Ég fékk hjálp frá englum.

Ég skrifaði þessa færslu á facebook prófílinn minn í gær, bæti smá við hérna.

Í kvöld á meðan ég var að slappast og horfa á sjónvarpið og slappast meira, kom minning til mín sem vildi láta muna sig, ég hef ekki hugsað þessa minningu í ótrúlega mörg ár, en einhverra hluta vegna kom hún upp aftur og aftur og ég ákvað að deila henni hér, hvers vegna veit ég ekki, en sú hugsun kom og ég fylgi henni.

Þegar ég var eitthvað í kringum 16 ára aldurinn, bjó ég tímabundið alein í Breiðholtinu, nánar tiltekið í Seljahverfinu. Ég hafði vin í heimsókn og við sátum lengi og spjölluðum heima hjá mér, eitthvað fram eftir nóttu. Hann bjó í Fellunum, stóru gráu blokkunum, sem ég man ekki hvað heita.

Ég ákvað að labba með honum heim til hans, til að halda áfram að spjalla, sem ég og gerði. Það var engin á ferli, ekki einu sinni bílar. Ég gekk með honum að dyrunum að innganginum heima hjá honum og kvöddumst við þar.

Ég gekk svo í áttina heim, og er næstum því komin að bensínstöðinni sem er rétt við Breiðholtsbrautina, nánar tiltekið á eyjunni á milli Þessara gráu háu bygginganna og Breiðholtsbrautar.

Ég sé svo mann sem stendur í skýlinu, það er kveikt á ljósum, í skýlinu og þess vegna sé ég hann greinilega, ég sé stóran og mikinn mann í stórri úlpu með hettu, standandi með hendur í vösum, með mjög stóran maga. Það var einkennilegt að sjá mann standa þarna, á mannlausu svæðinu, enginn annar á ferli, kannski að bíða eftir bráð. Ég sá hann, hann sá mig og hann sá að ég sá hann. Ég man að ég varð pínu óörugg, pínulítið hrædd, en gekk þó áfram, því ég þurfti að fara fram hjá honum til að komast heim til mín,. Þá fór maðurinn að ganga til móts við mig, ég varð hrædd og sneri við.

Ég fór í áttina að innganginum, þar sem vinur minn bjó. Ég sá að maðurinn nú hljóp, svo ég hljóp líka. Ég kom inn í innganginn, og mig minnir að það hafi verið dyrasímar og ég hringdi á þá alla, en ég man það ekki alveg hvað gerðist. Ég komst allavega enhvernveginn inn.

Ég man að ég hljóp tröppur og heyrði hann mása á eftir mér, alltaf, ég hringdi á hverja dyrabjölluna á fætur annarri, kallaði á hjálp og bankaði á dyr, engin opnaði fyrir mér.

Ég vissi ekki á hvaða hæð vinur minn bjó, eða hvað dyrabjalla var heima hjá honum, svo ég gat ekki fundið hvar hann bjó. Maðurinn var alltaf á hælunum á mér og ég heyrði másið og lætin í honum.

Ég var orðin algerlega örvæntingarfull og uppgefinn og var upp á einhverri hæð, engin opnaði eða svaraði bönkunum mínum eða hringinum, eða hrópum. Ég heyrði svo að maðurinn var alveg að koma að mér, ég stóð í lyftuskotinu, alveg þétt að lyftudyrunum í von um að hann hlypi framhjá mér, eða eitthvað.

Í því að maðurinn kemur fyrir hornið, alveg við mig, opnast lyftudyrnar og út kemur vinur minn, ég hef aldrei upplifað eins mikinn léttir á minni ævi, eins og þegar ég sá hann. Ég heyrði strax að maðurinn lét sig hverfa og hurðin skelltist að baki honum.

 Ég hafði stoppað á hæðinni þar sem vinur minn átti heima, alveg við dyrnar á íbúðinni hans.

Vinur minn sagði svo við mig, að hann fyrir algera "tilviljun" hafi kíkt út um gluggann og séð hvað gerðist, svo hann flýtti sér niður til að reyna að hjálpa mér.

Ég hafði svo fyrir "tilviljun" gefist upp á hæðinni hans og hann kom út akkúrat á rétta augnablikinu, þegar hann kom út um lyftudyrnar. Hann var líka í sjokki, fór inn og fór í allt of lítinn rauðan leðurjakka af litlu systur sinni og fylgdi mér svo heim.

Ég held ég hafi aldrei séð þennan vin minn eftir þennan atburð. Enda gerðust margir aðrir hlutir í lífi mínu eftir þetta sem gerðu að ég hef í raun ekki munað þessa minningu í öll þessi ár.

Þegar ég kom heim í íbúðina sem ég bjó í, var ég alein og ég man að ég hristist og skalf. Ég fékk mér vatna að drekka, settist við rúmið mitt, með glasið og misst það á náttborðið, sem var með glerplötu, ég varð alveg miður mín yfir að hafa eyðilagt glerplötuna, og fyllti það í raun meira heldur en þessi atburður með manninn á Breiðholtsbrautinni.

 Ég held að það hafi í raun verið að því að það var auðveldara fyrir mig að vinna úr því með glerplötuna, hitt var of mikill ótti fyrir mig til að takast á við og skilja.

Ég hef verið að hugsa um þetta frá því í gær, eftir að ég skrifaði þetta og ég sé að þessi ótti hefur sett sín spor. Ég er mjög hrædd að vera ein á kvöldin og á nóttunni, í borgum, sérstaklega í Reykjavík, myndi aldrei nokkur tíma gera það. Sama er í öðrum borgum, ef það eru auð svæði. Ég fæ líka hroll við að hugsa um Reykjavík, á nóttunni, í kulda og dimmu, þegar það er ekki snjór, það er fyrir mér agalega óhuggulegt. Enda var þetta um vetur, í kulda og dimmu, með engan snjó. Ég hef aldrei tengt þessa hluti sama áður. 

Þegar ég skoða þessa minningu, þá kemur tvennt upp í hugann minn: það hefur svo sannarlega verið haldið verndarhendi yfir mér, ekki af mannfólkinu sem bjó í íbúðunum sem ég bankaði hjá og hrópaði eftir hjálp, en af þeim sem passa mig á hinum innri plönum, Englunum mínum, það eru of margar "tilviljanir" sem gerast þessa nótt, til að geta kallað það tilviljanir.
Ég er þakklát fyrir Englana mína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Munum englana okkar ! þeir eru til  !

Erla Magna Alexandersdóttir, 9.3.2013 kl. 16:54

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

"Eru álfar kannski menn", söng góð hljómsveit eitt sinn.

Það er margt milli himins og jarðar, sem við ekki sjáum.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.3.2013 kl. 20:38

3 identicon

Guð er til. Munurinn á englunum og mönnunum er að góðir englar eru sífellt í tengslum við sína innri veru og því getur Guð stírt gjörðum þeirra, en mennirnir eru "úr fókus" flestir hverjir. Það var Guð sem bjó til englana.

Guðrún (IP-tala skráð) 10.3.2013 kl. 04:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband