Þegar allt verður eitt

_mg_7386.jpgMig langar að segja ykkur frá konu sem ég þekki, og kannski þekki ekki, ég veit það ekki. En þessi kona breytti öllu hjá mér og opnaði fyrir mér nýjan heim sem alltaf hefur verið þarna, en ég vissi það bara ekki.

En ég hef hitt hana mörgum sinnum frá því ég sá hana sem barn.Við höfum setið saman löngum stundum og hún hefur sagt mér sögu sína mína, þína og allra.

Kannski er þetta ekki bara um þessa konu, en um það hvað þessi kona færði mér og hvað hún var og er fyrir mig og þig.

Hún sagðist heita Steinunn, en hefur  þó heitið svo margt síðan og áður. Enda eru nöfn ekki svo mikilvæg, þau eru bara svo við getum kallað hvert annað eitthvað, ekki bara: heyrðu, þú þarna. Þá er betra að kalla: heyrðu Steinunn, og ef það eru margar Steinunnar þá vitum við að það eru ólík eftirnöfn. Það fer allt eftir því hvar þú ert fæddur, á Íslandi höfum við eftirnafn föður okkar. Eins og Steinunn sagði mér að hún hafi átt föður sem hét Sigurður og þess vegna getum við kallað : heyrðu Steinunn Sigurðardóttir. Í Skandinavíu eru fjölskyldueftirnöfn Jensen og Olsen og Carlsen og þess háttar, en það er nú ekki það sem ég ætlað að segja ykkur

Ég hitti hana fyrst þegar ég var 12 ára, þá sat ég á steini niður á strönd í heimabænum mínum. Ég sat og hlustaði á öldurnar og hugsaði um allt það sem liggur á hafsbotninum og alla fiskana, hákarlana og hvalina sem eru þarna og ég sá ekki, hvort þeir væru að kíkja á mig í laumi og spá í hver ég væri.

Mér fannst svo undarlegt með þennan hafheim sem var mér algjörlega ósýnilegur en ég vissi samt að væri fullur af lífi. Það var eins og þarna lægi önnur vídd sem flestum var ósýnileg en með sérstökum hætti gátu þó sumar skoðað og ferðast um í þessum heimi undirdjúpanna.

En hvað um það, þarna kemur kona gangandi í grænum sumarkjól og með stráhatt. Hún hefur dökkt hár og græn augu.  Hún passaði engan veginn inn í þá mynd sem ég var vön að sjá á þessu svæði En var þó svo lifandi sem ég sjálf, sitjandi á þessum steini með máfagarg og öldugang í eyrunum.

Hún kom gangandi hægum skrefum og ég sá að hún horfði beint  á mig og brosti. Það var eins og hún þekkti mig, og að hún gerði ráð fyrir að ég þekkti hana líka. Ég brosti á móti og hugsaði um hversu falleg hún væri og hvað hún væri skrítin í þessu umhverfi og á þessum tíma og ég hugsaði líka, hver hún væri eiginlega.

Hún kom til mín og settist við hliðina á mér og við sátum lengi á steininum án þess að segja neitt. Við horfðum bara út á hafið og hugsuðum hver sitt, eða ég veit ekki hvort hún hugsað neitt, en ég hugsaði og hugsaði um hvað hún væri að gera og hvað ég ætti að segja við þessa fallegu konu sem hafði ferðast í tíma og rúmi og  sem sat með hattinn sinn á milli handanna og rúllaði honum einhvernvegin á milli fingranna á fínlegan og fallegan hátt eins og hefðarkona.

Ég leit á hana og sagði: halló, hver ert þú ?

Hún leit á mig og brosti og sagði : ég heiti Steinunn.

Ég: hvað ertu að gera hérna?

Hún: ég er að hitta þig .

Ég þagði lengi og vissi ekki hvað ég átti að segja, hitta mig hugsaði ég. Hvað vill hún mér ?

Ég: af hverju?

Hún: mig langar segja þér svolítið.

Ég: hvað ?

Hún: um mig og þig og allt annað.

Nú, sagði ég og það var löng þögn. Við sátum dágóða stund og sögðum ekki neitt en horfðum bara út á öldurnar.

Svo sagði hún : þú ert núna orðin 12 ára og ég hef beðið þessarar stundar lengi lengi. Nú vil ég fylgja þér og hjálpa þar til þú getur staðið ein og gert það sem þér er ætlað.

Þetta var skrítið, hvað skildi mér vera ætlað, og hvers vegna kom hún, kona sem ég þekkti ekki og vildi hjálpa mér, hvernig vissi hún að ég var hérna þegar mamma og pabbi vissu það ekki einu sinni og ég hafði heldur ekki sagt systur minni eða vinkonum mínum hvert ég fór. Ég fór bara frá öllu til að vera ein með sjálfri mér og ekki verða trufluð af neinum.

Þetta var leynistaðurinn minn sem engin vissi um. Hvernig vissi hún hvar ég var?

Þetta var skrítið og ég hugsaði þetta í dágóða stund. Þegar ég leit upp af hugsunum mínum var hún horfin

Ég rölti heim og reyndi að skilja þetta. Allt í einu var hún þarna og allt í einu ekki. Hvert fór hún á meðan ég var að hugsa. Gekk hún í burtu eða hafði hún vængi sem ég tók ekki eftir og flaug í burtu yfir hafið og þangað sem hún átti heima, eða beittist hún í hafmey og kastaði sér í öldurnar þegar ég var ekki að horfa. Þetta var allt voða undarlegt.

Það leið tími, ekki langur kannski nokkrar vikur. Ég var búinn í sumarfríinu mínu í skólanum og við vinirnir hittumst eftir sumarfríið þar sem allir höfðu verið einhversstaðar, í sveit, í útlöndum eða þangað sem fólk nú fer í fríunum sínum. Nema við höfðum verið heima þetta sumar eins og önnur sumur áður.

Það var sem sagt haust og lífið var hjá sumum gott. Við krakkarnir lékum okkur eftir skólann í allavega leikjum. Fallin spýtan, hverfa fyrir horn og feluleiki. Það var gott að vera aftur með vinum mínum, eftir aðskilnað sumarsins.

En eitt var ekki gott, því haustið er ekki gott fyrir alla í mínum bæ. Á haustin koma kindurnar af fjöllum þar sem þær hafa lifað í sæld allt sumarið og borðað gras og kannski fjallagras, hver veit. En á haustin þá er stór hluti af þeim slátrað. Það er erfitt, það hefur alltaf verið erfiður tími fyrir mig. Það er ekki erfitt fyrir alla því á þessum tíma flæddi jafn mikið af peningum inn í bæinn og blóð sem flæddi um gólf sláturhússins. Ég fann alltaf þessa blóðlykt liggja yfir bænum og heyrði angistarvein kindanna. Hræðsluvein sem skar sig inn í merg og bein. Það var sama þó ég lægi í rúminu mínu með alla koddana fyrir eyrunum ég heyrði hræðsluna eins og innan frá.

Ég sat á staðnum mínum, leynistaðnum mínum og reyndi að hugsa um eitthvað allt annað en það sem var að gerast í bænum mínum. Ég reyndi að heyra ekki eða finna hræðsluna sem lá yfir öllu, bæði fyrir utan mig og innan. Það var eins og ég væri hluti af hræðslunni, svo mögnuð var hún.

Allt í einu situr Steinunn við hliðina á mér, eins skyndilega og hún hvarf síðast.

Steinunn: ég veit að þetta er erfiður tími.

Ég: ég get ekki lokað þessi hljóð úti !

Steinunn: ég get hjálpað þér og ég get líka hjálpað þér að hjálpa þeim.

Ég leit á hana og skildi ekki alveg hvað hún var að meina, hjálpa mér að hjálpa þeim, það hlaut að vera ómögulegt. En ég var til í hvað sem var og kinkaði kolli.

Steinunn: Lokaðu augunum og hreinsaðu hugann þinn fyrir öllum hugsunum. Notaðu þann tíma sem þú þarft til að ná þeirri ró.

Ég lokaði augunum og hugsanirnar flugu fram og til baka upp og niður og það var ómögulegt að reyna að stoppa þær. Svo hugsaði ég lika um að hætta að hugsa, það hlaut að vera hugsun líka.

Ég opnaði augun og leit á Steinunni: Ég get ekki hætt að hugsa, og þegar ég reyni að hætta að hugsa þá fer ég að hugsa um það að hætta að hugsa.

Steinunn brosti til mín, lagði vísifingur á ennið á mér og ég fann ró streyma í gegnum mig. Ró sem ég hafði aldrei upplifað áður, það var eins og það suðaði yfir höf'inu á mér, eða kannski eins og ég lægi í gosbaði, ég veit ekki alveg hvernig á að útskýra það.

Langt í burtu heyri ég rödd Steinunnar segja:

Sjáðu í þínu innra, kindurnar sem eru þjakaðar af hræðslu, fylgstu með þeim og settu allan þinn viljakraft í þessa mynd. Sjáðu nú að það sem áður voru kindur í líkamlegu formi eru nú  lifandi Ljós.

Lifandi Ljós sem er í tengslum við þig og hver aðra. Fyrir ofan þetta lifandi Ljós sérðu stærra Ljós sem með gullnum þráðum er tengdur Ljósinu í hverri kind. Festu myndina í hugann, haltu myndinni stöðugri í huganum.

Nú þegar myndin er orðin stöðug, einbeittu þér  þá að því að hafa samband við stóra ljósið fyrir ofan kindurnar. Settu allan þinn vilja og allan þinn kærleika til kindanna í þennan straum, sem er straumur af orku sem myndar samband við þessa æðri veru.

Það sem þú nú sérð og ert í beinu sambandi við núna er stór Diva/Engill, sem er Engill fyrir kindur, sem er samansafn af öllum lífum hjá öllum kindum. Þessi engill er sá sem tengir allar kindur á Íslandi saman eins og eina lifandi veru, sem eru hluti hvert af öðru eins og þú hefur þína sál hafa allar þessar kindur sömu sál sem við getum kallað hópsál, sem tengja þau saman sem eitt. Það að þessar kindur hérna í bænum þjást, hefur áhrif á allar kindur.

Einn sársauki.

Ein þjáning.

Eitt líf.

 Sendu þakklæti og blessun fyrir þá fórn sem þessar kindur eru að fara í gegnum svo við mannfólkið á Íslandi getum nært okkur á í komandi tíð. Sendu Ljós og Kærleika sem þú sérð streyma í gegnum þig og til þessarar Guðdómlegu veru.

Sjáðu svo Ljósið streyma frá Þessari Guðdómlegu veru inn í allar kindur sem eru á leið frá einu tilverustigi til annars. Fórn sem þær gefa okkur svo við getum nært líkama okkar.

Sjáðu í þínu innra, að Ljósið fyllir vitund þeirra og yfir þær færist ró sem gerir ferðalag þeirra auðveldara. Þar sem glimt af skilningi snertir skilning þeirra á því ferli sem er að gerast.

Sjáðu í þínu innra að þeir sem framkvæma verkið fái Ljós og Kærleika sem er með til að gefa þeim opnari vitund fyrir þeirri fórn sem þeim er færð af þeim kindum sem fara á milli handa þeirra.

Sjáðu þær manneskjur sem vinna verkið og handfjalta það sem eftir er, sýna skilning og þakklæti fyrir lífinu og með því sendir Kærleiksorku í þann mat sem kemur til með að næra okkur í nánustu framtíð.

Um leið og hún talaði eins og langt í burtu, gerðist allt það sem hún sagði eins og að sjálfu sér.

Það var eins raunverulegt eins og það að sitja á leyndarmálasteininum.

Ég fann að ég hægt og rólega kom til baka í það líf sem ég vanalega var í.

Ég opnaði augun og horfði fram fyrir mig á öldurnar og langaði eiginlega ekki að segja neitt.

Ég var ein, og það var gott.

Ég þurfti að vera ein með þær hugsanir sem komu.

Ég skildi ekki allt sem hafði gerst, en það gerðist eitthvað sem breytti öllu.

22070176_m.jpg

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Takk fyrir góð skrif, enn og aftur.

Marta B Helgadóttir, 4.3.2010 kl. 22:58

2 Smámynd: Sporðdrekinn

Fallegt

Sporðdrekinn, 5.3.2010 kl. 01:56

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Steinunn, ég er með tárin í augunum.  Ég upplifði nefnilega það sama og þú.  Ekki með svona fallega ljósveru, en í bænum mínum á haustinn einmitt um það leyti sem ég átti afmæli, gat að heyra skothvelli frá flestum húsum, því hér í kring um mig voru menn sem héldu kindur, sumir líka kýr og hænur.  Ég man svo vel hve mér leið illa að vita af því sem var að gerast.  Og upplifi það aftur núna í þinni frásögn.  Man ennþá hvernig ég tók með höndunum fyrir eyrun og reyndi að söngla eitthvað lag til að heyra ekki.   En nú hefur Steinunn Sigurðardóttir komið skilaboðunum sínum til mín líka gegnum þig.  Vildi að ég hefði fengið að upplifa Dívuna en ég skil þetta samt mjög vel.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.3.2010 kl. 10:52

4 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

~ ~ (((o))) ~ ~

Vilborg Eggertsdóttir, 6.3.2010 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband