Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Vonin og ég

IMG_1429

Það snjóar, alveg frábært!!
Var á fundi í Köge i dag, vorum að plana næsta hálfa ár með skólann og flutninga í vor. Við flytjum skólann frá Greve til Köge.Þetta er miklu stærra húsnæði með góðum garði og mjög nálægt miðbænum.
Er núna hérna í eldhúsinu mínu og horfi á snjókornin dansa fyrir utan gluggann minn.
Gunni situr hérna á móti mér og vinnur á sína tölvu. Sólin situr í stofunni og les blað um gæludýr sem ég keypti á leiðinni frá Köge. Lappi liggur og er eitthvað að stríða henni, heyri hana hlæja og segja nafnið hans af og til. Ósköp notalegt hérna í sveitinni í dk.

Hef verið að velta fyrir mér dialog sem ég hafði við bloggvinkonu mína vonina í gær. Ég hafði kommentað hjá henni blogg um mjög átakanlegt efni, baráttu kristinna við múslima. Mjög átakanlegt .
Ég fann samt að þó ég væri sammála því sem hún skrifaði, þá var eitthvað í því hvernig málið var lagt fram sem ég var ósammála. Hef upplifað þetta hjá fl. bloggurum sem skrifa í nafni trúarinnar. Ég er sammála því sem er skrifað, en þó ekki. Vonin og ég höfðum skrifað smá hver á eftir annarri og í þeim svörum sem hún gaf mér, gat ég ekki annað er verið sammála enda var efnið þess eðlis . En það var eitthvað sem ég ekki var sammála.

Ég er þannig gerð að ég þarf oft tíma til að finna út úr því hvað mér finnst og hvers vegna. Þannig var þetta með þetta blogg. Ég þakka minni kæru bloggvinkonu fyrir það að hafa fengið mig til að hugsa um það sem hefur verið að brjótast í mér í langan tíma.

Ég hef núna bloggað í tæpt ár, og fer af og til rúntinn á blogginu. Fer oft inn á trúarleg efni, en verð oftar leið en glöð þegar ég les þau blogg.. Það veldur mér oft vonbrigðum að sjá hvaðan fólk nálgast efnið. Það er fókuserað mikið á hina og þessa teksta og það er ekkert nema gott um það að segja. Það er líka mikið agnúast út í önnur trúarbrögð, oft með mikilli heift. Ég upplifi lítinn eða engan skilning fyrir þeim sem hugsa öðruvísi. Það er talað um bræður og systur, en bara þeir sem hugsa eins og maður sjálfur. Þetta er lokaður heimur, þar sem hver kvittar hjá örum og staðið er saman. Það get ég á einhvern hátt skilið, því það er gott að vera með þeim sem hugsa eins.
Ég vil taka það fram að einn af mínum bloggvinum er múslimi og þegar ég fer inn á bloggið hans eru alltaf áhugaverðir textar sem ég stundum kópia inn á tölvuna mína til að lesa í rólegheitum. Ég er mjög þakklát fyrir það efni sem hann sendir út á bloggið, það gefur innsýn í þann heim sem hann stendur fyrir. Fyrir mér er mikilvægt að vera opin fyrir því hvernig aðrir hugsa og þar get ég lært heilmikið.
Þegar við hættum að hlusta, þá hættum við að þróast.
Já svo ég haldi áfram þá er það sem ég upplifi að vanti, og það vantar í allar umræður á milli trúarbragða, er að finna leið svo við getum verið hérna á jörðinni saman. Það er ekki lausn á þessum vandamálum að vera í stríði, hvorki þegar notaður er penninn, eða önnur vopn. Það sjáum við á því hvernig heimurinn er í dag. Eina leiðin er að finna leið sem allir geta verið sáttir og fundið sitt pláss hérna á jörðinni. Það er hvorki hægt að útrýma öllum kristnum, né öllum múslimum, hvað þá öllum sem eru einhversstaðar annarsstaðar í sinni trú.
Þetta er það sem ég finn að fer fyrir brjóstið á mér í þeim skrifum sem eru á blogginu, það er ekki skrifað um lausnir.
Það finnst sennilega mörgum alveg fáránlegt að hugsa um lausn þegar þetta og þetta margir deyja sökum trúar sinnar, eins og kom fram í annars átakanlegri frásögn vonarinnar.
En hvað annað er hægt að gera ?
Það er hægt að slást og rífast næstu margar aldir, en það breytir ekki því að einhveratíma þarf að finna lausn, í lausninni er fyrirgefning og skilningur á hver öðrum. Kannski eru þau trúarbrögð sem eru hvað stærst á jörðinni í dag of einangruð hver í sér til að mögulegt sé að finna þessa lausn. Kannski þarf að skapa aðra trú sem inniber það sem allir geta verið sammála um sem byggir á meiri Náungakærleika, Skilningi, Fyrirgefningu Víðsýni, Kærleika til alls lifandi og Fordómaleysi
en ég upplifi í þeim trúarbrögðum sem eru núna, ekki bara í orði, en líka í verki.
Það er engin vafi að flestir þeir sem segja sig trúaða, kunna ritninguna, bæði þeir kristnu, múslímar og gyðingar. Það gerir það sennilega að það er erfitt að standa i rökræðum við þá. En er það það sem gerir að maður er nær Guði, að kunna ritninguna?
Ég vil taka það fram að ég er ekki á ráðast á einn eða neinn, ég sjálf trúi á Krist. Ég geri mér samt grein fyrir að mín trú er ekki bókstafstrú, heldur trúi ég þar sem ég finn að hjartað í mér segir sannleika. 

Vonin skrifaði: Jesú var ekki hippi, hann var beittur þegar þess þurfti. Það er ábyggilega rétt, en hann hafði eitt umfram okkur og þar að leiðandi höndlaði hann það betur að vera beittur en við gerum, hann hafði óendanlegan Kærleika til alls lífs á jörðu.

Hatur vinnur ekki bug á hatri
En Kærleikurinn getur það og gerir...
Kærleikurinn sem þolir allt
Og er gæskuríkur, tekur á sig ábyrgð,
Sem berst og þjáist, særist og fellur
Fyrir málstað sinn – en rís á ný

Daníel A. Poling


AlheimsLjós til ykkar allra.


Guð og fíllinn

00000childrenof1universe
Laugardagur, og alveg frábær laugardagur. Hérna er kalt, mjög kalt  það er eins og  mínus 20 gráður vegna roksins og einnig er smá snjór. Í dag byrjaði ég með litla myndlistarskólann fyrir Sólina og Lilju okkar. Sólin hefur verið að nuða um að fá að fara í myndlistarskóla sem er hérna í bænum. En hún er í fiðlunámi og í kór og þar sem ekkert er ókeypis hefur hún ekki fengið að fara í fl. en þetta tvennt. En í vor lofaði ég henni og Lilju að ég ætlaði að kenna þeim sjálf. Enda alveg fáránlegt að nota alla þessa menntun ekki í eitthvað sem kemur fjölskyldunni minni til góða. Sem sagt við byrjuðum í morgun. Þetta eru duglegar stelpur, en ég sé að það er mikil vinna framundan. Metnaðurinn fyrir að þetta eigi að vera eins og uppsetningin er yfirsterkari gleðinni við að skapa. Þetta verður spennandi. Eftir skólann fórum við öll á flóamarkað og við keyptum sitt lítið af hverju. Við keyptum m.a. ljós í annan hlutann af eldhúsinu.Tvö flott ljós sem ég hef haft auga á í nokkurn tíma. Þau voru silfurlit, en eru núna orðin rauð. (sprautuðum þau þegar við komum heim) Mjög flott. Sá eins ljós í Illum fyrir jól, þau kostuðu hátt upp í 10.000 ísl. stykkið. Það er svo sannarlega hægt að gera góð kaup hérna úti á landi.við keyptum bæði á 1500 islkr.

Annars er allt bara í rólegheitum hérna. Vinna, sofa, lesa og horfa á bíómyndir.
Langar að segja frá sögu sem Lisbeth vinkona mín frá Svíþjóð sagði mér um daginn. Við hittumst einu sinni í viku ásamt öðrum og hugleiðum saman. Einnig skrifum við greinar um hin og þessi málefni. Aðalega þó um pólitík út frá hinni innri sýn.
Við vorum að ræða um trúarbragðarstríðið sem herjar á milli Kristinna, Múslíma og Gyðinga. Þá sagði hún þessa frábæru dæmisögu sem er svo lík þeirri mynd sem ég sem barn upplifði og skildi þessi ólíku trúarbrögð.

Hún sagði : Guði getum við líkt við fíl sem er lokaður inni í lítilli hlöðu.
Þannig að það er ómögulegt að sjá Guð í heilu lagi.

Áður fyrr þegar það var ómögulegt fyrir manneskjur að upplifa Guð í heilu lagi og að skilja og upplifa heildarmyndina
Þá mynduðust ólík trúarbrögð út frá ólíkur sjónarhornum. Manneskjan opnaði eitt lítið gat inn í hlöðuna og rannsakaði varlega hvað það var inni í hlöðunni, eða það svæði sem hendin náði að skoða á fílnum. Höndin rannsakaði og skoðaði halan á fílnum og í einfeldni sinni hélt hún að þetta væri það, þetta er Guð ! Hinn eini sanni stóri sannleikur.
Ný trú myndaðist, Gyðingatrú ! Þetta var Abraham sem nú breiddi sannindin út um Guð sem er sá eini rétti.

Önnur manneskja, Múhammed leitar líka að sannleikanum um Guð á öðrum stað á öðrum tíma. Hann opnar líka smá gat á vegginn í hlöðunni. Hann þuklar með hendinni, finnur og upplifir, hinn eina sanna Guð, hann þuklar á rananum á fílnum. Hann upplifir að sjálfsögðu allt annan Guð en Abraham. Fyrir Múhammed er þetta hinn einu sanni Guð.Hann vill gera Islam að heimstrúarbrögðum.
Önnur trúarbrögð sjá líka hver sinn hluta af Guði. Það fer allt eftir því hvar þú opnar inn í hlöðuna og hvaða hluta af fílnum þau rannsaka.Þetta finnst mér svo rétt mynd af því hvernig ég held að þetta allt saman hangir saman.
Á þessu er hægt að upplifa hinn ótrúlega óendanleika í Almættinu.

Þetta er það sem ég skrifa í dag.

AlheimsLjós til ykkar allra.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband