað sem kisuhreiður. Það voru tveir gluggar í herberginu sem hún svaf í. Alltaf þegar ég kom inn til Sólveigar gömlu var allt krökkt af kisum í hverjum krók og kima. Gluggarnir voru smáir, svo það var ótrúlegt að það væri pláss fyrir allar þessar kisur þarna í gluggakistunni.
Herbergið var lítið. Það var pláss fyrir lítið rúm, sem var fullt af teppum í allavega litum bæði hekluð, prjónuð og ofinn og skinn voru þarna líka undir teppunum, sá maður ef vel var að gáð.
Rúmið hennar var fullt af kisum sem kúrðu hver upp að annarri. Meðfram veggjunum voru teppatætlur og skinn tætlur sem lágu eins og þeim hefði verið hent tilviljunarkennt hingað og þangað. Þar kúrðu kettlingar, í öllum stærðum og gerðum. Það var ekki hægt að sjá að einhverjir af þeim væru nánari en aðrir, því allir lágu í einni hrúgu þar sem var mjúkt og notalegt.
Eitt borð var þarna inni, það borð var sett upp við rúmið, sem einskonar náttborð. Á borðinu var gamall hárbursti. Þessi bursti fannst mér fallegur.Hann var silfurlitaður með munstri á skaftinu og á bakinu. Munstrið var af blómum og páfugli. Burstinn var mjög framandi þarna í þessu herbergi. Það eina sem sannfærði mig um að burstinn væri raunverulegur og í eigu Sólveigar voru hárin á burstanum. Löng ljósgrá næstum hvít hárin sem höfðu fests í þegar hún greiddi langa þunna hárið sitt í eina fléttu á morgnana. Fléttan varð með hverju árinu lengir og lengri og þynnri og þynnri. Við hliðina á burstanum var vatnsglas með gömlu vatni í með matarkrumlum sem flutu ofan á vatninu.
Ef ég kom of snemma á morgnana, sem ég stundum gerði, uppgötvaði ég að glasið var geymslustaður tannanna hennar á meðan hún svaf. Einnig var þarna á borðinu gömul og slitin sálmabók. Þetta voru í raun einu persónulegu hlutirnir inni í húsinu hennar.
Í húsinu var lítill eldhúskrókur, með einum skáp sem var áfastur veggnum. Það var vaskur á skápnum og einn efriskápur. Ég sá hana lítið nota þetta borð og vaskinn, nema einu sinni þegar hún lagaði mat fyrir kettlingana sína.
Sólveig hafði veitt mús í gildru og músina skar hún í smá bita fyrir kettlingana, til að auðveldara væri fyrir þessi grey að borða kjötið.
Ég sá Sólveigu aldrei elda mat fyrir sjálfa sig, enda fékk hún mat á disk frá nágrönnum sínum, sem eins og áður sagði voru afi minn og amma.
Ég þekkti ekki sögu Sólveigar áður en hún flutti í bæinn, eða hvort hún alltaf bjó í bænum. Hún var bara konan með kisurnar sem var öðruvísi en aðrir og lifði lífi sínu með kisunum sínum án svo mikilla afskipta við aðra.
Einn daginn ákvað ég að venju að leggja leið mína til Sólveigar. Ég gerði eins og ég alltaf gerði, gek bara inn án þess að banka. Ég kallaði nafnið hennar á meðan ég fór úr úlpunni og stígvélum. Það kom ekkert svar og ég upplifið óvenjulega þögn í húsinu, þögn sem ég ekki hafði heyrt áður
Ég gekk frá anddyrinu í gegnum eldhúskrókinn og inn í herbergið. Þar var ekkert ! Engar kisur, engin Sólveig! Allt lá eins og vanalega þegar ég kom snemma á morgnana, einnig tennurnar í glasinu voru þarna, en ekki Sólveig og engar kisur eða kettlingar.
Ég settist á rúmið hennar og skoðaði mig um. Allt var gamalt og slitið, vel notað og nýtt til hins ýtrasta. Ég stóð upp af rúminu og gekk fram í anddyrið. Ég klæddi mig í skóna og úlpuna og gekk inn í hrap eins og við kölluðum það svæði sem Sólveig gamla vanalega gekk um þegar hún kallaði á kisurnar sínar. Ég gekk um og kallaði nafnið hennar, ekkert svar. Ég heyrði hvergi óminn af kallinu hennar til kisanna sinna, ég heyrði óminn aldrei aftur á þessum stað á þessum tíma.
Það var eins og fjallið hefði gleypt hana og allar kisurnar hennar. Það liðu dagar og það liðu ár. Það sást aldrei til ferða hannar aftur og kisurnar hennar voru horfnar líka.
Húsið hennar var rifið niður, og amma og afi byggðu í staðin fína stofu við húsið sitt og lítið herbergi sem við notuðum til að hlusta á útvarpsöguna í útvarpinu.
Ég varð eldri og flutti burtu frá þorpinu. Fyrst flutti ég til Reykjavíkur svo erlendis.
Ég flutti í þorp úti á landi hérna í þessum framandi stað Ég flutti í gamalt hús með stórum garði. Nokkrum dögum, ekki mörgum uppgötvaði ég svolítið þegar ég var að sýsla í bakgarðinum mínum. Ég sá að innarlega í bakgarðinum var lítið hús, í húsinu býr eldri kona með kisunum sínum. Kannski hundrað, eða kannski þúsund, ég, veit það ekki því ég hef aldrei talið þær.
Hún er svolítið yngri núna, en hún var þá, kannski 65 ára eða 70 ára, ég hef aldrei spurt hana. Hún varð ánægð að sjá mig aftur og vildi heyra allt um það sem hafði gerst hjá mér síðan síðast. Hún er ennþá með langa fléttu í hárinu sínu og hárið er ennþá þunnt eins og áður. En núna er hárið ekki svo grátt. Kannski grá hár hér og þar en voða lítið. Hún er öðruvísi klædd núna en áður. Núna er hún í allavega fötum í hinum og þessum litum og blandar öllu eins og barn sem vil leika sér með alla liti heimsins og hefur loksins tækifæri til þess núna
Hún er þó ennþá með gleraugu eins og áður en aðeins öðruvísi formuð. Hún virkar hrein en þegar maður andar að sér lyktinni hennar var lyktin rykug og gömul, án nokkurs sápu ilms Hún heitir núna Else Marie
Hún gengur um bæinn og kallar á kisurnar sínar með dóttur mína sér við hönd. Else Marie kallar einn tón eftir annan sem bergmálar í bænum. KKKKkkkkkiiiiiiiiiissssssssssKissssssskiiiiiiisssssssss
Else Marie á heima í litlu húsi í bakgarðinum okkar. Húsið hennar er meira innréttað fyrir kisurnar hennar en fyrir manneskju að búa í. Við förum reglulega með mat á disk yfir til hennar eins og afi og amma gerðu í gamla daga, þó ekki á hverjum degi eins og þau gerðu, en eins oft og við getum.
Else Marie elskar kisurnar sínar, meira en allt annað, hún vil allt fyrir kisurnar sínar gera sem henni ekki tókst áður, á öðrum stað á öðrum tíma. Hún passar þær fyrir öllu því sem gæti skaða þær. Hún passar þær svo vel að margar þeirra fá aldrei að fara út, sumar eru í bandi í garðinum hennar en þær sem eru lausar eru þær sem hún gengur um og kallar á með dóttur mína sér við hönd.
Hún hefur beðið mig um það, að þegar þar að kemur og hennar tími hér er liðin og tími til að fara annað. Að ég passi kisurnar hennar fyrir hana og sjái fyrir því að ekki komi neinn þegar hún er farinn og setji kisurnar hennar í poka og hendi út í sjó eins og svo oft gerist þegar fólk veit ekki betur svoleiðis segir hún með sorg í augunum.
Hverjum dytti það í hug , segi ég með hryllingi. En hún segist hafa minningu frá öðrum stað á öðrum tíma þar sem lausn bæjarbúa var sú, þegar hennar tími var komin að taka hundrað kisur, kannski þúsund. Setja þær í stóran poka og henda þeim út í brimið og láta öldurnar um að klára það verk sem þeir sjálfir áttu að gera en höfðu ekki kjarkinn til þess. Hafið gerir verkið á þeim tíma sem það nú getur tekið að klára svona erfitt og sorglegt verk með skelfinguna hljóma úr brúnum poka .
Ég skil ekki alveg minninguna , en hún kemur frá einhverjum stað frá einhverjum tíma og mér er fært að breyta þeirri minningu í annað og betra, núna þegar ég er fullorðin. Svo vil verða.
Þetta er minning, blandað með hinni innri minningu sem vil minnast öðruvísi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Minnig sem breitist við umfjöllun
13.2.2010 | 18:50
Ég ákvað að taka smá pásu frá handavinnunni og settist í sófann inni í stofu. Sófinn var karrýgulur með brúnum röndum. Hann var mjúkur og það var þægilegt að sitja í honum. Ég lét mig hlunkast niður í sófann, setti fæturna upp á hringlaga borðið og hallaði mér makindalega niður í mjúkt sófabakið. Ég var í rauðum sokkum sem blöstu við mér þegar ég setti fæturna svona upp í loftið.
Fyrir framan mig var stór gluggi sem sneri að hafinu. Ég gat, ef ég lagði við hlustir heyrt óm af öldunum í fjarlægð.
Ég elskaði hafið, ég elskaði hljóðið frá hafinu, ég fann að ómur hafsins sló í takt við hjartað mitt. Ég einbeitti mér að andadrættinum mínum og lét hann anda í takt við andardrátt hafsins, sem gerði mig eitt með hafinu.
Þetta var góð tiflininning, það var eins og ég félli saman með þessum djúpa takti ég fann að meðvitund mín beittist í hálfgerðan svefn, að mér fannst. Ég fann þunga i höfðinu, ekkert vont eða óþægilegt en öðruvísi.
Það leið einhver tími, ég veit ekki hve langur en einhver tími þó. Ég heyrði eins og rödd í höfðinu á mér. Ég vissi ekki hvort það var mín eigin, eða einhvers annars.
Ég ákvað að einbeita mér að röddinni og reyna að skilja hvað hún eða ég sagði. Ég einbeitti mér í dálitla stund, eða þar til ég heyrði sagt: Farðu að hafinu, ég þarfnast hjálpar.
Ég hugsaði með mér, hvað þetta gæti verið, hvort þetta væri ég , eða einhver annar. Ég ákvað að prufa aftur að einbeita mér að röddinni og ákvað með sjálfri mér að ef ég heyrði það sama og áður myndir ég rölta niður að sjó og sjá hvers kyns væri.
Ég einbeitti mér aftur einhvernvegin inn í höfðið á mér. Reyndi að halda öllum hugsunum úti.
Þarna kom hún aftur röddin og ennþá ákveðnari en áður.
Ég þarf hjálp !
Ég stóð upp af hæglegum sófanum og kallaði á Tító hundinn minn. Hann elskaði að fara með niður á strönd og ég gæti alveg eins tekið hann með, það gæfi mér líka öryggi að hafa hann.
Ég klæddi mig vel, í úlpu, vettlinga, húfu og ullarsokka. Það var vindur úti og það var kalt og það var snjórigning.
Við gengum í áttina að sjónum. Það er ekkert sérlega löng leið tekur kannski 10 mínútur að ganga þangað rösklega.
Við gengum saman ég og Tító með vindinn og slydduna í andlitið. Ég sá glitta í hafið og það var úfið og kannski reitt ég vissi það ekki. Við komum að lokum inn á sandinn og ég renndi augunum með ströndinni. Það var ekkert að sjá svo langt sem augað sá.
Ég gekk lengra nær fjallinu og rýndi í átt að stóru steinunum sem liggja upp við fjallið. Þar gæti verið eitthvað. Ég fann allt í einu smá hræðslu í maganum því upp í huga minn koma atburður sem hafði gerst þar nokkrum árum áður.
Það hafði sést til ungrar konu þarna í klettunum sem engin þekkti til í bænum og hennar var leitað alla leið frá Reykjavík. Hún fannst aldrei. Talið var að hafið hefði tekið hana og ekki skilað henni aftur. Ég beindi þessum hugsunum í burtu og beindi athygli minni að Tító. Hann virtist sallarólegur og virtist bara ánægður með þennan óvænta göngutúr.
Nú vorum við næstum komin að klettunum þegar ég sá eitthvað lítið hreyfast þar sem alda og sandur mætast í faðmlögum. Ég gekk lengra að og sá að þetta var lítill kópur. Hann var einn og ósköp umkomulaus.Ég fann stað þar sem ég gat fest Tító því hann gæti fælt þetta litla líf sem lá þarna bjargarlaus.
Þegar ég var viss um að Tító væri örugglega fastur við stein gekk ég rólega að kópnum. Ég sá að hann var hræddur en þó var eins og hafið héldi utan um hann og öldurnar vögguðu honum fram og til baka til að róa hann og fullvissa hann um að hann væri ekki einn. Ég settist niður smá spöl frá honum, þar sem ég var viss um að öldurnar gætu ekki náð mér.
Ég gaf mér dágóðan tíma til að horfa á þetta litla líf og tala rólega til hans. Ég horfði í augun hans og sá tár í augunum hans. Ég fann til með honum, en vissi ekki alveg hvað ég átti að gera.
Ég ákvað svo að loka augunum og athuga hvort ég gæti talað við hann, eða heyrt röddina hans eins og þegar ég heyrði röddina áður. Ég lokaði augunum og einbeitti mér að höfðinu eins og ég hafði gert áður. Það leið svolítil stund og ég hlustaði á hljóð hafsins og fuglagarg í kringum mig. Ég heyrði í Lunda og Mági held líka að ég hafi heyrt öskur í fýl einhversstaðar.
Svo kemur röddin og segir: Takk fyrir að koma, viltu hjálpa barninu mínu út í dýpri ölduna svo hann geti synt út, þar skal ég taka á móti honum og hjálpa honum áleiðis þangað sem honum er ætlað.
Ég sat svolitla stund og reyndi að átta mig á hver það var sem talaði inni í höfðinu á mér. Eftir því sem ég komst næst í þeim skilningi var það hafið !
Ég ákvað að láta vera að hugsa of mikið um það, stóð upp og gekk rólega í áttina að litla kópnum. Hann varð skelfingu lostin og gaf frá sér hræðsluóp og baksaði með litlu höndunum sínum en maginn var of stór til að hann gæti fært sig afturábak eða áfram.
Ég stoppaði og velti fyrir mér hvað ég gæti gert til að nálgast hann án þess að hræða hann svona eins og ég gerði núna. Ég hugsaði dálitla stund um litla kópinn, þegar ég gerði það var eins og eitthvað gerðist sem var svo stórfenglegt og ég hafði aldrei upplifað fyrr. Ég fann eins og hugar okkar mættust. Ég horfði í augun hans og sagði í huganum, eins og röddin hafði talað til mín áður:
Vertu ekki hræddur, ég ætla að hjálpa þér út í hafið svo hafið geti hjálpað þér þangað sem þín leið er.
Ég fann ró færast yfir mig, ég fann ró færast yfir hann. Ég gekk að honum og ýtti honum í áttina að hafinu. Öldurnar gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa, en ég fann einnig að þær vildu ekki hrífa mig með. Við gerðum þetta í dágóða stund. Ég fann svo að selurinn flaut áfram á öldunni sem kom. Ég kallaði upp af gleði og öldurnar kölluðu upp að gleði og litli kópurinn kallaði líka af létti og ánægju yfir að vera laus frá sandinum og komin í faðm hafsins sem ég sá svo bera hann í fanginu sínu áfram lengra út.
Ég stóð dálitla stund og fann gleðina brjótast í mér yfir þessum góða endi. Endi sem ég var svo þakklát fyrir og var fyrir mér það eina rétta af svo mörgu sem hefði getað gerst. Ég veit ekki hversu lengi ég stóð þarna áður að ég mundir eftir Tító sem var bundinn við stein. Ég gekk til hans og sagði nafnið hans. Hann stóð þarna svo fínn og fallegur og rófan hans dansaði í takt við skrefin sem ég tók.
Ég settist niður á sandinn við fæturna á Tító og hann hlammaði sér strax á milli fóta mér og vildi láta kela við sig.
Ég lagði hendurnar mínar um hann og nefið mitt í feldinn hans. Við sátum svona upp að hvert öðru og hugsuðum um þennan atburð sem við höfðum verið með í að skapa. Ég fann gleði eins og einhverjum hnút hefi verið eitt og það væri hamingjurúm í maganum mínum. Ég lagðist á bakið í sandinn og dormaði smá stund.
Ég sá myndir koma og fara, minningar sem vildu láta muna sig, sem ég ekki vildi hleypa að. Ég sá minningu sem var á leið í burtu frá mér en vildi munast. Ég reyndi að ýta henni frá mér en hún kom og vildi ekki hverfa. Ég fann að mótstaða mín minnkaði. Hvað gerðist svo veit ég ekki. Ég fann mig á einhvern óskiljanlegan hátt leysast upp eins og sandkorn.
Ég átti í mesta basli við að binda garnið saman, til að allt leystist ekki upp það sem ég hafði setið og prjónað allan formiddagen.
Ég ákvað að taka smá pásu frá handavinnunni og settist í sófann inni í stofu. Sófinn var karrýgulur með brúnum röndum. Hann var mjúkur og það var þægilegt að sitja í honum. Ég lét mig hlunkast niður í sófann, setti fæturna upp á hringlaga borðið og hallaði mér makindalega niður í mjúkt sófabakið. Ég var í rauðum sokkum sem blöstu við mér þegar ég setti fæurnar svona upp í loftið.
Fyrir framan mig var stór gluggi sem snéri að hafinu. Ég gat, ef ég lagði við hlustir heyrt óm af öldunum í fjarlægð.
Ég elskaði hafið, ég elskaði hljóðið frá hafinu, ég fann að ómur hafsins sló í takt við hjartað mitt. Ég einbeitti mér að andadrættinum mínum og lét hann anda í takt við andardrátt hafsins, sem gerði mig eitt með hafinu.
Þetta var góð tiflininning, það var eins og ég félli saman með þessum djúpa takti ég fann að meðvitund mín beittist í hálfgerðan svefn, að mér fannst. Ég fann þunga i höfðinu, ekkert vont eða óþægilegt en öðruvísi.
Það leið einhver tími, ég veit ekki hve langur en einhver tími þó. Ég heyrði eins og rödd í höfðinu á mér. Ég vissi ekki hvort það var mín eigin, eða einhvers annars.
Ég ákvað að einbeita mér að röddinni og reyna að skilja hvað hún eða ég sagði. Ég einbeitti mér í dálitla stund, eða þar til ég heyrði sagt: Farðu að hafinu, ég þarfnast hjálpar.
Ég hugsaði með mér, hvað þetta gæti verið, hvort þetta væri ég , eða einhver annar. Ég ákvað að prufa aftur að einbeita mér að röddinni og ákvað með sjálfri mér að ef ég heyrði það sama og áður myndir ég rölta niður að sjó og sjá hvers kyns væri.
Ég einbeitti mér aftur einhvernvegin inn í höfðið á mér. Reyndi að halda öllum hugsunum úti.
Þarna kom hún aftur röddin og ennþá ákveðnari en áður.
Ég þarf hjálp !
Ég stóð upp af þægilegum sófanum og kallaði á Tító hundinn minn. Hann elskaði að fara með niður á strönd og ég gæti alveg eins tekið hann með, það gæfi mér líka öryggi að hafa hann.
Ég klæddi mig vel, í úlpu, vettlinga, húfu og ullarsokka. Það var vindur úti og það var kalt og það var snjórigning. Við gengum í áttina að sjónum. Það er ekkert sérlega löng leið tekur kannski 10 mínútur að ganga þangað rösklega.
Við gengum saman ég og Tító með vindinn og slydduna í andlitið. Ég sá glitta í hafið og það var úfið og kannski reitt ég vissi það ekki. Við komum að lokum inn á sandinn og ég renndi augunum með ströndinni. Það var ekkert að sjá svo langt sem augað sá.
Ég gekk lengra nær fjallinu og rýndi í átt að stóru steinunum sem liggja upp við fjallið. Þar gæti verið eitthvað. Ég fann allt í einu smá hræðslu í maganum því upp í huga minn koma atburður sem hafði gerst þar nokkrum árum áður.
Það hafði sést til ungrar konu þarna í klettunum sem engin þekkti til í bænum og hennar var leitað alla leið frá Reykjavík. Hún fannst aldrei. Talið var að hafið hefði tekið hana og ekki skilað henni aftur. Ég beindi þessum hugsunum í burtu og beindi athygli minni að Tító. Hann virtist sallarólegur og virtist bara ánægður með þennan óvænta göngutúr.
Nú vorum við næstum komin að klettunum þegar ég sá eitthvað lítið hreyfast þar sem alda og sandur mætast í faðmlögum. Ég gekk lengra að og sá að þetta var lítill kópur. Hann var einn og ósköp umkomulaus.Ég fann stað þar sem ég gat fest Tító því hann gæti fælt þetta litla líf sem lá þarna bjargarlaus.
Ég skimaði í kringum mig og sá að Baldur, Brandur og Sólveig koma aðvífandi. Þau skiptust til að hlaupa og ganga en töluðu mikið. Ég vinkaði til þeirra. Það var ekki oft sem ég hitti bekkjarsystkini mín hérna niður á strönd um helgar. Þau koma hlaupandi að okkur og ráku augun í kópinn.
Brandur sagði með það sama að við yrðum að ná í fullorðin, því kópurinn gæti aldrei komist hjálparlaust í sjóinn og að auki þá hefðum við krakkarnir fengið skilaboð um að ef við finndum eitthvað í fjörunni ættum við alltaf að ná í einhvern fullorðin.
Við hin vissum ekki alveg, en kinkuðum kolli að auðvitað ættum við að ná í einhvern fullorðin til að hjálpa kópnum.
Brandur og Sólveig hlupu af stað upp í bæ en ég og Baldur settumst niður í svartan sandinn og biðum átekta.
Tító lagði sig við hliðina á mér, svolítið órólegur því hann vildi hlaupa og leika sér . En eftir smá stund varð hann rólegur og virtist sofa.
Við sögðum ekki mikið, en biðum bara. Baldur var í bekk með mér. Hann var stór og mikill með mikið svart hár sem stóð í allar áttir.
Við sáum bíl koma keyrandi í sandinum. Þetta var Land Rover blár og hvítur. Við sáum að það var Gummi Geirs sem keyrði og í farþegasætinu var Hákon Ármann. Afturí sátu Sólveig og Brandur.
Bíllinn keyrði alveg upp að okkur og myndaði djúp för í sandinn. Allir stigu út og það var einhver spennan í gangi. Ég fann óþægnilega tilfinningu læðast um mig. Ég sá líka að Tító varð órólegur og eyrun hans voru alveg til baka, hann var hræddur.
Gummi kom að okkur og Baldur og ég stóðum upp.
Gummi: hæ krakka, hvað hafið þið nú fundið.
Ég: við fundum kóp, hann kemst ekki út í sjó, það þarf að hjálpa honum .
Hákon: flott krakkar að þið náðuð í okkur, við reddum þessu.
Þeir virkuðu spenntir eins og þeim hlakkaði til. Ég fann kvíðann í maganum,
Hræðsluna við það sem ég hræddist mest.
Gummi. Ok krakkar mínir nú ert best að þið farið heim og við göngum frá þessu.
Ég: en ætlið þið ekki að hjálpa honum út?
Hákon: nei það er ekki hægt, hann lifir það aldrei af. Við verðum að slátra honum, það er það besta í þessari aðstöðu.
Ég fann örvæntingu mína brjótast út, þið getið ekki bara slátrað honum !
Hákon, svona krakkar af stað heim !
Ég gekk að einum klettinum, með Tító en of lömuð til að taka eftir honum eða vita hvað ég ætti að gera. Ég sá þá ganga að kópnum með kylfur. Ég sá hræðsluna í augunum hans og ég heyrði öldurnar öskra til að reyna að breyta því sem ekki var hægt að breyta. Ég sá fyrsta höggið, ég heyrði örvæntingaróp frá litla dýrinu. Ég sá annað höggið , ég fann örvæntinguna brjótast út og hún gargaði, hún gargaði allt það henni kom í hug. Ég sá hafið hamast við að reyna að hjálpa, en höggin voru of mörg, og djúp. Ég sá líflausan kroppinn liggja þarna og blóðið lita sandinn og hluta af öldunni sem kom til að kveðja.
Ég vissi af mér eftir einhvern tíma. Ég var lömuð, ég hafði upplifað svik sem setti spor.
Ég lagðist í sandinn, Tító lagist á milli fóta mér og vildi láta strjúka sér.
Ég lagði hendurnar mínar um hann og nefið mitt í feldinn hans. Við lágum svona upp að hvert öðru og hugsum um þennan atburð sem við höfðum upplifað, fundum sorgina í maganum og ekkann í hálsinum sem hristi allan líkama minn.
Ég dormaði smá stund.
Ég vaknaði upp eftir einhvern tíma, ég veit ekki hversu langan. Tító var þarna líka og horfði áhyggjufullur á mig.
Ég mundi eftir samvinnu minni og Hafsins og ég fann gleði yfir því.
Ég stóð upp og fann að ég var köld og blaut. Ég hafði legið lengi og var blaut inn að beini.
Ég gekk nokkur skref að hafinu og sendi því þakklæti fyrir að hafa kallað á mig, og ég sendi þakklæti til mín yfir því að hafa hlustað.
Þrátt fyrir að það væri farið að rökkva, sá ég blóð í sandinum. ÉG vonaði bara að hann hefði komist þá leið sem hann átti að fara og hafði hafi hjálpað honum á leið eins og lofað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Kann þetta varla orðið
12.2.2010 | 18:42
Það er langt síðan ég hef skrifað, varð þar af leiðandi ekki lítið hissa þegar ég sá að enþá slæðist fólk hérna inn á síðuna mína, þrátt fyrir margra mánaða þögn frá mér, en svona er nú það. Það er mikið að gera hjá mér, tvöföld vinna og fullt af öðrum verkefnum.
Ekki er þó allt jafn gaman, mikið sparað hjá sveitafélögunum hérna í Danmörku og því miður bitnar það líka á mínum kæru skjólstæðingum frá Kunstskolen Rammen. en það er lítið annað að gera en reyna að finna leiðir svo þau séu ekki tekin úr því umhverfi sem þeim líður vel í.
þrátt fyrir krísun, eða kannski vegna krísunnar erum við að opna nýja deild, "grafísk teiknistofa" þar hef ég ráðið ungan mann Henrik sem er grafískur hönnuður og hefur unnið mikið bæði á teiknistofum og við fjöldamargt annað spennandi kreatívt. Hann er sem sagt að byggja upp þessa deild til að koma á móti þeirri Þörf sem er í samfélaginu, sem er að allir eiga að komast á vinnumarkaðinn, hvort sem það er raunhæft eða ekki. Við getum að sjálfsögðu ekki lofað nemendum vinnu eftir námið, en við getum þó kennt þau grundvallaratriði sem þarf og reynt að skapa tengsl á milli teiknistofa og nemenda og það ætlum við að gera.
Einnig erum við byrjuð á því sem við köllum "overbygning" þar hef ég ráðið kennara sem tekur þá nemendur sem hafa verið mjög lengi í skólanum og fer með þau á sýningar, skoðar byggingar "arkitektur" og þess háttar, eiginlega meiri teori en áður. Það verður spennandi að sjá hvað gerist með það.
Það gengur vel með nýja skólann "skolen for kreativitet og visdom", mikið að gera og spennandi. Við erum byrjaðar að kenna á barnaheimili tvisvar í mánuði, tvo tíma í einu. Einnig erum við með kennslu fimmtudaga og sunnudaga. Við stefnum á fleiri námskeið á næsta ári, en það er allt í vinnslu.
Af okkur fjölskyldunni er allt gott að frétta, erum að byggja og breita og er það voða spennandi. Ég fæ nú stærri vinnustofu, það sem var stofan, verður nú vinnustofa. Mjög kærkomið, ég er nefnilega að vinna að sýningu sem er í enda mars mánaðar.
Núna er ég ein heima með kæru kvikindunum mínum, sit í sófanum með nokkur af þeim í kringum mig. Ég ætla að njóta kvöldsins fyrir framan sjónvarpið og drekka sykurlaust eitthvað gott og njóta þess að vera ein í kotinu.
Hafið það gott kæra fólk, þeir sem koma orðið inn hérna....
Bloggar | Breytt 13.2.2010 kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)