Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
Hvaða andlit höfum við ?
20.7.2009 | 10:15
Þá er ég komin heim í kotið eftir ferðalag til Íslands. Ég hafði það alveg eins og best er á kosið í alla staði. Sýningin gekk vel og ég naut fegurðar Vestfjarða þessa stuttu viku sem við vorum þar. Ég ferðaðist þar með Morten ( sem sýndi með mér) konunni hans, dóttur og svo að sjálfsögðu Sólinni minni sætu.
Ég ætla nú ekki að gera langa ferðasögu, bara svona smá . Eftir viku á Ísafirði við gott yfirlæti hjá Áslaugar gistiheimili og Sigrúnu systur fórum við suður.
Sól og ég hittum Margréti og Ingunni og ferðuðumst um Suðurlandið sem var svo fallegt og fallegt. Ég heimsótti nokkra og hitti nokkra. Gaman er að segja frá því að ég heimsótti hann Kalla í Mosó og fjölskyldu. Kalla þekkt ég í raun bara sem góðan bloggvin. Við áttum saman yndislega stund þar sem tilfinningin var að vera með nánum og gömlum vinum. Ég er þakklát fyrir þennan vinskap.
Auðvitað átti ég stund með Guðna mínum, sem hefur verið mér svo náin í mörg mörg ár.
Suma náði ég ekki að hitta, en hitti næst, suma náði ég að hitta og er þakklát fyrir það.
Ég fór í hvalaskoðun með Bobbu vinkonu og Sól, mjög áhugavert á margan hátt. Opnaði augun mín fyrir svo mörgu sem alltaf er fræðandi gott og hollt.
Ég verð nú að segja að þar hefði margt mátt betur fara og hefði mátt hugsa aðeins betur hjá þeim sem að þessu stóðu. Við völdum að tilviljun ekki bát frá Eldingu.
Það var dýrt að fara svona ferð! Skildist á Sigga mínum að Elding hafi verið ódýrari en það sem við völdum.
Þegar maður fer inn í bátinn þar sem maður kaupir miðana labbar maður upp ansi áhugaverðan landgang, minnir á einhvern hátt á inngang í hóruhús í bíómyndum. Landgangurinn er yfirbyggður með rauðu efni og svo eru ljósaseríur festar við efnið svo tilfinningin er alls ekki sú að maður se að fara að upplifa íslenska náttúru í allri sinni fegurð. Þegar inn í skipið er komið, þar sem maður kaupir miðana og getur keypt sér einhverjar veitingar á meðan beðið er, er upplifunin betri og undirbýr mann aðeins betur undir það sem koma skal.
Þar sátum við, Bobba, Sól og ég og drukkum kók og kaffi og létum okkur hlakka til ferðarinnar, ástam nokkrum öðrum sem vildu sömu upplifun og við.
Loks lá leið á haf út og spenningur í maganum, með öllum hinum útlensku ferðamönnunum. Þarna heyrðum við dönsku, þýsku, ensku og frönsku. Voða gaman og spennandi.
Við sigldum á haf út og sáum smá hvala baka hér og þar, en í raun ekkert eins og auglýsingin lofar, en náttúran svíkur engan, litirnir fallegir, og fuglalífið mikið.
Eitt var það sem truflaði okkur og erfitt er að skilja að hafi ekki verið gert eitthvað við, við hlustuðum á útvarpið í lélegum hátölurum alla leiðina, auglýsingar, bítlarnir og hina ýmsu poppmúsik, einhvernvegin passaði þetta ekki alveg inn í það sem hugurinn hafði undirbúið sig fyrir. Hafið, náttúran, hvalir sem hoppa upp í öllu sínu veldi, Ísland í öllu sínu veldi . Nei, það vantaði eitthvað upp á, halalleiðangur sem virkaði sem auðfengin leið til að þéna peninga, án þess að leggja of mikið á sig, eða hugsa þennan iðnað til enda.
En enga neikvæðni, auðvitað sér náttúran sjálf fyrir því að við getum notið hennar.
Á leið í land, settumst við inn í bátinn, kaldar og þreytta.
Einn liður í túrnum, var stangveiði. Ég var ekki alveg að skilja tilganginn með tilgangslausri veiði, en ákvað ekkert að vera að láta það í ljós, bara ekkert að vera að taka þátt í því. Við sáum innanfrá að hverri línunni var kastað út eftir aðra, sumum fiskum hent út aftur. Skilningsleysi mitt algjört fyrir svona tilgangslausu drápi og limlestingum, en ég ákvað að vera ekkert að skipta mér að því, þetta er leið til að þéna peninga, drepa eða meiða sér til gamans, ekki sér til matar.
Sól fór að líða eitthvað illa, svo ég fór með henni upp á dekk. Þar var allt fullt af glöðum útlendingum að toga upp, einn og annan fisk sér til gamans.
Við Sólin gengum fram á appelsínugula plastkörfu hálf fulla af gersemum hafsins, og Guð Minn Góður þeir voru allir lifandi og börðust við köfnun, það var greinilegt að sjá baráttuna sem þeir áttu í, sprikluðu og börðust. Ég fékk skal ég segja algjört sjokk. Ég man í gamla daga þegar pabbi var að veiða, að fiskarnir voru það sem kallað var blóðgaðir, held það sé að skera á slagæð eða eitthvað þessháttar. Þá var veitt sér til matar, ekki að þeim hafi þótt það leiðinlegt, en við borðuðum allan aflann yfir veturinn.
Sól og ég fórum niður til Bobbu alveg miður okkar og við ræddum þetta smá stund, fór ég svo upp í stýrishús og fann fram til þeirra sem báru ábyrgð á þessum verknaði.
Við vorum alls ekki sammála um hvað ætti að gera og hvað væri rétt að gera, þeir héldu í alvörunni að ég væri að gera grín. En að lokum fór einn þeirra og leysti blessuðu fiskana undan þeirri þjáningu að berjast og berjast, kafna.
Þetta var ekki góð upplifun, og gaf ekki góða mynd af því hvernig er hægt að kynna landið okkar. Iðnaður sem kannski gæti verið með til að gefa tekjur til þjóðar sem er á hausnum og á kannski allt sitt undir ferðaiðnaðinum og ferðamönnum.
Það er mikilvægt að andlit þjóðarinnar, sé andlit þjóðarinnar, nema þetta hafi verið andlit þjóðarinnar ?
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)