Einu sinni Þegar ég var lítið barn í Vík ....
3.3.2008 | 12:52
Einu sinni þegar ég var lítil, var nafli Alheimsins Vík í Mýrdal. Tilfinningin var að um Vík og mig snerist heimurinn. Vinir mínir og ég var allt sem var. Þetta var svo áhyggjulaust, en þó svo áhyggjufullt. Því þar voru kröfur eins og kröfur eru allsstaðar. Ég átti erfitt með margt, væri sennilega í dag með greiningu sem heitir athyglisbrestur, eða kannski ofvirk. Ég var oft að springa úr orku og gleði og fjöri og var svo uppátektasöm að það er unun.
Ég þekkti hvern krók og kima í Vík. Þekkti lyktina sem var heima hjá öllum og vissi hvar Nabba geymdi jólakortin sem ég og Dússa lékum okkur svo oft við að stafla upp í hinar ýmsu borgir og ævintýri. Ég þekkti líka alla hundana í bænum. Suma forðaðist maður því þeir ráku alltaf trýnið í klobbann á manni, og það var ekkert gaman. Sumir voru óþekkir, stálu sunnudagssteikinni af pönnunni í húsinu á hæðinni þegar húsmóðirin hvarf úr eldhúsinu. Sumir voru blíðir og sætir og ilmuðu yndislega. Ég þekkti líka Víkuránna, sem stundum breyttist í stærstu fljót í heimi og þar börðust barbí og börnin hennar á flótta undan sjóræningjum og hungri. Barbí var alltaf fallegust og fátækust í heiminum. Ég á minningar frá Vík sem ég ylja mér við, en ég á líka minningar frá Vík sem hafa meitt mig og eyðilagt þá mynd af mér sem ég hefði viljað hafa nú og alltaf. Það var hart dæmt, ef þú féllst ekki inn í mynstrið sem var skapað af fáum og leiðum. Ég var svo hávær að það var erfitt að fela sig, ég held svei mér þá að ég hafi stundum andað of hátt.og verið of hátt, hugsað of hátt....
Þær minningar sem meiddu mig héldu mér í burtu frá Vík í heljarinnar mörg ár. Þegar ég fór til Víkur læddist ég inn í bæinn og skreið niður í fjöru með von um að engin hafi séð mig eða heyrt. Ég elskaði hafið, svarta sandinn, fjöllin, fuglalífið, en fólkið var oftast myrkur fyrir mér. Ég held ekki að neinn hafi hugsað það neitt alvarlega að þeir vildu meiða mig, eða skapa mér minningar sem settu sár í barnssálina, sem síðan stækkaði í takt við barnið. Heldur var þetta að ég held, séð frá mínum augum í dag, kannski dægrastytting í bæ sem ekkert gerðist, óhamingja og leiði á eigin lífi, og blandað með óþroska og pínu illu innræti og út kom minning hjá mér og ábyggilega fleyrum sem setti spor sitt á heilt líf. Ætli nokkur hafi nokkur tíman hugsað þá hugsun til enda, þegar hreytt var ónotum, leyndarmálum, illgjörnum kommentum á viðkvæm útlit hversu mikil áhrif viðkomandi hafði á þetta líf.
Í minningunni var ég ómöguleg, en ég sé í dag að ég var frábær.
Í minningunni var ég ljót, en ég sé í dag að ég var falleg.
Í minningunni kunni ég ekki að syngja, en ég veit í dag að ég söng vel, og hátt.
Í minningunni var ég ferlegur hávaðaseggur, en ég veit í dag að ég var kát og glöð og átti auðvelt með að sýna það.
Í minningunni var ég vitlaus, en ég veit í dag að ég var óvenju kreatíf.
Í minningunni vildu margir ekki að börnin þeirra léku við mig. Ég veit í dag að það var fólks óöryggi yfir þessum krafti sem ég hafði.
Það er margt í minningunni, sem ég sé í dag eftir að hafa unnið meðvitað með minninguna mína, að er öðruvísi en ég man.
Við skulum muna það í nærveru sálar hversu lítið þarf til að byggja upp og gefa góða minningu, og hversu lítið þarf til að rífa niður og eyðileggja sjálfsmynd inn í framtíðina.
Ég vil ekki segja að ég sé reið og sár, það er ég ekki, ég man það fallega. Ég veit líka að allt er með til að gera mig að þeirri manneskju sem ég er og ég er mjög sátt við hana. En stundum hugsa ég hvort ég hafi ekki farið í hring og sé nú orðin sú sem ég var áður en utanaðkomandi áhrif komu inn í myndina. Og ef ég hefði fengið byggt upp jákvæða sjálfsmynd og að fókus hefði verið á það hvað ég kann, en ekki hvað ég ekki kann hver væri ég þá ? Ég veit einnig að allir gera það besta sem þeir geta á hverri stundu, þó stundum finnist hinum það ekki nóg.
En allt er sennileg eins og það á að vera. Sú sem ég er hefur reynslu til að takast akkúrat það sem ég er að vinna við í dag.
Þar sem ég trúi á karma, veit ég líka að allt hefur orsök og afleiðingu, þar af leiðandi er ástæða fyrir þessu öllu.
Í dag er nafli Alheimsins Síríus ! Svona víkkar sjóndeildarhringurinn með aldrinum.
Þetta var bara svona smá mánudagspæling. Ég ætlaði að skrifa um skólann minn og allt það spennandi sem við erum að gera þar, en einhvernvegin tóku fingurnir yfir og réðu ferðinni. Vonandi hafði þið öll fallegan mánudag
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:03 | Facebook
Athugasemdir
Ég var svo hávær að það var erfitt að fela sig, ég held svei mér þá að ég hafi stundum andað of hátt.og verið of hátt, hugsað of hátt....
Æ elsku Steina mín, hve oft má maður ekki hugsa um hvenær maður er að særa og meiða, þó maður ætli ekki að gera það. Risaknús á þig, þessi lífsreynsla hefur samt gert þig sterkari og umburðarlyndari, vegna þess að þú þekkir hvernig þetta er. Knús á þig.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2008 kl. 13:10
Ég er viss um að þú ert Indigóbarn, þau hafa mörg hver átt í mismunandi miklum brasi við umhverfi sitt. ~ Gátu aldrei verið eins og annað fólk ~ eins og sagt var, enda var það ekki tilgangur þeirra að vera þannig.
Sé ég lítinn hvolp á myndinni þinni Steina? Ef svo er þá óska ég þér til hamingju með litla barnið.
Já, elsku Steina mín, ég skil hvað þú ert að fara, þekki það sjálf og takk fyrir innsýnina í æsku Indigóstelpunnar.
with luv,vilborg
Vilborg Eggertsdóttir, 3.3.2008 kl. 13:13
blessi þig Steina mín og eigðu líka fallegan dag.
Hér skín sólin svo skært að það jaðrar við ofbirtu í öllum snjónum En það er vissulega fallegt!
Hrönn Sigurðardóttir, 3.3.2008 kl. 13:19
Já fortíð okkar gerir okkur að þeim sem við erum í dag, með kostum og göllum en ég trúi því að við séum sterkari fyrir vikið, sérstaklega ef við erum svo lánsöm að fá að vinna með líf okkar að ljósinu og nota sársaukann til að verða betri manneskjur og hjálpa öðrum að gera hið sama.
Annars var ég það þveröfuga við þig, lítil og hrædd við að láta í mér heyra.
Takk fyrir þetta Steina og eigðu frábæran dag
jóna björg (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 13:29
Minn besti vinur....
Guðni Már Henningsson, 3.3.2008 kl. 13:34
Ókunnug (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 15:42
Þú átt gott að geta kallað í minninguna og gælt við hana. Ég trúi líka á karmað og allt það góða við það góða og það "slæma" ... Við leysum þetta verkefni með mismiklum móð og sumum reynast hlutirnir flóknari en þeir eru!
Lífið er dásamlegt, stundum erfitt en oftast nær er það gott því við gerum það gott!
www.zordis.com, 3.3.2008 kl. 18:42
Það er ekki hægt að bæta við svona sögu. Hún stendur ein og sér, og verður sett í dagbókina mína, með þínu leyfi.
Takk fyrir og góða nótt.
Þröstur Unnar, 3.3.2008 kl. 22:27
Jeg kjenner mye til det du skriver om og har hatt mange slike tanker også. Da kommer jeg til at det er det er derfor jeg er det jeg er. Jeg ville ikke være anneledes. Tenk på at vi alle er kun en.
God natt.
Heidi Strand, 3.3.2008 kl. 22:47
Góð skrif, amma mín sagði alltaf varúð skal höfð í nærveru sálar.
Knús og klem
Sigrún Friðriksdóttir, 4.3.2008 kl. 00:39
þú ert falleg kona
Brynja skordal, 4.3.2008 kl. 08:33
Falleg skrif sem ég held að svo margir geti séð sjálfan sig í. Þekki margt í þessu og man sjálf eftir mörgum særandi orðum sem vissulega hefðu mátt missa sín. Sem betur fer er ég líka þar að geta horft á gleðina í fortíðinni og æskunni en velti því vissulega fyrir mér af og til eins og þú hvar ég væri í dag hefði ég fengið að heyra um góðu eiginleikana mína í stað þeirra slæmu (eða þeirra sem ekki voru eins góðir).
Trúi líka á karma og ég trú líka á að hægt sé að breyta eitri í meðal eins og sagt er hjá Búddistum. Það er að hægt er að vinna úr slæmum minningum og reynslu (eitri) þannig að það hafi góð áhrif á nútíð þína og framtíð - þannig breytir þú eitrinu í meðal fyrir þitt líf
Eigðu góðan dag
Dísa Dóra, 4.3.2008 kl. 10:18
Steina mín, takk fyrir þessa færslu. Enn og aftur er yndislegt að lesa færsluna þína Einlægni þín er einstök.
Kær kveðja frá Als
Guðrún Þorleifs, 4.3.2008 kl. 20:37
Ylfa Mist Helgadóttir, 4.3.2008 kl. 21:46
Mér finnst nú bara uppátækjasamir krakkar skemmtilegir........sýnir að það er eitthvað í kollinum á þeim .Aftur á móti finnst mér í dag vera verið að kæfa krakka þau mega ekkert það er allt svo hættuleg og adrealínið fær ekki að flæða.......En það er hljótt að heyra m meiðandi og jafnvel illhvittnislega stríðni en er sammála hinum hér að við lærum af þvíhvernig við viljum ekki koma fram við aðra og það er mjög þroskandi að geta séð það.......
Knús á þig ástin
Solla Guðjóns, 5.3.2008 kl. 02:56
Góð og yndisleg mánudags pæling og maður finnur margt sem maður kannast sjálfur við, t.d. mín Barbí var voðalega fátæk líka hehe. Jújú annað sem maður gleymir seint en hefur fyrirgefið fyrir löngu, enda er það best fyrir sálina. Afsakaðu vanræksluna, hef ekki farið stóran bloggvina hring í langan tíma og er að reyna bæta úr því.
Knús og blessunar kveðjur til þín og þinna.
Linda, 5.3.2008 kl. 21:23
Flest þekkjum við það hvað orð og athafnir geta meitt...málið er hvernig maður vinnur úr reynslunni...mér sýnist þú hafa nýtt þér hana til að þroska sjálfa þig. En það er svo satt hjá þér að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Takk fyrir fallega og einlæga færslu.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 6.3.2008 kl. 00:59
Takk fyrir góða lesningu
Margrét St Hafsteinsdóttir, 8.3.2008 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.