Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Ég hef litlu við að bæta þessa dagana.
28.5.2009 | 14:49
Ég hreinlega hleyp frá einum stað til annars og gleymi því sem ég gerði fyrir augnabliki þegar ég fer í það næsta.
Það er samt gaman, en þó finn ég að þetta er aðeins að verða of mikið.
Ég fæ smá sting undir brjóstið af og til, eins og spenningur.
Ég hef þó ekki tíma til að huga að þessu fyrr en eftir hvítasunnu.
Í dag vorum við að rakubrenna í skólanum, það er alveg ferlega gaman og spennandi að sjá verkin verða til eftir svona langan tíma. Við brennum verk sem hafa verið gerð fyrir ári síðan. Við kennararnir erum líka með eitthvað sem við höfum gert, þannig að það klappa allir sínum litlu höndum þegar deginum er lokið.
Í kvöld förum Ulrikka og ég og lesum alla texta yfir á heimasíðunni fyrir nýja skólann svo er heimasíðan tilbúinn. Siggi var í allt gærkvöld að kenna mér að vinna á heimasíðunni sjálf, svo nú kann ég það.
Á morgun næ ég svo í 1.5oo bæklinga um nýja skólann sem við dreifum hérna um bæinn um helgina. Spennandi.
Set inn myndir sem sýnir hvernig bæklingurinn lítur út.
Á mánudaginn er svo góður og stór dagur. Skandinavisk hátíð fyrir andlega hópa sem hittast í Kaupmannahöfn. Ég ásamt nokkrum öðrum höfum staðið fyrir þessu, það verður gaman að hitta svona margt fólk sem með sömu hugsun og maður sjálfur. Gunni minn og Uffi gera matinn, sem verður örugglega góður. Þeir gera matinn hérna í eldhúsinu okkar og svo keyra þeir matinn í bæinn.
Svo á sunnudagskvöldið náum við í litlu Dimmalimm, nýji hundurinn okkar. Hún er svo sæt lítil og falleg. Ég hef svo næstu viku heima til að vera með henni og hjálpa henni til að aðlaga sig Lappa kóngi, fjórum kisum, páfagaukum og Birni naggrísi. Það verður yndislegt.
Ég fer svo að vinna vikuna eftir og þá tek ég bara litlu skottuna með í vinnuna, það verður gaman fyrir bæði nemendur og kennara.
Sem sagt, mikið að gera en lífið er ljúf, þaðrf bara að muna að anda inn og anda út.
Lappi minn er svo heppinn, nágranni var að koma til að fá að fara með hann í göngutúr :o)
Kærleikur og Ljós til ykkar allra bræður mínir og systur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Það sem ég elska við lífið er hversu marglitt það er.
19.5.2009 | 21:34
Ég hef hitt svo margt dásamlegt fólk í gegnum árin sem hafa verið með til að víkka meðvitundina mína.
Ein af þeim hefur komið upp í hugann minn undanfarið. Hún var ekki lengi samferða mér, en ég kynntist henni svolítið. Mér er oft hugsað til hennar og er þakklát fyrir að hafa þó haft þennan litla tíma með henni.
Ég hitti hana í landi, sem ég var í. Við unnum saman af og til en þó ekki mikið. Hún var algjörlega einstök í öllu því sem hún gerði svo einstök a. Hún var falleg og einstök. Hún hefur ábyggilega sett spor sín á alla sem urðu á vegi hennar.
Hún hafði algjörlega sinn eigin takt í lífinu, takt sem ekkert gat fengið hana frá.
Einu sinni bauð hún mér í mat. Það var gaman að koma inn á heimilið hennar sem var ótrúlega fallega skipulagt. Hún var safnari, hún safnaði vínilplötum, helst áskrifuðum. Hún átti líka allar sínar plötur í cdum. Plöturnar voru raðaðar upp eftir stafrófsröð. Ein eftir aðra í fallegum takti í hillunum. Þetta voru margar plötur og margir cdar, kannski 1000, kannski 2000 ég veit það ekki. Hún átti margar áritaðar, mjög margar.
Hún hlustaði líka á músíkina eftir stafrósröð. Eina eftir aðra eftir því hvar í stafrófinu þær voru.
Hún bauð mér upp á yndislegan grænmetisrétt úr matreiðslubók eftir Linda McArtney, ekki af því að ég var grænmetisæta, nei af því að hún var komið að þessum rétti í þessari bók. Hún var komin að stafnum L á þessari síðu. Hún var sjálf ekki hrifinn af bjór, en ég sem betur fer því samkvæmt bókinni var bjór með þessum rétti og það var borið fram.
Allt kryddið í hillum var raðað með svo mikilli natni í hillurnar hennar að það var unun að skoða inn í skápana hennar, sem hún sýndi mér með mikilli gleði.
Hún átti mikið og fallegt safn af bókum, sem ég fékk leyfi til að skoða. Hver einasta bók var sett í plast, til að verja þeim fingraförum. Hún las bækurnar sínar eftir stafrósröð, Yndislegt og svo fallega skrítið.
Hún átti líka alveg magnað safn af póstkortum sem frábært var að skoða og detta inn í þessa ferðaheima. Hún fékk bæði sent frá fólki sem hún þekki og ekki þekkti í þetta fallega safn sitt.
Hún sagði mér fallega sögu sem ég sé sem fallegt verk. Hún hafði einu sinni átt í heitu ástarsambandi við mann. Hún elskaði hann mjög heitt, tjáði hún mér. Einn daginn sagði hann henni að sambandinu væri lokið og því var ekki breitt. Hún fylltist mikilli sorg en varð þó að lifa við þann söknuð sem við tók.
Það voru mörg ár síðan þetta hafði gerst og hún hafði ekki hitt neinn síðan sem fyllti plássið í hjartanu hennar.
Hún sýndi mér svo möppu með fullt, fullt af ljósmyndum af stigagöngum. Allir stigagangarnir voru ólíkir og sögðu hver sína sögu. Ég spurði hana hvað þetta eiginlega væri. Þá sagði hún mér að í öll þessi ár sem liðin voru frá því að hann hafði sagt henni upp hafi hún fylgt honum eftir. Í hvert sinn sem hann flutti í nýja íbúð, fór hún og tók mynd af stigaganginum þar sem hann bjó þannig var hún hluti af lífi hans og fylgdi í hans fótspor.
Þetta var ekki það eina sem hún gerði í skema, allt hennar líf var fyrirfram ákveðið, þá meina ég allt.Svona getur lífið verið fallegt og skrítið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
allt er eins, þó ekkert
15.5.2009 | 10:37
Allt er betra núna, þó allt sé eins og áður. Jafn óljóst og hræðsluvekjandi og áður, en hugurinn er annar.
Það er gott þegar maður finnur að hægt er að flytja hugsunina frá einum punkti til annars, eins og þegar maður flytur gula manninn frá einum fletinum til annars í lúdó.
Ég flutti hugann frá einum fleti yfir á annan, og allt leit öðruvísi út. Allt sem fékk magann til að hoppa á haus og fram og til baka varð rólegt og yfirvegað.
Í dag vinn ég í garðinum, sem áður var tilgangslaust. Í dag plana ég hvort eða hvort ekki við eigum að fá hænur aftur. Ég skoða blómin mín og fallegu laukana sem koma upp úr moldinni hér og þar og ég nýt þeirra eins og alltaf, án hræðslunnar að allt þetta er ekki með í framtíðinni.
Ég sit á kvöldin og byggi heima til næstu sýningar, ég tek brot og lími saman í heild sem segir ekkert, en segir þó kannski allt, það skiptir engu máli.
Ég talaði við gamla vinkonu mína í langan tíma í morgun. Hún hringdi í mig í fyrsta sinn í nokkur ár. Við fórum hver sína leið eins og gerist. Hún fór sína leið í reiði sem var á þeim tíma ekki auðvelt fyrir okkur. Við höfðum byggt Listaskólann upp saman og svo margt annað.
Hún stóð svo einn daginn við dyrnar mínar og ég bauð henni að sjálfsögðu inn. Við töluðum, við töluðum mikið og í hverju orði var heilun til hver annarra. Hún hringdi svo aftur í morgun og við héldum áfram að tala þar sem frá var horfið eins og ekkert hefði gerst og við værum saman fyrir fjórum árum. Við vitum heldur ekki hversu langan tíma við höfum saman. Hún er mikið veik og lifir einn dag og kannski spáir í næsta, hver veit. Við viljum sjá hvort við getum hugleitt saman fljótlega, einu sinni gerðum við það oft.
Það er svo mikilvægt að muna í samskiptum við vini eða ekki vini að kannski fer annað hvor yfir á innri plön, á eftir, á morgun eða annan dag , við vitum ekkert.
Ég er svo þakklát fyrir að við náum að heila sambandið okkur hérna í þessu lífi en bíðum ekki með það.
Ég fór í gönguna mína með Lappa í morgun. Það var að venju yndislegt. Við hittum Ulrikka. Hún er sú sem ég er að opna nýja skólann með. Við ræddum saman og vorum glaðar því við fengum styrk til skólans í gær og það gefur okkur rými til að gera ýmislegt. Ég sagði henni frá því að ég hafði næstum því fengið mér lítinn hvolp. Það munaði næstum engu. Ég útskýrði líka að í þeirri hugsun að vilja fá hvolp var flótti frá því hversu mikið er að gera hjá mér og ég þrái eitthvað sem er svo nálægt og áþreifanlegt sem það er að fá nýjan hund. Það setti huga minn í ró.
Það er eins og minni mynd af því að vera bóndi. Ég sagði henni líka frá því að þegar ég var lítil óskaði ég þess að vera bóndi og grafa í jörðina, setja nefið í kýrnar og liggja í sófanum með hundinn minn og fylgjast með veðrinu í sjónvarpinu.
Drekka kaffi í eldhúsinu og hlusta á hádegisfréttirnar með glerglasið mitt fullt af kaffi, mjólk og sykri. Það skrítna er að ég er allt hann bóndinn, aldrei húsmóðirin. Ulrikka sagði mér að þegar hún var lítil dreymdi hana um að vera fornleifafræðingur. Vera með fingurna í jörðinni og finna fortíðina. Við hlógum að þessum fallegu draumum og vorum sammála um að það væri gott að hafa þá að halla sér að þegar of mikið er að gerast og okkur vantar ró.
Við fáum bæklingana í næstu viku og heimasíðan opnar vonandi í næstu viku. Allt er að skella á. Allt í einu á meðan við stóðum þarna og sögðum frá, varð Múmin minn sem er rauði kisi pirraður á þessu blaðri hljóp á milljón upp í tré með halann sinn pirraðan. Okkur var ljóst að hann vildi halda áfram. Við kysstum hvor aðra og gengum hver sína leið. Hún var svo falleg þarna með rauða hárið sitt og í fallega grænum og bláum fötum.
Það er nóg að gera með hinn skólann. Bráðum skólaslit með sýningu og skemmtilegheitum. Nýir nemendur á leiðinni inn næsta haust. Að sjálfsögðu fer engin út en við höfum ákveðið að taka tvo nýja inn. En það reddast allt eins og alltaf.
Núna ætla ég út með kornkaffið mitt, setjast aðeins í sólina og setja svo aðeins fingurna í moldina. Set inn myndir frá garðinum mínum og eina af mér og hvolpinum sem ég var næstum því búinn að kaupa !!!
Kærleikur og Ljós til ykkar allra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
sumt kemur bara og vill skrifast.
5.5.2009 | 20:33
Þessi orð kalla á mig og vilja skrifast.
Hef reynt að ýta þeim frá mér, því allt er of nálægt mér eins og er.
Oftast er best að skrifa um eitthvað þegar það er liðið hjá og maður er ekki í þeim tilfinningum á meðan farið er yfir það sem þarf að fara yfir.
En þessi grein vil út til þeirra sem á þurfa að halda núna, burtséð frá minni þörf og mínum tilfinningum.
Það segir mér að þörfin sé mikil fyrir umræðu og orð um þessa tilfinningu sem við berum öll í okkur meira eða minna, kannski meira núna þessa dagana en minna.
Hugtakið er hræðsla/ótti Ég finn þessa tilfinningu læða sér inn hjá mér þessa dagana í tíma og ótíma og ég upplifi ekki að ég geti varist henni. Veit þó að til er leið og tækni til þess, en á því augnabliki sem tilfinningin er þarna upplifi ég mig varnarlausa.
Ég hugsa sennilega of mikið og reyni of mikið að skilja það sem gerist í óttanum á skynsemisplaninu, á meðan ég ætti sennilega að vera að gefa óttatilfinningunni minni, þann kærleika og skilning sem henni ber.
Ég held að óttinn liggi yfir Móður Jörð núna og láti engan ósnortin. Ég finn eins og óttinn geri mig lamaða, sem verður til þess að ég get ekki hugsað skírt og rökrétt, en í staðin sveima hugsanirnar aftur og aftur í höfðinu mínu án upphafs, endis eða möguleika til að komast út úr aðstæðunum sem virðast óyfirstíganlegar.
Þetta er í raun mjög skrítið, ég næ ekki að vera herra yfir þeim, sennilega vegna þess að ég reyni að þvinga þær í burtu með rödd skynseminnar, vil ekkert vita af þeim sem hluta af mér, sem ég þó veit að er hluti af mér, þó ekki ég.
Ég óttast það, sem ég get ekki stjórnað, ég óttast að missa það sem ég á. Ég veit allt með skynseminni, en hún er ekki samstíga tilfinningunum.
Ég get misst, já, það veit ég. Það er hluti af því að vera á lífi. En það að missa getur verið það sem þarf til að fá eitthvað betra.
Ég óttast að missa heimilið mitt, já það er líka möguleiki á að ég missi heimilið mitt. En kannski er það ekki það versta sem getur gerst. Til að nýir hlutir geti gerst, verður að gefa þeim pláss. Ekkert er endalaut, ekkert í lífinu er endalaust, nema kannski lífið sjálft.
Ég hef verið í þessari skrítnu leiðslu undanfarna daga, sveiflast á milli vinnugleði með ný og spennandi verkefna til tilgangsleysis og örvæntingu yfir því sem ég get ekki stjórnað. Ég sé hlutina stundum að ofan og skil dýptina og tilganginn með öllu sem gengur yfir mig og okkur, en stundum upplifi ég það sama í tilfinningunni, óttanum, sem gerir mig máttvana og örvæntingarfulla. Ég get ekki, að mér finnst, valið hvaðan ég sé og upplifi, það kemur eins og að sjálfu sér.
Ég vildi svo mikið óska að ég gæti alltaf fókuserað að ofan á aðstæður og sægi hlutina í hinu stóra samhengi. Það myndi gera mér betur kleift að halda jafnvægi sem gerði mér auðveldara um vik að vinna þau verk sem kalla á hér og nú.
En kannski er það einmitt mikilvægt að ég upplifi mig máttvana og örvæntingarfulla, því það gerir mér kleift að skilja og læra það sem svo margir ganga í gegnum. Ég er hluti af óttaafli sem herjar á heiminn. Að vera hluti af þeirri tilfinningu, gerir að ég skil hana og skil þar af leiðandi aðra betur en ella.
Ef mér tekst að vinna á óttanum, verð ég meistari á því sviði og get þar af leiðandi verið öðrum hjálp í þeirri baráttu sem aðrir herja.
Eitt finn ég og veit, að það er mikilvægt fyrir mig og alla, að fá það besta út úr öllum erfiðleikum. Sjá erfiðleika, ótta, sorg, máttleysi eða hvað sem kemur sem möguleika til að vaxa. Hvað er mikilvægast fyrir mig að læra hér og nú. Hvað get ég nýtt mér þessa upplifun á sem bestan máta.
Sennilega er mestir lærdómurinn sem ég get fengið úr þessari tilvistarkrísu, að fara frá því að trúa á hinn innri heim, yfir í það að VITA og TREYSTA ! Það finn ég á þessu augnabliki, að er verkefnið.
Ég VEIT, ég treysti á að ef ég geri allt það besta sem ég get gert, þá er það sem gerist, það besta fyrir mig.....
Blessun og Kærleikur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)