Hafði Einstein ADHD
12.3.2011 | 15:28
Vorið er loksins að koma hérna í Danmörku og smá léttist lundin sem betur fer, fyrir mig og umhverfi mitt. Núna væri tildæmis tilvalið að hengja út þvott, en ég nenni því eiginlega ekki, vil heldur nota tímann hérna á laugardegi og blogga smá. Það er svo langt síðan síðast. Ég hef oft viljað setjast niður og skrifa, en hef haft svo mikið að gera, bæði í vinnunni minni og öðru.
Það er mikið að gera í vinnunni, sem er bara gott, því að á meðan missi ég ekki tíma sem væri erfitt fyrir þá sem hafa sitt viðurværi af kennslu í listaskólanum.
Á tímabili leit þetta mjög illa út, sveitarfélögin eru að spara og spara og það þýddi að þeir vildu ekki borga fyrir skólagöngu sumra sem höfðu verið hjá okkur lengi. En núna er eins og eitthvað sé að birta til, sem er okkur öllum, nemendum og kennurum í hag.
Ég sé þróun í heiminum sem vekur hjá mér bæði ugg og undrun.
Haft var samband við mig vegna hóps af ungu fólki sem þurfti að skaffa skólapláss, þetta voru á milli 20 og 30 nemendur og öll voru frá einu sveitarfélagi. Við vorum beðin að taka að okkur kennslu þessa unga fólks. Öll voru þau með greininguna ADHD.
Ég upplifi mjög mikla fjölgun á ungu fólki með greininguna ADHD og ég finn að einhver innri áhugi hjá mér er vaknaður fyrir þessum hópi einstaklinga.
Einhversstaðar stendur um ADHD: ADHD er skammstöfun fyrir Attention deficit hyperactivity disorder/ ofvirkni, truflanir á athygli, virkni og hvatvísi. ADHD truflar daglega starfsemi einstaklingsins á mörgum sviðum og getur einnig haft neikvæð áhrif á félagsleg tengsl þeirra og sjálfsvirðingu og margt margt fleyra er að finna um þessa greiningu.
Ég skil að sjálfsögðu vel létti foreldra þegar greining fæst hjá barninu þeirra eftir oft áralanga baráttu fyrir aðstoð og skilning umhverfisins á barninu. Skilning bæði frá skólakerfi og öðrum sem í kringum barnið eru.
En ég get ekki annað en velt fyrir mér þeirri spurningu, að eitthvað sé mikið að í öllu þessu dæmi. Fyrir mér er eitthvað sem ekki passar og það er þess vegna sem ég undanfarið hef haft miklar vangaveltur um þessi mál!
Við höfum í raun ótrúlegan fjölda af börnum í heiminum sem eru á lyfjum og þar af leiðandi eru þau ekki fullkomlega þau sjálf, sem gerir að þau missa úr ákveðna þróun í þeirra eigin þroska og vakningu sem manneskja.
Ég get ekki varist þeirri hugsun að ef þróuninn heldur svona áfram, þá eigum við ekki bjarta framtíð sem mannkyn hérna á jörðu.
Ég hugsa þess vegna með sjálfri mér, er önnur leið? Er eina leiðin til að barnið geti passað inn í samfélagið að gefa því lyf/rítalín, svo það sé á einhvern hátt ekki það sjálft, en þannig að við sem samfélag eigum auðveldara með að láta það passa inn í þá ramma sem við höfum búið til, sem eru þeir rammar sem við öll eigum að lifa eftir og passa inn í hversu ólík sem við erum og hversu ólíkar sem okkar þarfir eru.
Er það barnið sem er til vandræða, eða er það samfélagið sem er til vandræða?
Ég þekki marga með greininguna ADHD, bæði fullorðna og börn. Þeir sem ég þekki, sem eru fullorðnir hafa ekki fengið lyf í sínum uppvexti, en lifað í þjóðfélagi sem var ekki eins og þjóðfélagið er í dag. Það voru minni barnaheimili, það voru oft minni samfélög, það var meiri nærvera á milli fólks, það voru minni skólar, það voru færri í bekkjum, það var pláss fyrir að vera sá sem maður var, hvernig sem maður var. Þetta fólk lifir allt ágætis lífi eins og annað fólk. Það hefur fundið sínar eigin leiðir til að takast á við þá kaos sem er í heiminum í dag og í kringum þau. Þó þekki ég dæmi þar sem fullorðnir með ADHD fá rítalín, hreinlega til þess að geta lifað eftir þeim kröfum, kössum og formum sem samfélagið hefur í dag, þó með sorg yfir að geta ekki passað inn "eins og aðrir" .Mjög margt af þessu fólki er skapandi í sínu lífi sem er þeirra leið til að halda einbeitingu á einhverju. Það að skapa getur verið fyrir marga leið til að halda sér í sér.
Kröfurnar frá samfélaginu til bæði foreldra og barna voru ekki eins og kröfurnar eru í dag.
Ég las um daginn mjög áhugaverða grein um rannsókn sem gerð var við University of Michigan and Eckerd College
Þessi rannsókn sýndi fram á að þeir sem voru með greininguna ADHD reyndust hafa mun meiri sköpunargáfu en sá hópur sem ekki voru með greininguna ADHD.
Að lesa þessa grein gladdi mig mjög, því þessu hef ég verið að halda fram á fundi eftir fundi með yfirmönnum sérskóla hérna í DK.
Þeir sem eru með greininguna ADHD eru mjög viðkvæmir orð sem ég ekki er alveg sátt við. Við gætum kannski notað íslenska orðið að þetta séu mjög "næmir" einstaklingar. Danska orðið er sensitiv og á ensku sensitive ! Það að sansa mjög sterkt/upplifa mjög sterkt.
Sem myndlistamaður, kennari og manneskja er þetta fyrir mér mikill kostur, mannkostir sem svo einkennilega er orðið stórt vandamál sem þarf að gefa lyf við.
Eitt sem einnig hefur vakið athygli mína eru rannsóknir sem gerðar voru í Hollandi að mig minnir. Þar kom fram að börn með greininguna ADHD sem fengu útvalin mat án sykurs og ýmissa annarra óhollra efna voru á stuttum tíma án ADHD einkenna. Þetta segir bara það sem ég hef haldið fram, þessi börn eru of næm/sensitiv fyrir þeirri óhollustu sem oft á tíðum eru í matvælum. Sem er bara en ein sönnunin fyrir því að þarna eru á ferðinni einstaklingar sem eru á einhvern hátt á hærri/fínni eða annarri tíðni en margir aðrir og eru þar af leiðandi viðkvæmari fyrir þeim hávaða og úrgangi sem við vitum að er að kaffæra okkur og Jörðina okkar.
Af hverju er þetta svona? Jú við höfum ekki pláss og við höfum ekki tíma, fyrir það sem er öðruvísi, við höfum ekki pláss og tíma til að sitja aðeins lengur með hverjum og einum sem þarf á aðeins meiri hjálp að halda til að geta haldið einbeitingunni að verkefnum sem vekja ekki áhuga. Við höfum ekki möguleika á að einstaklingar getir setið aðeins afsíðis svo umhverfishljóð ekki trufli þá einbeitingu sem þarf.
Ég veit að málin eru misjöfn, en er ekki komin tími til að við stoppum aðeins og hugsum okkar gang í þessum málum. Hvað kostar það samfélagið þegar svona margir einstaklingar fá ritalín, eða aðrar pillur.
Hvað kostar það samfélagið þegar foreldrar ekki ráða við verkefnið einir og sem oft á tíðum kostar þau vinnutap og stundum langtímaveikindi.
Við skulum heldur ekki gleyma að mjög oft enda þessi börn í vondum málum, eiturlyfjum, og glæpum. Hvað kostar það samfélagið og okkur sem mannkyn að missa þessi börn.
Væri ekki betra að byrgja brunninn áður en barnið er dottið í hann?
Væri ekki ráð að breyta kennsluháttum hjá þessum börnum, einbeita sér að því sem þau geta, en ekki því sem þau geta ekki. Hvað með að setja metnað í listsköpun, hugmyndasköpun og fleira sem nú er vitað að gerir þau sterkari til að vaxa sem manneskjur.
Ég veit og hef séð daglega í mínu starfi sem skólastjóri í myndlistarskóla að þegar nemendurnir ráða við þau verkefni sem lögð eru fyrir þau, gerast kraftaverk. Þegar þau finna að þau eru sterk og skapandi í sínu eigin orkuflæði þá gerast kraftaverk.
Ég er ekki að tala um eitt og eitt dæmi frá skólanum mínum, nei ég er að tala um hvern og einn einasta af þeim nemendum sem við höfum.
Við þurfum með þau börn sem á stuðningi þurfa að halda, að finna aðra leið, leið sem er skapandi og getur breist og þróast út frá þeim þörfum sem hvert barn hefur. Jú ég veit að það kemur til með að kosta, en ég held að þegar allar hliðar málsins eru skoðaðar þá kostar þetta ekki meira en sú leið sem er valin núna.
Þetta gerir kröfur til kennara að vera sjálfir opnir og skapandi og það hlýtur að vera verkefni sem allir metnaðarfullir kennarar vilja taka þátt í.
Ég get ekki annað en hugsað um, hverjir eru það sem græða á því formi sem við höfum í dag, og eins og ég sé það, þá eru það lyfjaframleiðendur og þeir sem eru á þeirra vegum.
Stundum í þessum hugsunum mínum fyllist ég sorg yfir öllum þeim einstaklingum sem við missum, vegna þess að við orkum þau ekki. Við orkum ekki að þurfa að takast á við það sem er krefjandi, við orkum ekki að takast á við það sem krefur meira en það venjulega. Það er í raun orðið svo slæmt að við orkum ekki sorgina, við viljum líka setja lyf á hana til að þurfa ekki að takast á við það fólk sem er í sorg og þar af leiðandi er þeim boðið lyf við sorginni.
Alla tíð í mankynssögunni hafa verið litríkar manneskjur sem hafa brotið ramma samtíðar sinnar. Persónur sem hafa hugsað út fyrir þá ramma sem fyrir voru, sem hafa verið brjálaðir, skrítnir furðufuglar að samtímans mati. Þetta fólk fékk ekki lyf, en var með til að skapa söguna og setja sitt spor á þróun mannkyns. Þetta fólk hafði það ekki alltaf auðvelt, en var mjög mikilvægt fyrir þróun á hinum ýmsu sviðum. Mér dettur í hug, Einstein, Vincent Van Gogh, H.C. Andersen, Beethoven og fleiri og fleiri.
Það eru núna tímar sparaðar í heiminum, það veit ég héðan frá Danmörku og því sem ég heyri og les frá Íslandi. En er ekki tími til þess einmitt núna að skoða hvað er það að spara, hvar er í raun stærsti kostnaðurinn. Hvað kosta lyf í dag fyrir samfélagið ? Er til önnur leið sem er með til að hjálpa einstaklingnum til að verða heill í sér, sem er betri en lyfjaleiðin, fangelsisvist, glæpir, eiturlyf, einelti.
Er hægt að þjálfa upp einbeitingu hjá börnum með ADHD ?
Ef svo er Hvernig?
Jú það er hægt, ég trúi og veit að það er hægt að þjálfa upp einbeitingarkunnáttu.
Hvað gerist ekki þegar við erum að skapa, eftir okkar eigin vilja og hugmynd, er það ekki einbeiting. Hvað ef sköpun væri sett efst á kennsluskránna hjá börnum með ADHD eða aðrir sem eiga við svipuð vandamál að stríða, sem gerir að einbeiting er erfið?
Hvað með einfaldar hugleiðsluæfingar, þær veit ég að hjálpa mikið við að halda og þjálfa einbeitingu?
Gerum okkur nú þann greiða að setja spurningarmerki við þá þróun sem er í dag og skoðum aðrar leiðir, hugsum samfélagið upp á nýtt, fyrir okkur og börnin okkar.
Kærleikur til ykkar kæra fólk!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 17:14 | Facebook
Athugasemdir
Nákvælega! Meiriháttar,- enda kominn tími til að hugsa út fyrir rammann.
Það er einhver ástæða fyrir þessum börnum að koma svona og örugglega vantar töluvert upp á skilning á þvi.
En flott hjá þér elsku Steina mín.
- eigðu góðar stundir, kveðja til þín og þinna.
Vilborg Eggertsdóttir, 12.3.2011 kl. 16:04
Falleg og GÓÐ grein hjá þér Steina mín.
Gunnar Páll Gunnarsson, 12.3.2011 kl. 16:13
Frábær eins og venjulega. Úlfurinn greindist með athyglisbrest loksins, hann var bæði sjálfum sér og skólanum til leiðinda. Loks fékkst hann greindur hjá BUGL og var settur á Conserta. Hann er ekki alveg sáttur við að taka þessar töflur. En ég er eiginlega orðin of gömul til að vinna að einhverju honum til hjálpar, hef af því vissulega áhyggjur. En við leyfum honum þó að sleppa við töflurnar á helgum og í sumarfríi. Hann átti enga vini og var alltaf útundan. Núna á hann fullt af vinum og vinkonum. Sem ég er ákaflega sátt við. Takk fyrir þennan pistil og hann hvetur mig til að skoða þessi mál í öðru samhengi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.3.2011 kl. 17:35
Sæl, ég má til með að þakka þér fyrir góða grein og áhugann á einstaklingum með ADHD. Ég finn mig knúna til að segja örlítið frá sjálfri mér og svara um leið vangaveltum þínum.
Ég er ung kona á þrítugsaldri í mjög stífu og krefjandi háskólanámi. Ég var greind með ADHD þegar ég var tvítug - eftir miklar sálrænar kvalir og árekstra í lífinu. Ég tek Concerta alla daga ársins og finn mikinn mun á mér. Loksins get ég sýnt hvað í mér býr og verið með þeim hæstu á prófum, en ekki langt undir eigin getu með sára minnimáttarkennd. Loksins get ég komið hlutum í verk, þ. á m. lesið fyrir skólann tímunum saman, og unnið, og ekki fengið kvíðahnút í magann á hverju kvöldi vegna „leti og ómennsku“ hafandi ekki komið öllu sem ég ætlaði í verk. Loksins þarf ég ekki að hugsa margfalt til að komast í gegnum daginn – lyfið einfaldar mér svo margt. Loksins helst ég vakandi allan daginn og loksins næ ég góðum svefni. Loksins á ég vini sem þola mig og yndislegan maka og loksins píni ég ekki fjölskylduna mína daginn út og inn. Þrátt fyrir allt framangreint er ég ósátt við að taka eitrið inn daglega, Concerta. Það tók mig marga mánuði að venjast lyfinu og aukaverkunum þess - en nú get ég ekki verið án lyfsins vegna fráhvafseinkenna. Þvílíkt eitur og vítahringur. Ég ákvað að taka lyfið meðan ég stunda námið því öðruvísi kemst ég ekki í gegnum það. Ég mun endurmeta stöðuna að námi loknu. Ekki misskilja mig, ég er þakklát fyrir lyfið, en mér er illa við það vegna þess hversu mikil áhrif það hefur á líkamann.
Eftir mikla árekstra félagslega og þunglyndi gat ég ekki annað en fagnað niðurstöðum geðlækna og sálfræðings um ADHD. Ég er með stórt ör á sálinni eftir félagslegu kvalirnar. Ég á enn erfitt með að umgangast vini mína því ég er alltaf á bremsunni að vera ekki óþolandi týpan.
Í æsku bjó ég við mikla nærveru og umhyggju fjölskyldu minnar þar sem mamma var ekki útivinnandi. Ég var hálfan daginn á leikskóla og sem betur fer var ég í litlum bekk í grunnskóla. Ég fékk að vera ég. Því miður eru tímarnir breyttir og afar fá börn sem búa við þessar aðstæður árið 2011. Ég var í tónlistarnámi í fimmtán ár þar sem ég fékk útrás fyrir sköpunarþörfina. Þar fékk ég einstaklingskennslu og næga athygli frá yndislegum manneskjum sem ég stend í ævarandi þakkarskuld við. Ég lærði sjálfsaga, einbeitingu, skipulagningu, þolinmæði, nákvæmni og svo margt fleira. Ég lærði að meta tónlist og nýta mér hana til yndisauka. Ég er sannfærð um að ég væri ekki í háskólanámi nema vegna þessa bakgrunns. Ég hef stundað jóga og íhugun, ég hef lært slökun, ég hef farið á sjálfshjálparnámskeið og ég hef farið í sálfræðimeðferð - í því augnamiði að hemja mig og óróleikann innra með mér (en athyglisbrestur og ofvirkni birtist oftar en ekki í innri óróleika og vanlíðan hjá stúlkum).
Þú talar um næmni, sem sé að þínu mati mikill mannkostur, og þar er ég þér hjartanlega sammála. Ég tek líka undir með þér að einstaklingar með ADHD séu næmir og viðkvæmir. Ég er mjög næm fyrir umhverfishljóðum, hávaða, truflun af öllu tagi, bragðsterkum mat, hveiti, sykri og ýmsu fleiru. Ég er bæði með viðkvæm meltingarfæri og viðkvæma húð, þó ekki ofnæmi. Ég er með ofurnákvæmt tóneyra. Ég er með ofursjónminni. Ég er með fyrirferðarmikið hjarta og sál. Ég hef skoðanir á öllu. Ég verð ofsalega reið og ofsalega glöð.
Þú vitnar í hollenska rannsókn sem leiddi það í ljós að börn með ADHD sem fengu mat án sykurs og annarra óhollra efna hefðu á stuttum tíma losnað við ADHD einkenni. Ég sneiði hjá sykri, hveiti, unnum mat og rotvarnarefnum. Samt eru einkenni mín til staðar. Rannsóknir undanfarinna áratuga benda til þess að orsakir ADHD séu líffræðilegar, en ekki að rekja til uppeldis og annarra umhverfisþátta. Ég lýsi því frati á allar rannsóknir í sama dúr og þeirri hollensku. ADHD verður því miður ekki læknað með breyttu mataræði. Umræða í þessa átt er vanvirðing við einstaklinga með ADHD. ADHD er röskun á taugalífeðlisfræðilegum eiginleikum í miðtaugakerfinu. Hins vegar er alveg ljóst að við erum það sem við borðum og því þarf enga rannsókn til að staðfesta það að börn sem fá ekki sykur eru rólegri en þau sem innbyrða sykur í óhófi. Ég held að við getum slegið því föstu að allar lifandi verur eru næmar fyrir sykri, gerviefnum og óhollustu, ekki bara þeir sem eru með ADHD. Ég leyfi mér að efast um að þau börn sem eru greind með ADHD og svo sögð losna við einkennin hafi ekki verið með ADHD.
Þú segir okkur hafa ótrúlegan fjölda af börnum í heiminum sem séu á lyfjum og þar af leiðandi ekki fullkomlega þau sjálf sem geri að verkum að þau missi úr ákveðna þróun í eigin þroska. Rétt er að börnin eru mörg en við síðari hlutann set ég spurningamerki. Ég ætla leyfa mér að fjalla um lyfjagjöf barna og fullorðinna saman. Við missum ekki þá sem þurfa lyf og eru sjálfviljugir á þeim (eða taka lyf samkvæmt ákvörðun foreldra). Þeir taka lyf einfaldlega til að geta lifað og þrifist í mannlegu samfélagi. Ég tek Concerta til að lifa af og hafa jöfn tækifæri á við aðra að mennta mig og þroskast sem einstaklingur. Ég er ennþá ég. Ég er alveg jafn næm og viðkvæm; ég hlæ og græt, og allt þar á milli, ég tala hátt og hef skoðanir á öllu, ég hef brjálæðislega stórar hugmyndir – en bara í aðeins minna mæli en áður, þ.e. í hæfilegu og viðráðanlegu magni. Ég tek því lyfið sjálfviljug til að geta lifað í samfélagi manna – en held enn einkennum mínum. Mér líður bara betur og mæti minna mótlæti og sé færri augu á hvolfi. Þú nefnir þekkta skrítna furðufugla sem fengu ekki lyf og hafi verið mikilvægir fyrir þróun mannkyns. Ég er ekki að skipa sjálfri mér í flokk með þeim en ég get ekki séð að lyfin slökkvi sköpunarþrá mína og lífsþorsta, þau öllu heldur gera mér kleift að lifa af í hinum harða heimi og skila mínu til næstu kynslóða. Lyfin bæta upp vanvirknina sem felst í ADHD og leyfa ykkur hinum að njóta okkar sem erum með ADHD til fulls. Lyfin gera fleiri snillingum kleift að lifa af og lyfin hljóta að koma í veg fyrir vanlíðan margra og sjálfsmorð.
Þú segist þekkja dæmi þar sem fullorðnir með ADHD fái rítalín, hreinlega til að geta lifað eftir kröfum, kössum og formum nútímasamfélagsins, þó með sorg í hjarta að geta ekki passað inn eins og aðrir. Ertu viss? Ég tek lyf til að passa inn í rammann en með gleði í hjarta og þakklæti. Það er pláss fyrir okkur öll óhefluð, óalandi og óferjandi og engin skylda að taka lyf. Þeir fullorðnu einstaklingar sem ég þekki og eru með ADHD taka lyfin til að geta tekið þátt í samfélaginu og nýtt hæfileika sína. Með ómeðhöndlað ADHD eru flestir vanvirkir, undir eigin getu í námi og starfi og í basli með dagleg störf, eins og heimilishald, þvotta, eldamennsku og fjármál. Þá eru ótalin andleg einkenni og aðrir fylgikvillar. Lyfin eru val. Það er ekki sorglegt að samferðafólk okkar í lífinu, hvort sem það eru börn eða fullorðnir, eigi erfitt með að þola okkur hin þegar við erum á útopnu í tjáningu, óheppilegu orðavali, látum, hamagangi og truflun. Er það ekki þvert á móti krafa samfélagsins að tekið verði á hegðunarvanda og agaleysi ungdómsins?
En lyf lækna ekki allt og þess vegna fara flestir ADHD einstaklingar í gegnum hugræna atferlismeðferð. Ég lít á lyfin sem 50% lausn og önnur úrræði sem hin 50%. Ég stunda því jóga, slökun og öndunaræfingar og borða eins hollan og ómengaðan mat og ég get. Ég valdi mér líka nám eftir áhugasviði mínu, eftir mikla rannsóknavinnu, því annars myndi ég flosna frá námi.
Þú varpar fram þeirri hugmynd að setja sköpun efst á kennsluskrá hjá börnum með ADHD og aðlaga kennsluhætti að því sem þau geta en ekki því sem þau geta ekki. Eðlilega gerast kraftaverkt þegar nemendur ráða við þau verkefni sem fyrir þau eru lögð. Mér þætti það mismunum að hafa ekki fengið kennslu í sömu fögum að jafnaldrar mínir á yngri árum (en reyndar var ekki greind fyrr en tvítug). Þó ég hafi alla tíð átt erfitt með raungreinar þakka ég fyrir að hafa lokið stúdentsprófi af stærðfræðideild MR. Það er oft talað um að einstaklingar með ADHD nái helst að einbeita sér að því sem þeir hafa áhuga á – líklega með eins konar sköpun. Háskólanámið mitt er alls ótengt listum en ég upplifi það sem sköpun. Ég hverf inn í risastóran heim sem ég get gleymt mér í dögum og vikum saman. Ég er hins vegar arfaslakur teiknari og málari enda kvaldist ég í grunnskóla í myndmennt. Mér leið hræðilega illa þegar ég átti að fá hugmynd að mynd og stal oftar en ekki hugmyndum frá sessunautum mínum. Ég hins vegar dái tónlist eins og ég kom inn á áðan. Ég held því að flest allt geti orðið andlag sköpunar ADHD einstaklinga, ekki bara listir. Þetta þarf að hafa í huga! Ef ég hefði ekki fengið jöfn tækifæri til listnáms sem og bóklegs náms væri ég ekki ég í dag. Annað mál eru þær aðstæður sem börnum er boðið upp á í skóla. Sameining og stækkjun bekkja er slæm þróun fyrir alla, ekki bara börn með þroskafrávik og ADHD.
Þá varpar þú fram þeirri hugmynd að kenna einfaldar hugleiðsluæfingar til að þjálfa einbeitingu. Allir einstaklingar ættu að fá tækifæri og hvatningu til að læra og stunda hugleiðslu. Það er hins vegar mikil einföldun að telja að æfing einbeitingar lagi ástandið. Allt sem ég nefndi áðan um sjálfa mig, tónlistarnámið og jóga- og hugleiðsluæfingar, hjálpar mér en breytir engu stórkostlegu eða læknar mig. Það er mikil einföldun að líta á ADHD sem einbeitingarskort. ADHD er flókið ástand sem lýsir sér á margan hátt og þ. á m. misjafnlega milli kynjanna.
Ástæða þess að ég kaus að segja frá sjálfri mér í upphafi er sú að sýna fram á að þrátt fyrir heilbrigt og gott uppeldi, tónlistarnám, hugræna þjálfun og úthugsað mataræði, hefur ADHD ekki gufað upp. Ég veit ekki hvort ég væri á lífi ef ekki væri fyrir aðstoð sálfræðinga, geðlækna og Concerta. Þrátt fyrir að vera hamingjusöm í námi mínu í dag þar sem ég fæ heilmikla útrás efast ég um að geta notið þess og lifað í nútímasamfélagi án lyfsins.
Það er rétt sem þú segir, við þurfum að staldra við og hugsa okkar gang. Heimur versnandi fer. Margir foreldrar sinna börnunum sínum minna en áður og láta misgóða leik- og grunnskóla um uppeldið. Þá er lífsgæðakapphlaupið að fara með okkur öll og auðvitað apa börnin asnaganginn eftir okkur. En ADHD myndast ekki vegna lélegs uppeldis. Gott uppeldi hefur örugglega góð áhrif en ADHD er alltaf til staðar undir niðri. Mér var kennt að grípa ekki fram í fyrir öðrum en ég réð sjaldan við mig og greip því samt fram í. Maður er algjörlega hömlulaus því stjórnstöðin er vanvirk. Lyfin virkja stjórnstöðina svo ég þarf ekki að hugsa um að haga mér heldur geri það meira sjálfrátt. Ljóst er að mörgu er að huga.
Að öllu þessu virtu er annað mál hvort fjölgun greininga hjá börnum sé úr hófi fram. Ég hef ekki þekkingu til að hafa skoðanir á því. Ég leyfði mér þó áðan í tengslum við mataræðið að draga í efa rétta greiningu þeirra barna sem eiga að hafa losnað við einkennin með breyttu mataræði. Hins vegar má benda á að ADHD erfist og erfðir eru mjög ráðandi. Fjöldi greininga hér á landi ætti því ekki að koma á óvart vegna skyldleika þjóðarinnar.
Lesandi með ADHD (IP-tala skráð) 12.3.2011 kl. 22:47
Kæri Lesandi! Takk fyrir frábært innlegg sem ég las með mikilli athygli. Eins og ég sagði í því sem ég skrifa, þá eru þetta vangaveltur sem ég hef, án staðhæfinga, en út frá minni daglegu reynslu með ungt fólk í skólanum mínum og vini sem hafa greininguna ADHD. Ég rakst svo á í morgun mjög áhugavet video sem ég set inn hér sem í raun staðfestir það sem ég hef hugsað. Ég hvet alla til að gefa sér tíma til að horfa.
Á einum stað spyrð þú mig hvort það sé nú alveg rétt að þeir sem ég tala um sem vini sem ekki eru sáttir við að þurfa að vera á lyfjum til að passa inn í þá ramma sem samfélagið setur, og jú svo er!
http://video.google.com/videoplay?docid=-3609599239524875493&q=The+Drugging+Of+Our+Children&hl=en#
Sköpun er margt annað en að teikna, sköpun getur verið skapandi hugsun, og til dæmis að skapa annað form fyrir kennslu, en fyrir mér er myndlist í hvaða formi sem er leið til að framkalla sköpunarflæði og æfa sig í að vera skapandi.
Frábært að heyra að þér gengur vel og ég óska þér alls hins besta.
Steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 13.3.2011 kl. 10:19
Þessar umræður eru athyglisverðar og alveg sérstaklega vegna þessa langa innleggs frá manneskju með ADHD greininguna. Hvert tilfelli er einstakt en samt ekki hægt að alhæfa út frá því og þess vegna koma efasemdir um að hópur þeirra sem raunverulega hafa ADHD sé svona stór einsog virðist vera og alveg sérstaklega að þessi hópur græði á ritalinmeðferð þó einstaklingar innan hans geri það vissulega. Þjóðfélagið og kröfur þess hafa breyst og um margt óbilgjarnara ef einhver nær ekki tilætluðum árangri. Það er klárlega hópur manna sem getur haft gott af því að nýta sér örvandi lyf sem eru á fíkniefnaskrá. Það er líka klárlega hópur manna sem hefur gott af þvi að fá cannabis af læknisfræðilegum ástæðum. Það er alveg bannað. Morfín (heróín) er notað mikið í hefðbundnum lækningum og stundum klárlega ofnotað. Ég sé alveg fyrir mér að það sé hópur sem gagnast fíkniefni í daglegu lífi sínu en þetta er gríðarlega vandmeðfarið og þær rannsóknir sem hafa bent á mataræði sem mikilvægan þátt í bataferlinu á ekki að afskrifa þó einstökum gagnist það alls ekki. Það er engin alsherjarlausn til sem passar fyrir alla.
Gísli Ingvarsson, 13.3.2011 kl. 10:35
Kæri Gísli, ég er sammála þér, það er engin einn sannleikur, en við verðum hver og einn að finna þann sannleika sem passer hverjum okkar. Til að gera það, þurfum við að vera meðvituð um hver í raun þörf okkar er og taka ábyrgð á lífi okkar og þeirra sem er á okkar ábyrgð. Sem betur fer, í þeirri krísu sem heimurinn er í er eins og fólk sé að vakna upp og sjá allt upp á nýtt. Með kærri kveðju inn í fallegan sunnudag
Steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 13.3.2011 kl. 12:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.