Um að vilja ekki líkama sinn !
17.1.2009 | 16:47
Offita er vaxandi vandamál, Einn af hverjum þremur yfir 20 ára þjást af offitu. Einnig er sagt að 27% barna og unglinga í heiminum séu of feit. Þetta eru bara tölur, á bak við hverja tölu er einstaklingur með sögu og baráttu sem erfitt er að fá hjálp til að leysa.
Þegar ég var lítil, fannst mér ég alveg eins og ég átti að vera. Þá var ég kannski tveggja ára, eða einhverstaðar nálægt því.
Þegar ég var 8 ára fannst mér ég líka vera eins og ég átti að vera. Ég var sennilega oft óþæg, en ég fann ekki fyrir neinu sem ekki væri í lagi með mig. Sennilega hef ég hugsað mig sem nafla alheims eins og öll börn gera.
Svo þegar ég varð tólf ára gerðist eitthvað sem gerði það að verkum að ég fann nýja tilfinningu, sú tilfinning var sú að vera öðruvísi. Þann dag var læknisskoðun í Víkurskóla. Þá vorum við mæld, skoðuð og viktuð. Ég var 54 kíló. Vinkona mín var 52 kíló. Þarna man ég eftir að hafa hugsað að ég væri of þung. Hvaðan sú hugsun kom veit ég ekki en sennilega hefur eitthvað verið sagt sem snerti mig í því óöryggi sem ég hafði fyrir.
Ég varð unglingur og var falleg eins og ég sé það í dag. Ég varð meðvituð um líkama minn en var á einhvern hátt strax óánægð með hann. Ég byrjaði að svelta hann og refsa honum með hungri og fæði sem hvorki var gott fyrir hann, né mig.
Ég gerði eins og margir gera á lífsleiðinni, gifti mig og eignaðist börn. Líkami minn átti erfiða tíma í gegnum þessi tímabil, því ég gaf honum ekki tækifæri á að jafna sig eftir fæðingarnar með hollu fæði og kærleika, en ég þvingaði hann í "rétt" form, með hungri og meira hungri.
Ég fór í nám í Myndlista og handíðaskóla Íslands, sem breytti öllu hjá mér, það var dásamlegur tími með sköpun og ævintýri fyrir mig. En líkami minn fékk ekki að vera með í þessu gleðirússi. Hann passaði mér ennþá ekki, var ekki eins og ég vildi hafa hann. Ég svelti ég hann áfram og til að refsa honum ennþá meira lét ég hann tæma magann af öllu í klósettið, oft mörgum sinnum á dag.
Svona var sambandið á milli mín og hans í mörg ár, afneitun og pirringur. Auðvitað var þetta upp og niðurleið með misjafnlega miklum þjáningum okkar á milli eða þar til núna fyrir ekkert voða löngu síðan. Ég fór að gera mér grein fyrir að líf mitt gæti ekki haldið áfram með þessari óvináttu milli mín og hans. þessu varð að ljúka og það varð að vera ég sem tók fyrsta skrefið til sátta, því það var ég sem hafnaði líkamanum á sínum tíma.
Ég byrjaði á því í hugleiðslu að skapa samband og traust okkar á milli. Það var svo skrítið að líkami minn tók strax í höndina mína, þegar ég rétti höndina mína til hans. Það tók svolítinn tíma fyrir mig að skilja þau skilaboð sem komu frá honum og senda skýr og einföld skilaboð til baka. En það koma allt saman með æfingunni. Næsta skref var að finna hvað væri best fyrir líkama minn og mig að borða, svo hann fengi allt það best til að byggja sig upp að nýju eftir margra ára svelt og ofát eftir því hvað passaði hverju sinni.
Ég gerði mér grein fyrir að sykur væri ekki góður, en átti í vandræðum með að neita mér um sykur. Ég uppgötvaði líka að sykur er í svo mörgu sem maður gerir sér ekki grein fyrir að geti verið sykur í. Það er ekki auðvelt sem neitandi að sjá í gegnum þann matvörufrumskóg sem er í verslunum. Það gekk svolítill tími, ég var orðin örvæntingarfull yfir að geta ekki haldið það loforð, sem ég hafði gefið líkama mínum.
Svo gerðist það sem svo oft gerist þegar maður kallar á hjálp að hún kemur til manns. Vinkona mín gömul fann mig á netinu og hún var með hjálpina til mín og líkama míns. Hún hefur hjálpað mér, eins og aðrir hafa hjálpað henni og svo koll af kolli.
Ég fann mína leið, minn sannleika. En ég veit að það eru jafn margir sannleikar og við erum mörg.
Ein lausnin fyrir mér er að borða rétt, það vita allir. Önnur lausnin er að elska sig og líkama sinn nógu mikið til að leita hjálpar við því sem við ekki ein ráðum við. Þriðja lausnin er hugarfarsbreyting í þjóðfélaginu gagnvart því sem er öðruvísi, ekki eins og staðall sem búinn er til af örfáum, en lifað af mörgum
Því út frá þessum fordómum skapast vandamálið, að leita sér ekki aðstoðar gagnvart þeirri fíkn sem ræður ríkjum í þeim sem slæst við vandamálið. Hræðsla við fordóma annarra gerir það að við sem þjáumst lokum augunum fyrir vandamálinu eins lengi og mögulegt. Ekki af því að við erum hrædd við aðra, nei af því að við erum sýkt af sama viðhorfi, fordómum gagnvart þeim sem hafa ekki stjórn á lífi sínu og við viljum ekki vera ein af þeim.
Núna er komið nýtt ár, með nýjum möguleikum og ég fer með gleði inn í þetta nýja ár með öllum þeim verkefnum sem bíða mín þar. Ég ætla að byggja um sambandið á milli mín og hans svo það verði traust og gott inn í framtíðina.
Ég set inn myndir af mér frá þeim tíma þegar ég hélt fyrst að ég væri offitusjúklingur !
Mörg ykkar hafa spurt mig um hugleiðslu sem ég gæti sett inn á bloggið. Þessi er mjög auðveld og allir geta nýtt sér hana.
Góð leið að byrja daginn, til að tengja sig Sálinni og Almættinu.
Sestu niður, lokaðu augun, sittu bein i baki með hendurnar afslappaðar og fæturna fast tengdar gólfinu.
Finndu ró og frið streyma um þig í smá stund. Finndu fullkomin frið streyma um þig og í kringum þig.
Finndu frið og Kærleika streyma um þig og inní þér. Engar neikvæðar hugsanir eða tilfinningar komast að þér.
Finndu andardráttinn þinn, rólegan og ákveðin, ímyndaðu þér að þú andir inn Friði og Kærleika og út öllum áhyggjum og neikvæðum hugsunum. Gerðu þetta í smá stund.
Þegar þú finnur að þú ert í fullkomni ró og tengingu við sjálfið segir þú í huganum:
Ég er Guðdómlegt Ljós
Ég er Kærleikurinn
Ég er Viljinn
Ég er hið fullkomna , sem Sálin hefur skapað hér og Nú !
Sittu svo smá stund í þögninni og upplifðu hana.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Þú hefur verið flott stelpa Steina! Undarlegt hvað hugurinn gerir fyrir mann og ekki síður hvað hann getur gert manni!
Ég ætla að prófa þessa hugleiðingu!
Ljós og kærleikur til Lejre.
Hrönn Sigurðardóttir, 17.1.2009 kl. 20:06
Takk fyrir einfalda og góða hugleiðslu Steina mín ,, ekki síst fyrir lesturinn sjálfan.
Eigðu ljúfar stundir Elskuleg. Kærleiksljós til þín...
Sigríður B Svavarsdóttir, 17.1.2009 kl. 22:51
Elsku Steinunn mín, þetta var yndisleg lesning. Ég er byrjuð að prófa þessa hugleiðslu og finnst það mjög gott Kærleiksknús til þín vinkona
Kristborg Ingibergsdóttir, 17.1.2009 kl. 23:07
Kærleiksknús til þín frænka
Ætla að prófa þessa hugleiðslu sem fyrst.
Sólborg Halla (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 13:01
Hulla Dan, 19.1.2009 kl. 06:20
Mér var sagt fyrir ári síðan að ég gæti ekki grennst nema að fara í hjáveitu aðgerð. Ég hef síðan grennst um 15 kíló. Ég labba og ég ræði við Guð, og hann hjálpar, og líkaminn minn brennur og grennist án þess að ég þurfi að láta skera hann. Þannig virkar þetta hjá mér. Er ekkert að flýta mér. Þetta kemur og hjá mér á Guð dýrðina.
L (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 16:07
kvitt
Þ Þorsteinsson, 19.1.2009 kl. 18:28
Þú varst svo sannarlega flott stelpa.
Ég ætla að skrifa þessa hugleiðslu upp og nú fer ég að þínum ráðum og fer að bera virðingu fyrir bæði líkama og sál.
Knús á þig yndið mitt
Solla Guðjóns, 20.1.2009 kl. 07:50
Kær kveðja ljúfust
Guðrún Þorleifs, 20.1.2009 kl. 11:22
Takk fyrir þenna góða pistil.
Elisabet (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 13:26
Yndisleg lesning og dásamleg hugleydsla.
takk fyrir kæra Steinunn.
Hjartanskvedja frá mér.
Gudrún
Gudrún Hauksdótttir, 21.1.2009 kl. 09:44
Já það er umhugsunarvert hvað hugurinn getur afvegaleitt mann og hvað hann er sterkur og veiklyndur í senn. Takk fyrir möntruna - ég ætla að prófa hana.
knús
Anna
Anna Karlsdóttir, 21.1.2009 kl. 12:36
Iss! Mér finnst þú nú bara alltaf vera hasarkroppur, hvort sem þú er mjó, feit eða þess á milli! Ég horfi á ÞIG! Og ÞÚ ert falleg.
Ylfa Mist Helgadóttir, 22.1.2009 kl. 00:39
Sæl Steina.
Athyggliverð lesning eins og altaf hjá þér.
Kveðja til allra.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 03:26
Takk fyrir þennan pistil, elsku Steina. EIns og oft áður þá gætirðu verið að skrifa mína sögu Svo oft hef ég upplifað að við séum *systur*, alveg mögnuð upplifun.
Knús til þín, fallega sál - fallegi líkami :)
SigrúnSveitó, 26.1.2009 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.