Og sýndu miskunn öllu því sem andar
9.4.2008 | 15:38
Vorið er stundum uppáhalds tíminn minn. Stundum, eða þar að segja, þegar það er haust, er haustið líka uppáhaldstíminn minn. Þetta er tíminn á milli hinna, eins og tíminn, þögnin á milli orðanna þar sem mest gerist. Núna angar allt af ilm frá kirsuberjatrjám, mírabellutrjám og öðrum blómstrandi trjám.
Það er tíminn þar sem allt fæðist, vaknar og opnar augun fyrir nýju lífi sem þarf að lifa þar til næst.Allt vaknar, dýrin verða hálf rugluð í ástarparatímanum, og hlaupa fram og til baka til að vekja athygli hjá hinu kyninu.
Það er dansað og gargað í garðinum mínum. Refamamma fer á stjá í bænum, gengur á þá staði sem hún fékk mest mat í fyrra til að fóðra ungana sína. Einu sinni fékk/tók hún 17 hænur frá mér. Þá varð ég frekar þung á brún. Ég vil gjarna deila því sem ég hef, en þetta var nú kannski einum of mikið í átt að þjófnaði en bróðerni. Við plötuðum þá rebba og færðum hænsnakofann á annan stað á lóðinni, og þá var leikurinn úti. En kisur bæjarins tóku hvern hænuungan á fætur öðrum, af 20 hænuungum var að lokum engin eftir, það var dapurlegt. Sennilega var það ein af ástæðunum fyrir því að við völdum að hafa ekki hænur meira. Allur þessi dauði, þó svo að líka væri líf, að sjálfsögðu.
Á nóttunni gerðust hinir ýmsustu hlutir sem var leiðinlegt að uppgötva að morgni.
Núna þegar ég er að keyra á morgnana í vinnuna hlusta ég á útvarpið, sem er ekki frásögu færandi. En inn á milli dagskránna koma umferðarfréttir fyrir þá sem keyra á stóru vegunum, sem ég geri ekki,ég keyri yndislega sveitavegi. Í morgun var frétt um að á Holbæk mótorveginum hefði verið keyrt á dádýr, (það gerist oft á þessum vortímum) en þar af leiðandi væri umferðin hæg og fólk var beðið að taka tillit á þessu svæði. Svo gerðist svolítið dásamlegt sem ég hugsaði um lengi á eftir og hef ALDREI heyrt áður. Útvarpsþulurinn sagði : mikið vildi ég vita hvernig fór fyrir þessu blessaða dádýri !!!!
Ég hef aldrei heyrt umhyggju fyrir þeim dýrum sem keyrt er á, og vona ég að þetta sé bara byrjunin á því að ég heyri umhyggju fyrir þessum elskum, þegar við keyrum þau niður á þessum ökutækjum okkar. Sem sagt, ég var glöð í dag og hugsaði með mér að batnandi mannkyni væri best að lifa. Ég er svo að keyra heim úr vinnunni áðan, ég geri eins og margir, og ekki má tala í símann, hlusta músík og þetta sinn hlustaði ég á Ellen.
Sé ég þá að á miðjum veginum liggur önd á bakinu og sprellar með fæturna. Hún var stór, og gat ekki farið fram hjá neinum. Þetta er fjölfarinn vegur, og ég gat með herkjum keyrt út í kant, beðið eftir að geta komist út úr bílnum og sjá hvort ég gæti gert eitthvað. Ég veit þó að ég get lítið gert, því ég get hreinlega ekki drepið dýr. Innst inni vonaðist ég eftir því að hún væri dáinn, þessar hugsanir hafði ég á meðan ég bíð í bílnum mínum, vona líka að það keyri einhver alveg yfir hana, þá er þessu fljótt lokið.
Eigingjarnar og hræðslu hugsanir. En allir tóku mikið tillit þarna sem ég var og keyrðu ekki yfir hana, en sáu hana samt ekki. Gangandi vegfarendur sáu heldur ekki neitt, heldur horfðu í hina áttina. Sem ég á margan hátt skil vel.
Ég fer svo að öndinni, og hún er lifandi, en ansi illa til reika. Ég tek hana upp og fer með hana inn í bíl.
Ég er sem betur fer með dúk í bílnum sem ég get vafið hana inn í. Hún er heit, en ekki hrædd.
Ég fann lífið anda inni í henni,
sá fyrir mér vorleikinn sem hún var rifinn frá í augnablikinu frá gleði til sársauka.
Ég lækkaði músíkina, því þetta eru hljóð sem hún þekkir ekki, og lækkaði á hitanum í bílnum.
Ég heyrði hana anda og því fylgir líf. Það var mikið blóð.
Ég keyrði hana á dýraspítalann, þar sem tekið var á móti henni með opnum örmum, og umhyggju.
Mér var lofað að allt yrði gert til að hjálpa henni.
Ég dæmi ekki þá sem verða fyrir því að keyra á dýr, það getur gerst fyrir mig og hvern sem er, ennnnn að keyra í burtu án þess að athuga hvernig dýrinu vegnar og athuga hvort mögulegt sé að hjálpa því á hvern hátt sem er. Þar set ég upp spurningarmerki.
Á mánudaginn þegar ég var að keyra í vinnuna sá ég svartan fugl við vegarkantinn að gera sig flottan fyrir hitt kynið sem var á hinum kantinum. Ég sé fuglinn rétt í beygju. Ég keyri framhjá, en ég sé í bakspeglinum að annar bíll kemur og keyrir á fuglinn. Ég keyri áfram, en sé að sá sem keyrði á fuglinn keyrir bara áfram eins og ekkert sé.
Ég hugsa með mér að þetta geti hann hreinlega ekki gert, stoppa og bakka bílnum í átt að slysstað. Stoppar þá hinn bílinn og bíður átekta, svona hugsandi, hvað er í gangi ? Ég stoppa bílinn og bíð í smá tíma. Bakkar þá bílinn að fuglinum og stoppar bílinn þar. Við bíðum bæði átekta. Ég eins og lögga, hugsandi reið, berðu ábyrgð á því sem gerist Stendur þá eldri maður út úr bílnum, gengur að fuglinum, tekur hann upp (ég sá að það var ekkert lífi í fuglinum) og hendir honum út i vegakant. Þá keyrði kerla af stað í vinnuna.
Eins og ég skrifaði áður allir geta orðið fyrir því að keyra dýr niður, en það er mikilvægt að vera meðvitaður um það sem maður gerir og sýna því dýri sem maður tekur lífsandann frá, þá virðingu að hafa augnabliks hugsun til þess sem farið er og stoppað í þeim ferli sem það er í sem er jafn mikilvægt fyrir það eins og okkar ferli er fyrir okkur. Ekkert minna mikilvægt en okkar. Það virðist því miður oft gleymast. Hvort sem maður tekur líf óviljandi, með vilja, leik eða í sporti.
Ég hef sem betur fer ekki keyrt dýr niður þannig að það deyi. Ég veit hreinleg ekki hvernig það væri fyrir mig. Ég kom einu sinni fyrir nokkrum árum að hundi hérna ekki langt frá sem var búið að keyra niður. Hann var lifandi en það var greinilega búið að keyra yfir hann oftar en einu sinni. Ég og Gunni fórum að sjálfsögðu út úr bílnum og reyndum eftir bestu getu að hlúa að honum, en hann kvaldist hræðilega, sem betur fer dó hann skömmu eftir að við komum. En ég er þakklát fyrir það að hann dó með jákvæða orku og kærleika í kringum sig, en ekki tilfinningu um að skipta engu máli. Það er svo mikilvægt að við sýnum þessum kæru meðbræðrum okkar og systrum þann kærleika sem þeim ber, sama kærleika og við viljum að aðrir gefi okkur. Þetta er eiginlega bón til ykkar í þessu yndislega vori um að keyra varlega og vera meðvituð um að við deilum því plássi sem við höfum með öðrum sem eru kannski ekki alltaf með hugann við vegi, bíla, hraða, læti, heldur bara að para sig og fá unga......
Blessun í netheim.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Knús á þig inn í daginn elsku Steina mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.4.2008 kl. 15:40
Hrönn Sigurðardóttir, 9.4.2008 kl. 16:04
Góð færsla
PS Ég gæti aldrei bara þotið í burtu eftir að hafa keyrt á "lítið" dýr
Gunnar Helgi Eysteinsson, 9.4.2008 kl. 16:20
Ég ek oft eftir sveitavegi þar sem kanínur eru mikið að vappa og ég fæ alltaf nett fyrir hjartað þegar ég hemla eða sveigi frá. Svo hlaupa þessar elskur svo hikað í takt við ljósin í myrkrinu.
Við þurfum að byrja á virðingu sjálfsins og læra að elska alla lífsmynd!
Við berum ábyrgð
www.zordis.com, 9.4.2008 kl. 22:57
Fallegt.
Ragga (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 23:03
Ég keyrði óvart einusinni inn í hóp af andarungum. Elsta dóttir mín var þá með í bílnum, þá 5. ára. Ég stoppaði bílinn og sagði dóttur minni að ég ætlaði að athuga hvort að það væri ekki í lagi með ungana. Ég færði einn ungann út í kannt stórslasaðann og gekk frá honum snöggt, (því að ég geri það frekar en að láta dýrin þjást.) Er ég kom inn í bílinn spurði dóttir mín, með tárin í augunum hvort einkver unginn hefði meitt sig? Eg var skjálfandi, með tárin í augunum og sagði henni að þeir hefðu sloppið.
Ég gleymi þessu aldrei!
Tilfinningin að keyra á eitthvað lifandi, sjokkið og hvíta lygin, situr enn í mér.
Marsibil G Kristjánsdóttir, 10.4.2008 kl. 00:02
FallegtGóða nótt mín kæra
Brynja skordal, 10.4.2008 kl. 00:13
Takk fyrir þessa hugvekju. Þetta fær mig til að hugsa um kríurnar á Íslandi sem verða svo oft undir bíldekkjum. Fyrir nokkrum árum þegar við keyrðum rétt hjá Hellissandi og svo við Arnarstapa voru skilti sem á stóð:Akið varlega, varpland. Það sem við okkur blasti voru dauðar kríur í hundruðum talið. Vegkanturinn var hvítur af dauðum fuglum. Það höfðu því miður verið of margir að flýta sér og ekki tekið eftir lífinu umhverfis.
Ég varð svo sorgmædd og hef ekki treyst mér á þessar slóðir síðan þá.
Heidi Strand, 10.4.2008 kl. 00:19
Góð áminning hjá þér, auðvitað á maður að vera góður við dýr, í öllum aðstæðum, láta þau ekki kveljast að óþörfu. Kveðjur
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 10.4.2008 kl. 08:58
Nákvæmlega fallegar myndir.
jóna björg (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 16:50
Þegar krían á varp sitt í móunum við sandveginn á leiðinni inn í bæinn hérna, er malbikið oftast útklesst af kríuungum. Mér finnst alltaf svo ömurlegt að hugsa til þess að fólk skuli ekki finna það í sér að aka hægar þennan eina mánuð á ári sem ungarnir eru á vappi. Það er mjög erfitt að sjá þá á gráu malbikinu og maður þarf því að aka þennan eina-tvo kílómetra afar hægt. Að öðru leyti er lítið af dýrum á Islandi sem maður á á hættu að aka yfir. Það eru helst blessaðar sauðkindurnar sem flakka við íslenska vegi frá vori og fram á haust. Og það er ekið á þær margar. I fyrrahaust ókum við Halli fram á blóðugan vígvöll í myrkrinu þegar við vorum að keyra strandirnar. Þar hafði vöruflutningabíll augsýnilega ekið yfir rölluhóp og þar lágu þær með iðrin úti um allan veg. Við vildum ekki stoppa af því að við vorum með börnin í bílnum og ég var hrædd um að þeir fengju áfall við að sjá þessa hræðilegu aðkomu! En við hringdum í lögregluna og báðum þá að fara á staðinn og hreinsa veginn. Lengi fannst mér eftir á að ég hefði átt að stoppa, gá hvort einhver ánna lifði en akkúrat þá hugsaði ég frekar um andlega heilsu barna minna því að ég veit hversu lengi börn geta þjáðst yfir svona hræðilegri sjón. Eg man eftir slíku frá því að ég var barn sjálf og gleymi aldrei skelfingunni sem það vakti og ég átti erfitt með svefn lengi á eftir.
En svona verður maður víst að velja í hvert skipti sem eitthvað þessu líkt gerist....
Ylfa Mist Helgadóttir, 10.4.2008 kl. 18:45
Oh ég er svo sammála þér, það er þessi virðing sem þarf að sýna. Ég var ekkert ánægð að heyra að elgurinn "minn" var feldur, en það var reynt að koma honum í skógin og gekk því miður ekki. En frekar hann en blessuð börnin sem leika sér grunnlaus í nágreninu. Helst af öllu vildi ég að blessaður elgurinn hefði haldið sig í skóginum sínum.
Klemmur til þín.
Sigrún Friðriksdóttir, 10.4.2008 kl. 18:48
yndislegt að heyra fjölmiðlafólk tala svona - takk fyrir fallega færslu
hvernig er ekki hægt að hafa áhyggjur af öllum dýrum sem kveljast???
það er ekkert vor hjá mér, bara snjóskabblar, og fullt af litlum smáfuglum sem eru með bíósýningu fyrir kettina hvern einasta dag og rosastuð
halkatla, 10.4.2008 kl. 18:57
ég er svo heppin að hafa aldrei komið að særðu dýri og aldrei séð svona hrylling einsog margir eru að lýsa hér í kommentunum, það hlýtur að vera skelfilegt ég tárast bara af að lesa það - Guð blessi öll litlu dýrin, hann tekur þau að sér
halkatla, 10.4.2008 kl. 18:59
Elsku systir á þessu sviði erum vð alltaf sammála þó þú sért nú alltaf töluvert dýpri en ég á því andlega. Bið að heilsa öllum, kær kveðja frá mér og mínum í Bolungarvík.
Sigrún
Sigrún Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 22:56
Guðni Már Henningsson, 10.4.2008 kl. 23:54
Þú ert engri lík
Solla Guðjóns, 10.4.2008 kl. 23:58
Hafðu ljúfa helgi Elskuleg
Brynja skordal, 11.4.2008 kl. 10:58
Æi, Steina mín.
Að þessu leiti erum við andlega skyldar; Ég óttast allt sumarið að aka fram á deyjandi dýr.
Hef einu sinni ekið á skúm fyrir mörgum árum og snarstoppaði, aðeins til að sjá miskunnsaman ökumann fyrir aftan mig, taka helsærðan fuglinn, snúa hann úr hálslið og henda honum útaf veginum. Í þetta sinn var ég þakklát dauða dýrs, og einkum því að ég þurfti ekki að gera þetta sjálf.
Ég hef líka séð ekið á dýr (kött vinkonu minnar, sem ég hafði gefið henni þegar ég var 12 ára.) og þessu gleymi ég aldrei. Sá ökumaður stöðvaði ekki. Ég fór grátandi í skólann og við héldum hjartnæma útför með aðstoð móður vinkonu minnar um kvöldið ásamt meirihluta hverfiskrakkanna.
Allt sem viðkemur dýrum, snertir mig. Og mér finnst ég oft svo ein með þessar tilfinningar mínar, þar sem almennt er fólk lítið að velta sér uppúr svona löguðu.
Mér þykir vænt um að vita af fólki eins og þér, alveg eins og þér fannst vænt um að heyra að útvarpsþulinum stóð ekki á sama um örlög dádýrsins.
Góða og blessaða helgi Steina :)
Linda Samsonar Gísladóttir, 11.4.2008 kl. 22:29
Góður pistill hjá þér Steina, ég ber mikla virðingu fyrir lífinu öllu og náttúrunni. Afþví að ég sé að sumir eru að tala um kríuna hérna þá verð ég að minnast á það að á þessu litla nesi sem ég bý á var settur golfvöllur á uppáhaldsvarpsstað kríunnar svo var settur malbikaður göngustígur í kringum golfvöllinn, meðfram ströndinni og þar gengur fólk með hundana sína, yfir varptímann er sett upp skilti sem fáir virða, það er smá saman verið að reka náttúruna í burtu af eintómu virðingarleysi. Ég vil að náttúran sé virt og vernduð en ekki fótum troðin.
Það má hafa spilakassa í öllum sjoppum og svo á að skjóta mávana ... ... ég er hætt að skilja reglurnar ...
Góða helgi mín kæra ...
Maddý (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 18:20
kæru öll, takk fyrir frábær komment, og í því ykkar persónulegu upplifanir . sigrún systir mín, gaman að fá komment frá þér.
bara svona til að fylla upp í frásögnina þá hringdi ég í dýraspítalann daginn eftir til að heyra hvernig öndinni vegnaði. sagði sú sem ég talaði við að ca tíu mínúntur eftir að ég kom með hana hefði þau gefið henni friðinn, hún hefði verið svo illa komin. nefið að detta af, báðir vængir brotnir og það hefði blætt úr augunum á henni. ég vissi þetta svosem, því það var augljóst þegar ég horfði á hana blessaða.
en kærustu öll, yndislegan dag til ykkar allra. fuglarnir syngja svo fallega fyrir utan gluggann minn
Bless í bili
s
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 13.4.2008 kl. 06:55
Sigyn Huld, 13.4.2008 kl. 10:01
Blessi þig heillin mín
Hrönn Sigurðardóttir, 13.4.2008 kl. 19:31
Guðrún Þorleifs, 14.4.2008 kl. 06:52
Frábær áminning hjá þér, og ég er hjartanlega sammála þér. Yndislegt að lesa bloggin þín.. Tek þig til fyrirmyndar.
María Magnúsdóttir, 14.4.2008 kl. 15:44
Marta B Helgadóttir, 14.4.2008 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.