Finna hamingjukjarnan, sem alltaf er þarna, þrátt fyrir allt sem gerist!

_mg_1685.jpgÞað er fallegur dagur í dag, smá dropar  af og til, himininn voldugur með alla vegana litum og sólin sem kemur af og til og skín á okkur.

Ég fór í góðan túr með henni Dimmu minni, sem er byrjunin á röskum göngutúrum sem ég ætla að byrja á til að komast í ”aðeins” betra form, en bara aðeins.

Ég ætlaði að segja ykkur aðra sögu um ferðalaga óhöppin mín, ef það er hægt að kalla það það. En ég hef lent í einhverju óhappi í öllum þeim ferðum sem ég hef farið í það sem af er árinu.

Ég sagði ykkur frá heimferðinni frá USA,  í síðustu færsu, sem var ótrúleg og líka ótrúlega lærdómsrík.

Núna ætla ég að segja ykkur aðra sögu, sem gerðist á leiðinni til Íslands núna í júlí.

Við ákváðum, Gunni og ég að gefa Sigrúnu Sól, ferðalag með bestu vinkonu sinni til Íslands. Auðvitað færum við með og keyrðum hringinn í kringum landið. Allt mjög spennandi. Við héldum mikla fermingarveislu hérna, daginn sem hún var fermd í litlu kirkjunni hérna í götunni. Hún var fermd með Andrea bestu vinkonu ( sem var boðið með til Íslands) og David sem á heima hérna fyrir neðan. Dásamlegur dagur, veisla í garðinum með 80 gestum, sólskin og fallegt. Ekkert nema allt frábært um það að segja.

Við ætluðum líka að halda fermingarveislu á Íslandi, enda margir sem standa okkur nær sem höfðu ekki möguleika á að koma hingað og fagna Sólinni okkar.

Gunni fór fyrstur til Íslands, til að undirbúa veisluna. Sól, Andrea og ég áttum pantað flug 12. Júlí kl. 00:10.

Við vorum á góðum tíma. Bitten mamma hennar Andreu keyrði okkur  á flugvöllinn og við allar, að sjálfsögðu svakalega spenntar.

Við áttum flug með Iceland Express. Við vorum á vellinum löngu fyrir kl. 10:00 svo við töldum okkur vera með góðan tíma til að kíkja í búðir á flugvelinum, það vildu stelpurnar helst.

Ég fer í röð og fæ leyfi til að tjékka inn, þó svo að við séum svona tímanlega. Maðurinn við afgreiðsluna, fann okkur ekki í tölvunni, hann leitaði og leitaði, horfði svo á mig og sagði: þið eruð sólarhring of seinar, flugið fór eftir miðnætti, núna þann 12 ágúst.

Ég trúði honum ekki, fór í panik og langaði að gubba yfir hann, þetta bara gat ekki verið satt!!!!

Ég spurði hvort það væri einhver leið fyrir okkur að breyta miðunum, en nei því miður. Hann sagði: þetta er því miður alltaf að gerast fyrir fólk sem flýgur á þessum tíma með Iceland Express, og þeir gera ekkert við því. Þú getur kvartað, en af fenginni reynslu, kemur ekkert út úr því.

Ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð, stelpurnar sitjandi þarna, miður sín, Sól grátandi, Andrea, sagðist eiga 1000 dkkr. hún gæti kannski keypt miða fyrir okkur :o)

Ég hafði fyrir ”tilviljun” kíkt á netbanka reikninginn okkar um morguninn og sá þá að það voru komnir óvæntir peningar inn, 25.000 danskar krónur.  Svo ég vissi að ég hefði möguleika á að kaupa farmiða fyrir okkur allar til Íslands.

Ég hringdi í Gunna, sem var eins og áður sagði, á Íslandi og sagði honum hörmungarnar, við ákváðum strax að hann myndi kíkja á internetið og finnaog kaupa farmiða fyrir okkur heim.

Ég beið þarna á meðan hann og Ingunn systir hans voru að skoða möguleikana. Stelpurnar reyndu að gera eins gott úr þessu og mögulegt var.

Ég hringdi í Sigyn elstu dóttur mína og bað um að fá gistingu fyrir okkur hjá þeim um nóttina, vitandi að ekkert flug væri á leiðinni til Íslands fyrr en um morguninn. Það var ekkert mál, þó svo að húsið væri fullt af gestum eftir brúðkaupið þeirra helgina áður. Sigyn á heima rétt hjá flugvellinum, en við búum uppi í sveit, svo ég myndi aldrei ná morgunflugi ef við færum heim að sofa.

Fólkið á flugvellinum, sem hafði verið að afgreiða mig, og aðrir sem voru komnir til, til að aðstoða mig, vorkenndu okkur alveg ferlega, og sögðu sögur af öðrum óheilla krákum sem gerðu svona misstök með svona skrítna flugtíma. Af hverju ekki 23:55, það væru miklu auðveldara að skilja það??? Flugmiðinn var líka skrítinn, ætla svo sem ekkert að fara út í það, en þetta verður síðasta flug með þessu fyrirtæki, eftir allar sögurnar af hinum sem lentu í því sama. Varð hugsað um, hversu mikið fyrirtækið græðir á þessu, ef fólk er á stand by í flugi, þá selja þeir sætin tvisvar. Ég vissi sem sagt að ég gerði misstök, ég hefði ekkert í höndunum til að kvarta, en mér leið eins og ég hefði verið plötuð.

En Gunni og Ingunn fundu flug fyrir okkur daginn eftir, þrír miðar aðra leiðina frá DK til IS, á 12.000 dk, sem er um 250.000 íslenskar, við keyptum miðana.

Við fórum heim til Sigyn og Albert, ég með gubbuna í hálsinum og verki í maganum, yfir öllum þessum peningum, vegna þessara misstaka minna.

Við vöknuðum snemma daginn eftir, eða kl. 5 um morguninn. Ég hafði þó ekkert sofið, vegna gubbunnar í hálsinum og verkjanna í maganum.

Við vorum komin á flugvöllinn kl. 6 um morguninn og allt gekk að óskum. Miðarnir með Icelander, gott að koma þar inn. Fengum okkur góðan morgunverð og ákveðnar í að njóta peninganna út í ystu æsar.

Í fluginu var ég að hugsa þetta allt saman, ennþá illt yfir öllum þessum peningum. Ég ákvað að hugleiða, til að koma ró á hugann. Ég komst fljótlega inn í góða orku og náði algerlega að slaka á. Þarna geri ég mér grein fyrir að þetta var mjög gott fyrir mig og reynsluríkt. Ég er ansi mikill aurapúki, eða aðhaldssöm og á erfitt með þegar eitt er of miklu. Það að við fengum þessa peninga akkúrat þarna daginn áður og meiri pening en við höfðum þörf fyrir, þar að segja, við fengum helmingi meira, en flugmiðarnir kostuðu okkur, svo að í raun kom þetta ekki illa á okkur neinsstaðar.

Ég gerði mér grein fyrir þessu, það var lærdómur í þessu sem var nauðsynlegur. Annað sem ég svo upplifði og sem var lærdómurinn, var hvernig hefði ég brugðist við ef þetta hefði verið Gunni sem gerði þessi mistök, uppsss, það var eins og klútur í andlitið. Ég sá fyrir mér hvernig viðbrögð mín hefðu orðið og ég skammaðist mín. Ég hefði gjörsamlega klikkast og hann hefði sko fengið að heyra það.

Þetta var gott fyrir mig að sjá, en líka vont. Gunni hafði tekið þessu öllu með stakri ró.

Ég fékk líka annað út úr þessu, sem ég var glöð og þakklát fyrir, það var að ég valdi að kaupa nýja miða, þrátt fyrir að það hefði kostað svona mikið. Því ég hugsaði,  að ef við förum ekki, munum ég sjá eftir því alla tíð og fá illt í magann yfir að hafa ekki lifað fermingarferðina saman, þetta eru BARA peningar. Þegar ég verð komin yfir þetta, þá er þetta ennþá ein góð saga að segja öðrum :o) Sem ég geri nú._mg_7475.jpg

Það komu margir í fermingarveisluna, ættingjar og vinir sem þekkja Sól, við buðum vinum sem þekkja hana, annars hefðu verið of margir og erfitt að velja.

Það komu um 100 manns og dagurinn var frábær. Það var dásamlegt að hitta allt þetta fólk og gaman fyrir ættingja sem hafa kannski aldrei hitt Sól að hitta hana.

Það var dekrað við okkur á alla kanta á Íslandi. Við fengum lánað húsið hennar Sigrúnar systur, fengum lánaðan bílinn hans Einsa bróður Gunna og fellihýsið hennar Ingunnar systur hans Gunna. Ferðin var dásamleg í alla staði og ég ég þakklát fyrir ALLAR þessar upplifanir. Ég sé að í raun þarf ég að finna hamingjuna inni í mér, sem er þar alltaf þrátt fyrir allar ytri aðstæður, það eru bara ytri aðstæður. Ljós og friður til alls lífs!_mg_7479.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Aldeilis frábær frásögn Steinunn mín, og mikið skil ég þessa upplifun.  Ég hefði gert það sama, í sambandi við minn mann, en hann hefði tekið þessu eins og Gunnar.  Það er gott þegar maður gerir mistök ef maður lærir af þeim, þá eru það í raun og veru ekki mistök heldur dýrmæt lífsreynsla sem fylgir manni upp frá því

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.8.2012 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband