Fyrirgefningin
14.11.2010 | 15:46
Hnútar í tilverunni geta verið óþægilegir ef maður ekki notar augnablik hér og þar til að leysa þá.
Það getur verið misjafnlega erfitt að leysa óþægindahnúta, vegna misjafna orsaka þeirra. Ég hef nokkra óþægindahnúta sem ég á eftir að leysa til að lífið fái að flæða án þess að þær tilfinninga blokkerinar sem myndast við þessa hnúta stoppi eðlilegt flæði í lífinu.
Einn hnútur hefur þó verið erfiðari en margir aðrir, ekki allir aðrir, en margir.
Ekki það að þessi hnútur sé eitthvað verri en aðrir sem ég haf verið með til að hnýta um ævina, en vegna þess að ég veit ekki hvers vegna sá óþægindahnútur kom, gerir hann erfiðari fyrir mig að leysa.
Það gerðist bara einn daginn, eða yfir langan tíma, ég veit það ekki.
Ég hef aldrei fengið skýringu á því sem gerðist, svo það hefur ekki verið mögulegt fyrir mig að leysa þennan hnút, að ég hef haldið þar til nú.
En ég geri mér grein fyrir því núna eftir miklar vangaveltur í nokkurn tíma, að það þarf ekki tvo til að leysa hnút, ég get alveg gert það ein, án þess að báðir aðilar séu með í þeim ferli.
Ég vil segja ykkur frá aðdraganda þessa óþægindahnúts, eða svo vel sem ég nú get, því eins og ég skrifaði áður, þá veit ég ekki hvað gerðist.
Fyrir nokkrum árum, sennilega sirka 13 árum átti ég mjög nána vinkonu, sem ég var mikið með og þótti óskaplega vænt um. Við áttum margar góðar stundir og ég held ég hafi aldrei hlegið eins mikið með neinum eins og henni. Við höfðum sama húmor og margt annað gerði það að við náðum svo vel saman.
Við eignuðumst börn á sama tíma, sem hefði getað verið til að færa okkur nær hvor annarri, en þetta eitthvað gerðist!
Við fórum til Þýskalands saman með börnin okkar, við tvær og litlu börnin okkar, með lest, kerrur og bakpoka. Við vorum saman eina helgi ásamt öðru fólki, og það var gaman. En þetta eitthvað gerðist, sem ég aldrei hef fengið skýringu á!
Á leiðinni heim frá Þýskalandi sagði hún ekki orð við mig.
Hún hringdi í mig nokkrum dögum seinna og bað mig að senda til hennar bók sem ég hafði lánað hjá henni.
Eitthvað gerðist sem ég fékk aldrei skýringu á og hún vinkona mín hvarf !
Eftir sat þessi hnútur í maganum sem var svo óþægilegur í mörg ár.
Ef ég hugsaði til hennar fann ég hnútinn í maganum og óþægindi yfir því að ekki vita.
Sagði ég eitthvað vitlaust, særði ég hana, var ég heimsk og allar þær hugsanir sem manni dettur í hug komu í hugann aftur og aftur til að skilja orsök.
Það var erfitt fyrir mig að útskýra fyrir öðrum sem þekktu okkur, hvað hafði gerst, því ég hreinlega vissi það ekki.
Ég reyndi í langan, langan tíma að skilja hvernig þessi hlutur sem ég hlýt að hafa sagt eða gert, gat verið svo alvarlegur að hún valdi að loka á vinskap okkar, í staðin fyrir að reyna að ræða það sem gerðist og finna leið til að halda vinskapnum áfram.
En þetta var sú leið sem hún valdi og þar af leiðandi hlýtur það sem ég gerði eða sagði að hafa verið stórt og ósættanlegt.
Þessi hnútur nagaði mig og minnti á sig alltaf af og til í öll þessi ár, sennilega vegna þess að mér fannst ég of vanmáttug til að leysa hann ein, fannst við þurfa að gera það tvær.
Fyrir nokkrum vikum, sá ég að hún var á facebook og ég ákvað að athuga hvort hún vildi tengjast aftur og ég addaði henni.
En hún hafði ekki fyrirgefið mér.
Mér leið ekki vel í nokkra daga og hugsaði mikið um hvernig ég gæti leyst þennan óþægindahnút svo ég gæti sleppt þessu .
Eftir einhvern tíma þar sem þetta hafði legið á huga mínum, gerði ég mér svo grein fyrir að hnúturinn í mér er eingöngu minn hnútur og hefur í raun ekkert með hana að gera.
Ég ein get gert eitthvað í þessum hnút !
Hún valdi að hverfa úr lífi mínu án útskýringar á því hvers vegna og það var hennar val !
Ef það val hefur verið með til að byggja upp óöryggi, reiði, særindi, vanmátt og fullt af öðrum tilfinningum í mér, eru það eingöngu mínar tilfinningar mitt vandamál sem hafa í raun ekkert með hana að gera og eingöngu ég verð að taka ábyrgð á.
Ég saknaði hennar, en allar hinar tilfinningarnar voru neikvæðar sem ég ein hef ábyrgð á og ég ein get losað í burtu úr mér.
Þannig að í raun allt ósköp einfalt og það er FYRIRGEFNING.
Ég þarf bara að fyrirgefa og sleppa. Hún þarf ekkert að vera með í því. Hún þarf ekki að fyrirgefa mér, en ég vil fyrirgefa henni.
Hennar reiði til mín, er hennar ábyrgð og mín sorg og reiði til hennar er mín ábyrgð.
Núna er hnúturinn farinn, það þarf svo lítið til !
Við erum svo oft upptekinn af því hvað aðrir gera og segja í öllum mögulegum og ómögulegum málum. Erum reið við allt og alla og notum ótrúlegan tíma í þess háttar neikvæðni. En þetta er val hvers og eins. Sumir velja að nota tímann í reiði út í heiminn, en það er þeirra mál. Það að ég hafi notað 13 ár í að halda þessum tilfinningum opnum í mér, er mitt mál og mitt að gera eitthvað við.
Þetta er í raun er svo auðvelt allt saman!
Það þarf að fyrirgefa sjálfum sér fyrir að vera ekki fullkomin, að segja stundum hluti sem ekki eru góðir og gera vitleysur, bara það að vera manneskja. Um leið og við getum fyrirgefið sjálfum okkur, getum við fyrirgefið öðrum. Ég er tilbúinn að fyrirgefa sjálfri mér, hvað svo sem ég hef gert eða sagt sem varð þess valdandi að hún hvarf. Ég er líka tilbúinn að fyrirgefa henni að hafa verið svo reið út í mig að fyrir hana var þetta eina lausnin!
Núna er þessi hnútur farinn, og það er léttir, þar til ég finn annan óþægindahnút til að leysa.
Munurinn er núna sá að ég veit að ég get gert þetta ein, án hins aðilans. Ég þarf bara að fyrirgefa mér, ég er ekki fullkominn, en ég er eins fullkominn og ég get verið hér og nú. Ég eins og allir aðrir geri alltaf það besta sem ég get, þannig er það bara !
Þeir árekstrar sem ég lendi í á lífsleiðinni eru með til að gera mig að betri manneskju ef ég vel að læra eitthvað á því og ef ég vel fyrirgefninguna og Kærleikann fram yfir reiðina og hatrið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Mannréttindi, Trúmál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:33 | Facebook
Athugasemdir
Flott færsla og ég þekki svona "hnúta", þeir eru óþægilegir, og gott að vera minnt á að við getum leyst slík mál alveg sjálf. Takk enn og aftur fyrir yndislega færslu Steina mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.11.2010 kl. 13:42
Frábær lesning,takk fyrir og gangi þér vel.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 15:05
www.zordis.com, 16.11.2010 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.