það ætti að gefa pláss fyrir kveðjubréf til dýra í Morgunblaðinu.

 Af hverju er Morgunblaðið ekki með síður fyrir minningargreinar til dýra frá þeim sem sakna ?
 Kannski útí hött, eða er það ?

Ég held aldrei að ég hafi fundið fyrir eins miklum söknuði og ég geri til ástinnar minnar hennar Iðunnar. Iðunn var ”bara” hundur. Hún bjó hjá okkur og lifði í 12 ár. Eins og mörg ykkar vita var hún svæfð í síðustu viku á fimtudaginn.
 Við vorum öll hérna saman , við og börnin. Síðustu dagana var allt síðast.
Síðasti göngutúrinn,
síðasta strandferðin,
síðasta nóttin ....
 Þetta var verra en orð fá lýst. við vorum öll svo hrygg .
Á fimmtudagsmorgninum vorum við hérna öll með henni. Ég byrjaði á að kveikja á kertum og biðja um hjálp fyrir okkur fjölskylduna, og hjálp fyrir Iðunni að fara yfir í hinn innri heim.
Hún lá á dýnunni sinni inni í stofu og við keluðum við hana til skiptis. Einum tíma áður en dýralæknirinn kom sátum við hérna öll. Ég sat á gólfinuð höfuðið hennar við brjóstið mitt og hin sátu hér og þar í stofunni, við sátum í hring í kringum kertaljósin. Það lagðist falleg þögn yfir okkur öll og við bara sátum í langan tíma. Ég hugleiddi, Gunni hugleiddi og Siggi hugleddi. Ég upplifði í fyrsta sinn frá því í vor þegar við vissum að tíminn væri að koma, tilfinninguna að þetta væri í lagi. Hún var tilbúinn, á okkar forsendum. Ég fann fyrir því að við vorum ekki ein, það fundu Gunni og Siggi líka. Við fundum öll fyrir því að það yrði vel tekið á móti henni, og þá gat ég á því augnabkiki sleppt.
 Hún vissi vel að þessu var lokið, og það var ró yfir henni.Á því augnabliki skein sólinn inn um gluggana, sem við öll upplifðum mjög jákvætt . Þegar dýralæknirinn kom var hann dásamlegur, þessu var fljótt lokið og við fundum að sjálfsögðu aftur sorgina hrynja yfir okkur. Við settumst og skoðuðum myndir af henni, og sögðum sögur. Við fengum okkur smá að borða  einsskonar erfisdrykkju. Við töluðum um hverning við ætluðum að jarða hana. Við fáum nefnilega öskuna hennar eftir viku. Við ákváðum að grafa hana í garðinum og planta Paradísareplatré bestu sortinni sem finnst ofan á leiðið hennar. En eins og þið vitið var Iðunn sú sem passaði eplagarðinn með ungdómseplunum hjá Ásunum. Og Paradísarepli er jú af því að hún er í Paradís.

Við sátum í barnaafmæli fyrir 12 árum. Ég var að skoða blöðin, sá auglýsingu um hvíta scheffer hvolpa til sölu. Ég átti bráðum afmæli og vildi fá hund í afmælisgjöf. Við hringdum þangað, sem var Norður Sjáland. Okkur var boðið að kíkja um helgina. Við tókum bíl a leigu. Vorum Kaupmannahafnarbúar og áttum ekki bíl. Þegar við komum þangað var okkur vísað í eldhúsið það sem var fullt af þessum líka dásamlegu hvolpum. Við kíktum á hina og þessa, en einn af þeim vildi bara ekki leyfa okkur að kíkja á neinn nema sig, hún hékk í skóreimunum okkar og buxnaskálmum og krafðist allrar athygli. Þetta var hún. Minnst af þeim öllum, eina sem var komin með bæði eyrun upprétt og ferlega frek. Konan á bænum sagði að hún yrði sennilega erfið að ala upp, því að hún væri svo sjálfsstæð. Það var mikill sannleikur, hún var alveg ferleg. Fyrstu þrjú árin var hún að gera okkur gráhærð. Við fluttum fljótlega í hús eftir að við fengum hana , húsið okkar hérna í Lejre. Það var eins gott því þvílíkan brjálæðing getur maður bara haft í stórum garði. Ef hún var ein heima, safnaði hún öllu sem hún fann eyðilagði það, setti í hrúgu á gólfinu og beið spennt eftir að við kæmum heim og svo sýndi hún okkur það stollt. Hún hoppaði út um gluggana ef það var möguleiki. Hún skrúfaði frá vatntninu á baðinu til að drekka, kunni bara ekki að loka fyrir það aftur. Hún hræddi alla póstmenn út af lífinu. Hún gat opnað útihurðina ef hún var ekki læst, ég vil taka það fram að útihurðin opnast inn á við. Hún einfaldlega setti fótinn inn undir hurðahúninn og þrýsti honum niður og gekk afturábak. Við fórum með hana á tvö hundanámskeið, ég held að þálfararnir gleymi henni aldrei, hristu bara hausinn. Ef henni var sleppt hlóp hún 10 kilómetra í burtu og æsti alla hina hundana upp. Og kom sko ekki til baka fyrr en eftir dúk og disk. Þegar Iðunn var eins árs, þá fengum við Sólina okkar.
 Þegar Gunni fór heim af spítalanum um kvöldið tók hann litla húfu með heim sem hafði verið sett á litla höfðið hennar Sólar þegar hún fæddist. Iðunn fékk húfuna og gat þefað og sleikt. Tveim dögum seinna keyrði hann Guðni Már vinur minn mig heim frá fæðingarheimilinu með Sólina. Hann og fjölskyldan hans sátu inni í bíl með í maganum hverning brjálaði hundurinn tæki barninu. Ég opnaði fyrir Iðunni húsið og lagði Sólina fram til hennar. Frá þessu augnabliki átti Iðunn Sigrúnu Sól. Hún passaði hana eins og sjáaldur augna sinna. Við notuðum alltaf taubleyjur, Iðunn reyndi eins og hún gat að stela þeim ef það var kúkur og svo þvoði hún þessi elska eins og hún ætti lífið að leysa bleyjuna.  Þegar Sól varð stærri og Iðunn eldri þá var Iðunn alltaf þar sem barnið var. Ef við vorum í göngutúr með þær og fólk ætlaði að skoða Sól þá gekk Iðunn í veg fyrir þau, til að passa. Hún passaði líka allar veikar kanínur sem við höfðum inni, og vorum að hjúkra af einhverjum ástæðum Hún sleikti kanínurnar og passaði upp á þær. Við vorum líka stundum með hænuunga hérna inni. Þá passaði hún líka. Þvoði á þeim bossann og fylgdist með þeim eins og þetta væru börnin hennar. Hún fékk líka nokkra ketlinga sem komu hingað af hinum ýmsu ástæðum, þeir voru allir aldir upp af Iðunni. Við vorum að rifja upp um daginn að þegar það voru önnur börn hérna og þau voru að borða , þá eins og gerist og gengur kemur mylsna og matur á gólfið. Iðunn tók bara upp það sem fór eftir Sól. Börn fengu að klifra og klípa hana og hún gerði ekkert, lá bara eins og stytta. Stundum urðu þessi börn ansi harðhent, og þá gaf hún frá sér smá urr, þá stoppuðum við leikinn. Iðunn tók Lappa að sér, hún ól hann upp og núna er hann hérna í hennar stað. Lappi hefur alltaf verið númer tvö, því hún hefur alltaf verið númer eitt. En núna er ég viss um að Lappi þegar hann fær það pláss sem honum ber, þá verður hann allra engill. Hann er núna ansi aumur yfir að Iðunn er farinn. Hann stendur fyrir framan húsið og passar og ég get séð það á honum að hann er óöruggur yfir að að hafa svona mikla ábyrgð. Enn hann er flottur og frábær og hann kemur til með að geta allt sem hann vill, þegar honum vex sjálfstraustið. Ég gæti skrifað heila bók um Iðunni og hversu frábær hún var. Þetta er bara brot af frábæru lífi sem ég, Gunni börninn okkar og barnabörn voru svo heppin að fá að vera hluti af í smá stund. Iðunn hefur kennt mér svo mikið og ég er óendanlega þakklát fyrir bæði það og þann tíma sem ég fékk með henni. Ég finn hana í öllu sem ég geri héna heima, hluti af orkunni hennar er hérna ennþá, ég finn trýnið hennar læðast inn undir olbogan minn þegar ég sest niður, sennilega fer hún alveg þegar ég get sleppt alveg.
Enn og aftur það ætti að gefa pláss fyrir kveðjubréf til dýra í Morgunblaðinu.
Sorg, er sorg hvort sem sorgin er til manns eða dýrs.

AlheimsLjós héðan frá Lejre 
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: a

Með fullri virðingu fyrir söknuði við gæludýra missi, þá tel ég að slíkar minningagreinar myndu gera lítið úr öðrum minninga greinum. En það er mín skoðun.

a, 28.11.2007 kl. 20:38

2 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Takk fyrir að miðla þessari fallegu sögu um Iðunni sem nú leikur sér í ljósinu.

Pálmi Gunnarsson, 28.11.2007 kl. 21:48

3 identicon

Kæru vinir. Þegar Hlynur minn netheimamaður sagði mér fréttirnar af henni Iðunni ykkar, þá datt mér í hug að kisan hans Huga er enn með hálf afnagað nef eftir að hafa verið undir verndarvæng hennar í tvö ár eða svo hér um árið. Ég skil svo vel að þið saknið hennar ægilega. Hugsa til ykkar, Kittý

Kittý (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 23:35

4 Smámynd: SM

samhryggist, þetta er erfiður tími.  Kvíði þvi þegar minn hundur þarf að kveðja, hann er 11 ára

SM, 28.11.2007 kl. 23:40

5 identicon

Stórt stubbaknús til ykkar frá Ameríkuhreppi !! Hafið það sem allra best.

Sólborg Halla (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 00:09

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Æ elsku Steina mín, sorgin er sorg hvort sem um er að ræða dýr eða manneskju.  Bara hvaða sál sem er, sem hverfur inn í annan heim.  Ég skil þig svo vel.  Risaknús til þín, og takk fyrir þessa fallegu færslu.  Hún Iðunn á svo sannarlega gott að eiga ykkur að.  Hún mun alltaf eiga sitt pláss meðal ykkar, það veit ég, ég átti sjálf hann Lubba minn í 12 ár, þegar hann dó, var eins og einn fjölskyldumeðlimur hefði dáið, slík var sorgin áheimilinu.  Og söknuðurinn er enn til staðar, þó hann sitji ekki um mann öllum stundum.  Það eru svona u.þ.b. 30 ár síðan.    Margt sem þú segir þarna á svo vel við hann líka, þessa elsku.  Knús til þín mín kæra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2007 kl. 10:21

7 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Ástarkveðjur elsku Steina....

Guðni Már Henningsson, 29.11.2007 kl. 12:23

8 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Elsku Steina, ég skil vel að þið saknið Iðunnar. Fallegur og góður hundur sem fyrgir manni í langan tíma skilur auðvitað eftir sig skarð. En ég efast um að mér þætti smekklegt að fletta dagblaði eins og ég gerði í gærkvöldi þar sem ástvinir höfðu skrifað litlu barni sína hinstu kveðju, hefði ég flett áfram og fundið minningargrein um kanínu, hund eða hest. Og það er ekki af því að ég sé kaldlynd eða skilji ekki að manni geti þótt vænt um dýrin sín, í mínum huga er þetta tvennt bara aldrei sambærilegt. Aldrei. Nú fylgist ég með lítilli stúlku, bróðurdóttur mágkonu minnar, og barnið er með ólæknandi sjúkdóm. Móðir þessarar stúlku er þjökuð kona sem þjáist alla daga, allar mínútur lífsins vegna óttans við að þurfa að kveðja. Sjálf á ég auðvitað eftir að þurfa að kveðja mína Urtu einhvern góðan veðurdag. Vonandi þó ekki strax! En ég myndi aldrei, aldrei nokkurn tíma leggja þær kvalir sem þessi móðir líður, að jöfnu við þær að óttast um líf hunds míns. Og þess vegna veit ég, að hvorki morgunblaðið, né nokkurt annað blað, sem birtir minningargreinar um látið fólk, myndi setja minningargreinar um gæludýr í sama blaði. Það væri einfaldlega túlkað óvirðing við látna ástvini skrifenda.

Ég vona að þú skiljir hvað ég er að segja elsku Steina. Ég er alls ekki að gera lítið úr sorg þinni sem ég veit og trúi að sé mikil. En ég held að þegar þú segir " sorg er sorg, hvort sem við syrgjum dýr eða menn," þá ertu akkúrat á meðan, ekki að hugsa um foreldra sem þurfa að jarðsetja börnin sín. Því að það er sorg sem hvorki ég né þú höfum kynnst, og Guð lofi að við þurfum aldrei að kynnast. En ég hef horft upp á syrgjandi móður og hún upplifði sársauka sem er handan sorgar, söknuðar eða sárinda. Það var harmur, svo óbærilegur að konan þráði það eitt að deyja. Og slíka sorg er ekki hægt að leggja að jöfnu við neitt.

En vissulega á öll sorg virðingu skilda og ég votta þér og þínum að sjálfsögðu mína innilegustu samúð því að sárt er að kveðja alla vini.

Ylfa Mist Helgadóttir, 29.11.2007 kl. 19:10

9 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

kæru öll takk fyrir yndisleg komment.

elsku ylfa auðvitað skil ég hvað þú ert að skrifa, þó svo ég sé ekki sammála. ég skrifa sorg er sorg, og það er erfitt að skilgreina hvaða sorg er meiri en önnur, það fer í raun allt eftir því hvernig fólk er og hversu tilfinningasterkt fólk er gagnvart áföllum.

fyrir mér að kveðja iðunni var mjög sárt, ég get ekki miðað það saman við að missa barn, því ég hef aldrei misst barn, og mér dettur ekki í hug að líkja því saman við að missa iðunni, eða að líkja því að missa iðunni við einhvern annan sem hefur misst, því þess háttar samlíkingu finnst mér ekki hægt að gera. ég vil meina að öll sorg við að missa hefur jafnan rétt á sér og getur ekki verið miðuð við aðra tegund sorgar. þegar ég skrifa að það ætti að vera möguleiki á að skrifa kveðju til dýrsins síns sé ég þetta á engan hátt eins og þið marion og ylfa gerið og ábyggilega margir aðrir, að sjá þetta sem óvirðing við þær manneskjur sem eru látnar og hafa minningargreinar um sig í blöðunum.það get ég alls ekki séð.  sennilega væri þetta aldrei sett hlið við hlið í blaðinu. en sumir hafa þörf á að kveðja þá sem eru látnir, hvort sem um menn eða dýr er að ræða. margar manneskjur hafa dýr sem nánasta vin, og það er mikill missir fyrir það fólk að missa sinn besta vin. sennilega jafn mikill missir og fyrir aðra að missa sinn nánasta, sem er manneskja. ég heyri marga einmitt tala um að það erfiðasta sé að fólk almennt eigi erfitt með að skilja þann missir sem er við að missa dýr sem hefur verið með þeim í mörg ár. allt líf á jörðu er jafn mikilvægt, það er hlutur sem oftast gleymist hjá okkur öllum.

AlheimsLjós til ykkar allra

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 29.11.2007 kl. 21:06

10 Smámynd: halkatla

þessi saga á erindi við alla, og ég held að það mætti sko alveg skipta út bílablaðinu í mogganum fyrir gæludýramál, enda á slíkt miklu meira erindi við fólk. Takk fyrir þessa yndislegu sögu, Iðunn hefur verið stórkostlegur félagi og ég samhryggist ykkur bara enn og aftur, þetta er svo erfitt. 

halkatla, 29.11.2007 kl. 21:17

11 Smámynd: www.zordis.com

Ég missti yndislegt gæludýr, félaga og gæsku sem ég upplifði.  Ég hef aldrei grátið neinn, né fengið meiri tilfinningalega sársauka eins og við þann missinn.  Síðar kom að því að ég missti merkt fólk og sársaukinn rifjaðist upp.  Ég saknaði gæludýrsins míns ekki síður en annara sem fóru yfir.

Að vera merkur er sláttur tilfinninga og hjartans og gæludýrin eru okkur oft á tíðum merkari en hver annar maðurinn.

Ég orða þetta kanski kjánalega, er ekki að gera upp á milli tilfinninga vegna þess að það er ekki hægt þegar um ólíkar persónur ræðir.

Ást til lífsins er að leyfa dauðanum að banka uppá!

www.zordis.com, 29.11.2007 kl. 23:53

12 Smámynd: Solla Guðjóns

Þetta eru fallega skrif um Iðunni og sorgin er eðlileg en er alltaf erfið að taka á en laðar alltaf fram allt það góða í okkur og þeim látnu.

guð veri með ykkur.fang.

Solla Guðjóns, 30.11.2007 kl. 09:50

13 Smámynd: Margrét M

æi hvað þetta hefur verið sárt .. en dýrinu líður betur það er víst ...

Margrét M, 30.11.2007 kl. 09:58

14 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Það yrði fróðlegt ef að Mogginn myndi nú gera tilraunaverkefni um þetta, td. með aukablað um fólk og dýr og samskifti þeirra á milli! Hversu margir myndu ekki skrifa í minningu dýranna sinna sem þeir hafa átt þúsund ástar og vinarstundir með?

Gangið á Guðs vegum sem ætíð.

Gunni Palli kokkur. 

Gunnar Páll Gunnarsson, 30.11.2007 kl. 22:57

15 Smámynd: SigrúnSveitó

SigrúnSveitó, 1.12.2007 kl. 10:45

16 Smámynd:                                           OM

Samhryggist ykkur innilega.

Om

Leifur

OM , 2.12.2007 kl. 23:06

17 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Innilegar samúðarkveðjur til ykka allra.

Kveðja

Svava frá Strandbergi , 3.12.2007 kl. 01:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband