Hvað þýðir það að missa 45 kíló, er það að finna sjálfan sig falinn undir skinni

46025_423838813369_674983369_4998594_3076912_n.jpgÓsköp geta nú sunnudagar verið notalegir þegar verkefnin koma í hægum skrefum, án þess að þeim sé pressað hundruðum saman á svona heilagan frídag. Ég hef haft notalegan dag, það sem af er. Hlusta núna á stóra bróður, son minn hjálpa litlu systur, dóttur minni í stærðfræði niðri í eldhúsi. Ég hlusta líka á rigninguna vökva garðinn minn, við opinn glugga uppi í stofu. Ég sjálf sit undir teppi í náttbuxum og ullarpeysu með Lappa mér við hlið sem sefur rólega og vonast sennilega til að ég taki mig saman á hverri stundu og fari í göngu með Dimmalimm og hann sjálfan. Hann verður að bíða í smá stund á meðan ég skrifa það sem mér liggur á hjarta, og vonast að sjálfsögðu til að einhver þarna úti sem les það, hafi einmitt í dag á sínum sunnudegi setið örvæntingarfull eða örvæntingarfullur yfir því hvernig lífið er, að engin sé von, og svona verði þetta bara að vera.

Ég vil deila smá hluta af sögu minni fyrir þig, sem situr þarna úti og finnst allt vera vonlaust, og engin leið til hjálpar.

Þetta byrjaði allt 27 ágúst 2008. Það byrjaði ekki allt þann dag, en ég tók lífið í mínar eigin hendur, tilfinningar mínar í eigni hendur og hugsanir mínar í eigin hendur, til að komast úr þeim fjötrum sem ég sjálf hafði byggt í kringum í gegnum árin.img_0088.jpg

Þetta byrjaði kannski ekki alveg þar, kannski byrjaði það í raun þegar ég fór að vinna að því að ég sjálfið tæki yfirráðin, skrítið, en þó kannski ekki. En þannig var að ég í mörg ár lét tilfinningar mínar ráða ferðinni, ég ætti kannski að byrja á byrjuninni þó svo að frásögnin verði aðeins lengri.

Þetta byrjar allt þegar ég var barn, nánar tiltekið í kringum fermingu, þegar ég ákveð að svelta mig í viku fyrir ferminguna til að vera þokkaleg á fermingardaginn, það var kannski vika eða fjórtán dagar, man það ekki. Nema ég gerði það og gat það, enda mjög sterk stelpa. Á fermingardaginn borðaði ég svo allt sem hugurinn hafði þráð þá fjórtán daga sem ég hafði svelt mig og meira til. Eins og var í þá daga í fermingarveislum voru kökur á borðstólnum, og ég var óstöðvandi í langan langan tíma.

Það var þarna sem ég held að þetta hafi byrjað, átröskun eins og það heitir svo flott á okkar máli. Næstu árin voru upptúrar og niður túrar, en allt var um það að borða og svelta sig. Það liðu mörg ár þar sem allt, þegar ég hugsa til baka var um þessa tvo hluti, megrun og ofát.

35955_458728405791_563855791_6878900_2584234_s_1021682.jpg

Ég var ekki alltaf feit, enda alltaf að passa mig og passa mig ekki. Mikil orka fór í þetta og mikil vanlíðan. Á tímabili þegar ég var í mínu fyrra hjónabandi  fór ég þá leið að láta víra saman á mér munninn, þarna ofbíður sennilega sumum, en aðrir þekka þá tilfinningu sem fær mann til að taka svona ákvörðun.

Ég eignaðist börn, eitt  þegar ég var18 ára og eitt þegar ég var 24 ára. Ég fitnaði og varð örvæntingarfull yfir því og þegar ég hugsa um þennan tíma, man ég í raun mest eftir megrunarkúrunum og hversu þung ég var hvert sinn, ég man ekki hversu þung börnin mín voru, en ég man hversu þung ég sjálf var. 36960_404910473313_660128313_4536980_4933232_n_1021683.jpg

1987 skildi ég og fyrri maðurinn minn og ég grenntist mikið, þvílík sæla að grennast af vanlíðan, það hafði ég aldrei prófað áður, og naut þeirrar tilfinningar.

Mér fór svo að líða betur og fór í framhaldsnám, nám sem mig hafði alltaf dreymt um og það var hrein lukka fyrir mig, nema ég varð örvæntingarfull yfir því að ég fór að fitna aftur.

Þá byrjaði ég að æla matnum, það hafði ég aldrei gert áður, en þetta erfiða skólatímabil stóð yfir í 4 ár, allt námið ældi ég daginn út og daginn inn. Svo erfitt svo erfitt svo erfitt. En þetta var þvílík þráhyggja að ég gat ekki hætt. Ég fitnaði þó síðasta árið í skólanum, mikið þrátt fyrir að næstum allt sem fór inn í magann minn, var látið fara út aftur sömu leið.

Með nýjum yndislegum manni fluttum við með börn og bú til útlanda, það var nýtt tímabil, sem var gott fyrir mig. Ennþá fer öll líðan í minningunni eftir því hversu þung ég var, og gleðin var að ég grenntist mikið. Ég fór að hjóla mikið og hætti að borða nammi og kökur. Ég varð grönn og fín á þessum tíma. Þó gerðist það sem alltaf gerist, blessuð þráhyggjan fór yfir í annað form, þó svo ég hætti að borða sykur, þá drakk ég áfengi og varð kaupsjúk. Ég keypti og keypti föt á sjálfa mig. Ég fór í búðir til að máta föt og kaupa föt á mig. Fannst mér líða vel, því allt var um það að vera grönn og það var ég.

Við fluttum í sveit, hérna í nýja landinu, eftir þrjú ár í borginni. Yndislegt, með kisur, hunda, kanínur , páfagauka og hænur, gat ekki verið betra. Ég varð ófrísk daginn sem við fluttum í gamla húsið okkar. Ég varð í raun skelfingu lostinn. Hamingjusöm að sjálfsögðu en líka skelfingu lostinn ég vissi sem var að ég myndi fitna, og ég gerði það. Ég bætti á mig 30 kílóum. Ég borðaði ennþá ekki sykur,en ég borðaði hunang í stórum stíl og mikinn mat. img_0332_1.jpg

Ég fæddi yndislega Sól, augasteinn allra og auðveld eins og draumur. Ég var heima með hana í tvö ár. Vann aðeins við kennslu og var með  nokkrar myndlistasýningar, hún var bara alltaf með mér, Sólargeislinn minn stillti.

En það kom tími á þessum tíma sem ég missti stjórn á öllu, ég byrjaði í reiði að borða allt sem hugsast gat, og ég ældi því jafn óðum. Stundum ældi ég svo mörgum sinnum á dag, að ég hef ekki tölu á því. Ég hélt hreinlega að ég væri að deyja, þetta var svo hræðilegt, en ég skammaðist mín of mikið fyrir það sem ég gerði til að ég gæti sagt þetta nokkrum manni, eða leitað mér hjálpar. En eitt kvöld sagði ég manninum mínum frá þessu það var þegar ég hélt að ég myndi ekki lifa þetta af.

Ég bað hann um að hjálpa mér, en hvernig gat hann það, að sjálfsögðu gat hann það ekki, hjálpin varð að koma frá mér sjálfri.

Til að bæta ofan á þetta allt, þá drakk ég mikið áfengi á þessum tíma. Mikið af verkefnum með öðrum listamönnum sem gerði að ég byrjaði að drekka meira en gott var. Ég naut þess líka að vinna á vinnustofunni til seint um nætur, þá tæmdust margar flöskur.

Ég var semsagt kominn inn í hræðilegan vítahring, þar sem tilfinningar mínar réðu öllu. Ég sjálf var eins og viljalaust verkfæri í höndum þeirra. Ég get eiginlega kallað þetta þráhyggju sem stöðugt kallar á það sem hún vil, og “ég “ get ekki stjórnað henni. Þráhyggjan er tilfinning sem réð ríkjum í öllu mínu lífi á þessum tíma.img_0321.jpg

En þegar mér fannst öll von úti var ég var leidd af einhverjum æðri höndum að fólki sem stundaðu hugleiðslu. Ég var ekki mikið fyrir það í byrjun, en mín innri rödd sem loksins heyrðist þegar örvæntingin var mest, eftir áralanga bið, bið eftir að heyrast og að hennar tími kæmi.

Hún sagði mér að þetta væri leiðin að öðru lífi.

 

Ég byrjaði að hugleiða, bæði með öðrum og ein. Ég heyrði innri röddina mína á hverjum degi í hugleiðslu og utan, sem hjálpaði mér að finna mína innri ró. Það fór að birta í kringum mig, og ég hætti að þurfa að æla því sem ég borðaði, þráhyggjan fyrir því að æla öllu, hvarf.

Árið 2003 gerðist svo það, að líkaminn minn fékk hreinlega ofnæmi fyrir áfengi, ég þurfti ekki annað en að þefa af áfengum drykkjum, til að fá höfuðverk. Þetta var svo erfitt fyrir mig, því öll samskipti mín við aðra voru tengd áfengi, bara að kíkja yfir til nágranna krafðist þess að fá sér bjór eða vín.

Þarna kom grár tími fyrir mig , með miklu sykuráti, því líkaminn vildi þann sykur sem hann var vanur að fá og kílóin héldu áfram að koma og koma.

Það leið þó ekki svo langur tími frá því ég hætti áfengi, að hugur minn varð svolítið skírari en áður og innri röddin heyrðist og skildist betur og oftar og ekki síst ég hafði styrk til að fylgja hennar ráðum.

Ég hélt þó áfram að borða sykur og mikinn mat og hafði gefist upp á þeirri hugsun að ég ætti eftir að grennast.

Það liðu ár, og ég bætti á mig hægt og rólega, ég var sorgmædd yfir því, en hafði sætt mig við að svona væri það bara. Ég var glöð yfir því sem hugleiðslan gaf mér og ég lifði í raun img_0859.jpghamingjusömu innar lífi.

Líkaminn minn var hægt og rólega að gefast upp, en ég lifði sem áður er sagt, ríku innra lífi, sem ég taldi að væri nóg fyrir mig. Ég var hvort sem er að eldast og mikilvægast var að sætta sig við það sem var og taka því með jafnaðargeði. Ég var komin með gigt í mjaðmir, fingur og hné. Ég var komin á lyf vegna þess að skjaldkirtillin var of hægur, en svona var það að eldast hugsaði ég, og lifði mínu rólaga innra lífi og var oftast sátt.

Ég átti erfitt með allt sem var líkamlegt, en ég var skörp eins og örn í höfðinu, og það var þaðan sem ég lifði.

Í ágúst 2008 sá ég mynd af vinkonu minni á netinu, og var furðu lostinn hversu vel hún leit út, glæsileg sem drottning hugsaði ég með mér, með smá öfund í hjartanu. img_0847.jpg

Ég hugsaði það í nokkra daga, beið smá með að hafa samband og spyrja hana hvaða töfraformúla það var sem hún fékk, sem hafði gert hana svona flotta sem hún var.

Mín innri rödd sagði mér að þarna væri hjálpin.....ég beið samt smá...

En svo einn daginn þegar ég hafði fundið fram vissuna fyrir því að ég vildi lifa, ekki bara innra lífi en líka ytra lífi og ég væri tilbúinn. Sendi ég henni bréf og spurði frétta!

Þetta var það besta sem gat gerst fyrir mig, ég fór í gegnum þetta prógramm daginn eftir, GSA prógrammið með hjálp og stuðningi vinkonu minnar frá fortíðinni, tókst mér að lifna við og verða heil.

 Í dag eru tvö ár síðan og 2 dagar og ég hef misst 45 kíló. Ég er lifandi frá toppi til tá og ég er heil.

Ég skrifa heil, en það er alltaf ennnn, ekki satt.

Ég hef tekið við völdin á eigin lífi með því að vigta og mæla það sem líkami minn þarf að fá þrisvar á dag. Ég borða ekki sykur, hveiti og sterkju. Ég er sú sem stjórna, ekki þráhyggjan sem hefur ráðið ríkjum í áraraðir. En það er ekki þar með sagt að þráhyggja sé farinn, hún er og verður hluti af mér sennilega alltaf  sem betur fer og þess vagna verð ég að vera meðvituð hvern einasta dag .

Stundum kemur hún og vil fá útrás í kaupæði og ég hef stundum látið undan, en það er eins og hún vaxi bara og vaxi við það að ég gefi eftir svo ég stramma upp og læt hana vita að það sé ég sem ráði en ekki hún.

Undanfarið hef ég tekið eftir að hún er að læðast inn og reynir að plata mig, en ég er búinn að fatta kellu !!

Hún “þráhyggjan” er byrjuð að þráhyggjast á facebook í tíma og ótíma og sörva á alla mögulega veru frá einu í annað á netinu. Ég veit og er að taka á því en jafnframt að skilja, um hvað þetta er allt saman.

Ég vil líka deila því með ykkur og gaman væri að heyra ykkar álit á því?

Ég skoða matarfíkn, og sé að maturinn og sykurinn eru með til að deyfa alla okkar skynjun og gerir það að verkum að við erum ekki meðvituð á fullan hátt en á einhvern hátt meðvitundarlaus.

Áfengisfíkn er eins, við látum stjórnast af þeirri nautn sem gefur að vera meðvitundarlaus, við erum ekki okkar eigin herrar, en áfengið ræður ríkjum, ekki bara hjá okkur en allri fjölskyldunni.

Reykingarfíkn, er sú sama, reykingar stjórna rytma dagsins og stjórnar líka meiru en margir vilja viðurkenna. Fjárhag, geði, og tíma.

Spilafíkn er sama þráhyggja og það sem á undan er talið, er líka með til að eyðileggja heilu fjölskyldurnar, eyðileggja líf margra.

Eiturlyfjafíkn er allt það sem á undan er talið hvorki meira né minna.

Kaupfíkn er það sama og hitt og þráhyggjan ræður ríkjum í lífi þeirra sem þjást að þessari fíkn

Spilafíkn kemur á sama bás, og allt það sem er á undan.

Facebook, FarmVilla og fleira nettengt er svo það sem ég er að takast á við núna. Ég get hangið andlaus og meðvitundarlaus á netinu, án nokkurs formáls annars er þess að vera meðvitundarlaus og aðhafast ekkert sem er meira uppbyggjandi en þetta.

Allt það sem ég hef talið upp, er til þess að gera okkur fráhverf heiminum, náunganum, fjölskyldu okkar að vera til staðar full meðvitundar og sýna Kærleika til umhverfis okkar. Allt þetta er deyfilyf til að vera ekki í lífinu. Allt þetta er með til að gera heiminn verri en hann er, vegna þess að meðan við erum í neyslu, erum við ekki til staðar fyrir okkar kæru, erum ekki til staðar fyrir okkur sjálf, erum ekki lifandi í lífinu í kringum okkur, við lifum í gegnum eitthvað annað, sem ekki er raunverulegt.

Ég er á því að facebook er líka gott, en í hófi.

Ég er líka á því að það að vera í fráhaldi á einn og annan hátt, getur líka gefið “ frú þráhyggju" möguleika á að fá yfirráðin, allt er um það að verða grannur, verða eitt og annað, það er jafn óholt fyrir hvern og einn  og mjög fjölskylduskemmandi. Eins og að vera í neyslu. Þetta er í raun allt um það að vera í jafnvægi, og lifa í jafnvægi með sjálfri sér og öllum öðrum. Í hvert sinn sem við finnum að við verðum “húkt” á einhverju, verðum við að skoða hvað það er, hvað það gerir okkur, hvað það gerir þeim sem er í kringum okkur, hvort það gerir okkur gott í raun og hvort það geri gott fyrir heildina

 

Ég er líka á því að þráhyggja er góð, en með okkar stjórn, að við stjórnum því hvert við beinum þráhyggjunni. Það getur verið eftir betra lífi, ríku andlegu lífi, heilbrygði, Kærleika, náttúru, og ýmsu öðru sem er uppbyggjandi fyrir heildina og þig. Þráhyggja er dásamlegu drifkraftur ef við notum hann rétt.

Í dag, elska ég sjálfa mig, ég veit að það er nauðsynlegt til að ég geti elskað aðra, sem svo elska sjálfa sig til að geta elskað aðra og svo koll af kolli. Við sem mannkyn, verðum að sjá hlutina út frá stærra samhengi, þá strax verðum við hluti hvert af öðru og förum svo að elska náunga okkar eins og sjálfa okkur. Förum frá því sem við erum að gera í dag, eða elska okkur sjálf, eins og náunga okkar, þannig er heimurinn í dag og þess vegna er allt eins og það er í heiminum. Þetta er ekki um það að vera mjór, þetta er í raun allt um Kærleika.

Það er þar sem við tökum við völdin á eigin lífi, eigin tilfinningu, eigin hugsunum !

Ég ætla að birta myndir, sem alltaf segja svo mikið. Myndir sem eru teknar fyrir og eftir. Ég hef aldrei gert þetta áður, finn til í maganum við að birta myndir af mér sem teknar þegar ég var svona veik, (í neislu) en ef þetta er með til að hjálpa, þó ekki væri nema einum, er það þess virði.

Megi Kærleikur og Ljós skína á Líf ykkar allra og munið, það er til leið. Ef þið þekkið einhvern sem þið vitið að hefur þörf fyrir þessi orð, endilega sendið þetta til viðkomandi með mínu samþykki og mínum Kærleika.

_mg_4227.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk Steina mín að deila  þessu með okkur.  Það geta líklega margir mátað sig við þessa frásögn þín  og ættum við sem gerum það að taka þig til fyrirmyndar.  Bestu kveðjur Heiða

Heiða Sch (IP-tala skráð) 29.8.2010 kl. 19:04

2 identicon

Takk Steina mín, gott að lesa og gott að minna sig á hver staðan var og er, mér finnst magnað að geta setið og lesið bút úr sögu minni skrifaða af þér um fíknina, þráhyggjuna, kaupæðið, borða og æla og í raun vera lifandi í sálu sinni en með deyjandi líkama. Það er vegna þín og þeirra sem standa uppi sterkari í eftir mikla innri vinnu að ég held mínu fráhaldi. Takk fyrir að vera þú. Þú ert yndi.

með kveðju og kærleik Silla

Silla (IP-tala skráð) 29.8.2010 kl. 20:21

3 identicon

Kærleikur og knús til þín elsku hetjan mín

Kristborg Ingibergsdóttir (IP-tala skráð) 30.8.2010 kl. 00:22

4 identicon

Takk fyrir frábæra færslu og fyrir að deila þessu með okkur.Ég þekki þetta allt of vel.Er í bata í dag en það hefur svo sannarlega ekki alltaf verið þannig.Gangi þér vel áfram.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 30.8.2010 kl. 13:42

5 identicon

Vá!

Takk fyrir þessa frásögn ... Ég hef verið að glíma við þetta sama sem þú ert að lýsa, kannski finn ég mína "lausn" þarna :)

Guðbjörg (IP-tala skráð) 30.8.2010 kl. 15:42

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku Steina mín, það er alltaf á við sálfræðtíma að lesa bloggið þitt.  Þú ert alveg einstök kona, svo kærleiksrík umvefjandi og góð.  Það er eins og þýður vindur fari um sálina mína þegar ég les það sem þú skrifar, og ég skil svo vel það sem þú hefur gengið í gegnum, þó ég hafi aldrei upplifað svona átraskanir.  En þarna er margt annað sem ég kannast svo vel við með sjálfa mig.  Ég held og segi það enn, við erum sálarsystur. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.8.2010 kl. 10:17

7 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Fróðlegt að lesa þetta og sjá myndirnar. Þú lítur miklu betur út núna heldur en fyrir 15 árum og geri aðrir betur

Hrönn Sigurðardóttir, 31.8.2010 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband